Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

966 - Grillað í góða veðrinu

Fór í dag í grillveislu í sumarbústað í Grímsnesinu og get því ekki bloggað neitt að þessu sinni. Er líka svolítið að hasast upp á því að blogga hvern einasta dag hvort sem ég hef eitthvað að segja eða ekki. Auðvitað get ég alltaf fundið einhvern fjárann til að skrifa um en þegar bloggið er orðið eins og myllusteinn um hálsinn á manni er kominn tími til að athuga sinn gang. Athugasemdirnar eru líka oft skemmtilegri. Manni finnst eins og maður þekki flesta þeirra sem kommenta oft hjá manni.

Nú er ég kominn uppá lag með það að fara í langar gönguferðir á hverjum morgni þegar ég á frí. Hef oftast myndavélina með í för og tek oft myndir af því sem á vegi mínum verður. Sumt af því ratar hingað á bloggið mitt. Engir hafa kvartað yfir þessu svo ég er að hugsa um að halda því áfram enn um sinn.

Það getur vel verið að þetta Icsave dæmi sé eitt allsherjar fokking fokk en það breytir því ekki að við verðum að losna við þennan ófögnuð. Nógu lengi er þetta búið að hrjá okkur.

Læt þetta duga að sinni. Þarf líka að leika í bréfskákunum mínum.


965 - Kauði

„Kauði er hann og kauði skal hann heita", sagði Ólafur Jóhannesson á Alþingi þegar árásirnar á hann stóðu sem hæst útaf Geirfinnsmálinu. Það gerðist margt áhugavert á þeim tíma þó ekki hafi menn verið eins hrikalega æstir og þeir eru nú. Ég veit ekki hvar þetta endar. Það er varla að maður þori að skrifa annað en það sem örugglega allir eru sáttir við. Helst ekki þorandi að hallmæla nokkrum manni. Atvinnuleysi hjá handrukkurum er sagt. 

Því segi ég það. Aldrei að segja allt sem maður veit, eða heldur að maður viti. Sannleikurinn getur verið hættulegur. Varðandi árásirnar á Óla Jó þá voru til menn sem trúðu því að hann stundaði smygl á spíra sem væri  síðan seldur í Klúbbnum. Menn trúa að Bandaríkjastjórn hafi sjálf staðið fyrir árásunum á tvíburaturnana og tunglferðirnar hafi verið tómt plat. Því skyldu þeir þá ekki trúa hverju sem er?

Ég trúi ekki á jesúbarnið og allt það rugl. Þetta stangast bara á við heilbrigða skynsemi og er eins og hver önnur draugatrú í mínum augum. Eiginlega trúi ég aldrei neinu en það er önnur saga. Best er að efast um allt og trúa sem allra fæstu, þá verður maður sjaldan fyrir vonbrigðum.

Og nokkrar myndir:

IMG 1252Saurbær á Hvalfjarðarströnd.

IMG 1255Þessi staður má muna sinn fífil fegurri. Þarna stoppaði maður oft áður fyrr. Þetta er Botnsskáli í Hvalfirði.

IMG 1267Það á ekki að láta börn vera með málningu.

IMG 1279Hús í Fossvoginum.

IMG 1287Nokkrir fýrar í Borgarbókasafninu í Gerðubergi.


964 - Skrópað í mannkynssögutíma

Einhverntíma að vori til vorum við öll í þriðja bekk Miðskólans í Hveragerði úti á skólatúni í fótbolta þegar hringt var inn í tíma. Að sjálfsögðu vorum við í þriðja bekk yfir aðra í skólanum hafin og vorum ekkert að flýta okkur inn þó hringt væri. Kom svo saman um að fara bara ekkert í tíma en halda áfram í fótbolta því veðrið var svo gott. Þetta átti líka að vera hundleiðinlegur mannkynssögutími hjá séra Helga Sveinssyni.

Ekki voru kannski allir sammála um að gera þetta en þeir frekustu réðu eins og vanalega. Seint og um síðir mættum við svo í tíma. Vissum auðvitað fullvel að séra Helgi mundi ekki æsa sig mikið útaf þessu. Við höfðum aldrei gert þetta fyrr og hann bað okkur um að gera þetta ekki aftur og það gerðum við náttúrulega ekki. Vorum alls ekki vön að gera svona nokkuð og eflaust man ég svona vel eftir þessu vegna þess að atvikið var einstakt.

Eitt af þeim sparnaðarráðum sem við tókum upp í byrjun kreppunnar var að nota alltaf hálfa töflu í uppþvottavélina. Víst er þetta heimskulegt sparnaðarráð en það minnir mann þó oft á að vissulega er þörf á að spara. Hver sparar á sinn hátt og það sem einum finnst sparnaður finnst öðrum hin mesta óspilunarsemi. Leirtauið sem kemur úr uppþvottavélinni er alveg nógu hreint þó aðeins sé notuð hálf tafla en sparnaðurinn er samt afar lítill er ég hræddur um að sumum finnist.

Fór á bókasöfnin í dag og fékk meðal annars lánaða á Bókasafni Kópavogs bókina „Eve online," eftir Óla Gneista Sóleyjarson. Þessa bók hef ég í hyggju að lesa spaldanna á milli enda finnst mér efnið mjög áhugavert. Spilaði á sínum tíma talsvert leikinn VGA planets sem að sumu leyti minnir á Eve Online. Ekki skemmir heldur að ég kannast við nafn höfundarins héðan úr bloggheimum.

Spilaði líka á sínum tíma leikinn Hattrick og þar voru það ekki bara hinir vikulegu leikir sem voru spennandi heldur líka kaup og sala á leikmönnum sem minnir á margan hátt á Ebay-uppboð.


963 - Mórar og skottur

Nú eru mottuvísur í tísku, held ég. Hér er ein: 

Eitt sinn tefldi skák við Skottu
skrauti búinn meistarinn.
Nú er hann með mikla mottu.
Munninn hylur vöxturinn.

Datt í hug að spyrjast fyrir um það á skákhorninu hvort sögur væru til um að Skotta hefði fengið vinning á skákmóti, en er að hugsa um að semja bara svörin sjálfur.

Fyrirspurn: Eru til sögur um það að Skotta hafi einhverntíma fengið vinning á skákmóti?

Svar: Já. Eitt sinn á Grensásveginum kom skákmeistari dálítið seint til leiks. Fyrsta umferðin var langt komin og þar sem þátttakendafjöldinn stóð á stöku var Skotta meðal keppenda. Skákstjórinn vildi endilega að meistarinn tæki þátt og bjó í snarhasti til aðra skottu sem skákmeistarinn var sagður hafa unnið í fyrstu umferð. Þegar leið á skákmótið vildi ekki betur til en svo að þær vinkonurnar lentu í því að tefla hvor við aðra. Sú viðureign var hörð og tvísýn en lyktaði með jafntefli eftir snarpa viðureign.

Svar2: Þetta er ekki alveg rétt hjá þér. Ég man vel eftir þessu móti og það var Skotta 2 sem vann.

Svar: Nú, var það? Ég hélt að Skotta 1 væri miklu betri. Hún er að minnsta kosti með meiri reynslu.

Horfði um daginn á viðtal Egils Helgasonar við Guðberg Bergsson í Kiljunni. Þeir voru í Grindavík. Dáðist að Guðbergi fyrir hve rólegur og yfirvegaður hann var. Las á sínum tíma bókina „Tómas Jónsson metsölubók," en hún er sem kunnugt er eftir Guðberg. Hef sjaldan hrifist eins mikið af einni bók. Margt í henni er mér enn minnisstætt. Eiginlega finnst mér síðan eins og allar bækur séu annað hvort skrifaðar áður en Tómas Jónsson kom út eða á eftir. Hef samt ekki lesið neitt sérstaklega mikið eftir Guðberg. Las þó næstu bækur hans en missti síðan áhugann á því sem hann hafði að segja.

