Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010
31.7.2010 | 00:07
1096 - Jónína Ben
Sölvi Tryggvason fékk fína auglýsingu fyrir bókina sína um Jónínu Benediktsdóttur í Kastljósi sjónvarpsins. Einhvers staðar las ég að Sölvi hefði fengið að fara með Jónínu og Gunnari í Krossinum í brúkaupsferðina þeirra því hann átti svo margt vantalað við Jónínu.
Hún hefur eflaust frá mörgu að segja. Hefur vissulega verið meira á milli tannanna á fólki en algengt er um kvenfólk. Hugsjón Sölva er þó eflaust að græða sem mesta peninga í jólabókaflóðinu. Ekkert rangt við það. Sjálfur spara ég mér álitlegar fúlgur árlega á því einu að skipta fremur við bókasöfnin í landinu en bókabúðirnar.
Mér finnst hins vegar að sjónvarp allra landsmanna þurfi að hugsa sig vandlega um áður en það ákveður að taka á þennan hátt þátt í kapphlaupinu umhverfis gullkálfinn. Ekki hefðu unnendur RUV þó verið neinu bættari þó Stöð 2 hefði birt þetta viðtal. Já, það er vandlifað í henni verslu.
Það er ekki nóg með að mestallt lesefni sé orðið svo ódýrt núna að engu tali tekur heldur er það sama að segja um hvers kyns myndefni og tónlist með meiru. Allt á þetta sér stað vegna tölvutækninnar. Það er hún sem er að breyta heiminum eins og við þekkjum hann. Það eru samt alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að borga jafnmikið og áður til þess eins að geta verið örlítið á undan náunganum í kjaftasögum og öðru og er það vel.
Á meðan er fjöldi fólks í þriðja heiminum skilinn eftir vonlaus með öllu. Við Íslendingar volum og vælum yfir því að geta ekki lengur farið oft á ári til útlanda að frílysta okkur á sama tíma og milljónir barna láta lífið af vatnsskorti einum saman. Getum ekki einu sinni fengið af okkur að breyta orðalagi á skýrslum hjá Sameinuðu þjóðunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.7.2010 | 00:05
1095 - ESB
Morgunblaðið og Viðskiptablaðið eru að reyna að koma á sama ástandi hér og var fyrir hrun. Hampa Björgúlfi Þór Björgúlfssyni og útlendum peningum eins og mögulegt er. Í mínum hug bera allir þeir gjörningar sem hann kemur nálægt feigðina í sér. Davíð Oddsson og allir þeir vesalings stjórnmálamenn sem hans forsjá játuðu voru undir hið alþjóðlega fjármálavald seldir og ímynduðu sér að íslenskir útrásarvíkingar hefðu einhverju hlutverki að gegna þar.
Í því þjóðfélagsástandi sem ríkir í hinum vestræna heimi er samt ekki hægt að hunsa þetta vald með öllu. Það er þó ekki nauðsynlegt að sitja og standa eins og einhverjir lúsablesar því tilheyrandi skipa fyrir um. Reisn og sjálfstæði kemur vel til greina í því þjóðskipulagi sem ríkjandi er. Einangraðir og vinafáir munum við Íslendingar þó eiga verra með slíkt en ef við tökum að fullu þátt í samstarfi og samvinnu með vina- og nágrannaþjóðum okkar.
ESB-umræðan er nú að fara af stað. Og hún verður hörð. Sumt af henni er á svo lágu plani að varla er orðum að því eyðandi. Til dæmis fer því fjarri að það sé eitthvert reikningsdæmi hvort rétt sé fyrir okkur að gerast aðilar eður ei. Þetta muni eflaust hækka og annað lækka og svo framvegis. Styrkir verði svo og svo miklir og kostnaður við hitt og þetta svo og svo mikill.
Á þessu plani er umræðan samt að miklu leyti. Það sem skiptir mestu máli er hvernig líklegt er að þróunin verði næstu áratugina og jafnvel til lengri framtíðar. Aðild okkar að EES hefur að flestu leyti orðið okkur til blessunar. Hefði stjórnarfarið verið skárra hefðum við jafnvel sloppið við bankahrunið.
