Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
11.12.2010 | 00:12
1227 - Icesave
Hræddur er ég um að Icesave sé það eina sem rætt er um þessa dagana ef talað er um pólitísk mál. Fjárlögin og WikiLeaks falla alveg í skuggann. Líkur eru til að stjórnarandstaðan hafi gefið eftir í málinu og framgangur þess á Alþingi sé tryggður.
Þeir sem fyrir hvern mun vilja reyna að koma í veg fyrir að Ísland gangi í ESB reyna þó enn sumir að halda því fram að ekkert megi samþykkja. Þeim sem þannig hugsa fer hinsvegar fækkandi. Spurning er þó um afstöðu forsetans og hugsast getur að þetta mál fari enn einu sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Tölur og útreikningar skipta litlu máli hvort sem rætt er um Icesave eða annað. Þær eru bara notaðar til að rugla fólk og áætlanir eru lítils virði. Grundvallaratriðin ein skipta máli. Traust og trú á fólki skiptir mestu. Ef nýjasta samninganefndin nýtur meira trausts Ólafs Ragnars Grímssonar en þær sem á undan hafa verið og Alþingi samþykkir nýja samninginn með miklum meirihluta er líklegt að þessu máli sé lokið.
Vissulega skiptir möguleg aðild Íslands að ESB máli hér. Hún hlýtur að grundvallast líka að mestu á trú. Trú á framtíðina og trausti á aðrar þjóðir og þá einkum nágrannaþjóðir okkar.
Engin örsaga í dag. Það er lítill vandi að spinna upp einhverja vitleysu. Spurningin er hvort það sé einhver yfirhugsun" í sögunni. Hún finnst jafnvel ekki fyrr en eftirá. Svo fær lesandinn náttúrulega ekkert að vita um þessa yfirhugsun" eða hvort hún sé einhver. Það er það flotta í þessu.
Hvort er leiðinlegra fésbókin eða bloggið? Það er milljón dollara spurningin sem enginn getur svarað. Er hægt að verða fullnuma í fésbókarfræðum? Eflaust hafa margir fésbókina opna í sérglugga á tölvunni og líta þangað öðru hvoru. Mér finnst það bara trufla mig. Vil heldur gera eitthvað annað. Vil reyndar yfirleitt helst alltaf gera eitthvað annað.
Jarðýta. Kannski ekki alveg af nýjustu gerð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.12.2010 | 00:11
1226 - Níumenningarnir o.fl.
Nú eru níumenningarnir aftur komnir á þingpallana. Þessi saga fer að verða langdregin og leiðinleg. Það voru augljós afglöp hjá forsvarsmönnum Alþingis að kæra þá fyrir að trufla störf þingsins. Við því er lágmarksrefsing eins árs fangelsi. Dómstólar landsins munu aldrei þora að dæma níumenningana samkvæmt þeim lagabókstaf. Nær hefði verið að ákæra þá (eða einhverja þeirra) fyrir að valda meiðslum en það var ekki gert.
Mitt blogg virðist svo vinsælt að mönnum finnst taka því að sníkjublogga þar. Það er ný reynsla. Auðvitað var ég ekki að meina það í alvöru að Steini Briem væri að sníkjublogga. (Já, það situr enn í mér) En hann fældist og ég get ekki gert að því. Gísli hlaupari og þýðandi er ásamt með Páli bróður sínum á meðal þeirra bloggara sem ég dáist mest að. Ég er alltaf að reyna að líkjast þeim. Á samt engan kött, en Gísli notar sinn óspart þegar hann vill vera fyndinn.
Svo er það hún Kristín í Vancouver. Gaman að bloggunum hennar. Annars eru það orðin ákaflega fá blogg sem ég les að staðaldri. Jú, auðvitað les ég það sem konan mín bloggar. Linkur á það er hérna til vinstri. Oft skrifar hún líka á fésbókina en þangað er mínum heimsóknum svolítið að fækka samkvæmt læknisráði. (þ.e.a.s. Jóhanna Magnúsdóttir fyrrum skólastýra ráðlagði mér það.)
Ég er farinn að nota sterkara orðalag en ég er vanur þegar ég ræði um WikiLeaks og þess háttar. Sum atriði í sambandi við frelsi netsins og frelsi stjórnmálabaráttu eru bara þess eðlis að ég get ómögulega gefið afslátt.
Nú er svefntaflan farin að virka á mig og ég tafsa eins og fyllibytta. Stundum er betra að vera aleinn við skrifin útaf tuldrinu. Á alveg eftir að sjá hvort ég get samið fleiri svona örsögur eins og ég gerði í gær. Það var með hálfum huga að ég sendi hana út í eterinn. Hún var nefnilega svo ný. Alveg nýkomin á blað og kannski hefði hún átt eftir að breytast eitthvað og batna við geymslu.
Ef maður stendur með annan fótinn í krapavatni og hinn í sjóðandi vatni líður manni að meðaltali helvíti vel. Þetta er það sem mér datt í hug í sambandi við einhverja meðaltalsfrétt í útvarpinu um tekjur og eyðslu.
Náttbuxurnar hans Gústa - súrrealísk örsaga númer 2.
Hann fann allt í einu að önnur skálmin á náttbuxunum var rennandi blaut.
Andskotinn," hugsaði hann. Þá hlýt ég að hafa pissað á mig alveg nýlega." Hann fór í huganum vandlega yfir öll sín síðustu þvaglát.
Ég hlýt að hafa gert það á meðan ég svaf. Nú verður kerlingarbikkjan á neðri hæðinni alveg snarvitlaus."
Hann fór því úr náttbuxunum og henti þeim útum gluggann. Þetta var á átjándu hæð svo þær svifu fallega til jarðar og Járnmundur spik, sem kom aðvífand í sömu svifum og þær lentu, tók þær strax upp og stakk í vasann.
Af því að þær voru blautar hitnuðu þær eftir svolitla stund og Járnmundi fór að standa.
Hvar ætli hún Sigríður mélkisa sé? Ég þyrfti endilega á fá mér eitthvað á broddinn núna," hugsaði Járnmundur spik.
En náttbuxurnar voru ekki aldeilis á því. Þær flýttu sér að yfirgefa Járnmund svo þeim yrði ekki kennt um eitthvað ósiðlegt og höfnuðu í rennusteininum.
Þar lágu þær svo alveg þangað til öskukallinn kom og hirti þær.
Af hverju skyldu þessar náttbuxur liggja hérna?" hugsaði hann með sér. Þetta eru annars ágætis buxur. Kannski ég gefi Tótu þær. Hún getur kannski gert sér mat úr þeim."
Og öskukallinn tók náttbuxurnar heim með sér. Konu hans og dóttur leist svo vel á buxurnar að þær tóku í sitt hvora skálmina og toguðust á um þær góða stund.
Auðvitað rifnuðu buxurnar að lokum og enduðu svo í ruslafötunni hjá öskukallinum.
Þetta var sagan um náttbuxurnar hans Gústa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2010 | 00:13
1225 - Enn um WikiLeaks
Bandaríkjastjórn tókst með klækjabrögðum að fá rússneskan vopnasmyglara framseldan frá Thailandi. Nú dreymir þá um að fá Julian Assange framseldan á svipaðan hátt frá Svíþjóð. Hvernig stendur á því að Salon.com veit um þetta og útvarpar því um alla heimsbyggðina. Nú, það var á WikiLeaks og hefur ekki verið mótmælt. Af hverju getur þetta WikiLeaks ekki farið í burtu og látið okkur í friði er í bænum allra vestrænna sendiráðsstarfsmanna þessa dagana. Skjótum helvítis sendiboðann. Það er vaninn.
Þó ég hafi bæði áhuga á bókum og neti hef ég lítið fylgst með stríði netrisanna Amazon og Google um þær. Allt sem á netinu getur verið verður aðgengilegt þar fyrr eða síðar. Á leiðinni þangað munu einhverjir falla og lítið við því að gera.
Undanfarið hef ég verið í besta stuðinu til að blogga á morgnana og treyst á að geta búið eitthvað til þá. Fyrningar hafa oftast engar verið því ég er svo nýtinn bæði á bloggskrif og annað.
Þegar ég blogga svona snemma morguns læt ég skrifin gerjast allan daginn. Lít á þau öðru hvoru ef ég mögulega má vera að. Stundum breyti ég og bæti eða felli jafnvel niður. Þetta er minn helsti leyndardómur sem bloggara og nú getur WikiLeaks ekki gert sér mat úr honum.
K.S gerir grín að því að ég skuli ræða um eilífðarmálin í einni setningu en Bónuspoka í þeirri næstu. Það er eðlilegt að hann geri það. Það er bara minn stíll að vaða úr einu í annað án þess að taka hlutina alvarlega. Hvað er lífið annað en misheppnað grín?
Svo reynir Svanurinn af koma af stað guðspekilegri sæber-umræðu í athugasemdakerfinu og ég þarf að fylgjast með henni.
Svolítinn lager á ég af myndum dagsins enda eru þær yfirleitt ekki í neinu sambandi við það sem skrifað er um. Heldur ekki hundgamlar.
Mikið er óskapast útaf stjórnlagaþinginu og helst yfir lítilli kjörsókn. Vissulega var hún vonbrigði þeim sem búist höfðu við að hún yrði mikil. Þessi litla kjörsókn getur mögulega haft einhver áhrif á hunsun Alþingis á störfum þingsins en þarf alls ekki að hafa nein áhrif að öðru leyti.
Flestir vonast til og gera ráð fyrir að stjórnlagaþingið standi sig vel en þjóðaratkvæðagreiðslur eru aftur á móti orðnar eitt helsta deiluefni stjórnmálaspekinga. Einkum og sér í lagi þó þær sem ókomnar eru en mögulegar í framtíðinni.
Datt áðan inn í síðari hluta viðtals á sjónvarpsstöðinni N4 við Jóhannes Sigurjónsson fyrrum ritstjóra Víkurfrétta á Húsavík. Hann var þar að tala um blaðaútgáfu úti á landi. Virkilega skemmtilegt viðtal. Minnti mig á tímann þegar við Ásþór og Sigurjón gáfum út Borgarblaðið í Borgarnesi. Veit alltof lítið um sjónvarpsstöðina N4. Vildi gjarnan vita meira. Held hún sé á Akureyri. Akureyringum er sko ekki fisjað saman. Auðvitað er hægt að fara bara beint á n4.is.
Prjónavélin hennar mömmu - súrrealísk örsaga í C-dúr
Prjónavélin hennar mömmu var mikið galdratæki. Það var ekki nóg með að hún prónaði sjálf hvað sem hún var beðin um heldur kunni hún að líka að hella uppá könnuna og satt að segja var kaffið sem hún gerði virkilega gott. Sennilega var það af því að hún notaði exportið í hófi.
En ég ætlaði nú eiginlega ekkert að tala um prjónavélina heldur kassann sem hún kom í. Það var sko enginn venjulegur kassi. Nei, hann var á fjórum hæðum og á efsta loftinu voru átta herbergi og sérbað með hverju.