Mér finnst að hver dagur sem líður án þess að einhver úrslit fáist í Ísbjargarvitleysuna sé okkur Íslendingum í óhag. Ekkert hef ég séð sem styrkir þá skoðun að Bretar og Hollendingar vilji flýta sér að leysa þetta mál og að samningsaðstaða Íslands hafi batnað við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Auðvitað hafa stjórnvöld sífellt verið að reyna að plata okkur. Sagt að allt fari til fjandans ef ekki er gert svona og svona. Geðheilsu okkar vegna held ég samt að ekki sé hægt að halda þrasinu um Icesave áfram endalaust. Fleira skiptir máli en það.


962 - Hveragerði

Það er hægt að keyra á þremur (eða fjórum) stöðum inn í þorpið. Gamli vegurinn er samt sá sem liggur frá réttinni að Reykjafossi. Fyrst liggur hann framhjá Eldborg. Þar eiga Laufey og Magnús heima. Þau eiga marga krakka. Einn þeirra er Erlendur. Hann er kallaður Bóbó. Veit ekki af hverju. Svo liggur hann (vegurinn - ekki Bóbó) á milli húsanna hjá Baldri Gunnars og Snorra. Síðan fyrir neðan bakaríið og fram hjá Bláfelli þar sem ég á heima. Svo á milli Símstöðvarinnar og Nýja Reykjafoss og áfram að Gamla Reykjafossi. Svo er auðvitað hægt að halda áfram niður að Kaupfélagi og Hóteli og að skólanum. Jafnvel að Fagrahvammi eða yfir brúna og uppað Laugaskarði.

Líka er einskonar framhald af Laufskógunum sem nær alla leið niður á þjóðveg. Svo er það náttúrulega Breiðamörkin. Hún liggur framhjá garðyrkjustöðinni hjá Gústa gamla og niður á þjóðveg. Það er orðin aðalleiðin núna. Gamla veginum hjá Eldborg er ekkert haldið við. Aldrei heflaður eða neitt. Eintómir pollar þegar rignir.

Auðvitað er hægt að komast frá þjóðveginum og beint niður að Náttúru. Hún er samt eiginlega fyrir utan þorpið. Vegurinn niður í Ölfus kemur á þjóðveginn rétt hjá Eden. Þar er hótelið með söluskúr og selur Shell-bensín.

Vel á minnst. Gústi gamli. Merkilegur karl. Mótaði rauð mannshöfuð í leir og stillti þeim upp um allt í vinnuskúrnum hjá sér sem var eiginlega íbúðin hans líka. Einu sinni plataði hann mig. Þá var ég að vinna hjá Baldri Gunnars. Baldur var veikur og Gústi kom í heimsókn. Spurði mig hve marga kassa af gúrkum við hefðum sent suður daginn áður.

„Tuttugu og tvo", sagði ég hróðugur.

Auðvitað mátti ég ekki segja honum hvað við sendum marga kassa. Hann var bara að njósna. Ræktaði nefnilega sjálfur gúrkur.

„Hveragerði er heimsins besti staður," segir í kvæðinu sem ég kunni einu sinni. Auðvitað er ekki logið í kvæðum. Mér finnst líka ágætt að eiga heima þar. Þekki ekki annað.

Gamli vegurinn liggur líka á ská framhjá húsinu hans Stebba hreppstjóra. Hinum megin við það er Breiðamörkin. Stefán er einn af örfáum Hvergerðingum sem eiga drossíu. Gott ef ekki sá eini. Geymir hana samt ekki á Breiðumörkinni, heldur hinum megin. Stundum rúntar hann um bæinn á sunnudögum. Einu sinni var ég eitthvað að sniglast í kringum bílinn. Kannski að fikta í honum. Þá byrjaði skyndilega að leka loft úr dekki. Hugsanlega af mínum völdum. Man að ég hafði mikið samviskubit útaf þessu lengi og þorði helst ekki að koma nálægt bílnum.


961 - Nautaat

Sá eitt sinn nautaat á Mallorca á Spáni. Sú sýning líður mér ekki úr minni. Gleymdi að borga kallinum sem vísaði okkur til sætis þjórfé og hann var svolitla stund að mævængja í kringum okkur en gafst svo upp. Afar margt úr atinu sjálfu er mér minnisstætt og alltaf þegar ég sé myndir frá nautaati í sjónvarpinu minnist ég þessarar frábæru sýningar. 

Auðvitað eru dýradráp ekkert skemmtileg, en umgjörðin öll utanum þetta var ógleymanleg og atburðirnir sem þar áttu sér stað eftirminnilegri en flest annað. Ekki man ég þó með vissu hve mörg naut voru drepin í atinu (líklega svona sex) en enginn nautabani eða mannlegur þátttakandi í þessari sýningu slasaðist.

Ekki voru nautabanarnir verðlaunaðir á nokkurn hátt þó mér þætti að vel hefði mátt gera það. Fannst þeir vera afburða flinkir. Í lokin hentu áhorfendur sessunum sem þeir höfðu setið á inn í hringinn. Líklega til að láta í ljós óánægju sína. Minnir að ég hafi gert það á endanum líka. Var samt síður en svo óánægður með sýninguna.

Allir virðast vera hundsvekktir yfir því að einhverjir handbolta-afglapar úti í heimi hafi sett Ísland í vitlausan styrkleikaflokk við niðurröðun í eitthvert mót. Fjallað er um málið í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Skil bara ekkert í þessu og er alveg sama. Erum við Íslendingar inbilskir eða hvað? Af hverju stjórnum við ekki alþjóðlegum handbolta? Ég bara spyr.

Og nokkrar myndir:

IMG 1200Snjór í Kópavogi.

IMG 1211Alveg rétt. Það þýðir ekkert annað en að steypa þessi helvítis tré niður.

IMG 1216Hér er hlustað og horft. Útvarpshúsið við Efstaleiti.

IMG 1227Endur í Kópavogi.

IMG 1229Kópavogur í dag, mánudag.


960 - Dagskrárstjóri RUV

Tek undir það með Stefáni Friðriki Stefánssyni að athyglisvert er að Egill Helgason skuli sækja um starf sem dagskrárstjóri RUV. Sé ekki í fljótu bragði hvernig Palli ætlar að ganga framhjá honum. Þó eru mörg athyglisverð nöfn á listanum. Nefni bara nokkur: Davíð Þór Jónsson, Felix Bergsson, Lárus Ýmir Óskarsson, Lovísa Óladóttir, Maríanna Friðjónsdóttir, Sigurjón Kjartansson og Þorfinnur Ómarsson. Fróðlegt verður að vita hver hlýtur hnossið.

Völd dagskrárstjóra RUV eru heilmikil. Ekki alltaf sýnileg en þó mikil. Komist Egill Helga í þá stöðu er ég hræddur um að veruleg vinstri sveifla verði þar innanbúðar. Samt er ekki útilokað að svo verði. Líka gæti hrunskýrslan komið fram áður en mjög langt um líður. Spennandi tímar framundan.

Einhverntíma orti Örn Arnarson eftirfarandi:

Þegar óhapp einfeldings
auð hins ríka skerðir.
Reka hann til réttarþings
reiðir lagaverðir.

Nei, þetta er ekki eftir Bubba þó hann hafi einhverntíma raulað eitthvað svipað. Orðalagið er kannski dálitið gamaldags en samt sé ég ekki betur en þessi vísa eigi ágætlega við í dag.