Stjórnmálamönnum verður samt ekki einum treyst fyrir þessu máli. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um aðildina og þau úrslit sem þar fást munu ráða miklu um framtíð okkar. Ef ákveðið verður í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu að standa utan ESB enn um hríð þá er að taka því. Ég tek eftir því að sumir andstæðingar aðildar eru að hóta hinu og þessu ef aðild verði samþykkt en það er að engu hafandi. Sem betur fer erum við Íslendingar nógu þroskaðir til að forðast allt ofbeldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2010 | 00:21
1094 - Fischer o.fl.
Bíð enn eftir úrskurði um lífsýnið sem tekið var úr líki Fischers skákmeistara á dögunum. Ef sýnið er neikvætt hefur Hæstiréttur Íslands hlaupið illilega á sig. Þessi deila fjallar eingöngu um erfðarétt og ekkert annað. Peninga, peninga og aftur peninga. Ef hæstiréttur hefur úrskurðað um þetta mál eingöngu með hliðsjón af peningum er það okkur Íslendingum til ævarandi skammar. Virðing fyrir þeim sem látnir eru er til marks um siðferði fólks.
Séra Baldur í Þorlákshöfn byrjar blogg sitt svona fyrir nokkru: Það er vont að eldast og deyja." Þetta segir presturinn sjálfur svo það hlýtur að vera rétt. (þetta með að það sé vont að deyja) Seinna í blogginu minnir mig að hann heimfæri þetta á öldunginn (eða unglinginn) sem nefndur er framsóknarflokkur. Baldur tilheyrði þeim flokki eitt sinn að ég held eins og fleiri góðir menn og örlög flokksins í nútímanum eru ekki falleg. Hann er kannski við það að deyja.
Magma mun halda sínu. Sé ekki annað en allt sé löglegt hjá þeim. Vel getur samt verið að þetta mál verði fordæmi þeim sem í framtíðinni fjalla um auðlindir landsins og þeir geri sig ekki seka um að selja auðlindir landsins einkaaðilum. Það er nákvæmlega það sem þetta mál fjallar um. Guðfríður Lilja og aðrir í flokki vinstri grænna tóku mikla áhættu með að leggja þá áherslu sem þeir gerðu á þetta mál. Í framtíðinni getur verið að þau gjaldi þess. Fyrirtækið Magma Energy mun hinsvegar fara varlega í því fjandsamlega umhverfi sem nú er orðið ljóst að það mun starfa í.
Enn er verið að kommenta á vísuna sem ég gerði um nágrannaerjurnar í Garðabæ. (Hún er á visur7.blog.is) Greinilegt er að mál sem þetta leggjast þungt á suma og er það engin furða. Svona mál eru fjarri því að vera skemmtileg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2010 | 00:08
1093 - Hvur skrambinn
Var búinn að gera uppkast að næsta bloggi og það var ein talsverð ESB-messa ef ég man rétt. Þetta var ég með á word-skjali á Lexar-kubbi en nú heldur tölvan því fram að hann sé óformattaður. Kann ekki að ráða bót á því svo ég verð að sjá til hvort þetta reddast.
Í dag var ég að taka til í dóti niðri í geymslu og rakst á ýmislegt allmerkilegt:
Hér er til dæmist Voigtlander myndavélin mín gamla sem ég hef tekið margar myndir á. Linsan var nokkuð góð á þessari vél og myndirnar alveg sæmilegar þó hún væri ófullkomin. Var stundum með Pentax-vél frá Vigni bróður í láni og hún tók miklu betri myndir og auðveldara var að stilla hana. Hún var samt alls ekki eins sjálfvirk og myndavélar eru almennt orðnar nú til dags.
Hér er fyrsta flassið sem ég eignaðist. Það var talsvert notað. Í það minnir mig að hafi verið sett 9 volta battery og lausar perur sem eyðilögðust í hvert skipti sem smellt var af.
Ljósmæli þurfti ég líka því þá voru þeir almennt ekki innbyggðir í vélar.
Hér er mynd af konfektkassa sem þótti afar merkilegur á sínum tíma. Man að strákarnir mínir rifust um hvor ætti að eiga hann.
Læt þetta duga í bili en vona að mér takist að laga Lexarinn sem fyrst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.7.2010 | 00:10
1092 - Lúpína og skák
Talsvert er um þá fögru jurt lúpínuna talað um þessar mundir. Einkum er það til varnar henni en þó eru einhverjir sem vilja hana feiga hvar sem til hennar næst. Man vel hvar ég sá þessa jurt fyrst. Það mun hafa verið um 1980 í skógræktinni í Skorradal. Mér þótti hún áberandi falleg og dugleg að breiða úr sér. Það getur vel verið að sumsstaðar sé hún ágengari en góðu hófi gegnir. Víða er hún þó til hinnar mestu prýði og gæðir lífi örfoka mela.
Kom á óvart að sjálfur Björn Bjarnason er fyrir neðan mig í vinsældum á Moggablogginu. Hvernig skyldi standa á því? Er hann fallinn í svona mikla ónáð karlgreyið? Einhverntíma las ég dagbókina hans á blogginu og hún var eins og óralangt Reykjavíkurbréf. Neimdropping hægri vinstri og annað eftir því. Hvernig maðurinn nennir að skrifa þessi ósköp er fyrir ofan minn skilning.
Það er leiðinlegt að skrifa í fésbókarstatusinn hvað eftir annað og fá engin viðbrögð. Annars eru fésbóklingar duglegir við að setja þumla á allt mögulegt og undirrita allan fjárann. Sýnist að hún geti fljótlega orðið plága hin mesta. En það er vissulega gott að geta litið í hana strax og maður vaknar á morgnana. Tala ekki um ef maður hefur farið snemma að sofa, þá er oft ýmislegt að sjá.
Nú er ég að mestu hættur að gera greinarmun á því sem ég skrifa á bloggið mitt, í fésbókina eða bara í bloggskjalið mitt og birti aldrei. Bráðum hætti ég sennilega líka að gera greinarmun á því sem ég skrifa þar og hugsa eða segi við aðra. Það er eins gott að hafa bókhaldið yfir þetta alltsaman í lagi.
Í skák fer allt eftir settum reglum. Þess vegna tefli ég. Þar er ekkert rúm fyrir mismunandi túlkanir. Að minnsta kosti ekki hvað snertir leikreglurnar sjálfar. Skákmenn eru samt lúnknir við að finna sér eitthvað til að rífast um. Stjórnmálamenn sumir eru ágætir skákmenn. Þeir ættu bara að tefla meir og hætta þessu bölvuðu rifrildi. Þegar allir eru farnir að skipta sér af þessu blessaða bankahruni þá er ekki von á góðu. Kannski fáum við nýja ríkisstjórn fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.7.2010 | 00:19
1091 - Sennilega er þetta búið
Að leigja nýtingarrétt á hitaorku til 65 ára (með möguleika á helmingi lengri tíma) og gefa útvegsmönnum nýtingarréttinn" á fiskinum í sjónum eru mál sem verður að leysa. Þetta er sala (eða gjöf) á náttúrauðæfum hvað sem hver segir. Ef hægt er að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar nýti þetta í eigin þágu er mun skárra að þjóðin (þ.e.a.s. ríkið) eigi þetta allt saman.
Undarleg árátta þessar skoðana-auglýsingar sem bloggið er. Sjálfur er ég illa haldinn af þessum kvilla. Öðrum finnst þær skoðanir sem ég auglýsi hér kannski merkilegar. Ekki mér. Mér finnst þær sjálfsagðar og eðlilegar. Svo er ég alltaf að breyta þeim því það er svo gaman. T.d. er ég núna alveg kominn á þá skoðun að það gáfulegasta sem ríkisstjórnin gæti gert væri að boða til kosninga.
Já, ég veit að það er stutt frá síðustu kosningum en það er gott að kjósa ört á tímum sem þessum. Þjóðaratkvæðagreiðslan í vor var hálfgert ómark og virðist ekki hafa haft nein áhrif.
Og nokkrar myndir, því ég á svo mikið af þeim:
Akranes fólkvangur, listigarður, skógrækt eða eitthvað þessháttar. Golfvöllur á bak við trén.
Göngubrú yfir Varmá hjá Reykjakoti skammt fyrir ofan Hveragerði. Draugur eða vatnsdropi fremst á myndinni.
Hér grilla menn af hjartans lyst. (Listilega kannski líka).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.7.2010 | 00:31
1090 - Smágreinar og myndir
Morgunblaðið er alltaf að reyna að selja netaðgang að blaðinu. Það held ég að sé misheppnuð leið. Aðrir vefmiðlar íslenskir taka sér þá oft til fyrirmyndar en sjá fljótlega að sú leið er dauðadæmd. Mbl.is og blog.is eru þó ennþá ókeypis og þegar Mogginn fer að heimta gjald fyrir þau forréttindi að fá að blogga hjá þeim er ég hættur. Eina alvarlega samkeppnin við mbl.is er eyjan.is. Þar er líka allt ókeypis (að ég held) og það er það sem netverjar vilja. Meðan ekki er búið að finna einfalda og auðvelda leið til að flytja peninga eða ígildi þeirra milli aðila á netinu heldur dæmið áfram að líta svona út og engin ástæða til annars.
Björgólfur Þór Björgólfsson og Jón Ásgeir Jóhannesson vinna nú að því hörðum höndum að aðskilja sjálfa sig frá öðrum útrásarvíkingum. Ég trúi ekki eitt andartak á sakleysi þeirra. Í mínum augum eru þeir fráleitt minna sekir en aðrir útrásarvíkingar þó þeir hafi fólk í vinnu við að reyna að telja fólki trú um sakleysi sitt. Agli Helgasyni virðist sérlega uppsigað við Björgólf og Moggamönnum við Jón Ásgeir. Mér er eiginlega alveg sama.
Magma-málið gæti riðið ríkisstjórninni að fullu. Finnst einkennilegt að þessi umræða skuli fara á sérstakt flug núna. Hélt að búið væri að taka hana. Lít svo á að í þessari umræðu allri saman sé í raun sameinuð umræðan um hitaréttindi, vatnsréttindi og fiskinn í sjónum. Semsagt almenn umræða um eignarhald á auðlindum landsins. Þegar útlendingafóbía og ESB-aðild blandast svo inn í þetta verður umræðan ansi áköf.
Vel má gera að gamni sínu í bloggi. Halda fram einhverri bölvaðri vitleysu og reyna svo að verja hana í athugasemdum. Þá er sniðugast að láta eins og maður hafi skrifað allt í fúlustu alvöru. Mér finnst samt umdeilanlegt að búa hluti algerlega til á baggalútískan hátt innanum alvarleg mál. Hvernig á fólk að átta sig á svoleiðis löguðu?
Og nokkrar ljósmyndir í lokin. Allar eru þær teknar um daginn í skóginum við Rauðavatn.
Finni hann laufblað fölnað eitt."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.7.2010 | 00:24
1089 - Þetta verða allir að lesa. Er mjög stutt
Var nokkuð ánægður með mitt síðasta blogg. JónDan hrósaði mér líka fyrir það. Verst hvað þessir Jónar Daníelssynir eru margir. Veit samt vel hver þessi er. Gaf eitt sinn út Bændablaðið með Bjarna frænda. Linkaði á bloggið frá fésbókinni. Ætti kannski að koma mér upp fleiri fésbókarvinum svo tilkynningar af þessu tagi fari sem víðast. Hmm. Athuga það. Kannski skrifa ég líka alltof mikið og alltof oft. Athuga það líka. Hætta áður en þetta fer úr böndunum. Símskeytastíll og Sæmundarháttur.
Merkilegt mál þetta með rósturnar við Aratún í Garðabæ. Meðan ekkert kemur fram frá hinni hliðinni verður að leggja trúnað á margt í blogspot-frásögninni að frátöldum augljósum ýkjum. Hver skrifar þessa löngu frásögn verður svo bara að koma í ljós. Á margan hátt er þetta ágætlega skrifað. Gerði vísu um málið og hengdi við Mbl-greinina um það. Þessi frétt hefur orðið allvinsæl og þetta er eini linkurinn á hana. Heimsóknir vel yfir 2000. Held að það sé met hjá mér. Umdeilanlegt að setja full nöfn og heimilisföng í grein af þessu tagi. Gæti haft eftirmál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.7.2010 | 00:20
1088 - Magma-málið snýst um kvótakerfið
Íslendingar eru í afneitun og þjóðremban er að drepa þá. Bankahrunið er efst í huga flestra og allir vilja hefna sín á útrásarvíkingunum. Gott ef hefnigirnin og meinbægnin hefur ekki náð of miklum tökum á fólki. Stjórnmálaumræðan bendir til þess. Efnahagslega eru Íslendingar kannski að ná sér furðu vel þó margir hafi orðið illilega fyrir barðinu á kreppunni.
Ríkisstjórnin er ráðalaus. Reynir að hafa alla góða og gæta þess að ekki sjóði uppúr. Ekkert bólar á erlendri og hlutlausri rannsókn á hruninu. Upphaflega virtust samt margir vilja hana. Nú eru útlendingar flestir taldir óalandi og óferjandi. Eva Joly virðist farin í felur og hinn sérstaki saksóknari er svo sérstakur að hann gerir ekki neitt. Ákærir að minnsta kosti engan. Tilvitnanir í rannsóknarskýrslu Alþingis eru lítils virði. Allir geta fundið þar stuðning við sín sjónarmið. Samt gerist ekkert. Enginn vill taka af skarið.
Hverju er eiginlega verið að mótmæla í Magmamálinu? Ég hef ekki almennilega áttað mig á því.
Að skúffufyrirtæki eigi HS-orku?
Þarna er bara um orðalepp að ræða. Hver þurfa umsvif fyrirtækis að vera til að vera ekki skúffufyrirtæki?
Að útlendingar eigi íslensk orkufyrirtæki?
Útlendir auðmenn standa íslenskum á margan hátt framar. Betur treystandi en dæmigerðum íslenskum útrásarvíkingum.
Að ekki sé farið eftir einhverjum ESB-reglum og ESB því betra en Kanada?
Af og frá.
Að samningstíminn sé of langur?
Sennilega er hann það. En svona eru lögin.
Að auðlindir séu í einkaeign?
Það finnst mér virðingarverð afstaða. Þá hljóta menn reyndar að vera líka á móti kvótakerfinu.
Er þá sá hávaði sem er í þjóðfélaginu um þessar mundir útaf Magna í rauninni deila um kvótakerfið? Kannski. Hugsanlega líka um líf ríkisstjórnarinnar.
Og nokkrar myndir:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.7.2010 | 00:15
1087 - Ágætt virðist að hafa nöfn í fyrirsögn
Svanur Gísli Þorkelsson skrifaði um daginn á sínu bloggi um vondu fráskildu konuna í Japan sem setti barnið sitt í þvottavél. Það er alveg rétt hjá Gísla að stundum er umgerð fréttar miklu forvitnilegri en fréttin sjálf. Þessi tiltekna frétt finnst mér bera öll einkenni svonefnra urban legends" sem oft eru kallaðar flökkusögur á ástkæra ylhýra. Kæmi ekki á óvart þó erfiðlega gengi að sanna þessa sögu, væri það reynt.
Trúmálaumræðan hjá Grefli og Kristni er að fara í hundana eins og við mátti búast. Formið er misheppnað. Hentar illa að þurfa að skrolla langar leiðir til að finna það sem maður vill lesa. Trúarþrætur eru líka oftast afar ómarkvissar fyrir alla nema þátttakendur og fáeina aðra sem mikinn áhuga hafa. Kannski verður það líka þannig með ESB-umræður þegar fram líða stundir. Einhver var um daginn að óskapast yfir því á bloggi hve ESB-umræðan væri fyrirferðarmikil . Mér finnst hún ekki vera byrjuð.
Lenti í hremmingum á Facebook. Tölvan blikkaði og blikkaði og vildi ekki fara þangað sem ég ætlaði að senda hana. Málið leystist samt og ég fór að hugsa um fyrirbrigðið fésbók. Látum nafngiftina á íslensku liggja á milli hluta. Þar sigrar á endanum sá sem meira hefur aflið. Forritunin þar er reyndar nokkuð góð og þeir sem þar véla um hafa gert sér grein fyrir því að Netnotendur vilja yfirleitt fá allt ókeypis. Vel er þó hægt að misnota þær upplýsingar um fólk sem Facebook aflar. Það verður örugglega gert og er líklega byrjað. Auglýsingar allar eru sífellt að verða markvissari og beinskeyttari. Það má þakka fyrirbrigðum eins og gúgli og fésbók ásamt fleiri forritum.
Séra Baldur (Kristjánsson í Þorlákshöfn) skrifaði um daginn athyglisverðan pistil um líffæragjafir. Þar er ég um margt sammála honum. Samt er einhver mesta hryllingssaga sem ég hef heyrt frá Kína sú að þar séu dauðadæmdir fangar líflátnir eftir því hver staðan er á líffæramarkaðnum. Auk þess sem ég er alfarið á móti dauðarefsingum þá er þetta jafnvel hryllilegra en sláturhúsasögurnar sem maður hefur heyrt og eru þær þó margar miður fallegar.
Fyrirsögnin á blogginu mínu í gær benti til að það væri um hrunið öðru fremur. Kannski var það þessvegna sem Moggabloggsteljarinn sýndi fleiri heimsóknir en venjulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)