En ég ætlaði ekki að tala um kassann heldur girðið sem var strengt utanum hann. Það var svo sterkt að þrír villtir hestar gátu ekki slitið það. Af hverju voru þeir þrír? Það veit ég ekki. En þeir toguðu allir í sömu áttina svo það var ekki von að girðið slitnaði. Hestarnir toguðu og toguðu og á endanum steyptust þeir allir í hafið. Þannig fór um sjóferð þá.
Auðvitað sukku þeir allir til botns. Þar sáu þeir marbendil einn sem spilaði á hörpu úti fyrir kóralkastalanum sínum. Hestarnir fóru þá að gera sig til og á endanum litu þeir ágætlega út. Marbendillinn leit samt ekki við þeim heldur tók hatt sinn og staf og skeiðaði í burtu. Af hverju kunni hann að skeiða? Ætli hestarnir hafi ekki kennt honum það.
Þegar marbendillinn þurfti að anda skaust hann uppá yfirborðið. Þar sá hann fagurlimaða skonnortu. Hún var undir fullum seglum og á leiðinni til Indlands að sækja saffran. Skipstjórinn á skonnortunni átti páfagauk eins og sönnum sjóræningja sæmir. Hann var samt enginn sjóræningi en bara á leiðinni til Indlands að sækja saffran.
Saffrankaupmaðurinn var búinn með allt kryddið sitt en hafði frétt af sölumanni í næstu götu sem seldi talandi prjónavélar. Til hans fór hann og keypti tíu stykki. Þegar skipstjórinn á skonnortunni kom að sækja saffranið sitt taldi kaupmaðurinn hann á að kaupa frekar prjónavélarnar.
Þetta var sagan um prjónavélina hennar mömmu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.12.2010 | 00:09
1224 - Valdið og WikiLeaks
Hægt gengur valdinu að losna við WikiLeaks. Þeim fjölgar þó stórfyrirtækjunum sem slást í þann hóp sem ólmur vill fylgja Bandaríkjastjórn í hvaða vitleysu sem er og vissulega er það skiljanlegt.
Það besta sem skeð getur frá sjónarmiði valdsins er að hægt og hægt hverfi WikiLeaks úr umræðunni. Kannski er þeim að takast það. Hef þó ekki orðið var við að fjölmiðlar séu hættir að birta glefsur úr sendiráðspóstum.
Ef upplýsingar sem frá WikiLeaks koma gagnast skipulagðri hermdarverkastarfsemi og óvinum Bandaríkjanna eru leyniþjónustur þeirra ríkja ansi lélegar.
Umfram allt vilja utanríkisþjónustur og ríkisstjórnir vestrænna ríkja stimpla allt leynilegt sem hugsanlegt er að komi starfsfólki þar illa að allir viti. Aðgerðir WikiLeaks breyta vonandi þeim hugsunarhætti. Inni í því sem stimplað er leynilegt leynast síðan að sjálfsögðu upplýsingar sem lúta að þjóðaröryggi.
Á endanum snýst spurningin semsagt um það hverjum er best treystandi til að skera úr um hvað þarf raunverulega að vera leynilegt. Utanríkisþjónusturnar hafa staðið sig illa í því hlutverki og nú standa menn frammi fyrir því að WikiLeaks komi í staðinn.
Þegar ég var í skóla fyrir meira en hálfri öld gekk mér ágætlega í landafræði. Þá voru heldur ekki öll þessi olíuauðugu smáríki á Arabíuskaganum eða á eyjum í Persaflóanum. Bangladesh var ekki einu sinni til heldur bara Austur og Vestur Pakistan.
Öll þessi olíuríki komu mér í hug þegar samþykkt var af FIFA að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 í Qatar.
Satt að segja renna öll þessi heiti sem þarna eru meira og minna saman í huga mér. Geri ráð fyrir að svo sé um fleiri. Fór því á Wikipedíu að kynna mér málið. Ekki gekk það nógu vel en þannig lítur þetta út í stórum dráttum í mínum huga:
UAE eru Sameinuðu Arabisku Furstadæmin (United Arab Emirates) Stærsta eða næststærsta héraðið þar er Dubai. Héruðin eru alls sjö og meðal þeirra er t.d Abu Dhabi.
Önnur ríki á þessu svæði eru: Qatar og Bahrain. Kuwait er á svipuðum slóðum (nokkru norðar þó) að ég held en talsvert eldra. Heyrði á það minnst þegar ég var í skóla. Aftur á móti held ég að olíuauðuga smáríkið Brunei sé í Indónesíu (Borneo). Ég er slæmur með að flytja það á Arabíuskagan útaf olíunni.
Al-Thani sá sem kom við sögu í Kaupþingsmálinu er af furstaættinni sem ræður í Qatar.
Ástæðan fyrir því að ég er að þessu landafræðirugli er sú að mér finnst dálítið útúr kú að ætla sér að halda HM í knattspyrnu í Qatar. Það kemur til með að kosta ansi mikið að byggja alla vellina sem þarf og jafnvel að yfirbyggja þá og loftkæla.
Peningarnir í þetta koma eins og vant er frá almenningi m.a. í formi hærra bensínverðs en vera þyrfti.
Líklega er ég hinn dæmigerði millistéttarmaður. Mest kannski vegna þess að ég er einn þeirra sem ekki viðurkenni neina stéttarskiptingu hér á Íslandi. Ég hef aldrei setið í fangelsi, aldrei orðið gjaldþrota, bara tekið hóflegan þátt í svartri atvinnustarfsemi, lítið svikið undan skatti, aldrei verið ritstjóri Morgunblaðsins, var fermdur á sínum tíma og aldrei affermdur og þannig mætti lengi telja.
Hvað skilur maður þá eftir sig þegar jarðvistinni lýkur? Eiginlega ekkert. Er ekki bara best að trúa því að maður verði draugur, engill eða ekki neitt á næsta tilverustigi? Skiptir það nokkru máli?
Bónuspokar er orðnir hvítir og Krónupokar gulir. Hvar endar þetta? Einu sinni gat maður treyst því að skærgulir pokar væru Bónuspokar og svartir pokar frá ÁTVR. Ekki lengur. Nú er jafnvel svo komið að fólk kemur með innkaupapoka með sér í Bónus. Svona er Kreppan mögnuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
7.12.2010 | 00:40
1223 - Bloggskrif og önnur skrif
Skrif eru almennt dálítið deildaskipt hjá mér.
Í fyrsta flokk fara bækur. Þá þarf að vanda sig heil ósköp enda hef ég sjaldan látið slíkt frá mér fara og aldrei undir nafni. Það er ekki öllum gefið að skrifa bækur. Lesa þarf próförk mörgum sinnum, útrýma villum því sem næst alveg, setja greinamerki á hárrétta staði o.s.frv.
Í annan flokk fara greinaskrif í blöð. Slíkt hef ég framið í fáein skipti. Þá þarf að vanda sig töluvert en prófarkalestur og greinarmerkjasetning er á ábyrgð blaðsins. Var það a.m.k. í eina tíð. Flest blöð virðast samt vera hætt slíkri smámunasemi núorðið. Þarna inni eru minningargreinar einnig sem að undanförnu virðast hafa farið í eitthvert undarlegt sendibréfsform að stórum hluta. Fjölyrði ekki mikið um þennan flokk enda er hann ansi víðfeðmur.
Í þriðja flokki eru bloggskrif. Því miður eru margir sem vanda sig lítt við bloggskrif en það finnst mér þurfi að gera.
Næst koma svo athugasemdir við blogg. Það eru skrif augnabliksins. Maður lætur það vaða sem manni dettur fyrst í hug og les það varla yfir. Þarna gætu líka flest fésbókarskrif verið og ekki er annað að sjá en sum fréttaskrif séu það einnig þó þau ættu að vera ofar.
Auðvitað eru margs konar önnur skrif til og allskyns undantekningar frá þessum reglum. Þetta er líka bara það sem mér finnst. Aðrir hafa eflaust aðrar skoðanir. Flest skrif ættu að geta fallið í einhvern þessara flokka eða á milli þeirra.
Ég hef líka skoðanir á því hvernig eigi að koma Moggabloggsteljaranum sem hæst og þar með að verða ofarlega á allskyns listum. Beiti sumum slíkra ráða stundum sjálfur en forðast önnur. Sum er ekki hægt að nota endalaust enda er fólk yfirleitt ekki ofarlega á listunum mjög lengi. Vil samt ekki fjölyrða mikið um þessi ráð eða hvernig þeim er beitt enda eru mörg þeirra mjög persónuleg og jafnvel pólitísk.
Fjölmiðlun öll hér á Íslandi hefur aukist mikið að undanförnu. Skiptir þá ekki máli þó útgefin pappírsdagblöð séu orðin færri eða hvort blogg eru talin fjölmiðlun eða ekki. Um leið og fjölmiðlun hefur aukist hefur hún í mörgum tilfellum orðið óvandaðri. Að mörgu leyti hefur netið valdið þessari byltingu. Breytingarnar eru þó alls ekki netinu að kenna eða þakka. Síminn olli mikilli byltingu á Íslandi fyrir rúmum 100 árum og sú breyting er ekki tilkomin vegna símans. Eðli mannsins veldur að sjálfsögðu mestu um þær breytingar sem verða.
Nú hefur mér tekist að skrifa næstum heilt blogg án þess að segja eiginlega nokkuð. Það er listin. Lesendunum þarf að finnast það vel skrifað og sem hnökralausast sem lesið er. Ekki dugir að hrópa sem hæst þó sumir virðist halda það. Fréttaskýringar allskonar geta verið ágætar en venjulega verða slík skrif óvönduð mjög vegna þess að nauðsynlegt er að flýta sér heil ósköp.
Varðandi fjármál, húsnæðismál og þessháttar sem ég hef lítið vit á, vil ég bara segja þetta: Mér finnst langathyglisverðast að fulltrúi lífeyrissjóða er sagður halda því fram að aðeins séu afskrifaðar óinnheimtanlegar kröfur. Voru þá fundahöldin og allt vesenið vikum og mánuðum saman bara sjónarspil og í raun og veru ekki um neitt?
ESB-málið getur vel orðið jafneldfimt hér á Íslandi og hermálið var á sínum tíma. Tímarnir nú eru afar áhugaverðir ekki síður en tímarnir í byrjun síðustu aldar. Herseta bandaríkjamanna eftir síðustu heimsstyrjöld skipti íslenskri þjóð í tvo hluta og olli miklum vandræðum. Það sama getur orðið uppá teningnum í sambandi við ESB-málið hvort heldur sem af inngöngu verður eða ekki. Ekki er víst að þjóðaratkvæðagreiðslur leysi allan vanda.
Niðurlæging þeirra sem þurf að þiggja matargjafir er öllum ljós. Biðraðirnar eftir þeim eru blettur á íslensku þjóðlífi og leysa lítinn vanda. Ég fer ekki ofan af því að sú aðferð sem notuð er við þessar matargjafir er vegna þess að einhverjir vilja hana. Ekki held ég að það séu þeir sem þiggja, né þeir sem úthluta. Eru það þeir sem gefa? Það held ég varla. Eru það þá stjórnvöld? Líklega. Er það borgin eða ríkið? Aðilar þar virðast henda þessu máli á milli sín og vilja enga ábyrgð bera. Skömm þeirra er mikil.
Bloggin hjá mér eru að verða alltof löng. Ég verð að reyna að hemja mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.12.2010 | 00:09
1222 - "Kettirnir á Spáni"
Hef undanfarið verið að lesa bókina Kettirnir á Spáni," sem er eftir Þorstein Antonsson. Hef lesið talsvert eftir hann undanfarið og hann er á margan hátt einn sá athyglisverðasti rithöfundur sem ég hef kynnst. Stundum er hann svo háfleygur að það er varla hægt að fylgja honum eftir en stundum svo lágfleygur að eflaust geta allir skilið hann. A.m.k. á yfirborðinu. Konan mín, sem var með honum í skóla í eina tíð, lætur sér fátt um finnast, telur hann hafa verið svolítið lokaðan og einrænan og ekki meira um það.
En af hverju er ég þá svona skrýtinn eins og ég er? Það er ekki af því að ég vilji vera það. Það er bara óviðráðanlegt.
Vel heppnað blogg er að sumu leyti eins og bók. Ímynda ég mér. Finnst samt sú tilhugsun að vinna mánuðum saman við skrif, og senda svo frá sér heila bók og eiga allt sitt undir viðtökunum við hana, vera alveg óþolandi. Bloggin er þó hægt að senda frá sér daglega og gleyma svo. Stundum finnst mér ég vera berari eftir að hafa sent blogg út í eterinn. Allur vaðallinn hefur nefnilega merkingu. Stundum næ ég til annarra en stundum ekki.
Að skrifa um aðra í óþökk þeirra er bölvuð frekja. Að skrifa um hvað stjórnmálamenn, útrásarvíkingar og aðrir séu vitlausir og ómerkilegir er sjálfsupphafning á flestan hátt og oftast nær. Þeir eru það ekki. Eiga bara í erfiðleikum með að láta sinn innri mann koma í ljós og er sama um aðra. Hafa líka gaman af að eyða peningum eins og við hin. Jafnvel að éta gull.
Er það ekki á sinn hátt að sveiflast á milli oflætis og aumingjaskapar að ímynda sér eina stundina að maður sé langbesti bloggari landsins, sem fólk á bara eftir að uppgötva, og á næsta andartaki að vera alveg hissa á því að nokkur skuli nenna að lesa svona ómerkilegt raus? Er ég þá geðveikur? Kannski. En það er ekkert verra en hvað annað.
Ég hef alla tíð verið þannig að finnast það ómerkilegt sem flestum öðrum þykir skipta öllu máli. Svoleiðis er það bara og ekkert við því að gera.
Les alltaf bloggið hennar Hörpu Hreinsdóttur. Hún er geðveik. Segir hún sjálf. Hún bloggar mest um sjálfa sig og sjúkdóminn og hefur sennilega kennt mér meira um geðsjúkdóma en flestir aðrir. Áður fyrr virtist hún stundum gera í því á blogginu sínu að egna fólk upp á móti sér.
Dreymdi ýmislegt í nótt (aðfaranótt sunnudags). Svaf til klukkan um níu og það finnst mér vera nokkuð langur svefn. Í draumnum svaf ég samt ennþá lengur. Klukkan þar var að verða fjögur um eftirmiðdaginn þegar ég loksins hundskaðist á lappir og gerði mér grein fyrir að ég átti fyrir löngu að vera mættur til vinnu. Áslaug var af einhverjum ástæðum ekki heima enda hefði hún aldrei látið mig sofa svona lengi. Einhverjir aðrir voru samt í flotta og stóra einbýlishúsinu mínu (í draumnum altsvo - auðvitað á ég ekkert einbýlishús í alvörunni) sem fannst ekkert merkilegt þó ég svæfi svona lengi. Flýtti mér í vinnuna, man samt ekkert hvernig. Þar fór ég inná mína einkaskrifstofu. Hún var ný og vel búin. -Sennilega var ég útrásarvíkingur án þess að gera mér grein fyrir því. Ætli árið hafi ekki verið 2007.- Jæja, áfram með drauminn. Á skrifstofunni var kommóða með öllum skúffum læsanlegum. Velti fyrir mér hvað ég gæti haft þar. Svo var bankað á dyrnar og ég boðaður á starfsmannafund. Þekkti þann sem það gerði en get bara ómögulega munað hver það var. (Þó ég myndi það fyrst eftir að ég vaknaði). Á starfsmannafundinum stóðu allir en sátu ekki. Man að ég var að velta mikið fyrir mér hvað fólk væri mishávaxið. Sumir næstum helmingi hærri en aðrir. Biðum eftir forráðamönnum fyrirtækisins en þeir komu aldrei. Svo vaknaði ég og draumurinn var búinn.
Það borgar sig ekki að eiga leyndarmál. Annaðhvort verður maður að trúa sínum nánustu fyrir þeim eða tölvunni. Varla getur maður treyst á sjálfan sig með allt. Illt er að eiga tölvu að einkavin. Því segi ég það. Leyndarhyggja er vísasta leiðin til glötunar. WikiLeaks getur allsstaðar verið.
Efir að krakkarnir flugu úr hreiðrinu og ég missti vinnuna er verkaskiptingin milli okkar hjónanna varðandi daglega matargerð í aðalatriðum þannig að hún eldar matinn en ég sé um uppvaskið og þessháttar. Undanfarið hefur uppþvottavélin verið að svindla svolítið við uppþvottinn og framkvæmt hann heldur illa eða a.m.k. misjafnlega. Áslaug gaf henni þá einhvern bláan sjálfstæðisvökva og leyfði henni að fara lausbeislaðri einn þvottahring og nú er hún orðin svo hrædd að hún þorir ekki annað en þvo almennilega upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2010 | 00:12
1221 - Menntaskóli - hraðbraut o.fl.
Meðal bloggara koma umferðarmál oft til umræðu. Þekktir og vinsælir bloggarar hafa oft sérstök atriði í sambandi við hana sem þeim líkar afar illa við. Anna K. Kristjánsdóttir bloggar t.d. oft um stefnuljós og tregðu ökumanna til að nota þau. Þar finnst mér hún stundum gera fullmikið úr hlutunum. Ómar Ragnarsson bloggar alloft um fötluð stæði" og hefur flest á hornum sér varðandi varðandi misnotkun ófatlaðra á þeim.
Ómar hefur sérþekkingu á umferðarmálum og langa reynslu þar. Þó finnst mér hann á stundum gera meira úr hlutunum en ástæða er til varðandi fötluðu stæðin". Ég kem oft að slíkum stæðum ónotuðum og er aldrei svo mikið að flýta mér að ég noti þau. Svo hygg ég að sé um langflesta enda er augljóst að þau kæmu að engum notum ef svo væri ekki.
Sá hugsunarháttur sem Ómar segir frá í nýlegum bloggpistli, þar sem hann vitnar í viðtal í útvarpsþætti sem hann segir að Lára Hanna Einarsdóttir hafði bent á, held ég að sé ekki algengur. Væri svo mundu fötluðu stæðin" alls ekki þjóna tilgangi sínum. Sú staðreynd að þau skuli vera jafn algeng og þau eru og jafnvel virt er til vitnis um það.
Algengi þeirra held ég samt að byggist á reglum sem heimta vissan fjölda þeirra á hverjum stað og notkunin byggir á því að þau séu virt og þar skipta sektir og eftirfylgni manna eins og Ómars Ragnarssonar höfuðmáli.
Jóhanna Magnúsdóttir skrifar um Menntaskólann hraðbraut á blogg sitt. Það eru athyglisverð skrif, en þar var hún aðstoðarskólastjóri þar til fyrir skemmstu. Hún minnist líka á sumarskólann sem rekinn var í húsnæði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og afskipti umboðsmanns Alþingis af því máli öllu. Ég hef alls ekki kynnt mér þetta mál nægilega vel en hvet þá sem áhuga hafa til að skoða blogg Jóhönnu.
Árangur í hverju sem er byggist ekki síst á því að geta einbeitt sér að því verkefni sem fengist er við. Æfingin skapar meistarann er oft sagt, en það er ekki nóg. Það þarf yfirleitt meira til. Hæfileikar skipta miklu máli og einnig það hve fólk á auðvelt með að einbeita sér. Að segja sjálfsagða hluti á þann hátt að athygli veki er það sem flestar sjálfshjálparbækur byggjast á.
Þessar daglegu stílæfingar mínar sem ég og aðrir köllum blogg minna mig á skólasetu. Enginn er samt kennarinn. Er ég þá farinn að ganga í barndóm? Sennilega en mér finnst þetta bara. Jú, eiginlega eru lesendurnir (einkum þó þeir sem athugasemdast) einskonar kennarar.
Flest af því sem fram fer á fésbókinni skil ég heldur illa. Sennilega er ég bara ekki nógu þroskaður fyrir hana. Þetta kemur vonandi.
Flestir fjölmiðlar fjasa mikið þessa dagana um HM í knattspyrnu 2018 og 2022 sem haldin verða í Rússlandi og Qatar. Minnast ekkert á HM 2014 og vita kannski ekki hvar það verður haldið. Svar: Brazilíu. OK, ég fletti þessu upp því ekki man ég svona hluti.
Reykjavík 2010 - Hér vantar bara hús og fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.12.2010 | 00:10
1220 - Efst í huga - WikiLeaks
Hvað er mönnum efst í huga um þessar mundir? Nú, auðvitað ástandið í pólitíkinni og komandi stjórnlagaþing. Samkomulag ríkisstjórnarinnar við lífeyrissjóðina og fleiri svo og skuldasúpa heimilanna. Er ég þá ekki kominn með lista yfir það sem ég ætti að forðast að skrifa um? Jú, eiginlega. Verð samt að skrifa um eitthvað af þessu. Reyni bara að hafa það stutt. Allt fyrir lesendurna.
Kosningakerfið sem notað var við stjórnlagaþingskosningarnar um daginn flækist enn fyrir fólki. Aðferðin sem oft hefur verið notuð í prófkjörum virðist mörgum eðlilegri. Þar er venjan sú að lögð eru saman atkvæði þau sem viðkomandi fá í ákveðin sæti og þar fyrir ofan. Munurinn er sá að þar hefur hver kjósandi mörg atkvæði og sum þeirra (jafnvel flest) nýtast afar illa. Oftast eru líka fáir í framboði. Af því að fremur fáir kjósa fáa menn á flokkslista hefur fólk komist uppá lag með að misnota aðferðina. Við stjórnlagaþingskosningarnar hefði það verið nánast útilokað.
Fólk er vanast því að krossa bara við nöfn eða skrifa tölur við þau. Svo hefði þurft að vera að þessu sinni. Listi með yfir 500 nöfnum hefði vissulega verið langur en óþarfi var að flækja málin til þess eins að auðvelda talninguna og spara prentun. Það var líka óþarfi að hafa pláss á kjörseðlinum fyrir jafnmarga og kjósa átti úr því að venjulega prófkjörsaðferðin var ekki notuð.
Kynning á frambjóðendum var ómarkviss og fjölmiðlar sinntu henni lítt. Þeim var kannski vorkunn því margt var óvenjulegt við þessar kosningar og mun meiri tíma hefði þurft einmitt þess vegna.
Þó mér finnist klausurnar hér að ofan um mismunandi kosningakerfi afar skýrar og einfaldar er alls ekki víst að öðrum finnist það. Takmark allra skrifa er að ná valdi á hugsun lesandans og láta hann hugsa eftir svipuðum brautum og maður gerir sjálfur. Annars eru skrif með þessum hætti að verða úrelt tækni við að tengja hug við hug. Myndmiðlar eru mörgum eðlilegri.
Þó ég skrifi stundum miður fallega um Marínó G. Njálsson les ég bloggið hans ósjaldan. Oft er hann illskiljanlegur en kemst stundum mjög vel að orði. T.d. hér:
Við verðum að fara að breyta neyslu úr kreditneyslu í debetneyslu. Þá er ég ekki að tala um að hætta að nota kreditkort og nota bara debetkort, heldur að það sé til peningur fyrir neyslunni þegar hún á sér stað."
Þetta er alveg rétt en gallinn er sá að flestir álíta peninga sem fengnir eru að láni vera á allan hátt til staðar og velta ekki mikið fyrir sér endurgreiðslunni. Þegar svona hugsunarháttur gegnsýrir heilu þjóðfélögin er ekki von að vel fari.
Kristinn Hrafnsson er hugsanlega í þann veginn að verða þekktasti Íslendingur í sögunni. Hann er hvorki meira né minna en hitt andlit WikiLeaks". Svo virðist sem Julian Assange sé horfinn. Sagt er að Amazon.com hafi hent WikiLeaks útaf sínum vef eftir að Joe Lieberman talaði við þá. Þetta getur allt orðið hið athyglisverðasta mál og snertir málfrelsi á Internetinu. Bandarísk yfirvöld hafa hingað til gert mikið úr nethindrunum kínverja en um leið og stigið er á tærnar á þeim sjálfum kemur annað hljóð í strokkinn.
Vitneskja er vald. WikiLeaks-málið getur vel orðið það mál sem úrslitum ræður um þróun málfrelsins í heiminum. Bandarísk stjórnvöld og stjórnvöld víða um heim gera það sem þau geta til að stöðva upplýsingalekann sem kemur í gegnum WikiLeaks en svo hratt berast upplýsingar um Internetið að það er næsta vonlaust verk.
Kínversk yfirvöld hafa lengi reynt að stífla það upplýsingaflæði sem um netið fer. Furðulegt að þau skuli yfirleitt reyna það. Einhverjum árangri hafa þau samt náð í krafti alræðisvalds síns. Hann getur samt ekki orðið langvinnur.
Nú reyna Bandarísk stjórnvöld að hindra WikiLeaks í starfsemi sinni. Það mun ekki takast. Almenningur í Bandaríkjunum mun aldrei sætta sig við það. Free speech" er heilög kýr í þeirra augum.
Vefsetur WikiLeaks og starfsemi þess öll er hulin leyndarhjúpi. Þ.e.a.s. fréttamenn fá ekki að vita allt sem þeir vilja vita. Vel má búast við að bráðum verði farið að leka einhverju þaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2010 | 00:11
1219 - Að standa í hurðinni
Bloggleti hrjáir mig. Eftir mörg tilhlaup til að komast vel að orði í upphafi bloggs er ég hálftómur. Því skyldi ég vera að gaspra um pólitík og fréttir. Ég er ómarktækur þar og langt á eftir öðrum, því ég er svo seinn að hugsa. Fer kannski sæmilega með íslenskt mál en er enginn hæstiréttur þar eins og mér finnst Eiður Guðnason vilja vera.
Sumar villur fara verr í mig en aðrar. Get bara ekki að því gert. Ein af þeim villum sem fylla mig jafnan hryllingi er þegar ég sé að ekki er gerður greinarmunur á hurð og dyrum. Eftirfarandi var í fréttafrásögn á visir.is nýlega:
Þá var vinkonu stúlkunnar varnað inngöngu í herbergið þar sem kynmökin fóru fram en einn af mönnunum stóð í hurðinni og meinaði henni að hafa afskipti af vinkonu sinni."
Samkvæmt mínum málskilningi er alveg útilokað að maðurinn hafi staðið í hurðinni. Hurðin hefði eflaust staðið í honum ef hann hefði reynt að éta hana.
Tvennt er mér einkum uppsigað við í íslenskuaðfinnslum Eiðs Guðnasonar. Hann er of smámunasamur og hann er of hrokafullur í orðalagi.
Kosningum til stjórnlagaþings er nú lokið og ekki er hægt að kvarta undan tíðindalitlum stjórnmálum. Mér leiðist samt mjög sá siður bloggara að taka sem allra sterkast til orða og fordæma hástöfum allt sem miður fer.
Nú er þriðja árið frá Hruninu mikla hafið. Enn eru menn að glíma við afleiðingar þess og ekki er að sjá að hlutirnir gangi vel. Því fer þó fjarri að við Íslendingar séum almennt komnir á vonarvöl þó svo virðist oft vera miðað við fréttaumfjöllun.
Lífskjör okkar eru kannski lakari en við vonuðum en svipað má segja um allan hinn vestræna heim. Sífelld og viðvarandi útþensla þar hefur stöðvast. Kannski er sú þróun engum til góðs en ekkert er við henni að gera. Endurreisn Íslands eftir hrunið mikla hefði kannski gengið betur ef erfiðleikar okkar væru einstæðir í veröldinni. Svarið við þessum erfiðleikum er ekki að fara í fýlu og loka sig af.
Því er haldið fram í fullri alvöru að Bjarni Benediktsson sem sjálfstæðismenn hafa kjörið sér til forystu sé í hjarta sínu ESB-sinni þó andstaða við ESB hafi verið samþykkt á flokksþingi. Formennskan sé þannig í hans huga mikilvægari en sannfæringin. Einnig er því haldið fram að Vinstri grænir muni ekki styðja inngöngu þegar á reynir. Heldur muni þeir leggja sjálfa sig niður eða skipta einu sinni enn um nafn. Þó afstaðan til ESB skipti flokkana miklu máli er ekki sjálfsagt að sú afstaða skipti sköpum á komandi stjórnlagaþingi.
Möðruvellingurinn Ólafur forseti er sífellt að færast lengra og lengra til vinstri segir Torfi Stefánsson. Þetta held ég að sé ekki alveg rétt. Framsóknarflokkurinn er greinilega ekki neinn vinstri flokkur lengur en ég held að Ólafur hafi alltaf verið afturhaldskommatittur". Hrunið færði þjóðina alla talsvert til vinstri og Ólafur talar bara núna eins og þjóðin ætlast til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2010 | 00:20
1218 - "Sæl vertu Sigurjóna"
Það stendur mikið til. Verið er að stofna nýtt símafélag í landinu. Allir helstu menn ríkisins eru samankomnir í húsakynnum símafélagsins. Samgöngumálaráðherrann sjálfur er þarna. Hann heitir hvorki meira né minna en Halldór Blöndal og er mættur á svæðið í eigin persónu. Margt annað fyrirfólk hefur látið tilleiðast að mæta þarna og svolgra í sig kampvín og gæða sér á rándýrum snittum sem nýbúið er að kaupa hjá Jóa Fel.
Tilefnið er heldur ekki neinir smámunir. Nú er verið að setja á stofn farsímaþjónustu sem á engan sinn líka í veröldinni. Búið er að ræða við einn af frægustu sonum landsins, sjálfan stórsöngvarann Kristján Jóhannsson og gefa honum eitt stykki símtæki af dýrustu og fullkomnustu gerð. Svo heppilega vill til að hann er einmitt núna staddur í Moskvu að máta ballettklæðnað.
Bráðheppilegt er að sýna pöplinum yfirburði þessa úrvalskerfis með því að hringja beinustu leið til höfðuborgar Rússlands og auðvitað er öllum herlegheitunum útvarpað beint á vegum Ríkisútvarpsins eina og sanna.
Ráðherrann gengur nú fram undir lúðrablæstri, tekur gullslegið símtæki og eftir að hafa fengið aðstoð við að velja númerið byrjar símtækið að hringja og allir halda niðri í sér andanum.
Hringingarnar kveða við bæði í salnum og útvarpinu. Eftir dágóða stund kemur kvenmannsrödd í símann og segir halló".
Ráðherrann hafði að sjálfsögðu reiknað með að Kristján sjálfur mundi svara í símann en er afar fljótur að átta sig og kemst næstum samstundis að raun um að þetta hljóti að vera eiginkona hans. Svo heppilega vill til að hann veit uppá hár hvað hún heitir enda eru ráðherrar og alþingismenn jafnan mjög vel að sér um alla hluti.
Ráðherrann segir því hátt og hressilega svo heyrist vel um allan afgreiðslusalinn og kveður að sjálfsögðu einnig við í útvarstækjum landsmanna um allt land.
Sæl vertu Sigurjóna."
Konan á hinum enda línunnar er því miður ekki Sigurjóna og svarar ráðherranum með því að segja nokkur orð á rússnesku. Sennilega þýða þau að hún skilji hann ekki almennilega.
Við aumir útvarpshlustendur fáum hinsvegar aldrei að vita það því klippt er samstundis á beinu útsendinguna.
Já, þetta gerðist í raun og veru. Auðvitað er þetta svolítið orðum aukið og vel hefði verið hægt að segja frá þessu í styttra máli.
Með þessu lýkur sagnagerð minni á þessum degi og annað tekur við.
Það er enginn úr atvinnulífinu sem komst inn á stjórnlagaþingið nema ég," sagði Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu. Og svo fylgdi mikið hrós um Jón Val Jensson.
Það er oft gaman að Pétri. Verst hvað sumir eru leiðinlegir sem alltaf eru að hringja í hann en hann verður víst að vera almennilegur við þá líka, annars mundu svo fáir hringja. Pétur virðist telja að Þorvaldur Gylfason og flestallir á þinginu nema hann séu svo vinstrisinnaðir að verkjum valdi.
Sumir fastagestirnir hjá Pétri eru reyndar alls ekkert leiðinlegir. Jón Valur messar kannski stundum fulllengi og Eiríkur Stefánsson hljómar alltaf eins og hann sé að farast úr æsingi.
Pétur segist ekki vera neitt neikvæður en hann er það samt yfirleitt. Útvarp Saga er neikvæð útvarpsstöð og þessvegna aukast vinsældir hennar. Almenningur er nefnilega neikvæður þó mikið beri á kröfunni um jákvæðni.
Svonefndar skoðanakannanir sem gerðar eru mjög oft á Útvarpi Sögu eru yfirleitt bara kannanir á því hve vel boðskapur stöðvarinnar hefur komist til skila.
Mér sýnist að eitt helsta ágreiningsefnið á komandi stjórnlagaþingi geti orðið spurningin um það hvort leggja skuli frumvarp um nýja stjórnarskrá beint í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi hefur fjallað um það og hvort það megi. Ólíklegt er að svo fari en þó bendir allt til að þjóðaratkvæðagreiðslum muni fjölga á næstunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)