1096 - Jónína Ben

Sölvi Tryggvason fékk fína auglýsingu fyrir bókina sína um Jónínu Benediktsdóttur í Kastljósi sjónvarpsins. Einhvers staðar las ég að Sölvi hefði fengið að fara með Jónínu og Gunnari í Krossinum í brúkaupsferðina þeirra því hann átti svo margt vantalað við Jónínu. 

Hún hefur eflaust frá mörgu að segja. Hefur vissulega verið meira á milli tannanna á fólki en algengt er um kvenfólk. Hugsjón Sölva er þó eflaust að græða sem mesta peninga í jólabókaflóðinu. Ekkert rangt við það. Sjálfur spara ég mér álitlegar fúlgur árlega á því einu að skipta fremur við bókasöfnin í landinu en bókabúðirnar.

Mér finnst hins vegar að sjónvarp allra landsmanna þurfi að hugsa sig vandlega um áður en það ákveður að taka á þennan hátt þátt í kapphlaupinu umhverfis gullkálfinn. Ekki hefðu unnendur RUV þó verið neinu bættari þó Stöð 2 hefði birt þetta viðtal. Já, það er vandlifað í henni verslu.

Það er ekki nóg með að mestallt lesefni sé orðið svo ódýrt núna að engu tali tekur heldur er það sama að segja um hvers kyns myndefni og tónlist með meiru. Allt á þetta sér stað vegna tölvutækninnar. Það er hún sem er að breyta heiminum eins og við þekkjum hann. Það eru samt alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að borga jafnmikið og áður til þess eins að geta verið örlítið á undan náunganum í kjaftasögum og öðru og er það vel.

Á meðan er fjöldi fólks í þriðja heiminum skilinn eftir vonlaus með öllu. Við Íslendingar volum og vælum yfir því að geta ekki lengur farið oft á ári til útlanda að frílysta okkur á sama tíma og milljónir barna láta lífið af vatnsskorti einum saman. Getum ekki einu sinni fengið af okkur að breyta orðalagi á skýrslum hjá Sameinuðu þjóðunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk, Sæmundur.

Gagnorður að venju. Óaðfinnanlegur að venju.

Hitt er víst nýmæli, að aðgangur að hreinu drykkjarvatni teljist til mannréttinda. Dreg þó ekki í efa að þú hafir lengi haft þá hugsun, rétt eins og ég - og margir fleiri.

Ekki veit ég hvaða forlag gefur út bók Sölva um Jónínu Ben. Og ekki treysti ég mér til að fullyrða að Kastljós hafi verið rekið með hagnaði í kvöld - en mér þykir það sennilegt, reyndar mjög sennilegt.

Og það er afleitt (stytting fyrir afar leitt).

Jón Daníelsson 31.7.2010 kl. 01:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta með vatnið hefði eflaust mátt orða öðruvísi. En við Vesturlandabúar erum í raun ótrúlega sjálfhverfir. Gerum satt að segja afar lítið fyrir þá meðbræður okkar sem ekki eru fæddir inn í þau auðæfi sem við ráðum yfir. Við Íslendingar förum illa með vatn. Það er kannski hvort sem er á leið til sjávar og gerir ekki öðrum gagn nema vera flutt til þeirra. Yfirleitt er náttúran okkur góð þó stundum sé kalt.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2010 kl. 06:53

3 Smámynd: K.H.S.

Að fjalla um bækur, mindir, leiksýningar útkomið eða væntanlegt er talið upp sem hlutverk þáttarinns Kastljóss. Fjallað var um bækur um forsetann Einar Ben og ofl. einnig um mindir um htunið löngu fyrir útkomu. Það sem virðist stinga þig og aðra sem greinir á um persónuna Jónínu er að um hana skuli fjallað.

K.H.S., 31.7.2010 kl. 07:15

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þó ég gagnrýni efnisval kastljóssins er það enginn dómur um persónuna Jónínu Benediktsdóttur þó þér finnist það Kári. Kastljóssfólkið þarf sífellt að vera á varðbergi gagnvart því hvað aðrir kunna að álíta vera auglýsingar og er það líka að ég held. Þessi mál eru auðveldari hjá einkareknum stöðvum því aulýsingar eru þeirra lifibrauð en ríkissjónvarpið ætti ekki að vera undir sömu sök selt.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2010 kl. 09:25

5 Smámynd: K.H.S.

Sæll. Hef þá misskilið þig .

B. kv. Kári.

K.H.S., 31.7.2010 kl. 10:11

6 Smámynd: Ragnheiður

Þetta virtist vera bókaauglýsing ..innanbúðarmanns. Þó Sölvi sé ekki á Rúv þá er hann tengdur inn í fjölmiðlaheiminn, óneitanlega.

Svo þegar Ásthildur Cesil fletti svo ofan af þessum hótunum þá glotti ég talsvert.

Ragnheiður , 31.7.2010 kl. 15:50

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, sá einmitt bloggið hennar Ásthildar áðan og fleiri minnir mig að hafi skrifað um þessa auglýsingu. Er alveg hættur að lesa málefnin.com en sé að þau eru enn við lýði. Það virðist vera talsverður áhugi fyrir Jónínu ennþá. Samt var sjálfsagt fyrir Sölva að nota þetta tækifæri fyrst það bauðst.

Sæmundur Bjarnason, 31.7.2010 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband