Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
21.12.2010 | 00:08
1237 - Vei, nú fer daginn að lengja
Óánægða liðið í vinstri grænum er að reyna að sveigja stefnu ríkisstjórnarinnar til vinstri. Held ekki að um neina raunverulega uppreisn sé að ræða. Hún gæti samt komð þegar ESB umræðan kemst á alvarlegra sig. Það gerir hún hugsanlega áður en kjörtímabilinu lýkur.
Man vel eftir mínum fyrsta stjörnufræðitíma. Þá var ég í barnaskóla og Helgi Geirsson skólastjóri var að kenna okkur landafræði eða eitthvað þessháttar. Snúningur jarðarinnar kringum sólu kom af einhverjum ástæðum til tals. Helgi tók þá hnattlíkan, sagði mér að standa upp og standa á miðju gólfinu. Sagði að ég væri sólin og gekk síðan umhverfis mig haldandi á hnattlíkaninu og sagði að jörðin gengi umhverfis sólu á sama hátt. Með þessu vaknaði svolítill skilningur hjá mér á gangi himintungla og ég hef alltaf búið að þessari grunnþekkingu síðan.
Um líkt leyti kenndi Þórður á Grund okkur smíði. Hann tók eitt sinn tvær fjalir sem ég var að burðast við að hefla til og sýndi honum, lagði þær hlið við hlið, kíkti á milli þeirra og sagði: Það má alveg sjá gang himintungla í gegnum þetta." Ég skildi strax að þetta var ekki nógu gott þó ég hefði aldrei fyrr heyrt talað um himintungl og þekkti ekki orðið.
Þetta með stjörnufræðina datt mér í hug vegna þess að nú er víst stystur dagur. Í gamla daga var sagt: Þremur nóttum fyrir nóttina helgu...." Hugsið ykkur það. Nú fer daginn að lengja og skammdegið hopar. Eins gott að skilja sæmilega af hverju allt þetta stafar. Ísland er of norðarlega á hnettinum. Það þyrfti að vera sunnar. Líka er víst tunglmyrkvi í fyrramálið.
Talaði eitthvað um það í síðasta bloggi að hugsa upphátt. Það er einmitt eitt af því sem ég hef gert alla ævi. Man vel eftir kalli á Elliheimilinu sem talaði mikið við sjálfan sig. Þetta var þegar ég var krakki. Hann talaði svo mikið og hátt við sjálfan sig að hann heyrði lítið í öðrum og var ekkert að hafa fyrir því að lækka róminn þegar hann mætti fólki. Nú rökræða allir við símann sinn hvar sem er og þykir ekki tiltökumál.
Já, bloggið er bara þannig að þar er hægt að blanda öllu saman. Þar er hægt að gera margt sem ekki er gerlegt annars staðar. Á fésbókinni er tilgangslaust að predika yfir fólki og reyna að ná valdi yfir því með vönduðum skrifum. Fáir fara þangað nema rétt sem snöggvast. Hafa hana kannski í opnum glugga meðan þeir gera eitthvað annað.
Annars finnst mér stjórnmálaumræðan á blogginu ansi illvíg á köflum. Fer stundum út í kúk og piss og síðan jafnvel dauða og djöful. Reyni að hemja mig þó oft finnist manni ástæða til að vera stóryrtur. Fésbókin er betri í slíkt. Segi ég af því ég kann ekki almennilega á hana.
Nú er ég loksins búinn að átta mig á hvað er svona merkilegt við 7. janúar. Það er hvorki meira né minna en The International Silly Walk Day".
Lesendur bloggsins mín í gær voru fleiri en vanalega. Það er tilfallandi og stafar líklega af því að ég fjallaði um mál sem er ofarlega á baugi og fyrirsögnin bar þess merki.
Ljósið kemur langt og mjótt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2010 | 00:16
1236 - Fátæktarbiðraðir o.fl.
Fátæktarbiðraðirnar hjá svonefndri Fjölskylduhjálp og öðrum eru til skammar. Með því að auglýsa sig á þennan hátt er verið að reyna að gera allar aðrar tegundir hjálpar við bágstadda lítils virði og misheppnaðar.
Þeir sem mest græða á þessu eru þeir sem selja mér og þér þær vörur sem þarna er verið að dreifa. Þó kamerumennirnir forðist að sýna framaní fólkið sem þarna er, fer það ekki framhjá neinum að það eru einkum vörurnar og samtökin sem verið er að auglýsa. Sjónvarpsmönnunum er vorkunn. Þeir sýna bara það sem þeir vita eða halda að áhorfendur vilji sjá og taka ekkert afstöðu með einum eða neinum í þessu efni.
Við gætum alveg verið án alls þessa. Hætt að minnast á það og látið eins og það sé ekki til. Þannig var það að mestu áður. Og þannig finnst mörgum að það eigi að vera. Það gæti hinsvegar orðið til þess að matargjafir sem samtökunum áskotnast minnkuðu verulega. Hver hefur áhuga á að gefa ef engin er auglýsingin? Bara þeir sem eru skikkaðir til þess.
Þannig er þeim sem raunverulega vilja hjálpa þeim sem verst eru settir komið í mikinn vanda. Ég hef aldrei gefið neitt og þarf ekkert að auglýsa svo ég get gagnrýnt þetta án þess að eiga mikið á hættu.
Páll Ásgeir Ásgeirssson er að draga svolítið í land varðandi endalok vinstristefnu sinnar. Hann tók samt þannig til orða að afsakanlegt er að álíta að hann hafi verið að sýna öllu liðinu rauða spjaldið. Eina rökræna ástæðan sem ég sé fyrir þessum sinnaskiptum Páls Ásgeirs er að hann sjái eftir öllu saman.
Það var Icesave sem endanlega setti Pál Ásgeir útaf sporinu. Ég á svosem líka á hættu líka að lenda útaf sporinu. En ekkert endilega útaf Icesave. Er einn af þeim sem frá upphafi hef verið fylgjandi samningum um það mál. Þeir sem héldu því fram að betri samningum væri vel hægt að ná reyndust hafa rétt fyrir sér. Svo einfalt er það í mínum huga. Hvort þeir halda áfram að hafa rétt fyrir sér finnst mér mikið vafamál.
Mér finnst ekkert sjálfsagðara að samningamenn Breta og Hollendinga séu að reyna að svína á Íslendingum en að Íslendingar séu að reyna að sleppa betur frá þessu máli öllu en þeir eiga skilið. Í öllum samningaviðræðum reyna menn að komast eins langt og þeir geta. Eru íslensku samningamennirnir komnir á endastöð? Veit það ekki. Kannski.
Endur fyrir löngu las ég jafnan Spegilinn - samvizku þjóðarinnar. Þar var fastur þáttur sem hét Rakarinn minn sagði...." Höfundur þess spjalls var sagður heita Faraldur." Hann sagðist vera blaðamaður og vera sífellt á ferð og flugi. Hann var líkur mér að því leyti að hann óð jafnan úr einu í annað. Mun fyndnari samt. Kannski er það ekki síst hann sem ég er að reyna að stæla með bloggskrifum mínum núna.
Ég hef fengið að heyra það að orðalag mitt þykir svolítið forneskjulegt á köflum. Það læt ég mér gjörsamlega í léttu rúmi liggja. Jón Pálsson er svolítið fornlegur í orðavali stundum í Austantórum sínum. Mamma hans var t.d. hreint engin skerjála.
Hvers vegna í ósköpunum hef ég svona gaman af að blogga? Jú, þetta er mín aðferð við að hugsa upphátt. Að hugsa upphátt er að halda vitfirringu heimsins frá sér. Hún á ekki eins greiðan aðgang að sálarlífinu með því móti. Nú er ég orðinn alltof hátíðlegur svo það er best að hætta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2010 | 00:09
1235 - Slakað á sultarólinni
Ég er ekki frá því að Íslendingar séu almennt að slaka örlítið á sultarólinni. Nú eru þriðju kreppujólin að nálgast. Erum við ekki að byrja að fjarlægast botninn? Ég held það. Hef aldrei heyrt talað um góðæri fyrr en það hefur verið liðið. Meðan það stendur yfir hef ég alltaf misst af því. Einhverntíma seint á næsta ári kann það að koma í ljós að skýrslur allar þó ófullkomnar séu bendi til þess að við höfum byrjað að rétta svolítið úr kútnum um áramótin sem nú eru yfirvofandi.
Fór aðeins út að labba í morgun (laugardag). Það var um tíuleytið og byrjað að birta og allt. Var með símann minn eins og vanalega en þjónustusvæðið virðist ekki ná útí Nauthólsvík. Nenni ekki að fárast yfir því. Fáir voru á ferli. Aðallega skokkarar og hjólreiðafólk. Mætti þó einum skíðagöngumanni sem var reyndar á hjólaskíðum enda afskaplega lítill snjór.
Icsave-umræðan er mikil þessa dagana. Ég get ekki að því gert að mér finnst málflutningur ríkisstjórnarinnar yfirleitt meira sannfærandi í því máli en málflutningur stjórnarandstöðunnar. Ábyrgðarleysið þar er oft geigvænlegt.
Einhver kom í sjónvarpið um daginn og sagði að lagarök Íslendinga varðandi ábyrgðarsjóð og þess háttar væru sterk. Hinsvegar væru rök varðandi mismunun veik.
Þessu hef ég einmitt alltaf haldið fram. Neyðarlögin svokölluðu voru hrikaleg mistök. Við tryggjum allar innstæður sögðu ráðherrarnir hver um annan þveran og það var samþykkt í neyðarlögunum.
Eftirá kom í ljós að þetta átti ekki að gilda gagnvart Bretum og Hollendingum. Svona mismunun er bara ekki liðin. Við höfum samþykkt að mannréttindasáttmáli Evrópu gildi hérna og þar með viðgengst ekki svona lagað.
Breytingar á röð krafna við gjaldþrot er allt annað mál. Ef inneignir á bankareikningum verða rétthærri en aðrar kröfur getur það leitt til þess að við sleppum betur frá Icesave uppgjörinu en ella ef miðað er við þann samning sem nú er verið að ræða um.
Í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu var séra Eggert Sigfússon í Vogsósum prestur í Selvogi. Þjónaði hann þá vitanlega hinni forríku Strandarkirkju sem þar stendur. Margar sögur eru til um Eggert þennan í Vogsósum og minnist Jón Pálsson talsvert á hann í Austantórum sínum. Hann var einstæðingur og á margan hátt einkennilegur bæði í útliti og háttum en réttsýnn og heiðarlegur svo af bar. Jón Pálsson segir meðal annars frá því þegar hann (Jón) stóð fyrir því að orgel var fengið í Strandarkirkju og er sú frásögn öll hin skemmtilegasta og vel sögð.
Ekki má rugla Eggerti þessum saman við hinn fræga galdraprest sem einnig var kenndur við Vogsósa. Hann fæddist árið 1638 og hét reyndar Eiríkur og var Magnússon.
Þegar ég vann á Stöð 2 var þar starfandi félagsskapur sem fætlingar nefndist. Allir karlmenn gátu orðið fætlingar en kvenfólk ekki. Reynt var að láta þennan félagsskap líta út fyrir að vera afar merkilegan og leyndardómsfullan. Aðeins tvennt var þó einkennilegt við hann. Á fundum urðu allir að vera berfættir á annarri löppinni og þegar einhver var ávarpaður átti að nota eftirnafnið. Fundir voru afar óreglulegir og einkum var þar um vörukynningar að ræða. T.d. man ég eftir að hafa fengið að smakka vín þar. Annars voru fundarsköp og efni fundanna afar laus í reipunum. Ég man varla eftir að hafa farið nema á svona þrjá til fjóra fundi í þessu merka félagi.
Menn verða að vara sig þessa dagana á því að minnast ekki í sínu bloggi á einhverjar ákveðnar (nýútkomnar) bækur eða einhverja hluti sem fást. Þetta gæti haft áhrif á jólapakkainnihald og jafnvel minnkað spenning í einhverjum tilvikum. Ósköp væri desember annars leiðinlegur ef ekki væri jólastandið.
Pælingarnar í athugasemdum síðasta bloggs eru áhugaverðar. Já, ég er að reyna að beina fólki þangað af því þar er hrós um mig og mitt blogg. Þar eru stundum athyglisverðustu hlutirnir og mest hætta á að maður missi af þeim. Í sambandi við skiptingar á bloggum og fólki datt mér í hug að bloggum má gjarnan skipta í flokka eftir því hvort þau eru viðbrögð (jafnvel ósjálfráð taugaviðbrögð) við einhverju áreiti eða bara hugleiðingar bloggarans eitthvað út í loftið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.12.2010 | 00:24
1234 - Blogg og aftur blogg
Þessi færsla verður bara um blogg. Blogg í öllum regnbogans litum. Er blogg fjölmiðlun? Er ég þá hluti af fjórða valdinu svokallaða? Bara af því ég hef gaman af að blogga? Held ekki. Þó meira en hundrað gestir líti yfirleitt hingað inn daglega samkvæmt Moggabloggsteljaranum (sem gæti verið lyginn) er ofrausn að kalla þetta fjölmiðlun. Fjölmiðill hlýtur að vera miðill sem mikill fjöldi skoðar reglulega.
Sumir skoða sinn fjölmiðil nokkuð vel og aðrir verr eins og gengur. En hve marga þarf til að mynda mikinn fjölda"? Það er þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Menn hafa afar mismunandi hugmyndir um slíkt. Fréttatengdu bloggin sem oftast eru stutt og hengd í vinsælar fréttir mörgum sinnum á dag hafa heilmikið forskot hvað þetta snertir og gætu sum líklega kallast fjölmiðlar.
Þetta segi ég ekki af því að mér þyki vinsældaberin súr. Mín skrif eru vinsælli en ég get með sanngirni ætlast til. Auðvitað er það rétt að lítið spennandi væri að blogga með látum eins og ég geri ef lesendur væru alveg örfáir. En hvað eru örfáir"? Þarna stendur hnífurinn aftur í kúnni.
Var að taka eftir því að númerið á þessu bloggi er áhugavert. En ég hef ekkert hugsað mér að hætta þessari númerasérvisku. Á því má þekkja mín blogg. Stundum skrifa ég mikið, stundum lítið, og öðru hvoru jafnvel ekki neitt. Stundum um margt, stundum fátt. Stundum er ég blár, stundum rauður og allt þar á milli. Pólitík hata ég en get samt ekki látið vera að minnast á hana.
Bloggið sem slíkt er mitt áhugamál. Fésbókin finnst mér ruglandi og ómerkileg. Er vinstri sinnaður og fylgjandi aðild að ESB. Skrifa fremur sjaldan um sjálfan mig nema þá helst í endurminningum. Þar er ég að mestu þurrausinn í bili og óttast auk þess að endurtaka mig um of ef ég fer að skrifa um svoleiðis lagað.
Í gegnum glerið - málverkasýning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.12.2010 | 00:12
1233 - WikiLeaks, stjórnlagaþing o.fl.
Held ég hafi beinlínis látið þess getið í lok síðasta bloggs að nú myndi ég fjalla eitthvað um það sem nefnt er hér í fyrirsögninni.
Sögunni um WikiLeaks er alls ekki lokið. Beðið er eftir bankahneyksli og reynt að koma Assange til hjálpar. Stjórnvöld margra landa eru þó mjög hikandi við að taka af skarið. Vilja forðast að styggja Bandaríkjastjórn. Stórmannlegt er það ekki en skiljanlegt. Íslensk stjórnvöld gætu sem best tekið að sér að hýsa WikiLeaks-skjölin og lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, því ekki hefur sannast að stjórnendur WikiLeaks hafi gert neitt ólöglegt. Hérlend stjórnvöld liggja hundflöt fyrir Bandaríkjastjórn í sumum málum en hafa gengið þvert gegn vilja hennar í öðrum.
Jónas Kristjánsson hinn orðhvati fyrrum ritstjóri bauð sig fram til stjórnlagaþings. Satt að segja reiknaði ég með að hann væri með öruggustu mönnum inn á þingið. Svo fór þó ekki. Á bloggi sínu skrifar hann nú hverja greinina eftir aðra um hvernig taka skuli á málum á þinginu. Einnig skrifar hann um ýmislegt annað og satt að segja getur vel verið að meira gagn sé að honum við þau skrif en hefðu orðið á stjórnlagaþinginu.
Fylgdist dálítið með Alþingisumræðum í dag. Ríkisstjórnin missti fjárlagafrumvarpið næstum út úr höndum sér. Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Dalamaður studdu ekki frumvarpið og er ríkisstjórnin veikari á eftir.
Síðan var byrjað að ræða Icesave-málið. Mat mitt er að Bjarni Benediktsson og langflestir þingmenn sjálfstæðisflokksins muni á endanum greiða atkvæði með nýja samningnum og hann því verða samþykktur með verulegum meirihluta. Fari svo hef ég ekki trú á að ÓRG muni neita að skrifa undir lögin en hann muni e.t.v. gera það ef samningurinn verður naumlega samþykktur.
Hef verið að lesa undanfarið í Austantórum Jóns Pálssonar. Merkileg bók og eftirminnileg. Unga fólkið í dag gerir sér litla grein fyrir þeim erfiðleikum sem forfeður okkar þurftu oft á sig að leggja við það eitt að hafa í sig og á auk nauðsynlegra ferðalaga. Eftirminnilegustu frásagnirnar sem ég las í gærkvöldi eru annars vegar um ferjur og hins vegar um kindur. Hér með eru þeir varaðir við sem lítinn áhuga hafa á slíku.
Það var ekki fyrr en um 1890 sem fyrst kom brú á Ölfusá og nokkrum árum síðar á Þjórsá. Fyrir þann tíma voru lögferjur á helstu stórám og þessar tvær voru að sjálfsögðu þar á meðal. Jón Pálsson þekkir að sjálfsögðu best ferjurnar og ferjustaðina á Ölfusá sem voru við Óseyrarnes og Kotferju. Einnig var oft farið á milli hverfa sem kallað var eða milli Arnarbælis í Ölfusi og Kaldaðarness. Á vetrum var oft íshröngl í ánni og hún erfið yfirferðar. Mestu hættuna töldu ferjumennirnir sjálfir þó oftast vera ef margir biðu ferjunnar í einu því þá var bæði hætt við troðningi miklum og að ferjan yrði ofhlaðin. Væri ágjöf að ráði þyngdist farangur oft mjög og jókst þá ágjöfin að sjálfsögðu og gat ferjan sokkið. Slys voru samt fátíð en komu fyrir, einkum vegna ofhleðslu.
Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu til Krísuvíkur. Lét hann þá um haustið reka flest sauðfé sitt samtals 1207 fjár, þangað. Var fjárrekstur þessi allur fluttur yfir Ölfusá á ferjustaðnum í Óseyrarnesi. Ferjutollurinn fyrir flutning þennan allan var talinn að hafa verið 7 kindur fullorðnar á ýmsum aldri og mismunandi að gæðum."
Þessi klausa er orðrétt úr Austantórum og því má bæta við að flutningur þessi var á engan hátt merkilegur þó féð væri margt. Flestallt féð fórst hinsvegar fljótlega og það var óvenjulegt. Bæði varð það dýrbít að bráð en einkum týndi það lífinu vegna stroks. Svo var heimþráin sterk í kindunum að þær hentu sér hiklaust til sunds í stórárnar og fórust hópum saman við að reyna að komast yfir þær. Um 60 kindur komust austur undir Eyjafjöll og voru handsamaðar þar. Einungis einn sauður og ein dilkær með lambi sínu komust alla leið í heimahagana við Kirkjubæjarklaustur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.12.2010 | 00:09
1232 - Icesave og ESB
Það er erfitt að komast hjá því að velta Icesave fyrir sér. Flestir vilja að sjálfsögðu losna við það leiðindamál. Alþingi kemst þó ekki hjá því að taka afstöðu til þess og við sem fjölyrðum um þetta mál á bloggi og annars staðar teljum sjálfum okkur líklega trú um að með því séum við að hjálpa til við að mynda það almenningsálit sem þingmennirnir taka mark á.
Sé ekki betur en það sé að miklu leyti sama fólkið sem myndar þann meirihluta sem vill senda Icesave-málið eins og það leggur sig í einhvern dómstól, með þeirri áhættu sem því fylgir, og er einnig algerlega á móti aðild Íslands að ESB án nánari skoðunar. Ef því verður að ósk sinni með það fyrra, sem vel getur orðið með hjálp ÓRG, þá verður erfiðara að ná fram því síðarnefnda. Eða af hverju ætti fólk að setja sig upp á móti ESB-aðild ef Icesave er komð út í hafsauga? Makríllinn gæti meira að segja hjálpað aðildarsinnum.
Icesave-krónurnar skipta að sjálfsögðu máli en aðildin að ESB getur þó orðið afdrifaríkari til lengri tíma litið. Þannig var með EES-málið. Það er einfalt að vera á móti því núna og engin leið að segja neitt til um hvar við værum á vegi stödd ef það hefði aldrei komið til.
Þór Saari og Lilja Mósesdóttir taka stundum að sér að útskýra flókna hluti fyrir fáfróðum fréttamönnum. Oftast eru þau sammála um vesaldóm ríkisstjórnarinnar og vel að sér um marga hluti. Og Lilja er ekki rassgat hrædd við Séra Steingrím og endar sennilega með því að fella ríkisstjórnina með hjálp Ömma frænda.
Einhverntíma heyrði ég þá sögu að ef Kínverjar (eða voru það kannski Indverjar) tækju uppá því allir sem einn að skeina sig með pappír eins og við höfum vanist hér á Vesturlöndum þá mundu allir skógar á jörðinni fljótlega klárast.
Kannski er þetta eitthvað orðum aukið og ekki kann ég að reikna svona dæmi en minnist einnar sögu um listamanninn og reikningshausinn Sölva Helgason.
Einhverntíma sagði hann frá því að hann hefði farið í keppni við frægan franskan reiknimeistara. Sá franski byrjaði á þvi að reikna barn í svertingjastúlku lengst suður í myrkviðum Afríku. Að því loknu tók Sölvu við og reiknaði og reiknaði allt þar til hann hafði reiknað barnið úr henni aftur með mikilli fyrirhöfn og taldist þar með hafa sigrað í þessari viðureign.
Einu sinni var nóg að fylgjast með helstu bloggurum og blogg-gáttinni, auk þess að hlusta vel og vandlega á fréttir í sem flestum miðlum, til að fá hugmynd um hvað væri efst á Baugi (pun intended). Nú hefur maður varla við að kíkja á ný vefsetur. BrusselLeaks.com og T24.is eru bara þau allra nýjustu sem ég hef séð en kannski hundgömul samt. Á uti.is bloggar Sigrún Davíðsdóttir því sem næst daglega. Ég er svo íhaldssamur að ég er enn að flækjast á Moggablogginu þó flestir séu farnir þaðan. Reyni að auki að hafa skoðun á sem flestu. Það er samt að æra óstöðugan því hlutirnir breytast svo ört. Fésbókin er sennilega svarið við því. Þar má setja inn komment eða skrifa á vegginn sinn allan liðlangan daginn. Ég sem blogga yfirleitt bara einu sinni á dag er að dragast mikið afturúr.
Atkvæðagreiðslan stendur yfir. Það er samþykkt." Segir Ásta Ragnheiður hin röggsama óðamála mjög. Ekki tekst samt að ljúka atkvæðagreiðslunni í tæka tíð. Öll sú nútímatækni sem innleidd hefur verið í þingsali dugar ekki til þess. Finnst fólki í alvöru taka því að vera að sjónvarpa beint svona rugli? Jæja, mér er sama. Get svosem slökkt á þessu.
Ef skammdegisþunglyndi kvelur suma Alþingismenn ættu þeir að reyna að laga það með öðrum ráðum en klukkufikts-frumvörpum. Sumartími var afnuminn hér á Íslandi fyrir allmörgum árum og frekara klukkurugl er óþarfi. Mörg ríki eiga enn við sumartíma að stríða og leggja í talsverðan kostnað tvisvar á ári til að viðhalda því rugli. Dagsbirta getur sem best haft áhrif á líðan fólks og starfsgetu en vel er hægt að ráða bót á því án ríkisrugls.
Stjórn Sólheima í Grímsnesi virðist stunda einskonar fjárkúgun og beitir fötluðu fólki fyrir sig. Þetta er mín skoðun og margra annarra.
Er eftirlitsstofnun EFTA yfir-hæstiréttur Íslands? Ég held ekki. Er nægilegt að ESA (EFTA Surveillance Authority) segi að neyðarlögin svokölluðu séu afsakanleg. Kemur engum öðrum það við?
Nú er ég búinn að skrifa næstum heilt blogg án þess að minnast á WikiLeaks eða stjórnlagaþingið og verð bara að geyma þau mál til morguns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2010 | 00:14
1231 - Icesave og Ungverjaland
Icesave flækist nú fyrir mönnum sem aldrei fyrr. Út af þessu eilífðarmáli er fólk áhyggjufullt sem eðlilegt er. Fylgið hrynur af ríkisstjórninni en þó er ekki útlit fyrir stjórnarskipti. A.m.k. ekki strax sýnist mér. Eyjubloggarinn Páll Ásgeir Ásgeirsson segir m.a. á sínu bloggi:
Það voru Ólafur Ragnar Grímsson grís og kampavínshreyfingin kennd við Indefence sem björguðu oss frá gúlaginu. Þetta er beiskur kaleikur en á honum verður að bergja og viðurkenna það sem rétt er.
Ég fæddist árið sem uppreisnin var gerð í Ungverjalandi. Ég hef kosið vinstri flokka í öllum kosningum sem ég hef haft rétt til að taka þátt í og stutt þeirra málstað og þeirra hugmyndir. Þetta er mitt Ungverjaland og hér lýkur minni samfylgd og mínum stuðningi."
Ég man vel eftir uppreisninni í Ungverjalandi. Þá var fyrirskipuð einnar mínútu þögn um hádegið einn daginn. Þegar að henni kom var kommúnistinn Gunnar Benediktsson að kenna okkur og hann virti þá fyrirskipun sem gefin var. Á eftir minntist hann reyndar á hvernig Bretar og Frakkar höguðu sér við enduropnun Súez-skurðarins en sú aðgerð stóð þá einnig yfir.
Fylgið við að ljúka þessu leiðinda Icesave-máli hefur aukist. En það er erfitt að taka ákvörðun og vel getur verið að áframhaldandi stuðningur við ríkisstjórnina í þessu máli sé rangur. Pál Ásgeir virði ég mikils og kannski hefur stuðningur minn hingað til við að greiða Icesave byggst einkum á tvennu. Ótta við málaferli og óvissu mikilli um úrslit þeirra og afleiðingar annars vegar og hins vegar áhrif Icesave málsins á stuðning við ESB aðild sem ég er fremur hlynntur en hitt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.
WikiLeaksmálið er lifandi enn þó reynt sé að þegja það í hel. Ef tilraunir Bandaríkjastjórnar til þeirrar þöggunar ná fram að ganga er framferði þeirra engu betra en Kínversku alræðisstjórnarinnar. Yfirgangur þeirra er með öllu óásættanlegur.
Hef verið að glugga í Austantórur eftir Jón Pálsson að undanförnu. Jón fæddist að Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi árið 1865 svo það er ekki víst að allir hafi áhuga á þeim bókum þó ég hafi hann. Bækurnar eru í raun þrjár og gefnar út um og fyrir miðja síðustu öld. Fróðlegar og athyglisverðar bækur. Sem dæmi má nefna að þarna eru næstum 100 blaðsíður eingöngu um veðurspár og veðurmerki (t.d. hornriða og fjallsperring).
Allt í einu er ég alveg búinn að missa áhugann á bréfskákunum mínum. Hvernig skyldi standa á því? Það var alls ekkert útaf því að ég stæði neitt verr í þeim svona yfirleitt. Nú er ég kominn í bullandi tímahrak í þeim flestum. Kannski lagast þetta með tímanum. Verði ég þá ekki búinn að tapa öllum skákunum. Sjáum til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2010 | 00:21
1230 - Okkur skjátlaðist
Okkur skjátlaðist, segir Guðmundur Andri Thorsson í mánudagspistli sínum í Fréttablaðinu. Sá hann að vísu ekki þar, en Guðmundur birti hann líka á fésbókinni og þar sá ég hann. Jú, fésbókinni er alls ekki alls varnað. Þetta er ágætur pistill og ég lét það eftir mér að athugasemdast ögn þar. Frá upphafi deilna um þetta mál hefur mér þótt rök andstæðinga um mismunun í neyðarlögunum svokölluðu vera mjög sterk. Bretar og Hollendingar níðast á okkur eins mikið og þeir geta.
En erum við ekki að gera okkur sek um áhættuhegðun ef við höldum áfram að sýna Bretum og Hollendingum fingurinn í þessu máli? Ég hef alla tíð verið hræddur við dómstólaleiðina svokölluðu. Bæði vegna þess að líkur eru á að hún taki mjög langan tíma og einnig vegna þess að hún gæti sprungið illilega í andlitið á okkur.
Davíð gengur laus. Hef það fyrir satt að Davíð Oddsson gangi enn laus þó málsmetandi menn hafi lýst því yfir að hann sé óalandi og óferjandi. Mynd sá ég af honum fyrir löngu þar sem hann var að hefja sig til flugs af þaki Seðlabankans á eldflaugaskónum sínum. Kannski komst hann bara upp í Hádegismóa en ekki á braut umhverfis jörðu. Svo er víst komin fram tillaga um að Davíð komi í stað dýrsins í söngnum alkunna þar sem talað er um að dýrið gangi laust.
Mér leiðast svona pólitískir fimmaurabrandarar. Skrýtlur sem maður skilur alls ekki í byrjun eru þær bestu. Nefni samt engin dæmi. Það gæti misskilist.
Af hverju skyldi ég vera svona miklu hliðhollari blogginu en fésbókinni? Og vera þar að auki Moggabloggari? Skil það bara ekki. Er að hugsa um að senda vísindavefnum fyrirspurn um það.
Þegar ég fer að gá að einhverju á netinu er ég yfirleitt búinn að gleyma áður en leitinni er lokið að hverju ég var að gá og farinn að skoða eitthvað allt annað. Þetta hlýtur að vera vegna þess hve netið er hægvirkt hjá mér. Ekki er ég orðinn svona ruglaður.
Best af öllu er að ánetjast hvorugu, blogginu eða fésbókinni. En það er erfitt. Næstum því eins erfitt og að hætta að borða góðan mat.
Þegar ég fór í megrun - örsaga nr. 4
Um daginn ákvað ég að gerast heilsufrík. Það var óvitlaus ákvörðun hjá mér því ég er satt að segja orðinn svo fótfúinn í seinni tíð að ef veggirnir væru ekki meðfram stiganum niður á jarðhæðina er ég ekki viss um að ég kæmist ódottinn niður.
Eftir langa umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að þó ég væri orðinn heilsufrík þá þyrfti ég ekkert endilega að fara í heilsuræktarstöð. Svoleiðis nýmóðins rusli hef ég nefnilega bara kynnst af myndum og þessháttar í sjónvarpi flestra landsmanna. Þar virðist allskyns pyntingartækjum vera komið fyrir í löngum röðum og fólki komið þar fyrir eftirlitslaust.
Jæja, ég fór þá bara út að hlaupa. Hlaupið varð þó fljótlega að göngu. Og síðan hægri göngu (ekki vinstri). Að lokum stoppaði ég þó því ekki varð lengur hjá því komist að snúa við. En hvað um það, megrun var það.
Dýrindis baðvog keypti ég og kílóunum fækkaði. Gef þó ekki upp mótþróalaust hve mikið. Fljótlega þurfti að fá nýtt battery í vigtina. Það kláraðist innan skamms einnig því ég vigtaði mig í tíma og ótíma. Þá gat ég aftur farið að éta eins og svín og gerði það svikalaust.
Við það fór megrunin dálitið úr skorðum og ég þyngdist í stað þess að léttast. Sú var a.m.k. mín vigtarlausa upplifun.
Svo fór ég að telja kalóríur. Það er víst nauðsynlegt fyrir heilsufrík. Þær voru vel yfir tvö þúsund.
Hráefni í mat tók ég líka í gegn. Í stað þess að fá æði (svokallað mataræði) í hvert skipti sem ég settist til borðs, þá for ég að éta standandi. Hætti því samt fljótlega og hélt áfram að þyngjast. Frekari aðgerðum á þessu sviði er frestað þangað til eftir jól.
Hér fékk Gnarrinn víst merkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2010 | 00:12
1229 - PWC, WikiLeaks o.fl.
Reikningar bankanna rannsakaðir", segir í fyrirsögnum blaða. Nú eru meira en tvö ár liðin frá hruni og mér finnst merkilegt að þetta hafi ekki verið rannsakað fyrr. Ég hef heldur ekki séð neitt um hvernig háttað er sambandi stóru alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtækjanna við íslensku fyrirtækin með sömu nöfnunum. Jenný Stefanía Jensdóttir segir hinsvegar á sínu bloggi:
Allt tal um að sækja megi skaðabætur til PwC LLP aðalstöðvanna er þó út í hött, og þegar lögfræðingar tala þannig afhjúpa þeir fjarvistasönnun úr kennslustund í félagarétti. LLP er fyrir aftan öll helstu endurskoðunar og lögfræðingafyrirtæki heimsins, og þýðir takmörkuð ábyrgð, sem þýðir að félögin bera enga skaðabótaábyrgð ef að önnur fyrirtæki í keðjunni gera sig sek um vanrækslu eða saknæmar athafnir.
Löggiltum endurskoðendum er skylt að hafa ábyrgðartryggingu sem bætir slík tjón, og af fréttum að dæma er tryggingafélag flestra þeirra í London."
Ég hef mikla tilhneigingu til að trúa þessu. Margir yrðu eflaust ánægðir ef bresk fyrirtæki yrðu að greiða Íslendingum skaðabætur vegna þessa.
Mikil ófrægingarherferð stendur nú yfir gagnvart WikiLeaks og Julian Assange. Stuðningur við WikiLeaks virðist þó vera mikill meðal almennings. Líklegt er að fulltrúar Bandaríkjastjórnar hafi ekki gert sér grein fyrir því. Eða þá að óbirt séu skjöl í fórum WikiLeaks sem þeim er mjög í nöp við að birtist. Atlaga þeirra og annarra stjórnvalda að málfrelsi á netinu er dæmd til að mistakast.
Moggabloggarinn Aðalbjörn Leifsson segir í athugasemd við blogg sem reyndar er um sprengingarnar í Stokkhólmi en virðist þó tengjast WikiLeaks.
Þeir sem styðja vinstri hreyfingarnar eru annaðhvort illa gefnir eða illa innrættir nema hvorttveggja sé. Sosialisminn kemur frá helvíti, en hjálpræðið kemur frá Gyðingum.
Múhameð og hans sveinar, taglhnýtingar Satans, fremja óhæfuverk. Hvernig í ósköpunum datt Ariel að gefa eftir land fyrir frið???"
Mér er ekki kunnugt um hvort ummæli sem þessi eru á bloggi Aðalbjörns. Læt svo útrætt um þetta mál að sinni.
Icesave, Icesave, Icesave. Ég er búinn að komast að því eftir langar og ítarlegar rökræður við sjálfan mig að Icesave-málið stendur og fellur með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og er óþarfi að rekja þær merku rökræður hér.
Þær þrjár örsögur sem ég hef hingað til birt á mínu bloggi eru mjög ólíkar að allri gerð. Öðum finnst það kannski ekki og óneitanlega taka þær talsvert pláss. Mér finnst ég ekki vera að apa eftir neinum með þessum sögum. Hef þó hrifist nokkuð af sögum þeim sem Jens Guð hefur borið á borð fyrir lesendur sína.
Nú bregður svo við þegar ég ætla að byrja á fjórðu örsögunni að ég hef ekkert að segja. Auðvitað væri rangt hjá mér að pína sjálfan mig til athafna á þessu sviði og því er ég að hugsa um að hvíla mig á þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2010 | 00:11
1228 - Hvað með fésblogg?
Eflaust mætti fjölyrða lengi um WikiLeaks og stjórnlagaþingið. Um þau fyrirbrigði veit ég miklu meira en um Icesave og gæti talað lengi um mál sem þeim tengjast. En allir vilja tala um Icesave. Icesave þetta og Icesave hitt. Eru ekki allir búnir að fá uppí kok af þessu? Jú jú, þetta eru heilmiklir peningar og það hvernig með þetta allt er farið getur sem best haft áhrif á afkomu okkar til langrar framtíðar. Ég vil samt frekar brjóta heilann um eitthvað uppbyggilegra. Kaus í síðustu þingkosningum fólk sem endilega vildi sjá um þessi mál fyrir mig. Kaus reyndar vitlaust, en ekki þýðir að fást um það. Fæ vonandi síðar tækifæri til leiðréttingar.
Óskar Þorkelsson segir að bloggið sé leiðinlegra en fésbókin. Þetta er sjónarmið sem ég hef heyrt fyrr. Kannski er það rétt. Ég er samt haldinn þeirri barnalegu trú að bloggskrif séu eitthvað varanlegri en fésbókarskrif. Sennilega er það vitleysa. Ég er bara orðinn svo vanur blogginu og það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja.
Fésbókin er að því leyti verri en bloggið að hún hagar sér aldrei eins og maður heldur að hún eigi að gera. Aftur á móti er ég farinn að skilja bloggið ágætlega þó ég sé farinn að hasast upp á að lesa annarra manna blogg. Fésbókin er án vafa fjölhæfari en bloggið og þar er hægt að gera fleira. Veldur fíkn segja sumir.
Ég hef reynt að hafa bloggin mín ekki mjög löng. Þau eru samt lengri en fésbókarinnlegg eru yfirleitt. Að sumu leyti eru þau kannski lík blaðagreinum. Þar reyna menn þó að halda sig við eitt efni. Það geri ég ekki. Fésbókin finnst mér vera sambland af sorteruðu bloggi, stuttum athugasemdum og tölvupósti.
Hvað er það sem einkennir mig sem bloggara? Það er sennilega úrvaðelsið úr einu í annað og dönskusletturnar. Þannig slettur eru alveg komnar úr tísku. Margir bloggarar reyna að halda sig við efnið í heilt blogg en mér er alltaf svo mikið niðri fyrir að ég þarf að koma ýmsu að. Jafnvel þó ég bloggi daglega. Hvernig væri ég ef ég bloggaði bara vikulega?
Í seinni tíð er ég svo farinn að taka upp á því að lengja bloggin mín með því að semja örsögur. En ég lofa því að enda bloggir mín alltaf á þeim ef ég set þær hér á annað borð. Þá er auðvelt að sleppa þeim. En mér finnst þær best geymdar á blogginu. Annars týnast þær bara. Eins er það með vísurnar sem ég geri stundum. Þær eru yfirleitt einnota og lítil ástæða til að geyma þær.
Þegar hún Mýsla lamdi á puttana á sér. - Örsaga númer 3.
Þetta byrjaði allt með því að ég sá ofsjónum yfir kjötbollunum sem Angantýr gleypti í sig. Hann var ekki vanur að láta svona. Síður en svo. En í þetta sinn sagðist hann vera sársvangur og ekki hafa bragðar matarbita i tvo daga.
Það var heldur enginn sem hafði sagt mér að flutningadallurinn væri sokkinn. Man ekki einu sinni hvað hann heitir. Eða hét. Skilst að botnventillinn hafi bara gleymst í landi. Sel það samt ekki dýrara en ég keypti.
Á útmánuðum hafði Sigtryggur fengið vörtu á hægri kinnina og þó allt væri gert til að losa hann við hana, náðist hún ekki af. Engum datt í hug að leita læknis enda tók Sigtryggur sjálfur það ekki í mál.
Þannig voru öll teikn sem bentu til þess að grjónagrauturinn hafi verði of heitur þegar reynt var að hella honum ofaní kindurnar í Skjálg. Sumir sögðu reyndar að það hefði bara vantað í hann rúsínurnar til að hann hefði virkað eins og hann átti að gera.
Samt hefði ugglaust verið betra að leyfa aumingjanum honum Bergþóri að hafa sína hentisemi við rögunina. Þá hefði ekki hrunið svona mikið úr bakkanum þegar Jón gamli ætlaði að sækja orma fyrir púddurnar sínar.
Eftir því sem Ólínu var sagt þá hefði alls ekki átt að leyfa stelpunum að baka svona mikið. Það gat enginn étið öll þessi ósköp. Hundurinn náði sér heldur aldrei.
En nú er ég búinn að opna svo marga þræði að ég man ekkert hvað ég ætlaði að segja. Og svo er fyrirsögnin alveg eftir.
Eins og sjá má er Siglingastofnun ríkisins til húsa hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)