Suðurnesjamenn segja ekki margt um prófkjör framsóknarmanna í Grindavík. Staðhæft er að þar hafi sjálfstæðismenn ráðið mestu. Öruggt er þó að einhverjir framsóknarmenn tóku þátt í því enda var það galopið. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn meira en fjögur hundruð atkvæði í Grindavík og voru það næstum 30 % atkvæða. Semsagt óvenju glæsileg niðurstaða. Úrslitin í prófkjörinu um daginn komu nokkuð á óvart. Alls tóku 605 þátt í því. Að vísu ruglaðist röð frambjóðenda eitthvað frá því sem kjörnefnd hafði gert ráð fyrir en það breytir því ekki að prófkjörið var óvenju glæsilegt.


959 - Orðræða

Bloggorðræðan er ákaflega óvægin og grimmdarleg. Varla finnast í málinu nógu stór og ljót orð til að nota þar. Ekki nóg með að orðin séu ljót, hugsunin er ljót líka. Svotil allir eru réttdræpir fábjánar. Undantekningar eru frá þessu en þær eru ekki margar. Þessi bloggorðræða tengist vissulega hruninu og hefur versnað stórlega eftir það. Hún er farin að smitast á dagblöðin. Einkum DV og Morgunblaðið. Veit ekki með Fréttablaðið því ég sé það svo sjaldan. Sjónvarps og útvarpsfréttir eru sæmilega vitrænar ennþá en eru smám saman að versna.

Allt stefnir í Landsdóm. Þá fá nú einhverjir tækifæri til að brillera. Er það Alþingi sem hefur farið svona með orðræðuna? Kannski. Hún hefur versnað eftir að farið var að sjónvarpa beint þaðan.

„Farðu í rass og rófu. Ríddu grárri tófu," var áður fyrr oft sagt við þá sem uppáþrengjandi voru og fyrir. Ekki veit ég hvað þetta átti að fyrirstilla og ekki veit ég hvers konar reið þetta átti að vera. Líklega hestareið, þorði aldrei að reikna með öðru.

Mér finnst margt benda til þess að ríkisstjórnin, Alþingismenn, útrásarvíkingar og aðrir sem við kjötkatlana sitja séu orðnir viðskila við þjóð sína. Segja má að það hafi komið í ljós í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Kannski verður það enn ljósara eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor eða í síðasta lagi eftir næstu Alþingiskosningar.

Sagt er að bara bloggarar lesi blogg. Sumir eru kannski óvirkir en gætu hvenær sem er farið til þess arna. Suma bloggara les ég aldrei, mér til mikillar ánægju og þeim til skaða ímynda ég mér. Ég er löngu hættur að lesa dagblöð því mér finnst svo gaman að lesa blogg (eða lesa þau ekki) Miklu skemmtilegra er þó að skrifa blogg og ímynda sér að maður sé rosagáfaður. Vona bara að einhverntíma verði hætt að álíta bloggið svona asnalegt.

Undirfyrirsögn í Mogganum í dag laugardag: „Höfundar myndarinnar hittu mann sem stundar veiðar með Osama bin Laden." Lengra er ekki hægt að komast í því sem kaninn kallar „name dropping".


958 - Sjöundá

Var að enda við að lesa frásögn af Sjöundármorðunum í bók sem heitir „Syndir feðranna III" og er gefin út árið 1988 af bókaútgáfunni Hildi. Undirtitill bókarinnar er „Sagnir af gömlum myrkraverkum". 

Þetta er undarleg bók. Sagt er að Gunnar S. Þorleifsson hafi safnað frásögnunum saman. Höfunda er ekki getið og engin tilraun er gerð til að segja frá tilurð sagnanna eða um hvað þær fjalla eða frá hvaða tíma þær eru. Eftir efnisyfirliti fremst í bókinni að dæma eru frásagnirnar í bókinni tólf talsins og nöfn þeirra eru talin upp í yfirlitinu. Meira er ekki að hafa.

Gunnar Gunnarsson gerði morðin á Sjöundá ódauðleg í meistaraverki sínu „Svartfugli". Atburðirnir áttu sér stað í byrjun nítjándu aldar og víða er hægt að finna frásagnir af ódæðunum sjálfum og örlögum þeirra Bjarna Bjarnasonar og Steinunnar Sveinsdóttur.

Eiginmaður Steinunnar var drepinn af Bjarna og sömuleiðis kona Bjarna. Steinunn var með í ráðum og eggjaði til verkanna. Þetta játuðu þau skötuhjúin við yfirheyrslur en margt er það í rannsókn málsins sem nútímafólk hefði kosið að væri öðruvísi. Til dæmis er engar upplýsingar að finna um sálarástand morðingjanna og játningarnar virðast hafa verið fengnar fram með svikum og fláræði.

Frásögnin í þessari bók er allýtarleg og tekur nærri 80 blaðsíður (89 - 167) Höfundurinn er fjarri því að vera hlutlaus í þessari frásögn sinni og gerir á allan hátt hlut þeirra sem að málinu koma sem verstan. Hann er þó þokkalega hlutlaus þegar kemur að afbrotafólkinu sjálfu og fylgir örlögum þeirra nokkuð vel.

Steinunn Sveinsdóttir lést í tugthúsinu í Reykjavík (Stjórnarráðshúsinu) og var dysjuð fyrir utan bæinn á Skólavörðuholtinu þar sem síðar var kallað Steinkudys. Bjarni var hinsvegar fluttur til Noregs og tekinn af lífi þar.

Allt frá því að ég las í æsku bókina „Svartfugl" hafa atburðir þessir haft mikil áhrif á mig. Þeir lýsa þjóðlífi þessa tíma afar vel. Sá veruleiki sem þarna birtist er órafjarri nútímanum. Frásögnin í þessari bók er á margan hátt ágæt og fyllir vel upp í eyður sem í huga mér hafa verið um þetta mál. Þessvegna finnst mér það skaði að höfundar skuli ekki getið í bókinni.


957 - Byssugreiða

unusual designs54Mynd sem stolið var af Netinu þann 10. mars s.l.

Fyrsta greiðan sem ég eignaðist á ævinni var eins og byssa í laginu. Ég fékk hana þegar ég fékk síðbuxur í fyrsta skipti. Það voru bláar gallabuxur, hvorki meira né minna. Greiðan (byssan) var úr hörðu plasti og brotnaði í fyrsta skipti sem ég fór með hana út í gallabuxunum og að sjálfsögðu í rassvasanum. Mikil sorg og minnisstæð ennþá.

Aðrir fletta ekki gömlum dagblöðum af meiri tilfinningu en Dr. Gunni. Skannar það sem skannvirði hefur og skrifar gáfulega um það. Er mjög hallur undir gamlar hljómsveitir og allt þeirra illþýði en lætur margt annað fljóta með. Í alvöru talað. „Hann er úrvalsbloggari." og fundvís á það sem fyndið er.

Vel heppnað slagorð er: „Ekki gera ekki neitt." Því miður er það ómerkilegt innheimtufyrirtæki sem notar þetta. Annars þurfa innheimtufyrirtæki ekkert að vera ómerkilegri en önnur. Mér finnst það bara.

Vildi ég væri (Vildi ég væri hænuhanagrey..... var eitt sinn sungið, en það er önnur saga) duglegri við birtingu mynda í blogginu mínu. Nenni því bara ekki. Kann heldur ekki nógu vel að skanna og klippa myndir til birtingar í blogginu auk þess að stela þeim. Færi ég að nostra við slíkt og dálka, fonta og þessháttar þá væri ég eiginlega kominn út í blaðaútgáfu, sem reyndar er áhugavert málefni en of tímafrekt fyrir mig. Mér finnst ég aldrei hafa tíma til neins nema blogga eitthvað smá á hverjum degi. (Og lifa - en ég skrifa nú lítið um það)

Og í lokin fáeinar myndir:

IMG 0807Staðið á verði.

IMG 0855Upplýsingamiðstöðin á Ensku ströndinni.

IMG 0991Hafið bláa hafið.

IMG 1009Sjálfstæðisflokkurinn í miklu uppáhaldi hér.

IMG 1044Verndardýrlingur Barbacan hótelsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband