Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

1217 - Krassandi skrif

Jú, það er rétt. Bloggin hjá mér eru aldrei verulega krassandi. Hvernig skyldi standa á því? Ein ástæðan er sú að ég lifi ekkert sérlega krassandi lífi. Ég er heldur ekki að reyna neitt sérstakt til að gera skrif mín sem mest krassandi. Þeir sem eru að leita að slíku verða að fara annað. Ég skrifa bara nokkurn veginn það sem ég hugsa um og mér dettur í hug. Ef einhverjir nenna að lesa það er það bara gott mál.

Samt hef ég lúmskt gaman af að lesa krassandi bækur. Sú sem ég er að lesa núna er gefin út af Almenna bókafélaginu árið 1990, heitir „Blóðugur blekkingaleikur" og fjallar um einræðisherrann Ceausescu í Rúmeníu.

Ef ég hefði lesið þessa bók meðan Ceausescu var enn á lífi hefði ég lagt fremur lítinn trúnað á margt sem í henni stendur. Nú trúi ég flestöllu sem þar er að finna þó atburðir séu oft nokkuð færðir í stílinn. Fyrrverandi yfirmaður rúmensku leyniþjónustunnar er skrifaður fyrir bókinni.

Aftaka Ceausescuhjónanna um jólin árið 1989 er með eftirminnilegustu fjölmiðlaatburðum. Aftaka Saddams Hússein er það einnig. Dauðarefsingar sem slíkar eru jafnan áhugaverðar. Aftökur í nafni laga og réttar hafa alltaf verið mér nokkuð hugleiknar. Slíkt fór síðast fram á Íslandi um 1830 þegar Friðrik og Agnes voru tekin af lífi. Um það hefur eflaust oft verið skrifað og ég hef engan áhuga á að endurtaka það.

Einu sinni (í fremur stuttan tíma þó) voru aftökur í Bandaríkjunum meðal minna helstu áhugamála. Um þau efni má víða fræðast á netinu og ég leitaði mér jafnan upplýsinga þar. Mér hefur alltaf þótt þær ljótur blettur á þjóðlífi Bandaríkjanna.

Kexvísindin sem fram komu í athugasemdum við færslu mína í gær eru áhugaverð. Svonalagað get ég sökkt mér í þó ég hafi engan áhuga á ýmsu öðru sem aðrir hafa mikinn áhuga á.

Hjávísindi öll eru mér fremur á móti skapi þó ég hafi á sínum tíma bragðað og jafnvel borðað í einhverju magni Kákasusgerilinn fræga. Blöskraði mjög fréttafrásögn Sjónvarpsins í gær um bókina sem inniheldur viðtöl við framliðna Sunnlendinga. Það á ekki af Selfyssingum að ganga. Held að ekki fái allar bækur svipaða auglýsingu hjá Sjónvarpinu. Fréttaskott átti þetta eflaust að vera og verði menn þýfgaðir nánar um þetta munu þeir áreiðanlega halda því fram að þetta hafi verið í gríni gert.

Jæja, þá liggur fyrir hverjir komast á stjórnlagaþingið. Líst ekkert illa á þann hóp. Vona bara að þau fari ekki að festa sig of mikið eða hengja í ákveðnar skoðanir áður en þingið hefst. Hafa áreiðanlega lítinn frið fyrir fjölmiðlum með það.

Eitt eiga flestir bloggarar sameiginlegt. Þeim finnst allir aðrir vera tröllheimskir. Lesa aldrei stjórnarskrána og gott ef þeir hugsa. Svona hugsar venjulegt fólk líka um bloggara. Báðir aðilar hafa rangt fyrir sér. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að gáfur fólks séu mun meiri en virðist við fyrstu sýn. Reyndar eru allir fremur vel að sér á einhverju ákveðnu sviði. Jafnt bloggarar sem aðrir.

Þeir frambjóðendur sem valdir voru til stjórnlagaþingsetu eru kannski ekkert gáfaðri en þeir aðrir sem hægt hefði verið að velja, en svona er þetta. Það er búið að kjósa og nú er bara að bíða og fylgjast með tveimur þingum nú seinni hluta vetrar.

IMG 3848Þang.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband