Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
11.5.2009 | 23:10
681-Um skoðanamyndun og önnur skrýtin fyrirbrigði
Hver er heildarsumma skoðana í ákveðnu samfélagi og hvernig breytist hún? Hvernig hafa skoðanir eins samfélags áhrif á skoðanir annars? Lítum fyrst á hvernig heildar skoðanasumman breytist. Eflaust breytist hún fyrst og fremst með áhrifum þjóðfélagsþegna hver á annan. Hverjir eru svo áhrifamestir í að breyta skoðunum sem flestra? Líklega fjölmiðlarnir.
Skiptir þá ekki máli hvernig fjölmiðlun er háttað, hvaða tækni liggur að baki henni, hvernig hennar er neytt og svo framvegis? Jú, auðvitað. Reyndir og þroskaðir fjölmiðlar vilja þó gera sem minnst úr þessum áhrifum. Best er að skoðanabreytingar fari fram með sem átakaminnstum hætti. Jafnvel Baugsmiðlar og blátt sjónvarp eru sammála um þetta og reyna að leyna áhrifum sínum og ljúga því jafnvel að sjálfum sér að þeir ráði ekki neinu.
Svo koma bloggarar sem allt þykjast vita og telja sjálfum sér trú um að þeir séu fjölmiðlar jafnvel þó sárafáir taki nokkurt mark á þeim. Og bloggarar breiða úr sér eins og hvert annað illgresi og reyna hvað þeir geta að kaffæra hina hefðbundnu og venjulegu fjölmiðla. Þeir verða súrir, finna bloggurum flest til foráttu og reyna að kúga þá sem mest.
Þannig verður til stríð milli stórra og pínulítilla fjölmiðla þar sem hvor reynir að níða skóinn niður af hinum. Svo sameinast þessir vesalings fjölmiðlar og bloggarar þegar útlendingar einsog herra Brown í Bretlandi sparka í Íslendinga. Verst að bretar sjálfir hafa engan áhuga á þessu. Nær væri fyrir íslenska fjölmiðla að sameinast um að gagnrýna íslensk stjórnvöld. Þar eru glappaskotin svo mörg að engin leið er að telja þau.
En hvernig geta skoðanir eins samfélags haft áhrif á skoðanir annars? Breskir fjölmiðlar hafa sérstaka ánægju af að gera lítið úr Íslendingum. Hugsanlega með einhverjum árangri í sínu samfélagi. Hinsvegar eru áhrifin á hið íslenska samfélag allt önnur. Þannig geta áhrifavaldar innan eins samfélags haft áhrif í öðru samfélagi og samfélögin hvort á annað. Eftiröpunaráhrif geta að sjálfsögðu einnig komið til greina.
Twitter eða örblogg á ekki við mig. Ég er búinn að venja mig á ákveðna lengd á bloggum sem ég skrifa og á erfitt með að venja mig af því. Twitterinn hentar samt örugglega ýmsum þó hann sé dálítið keimlíkur fésbókinni. Sumir nota hvað með öðru meðan aðrir festast í einni ákveðinni Netnotkun.
Stundum held ég að sá ávani minn að skrifa allt í lengdum sem passa blogginu (eftir því sem ég tel) hindri mig í öðrum skrifum. Það er samt alls ekki víst enda hef ég ekki skrifað margt um ævina. Að sumu leyti er maður alltaf að blogga fyrir þá sem maður þekkir og þá sem kommenta reglulega hjá manni og reyna að ganga í augun á þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2009 | 21:17
680- Áður fyrr á Samvinnuskólanum að Bifröst
Skólablaðið á Samvinnuskólanum að Bifröst hét Vefarinn. Þar var án efa verið að vísa til vefaranna í Rockdale sem stofnuðu fyrsta kaupfélagið í heiminum. Já, Samvinnuskólinn var menntadeild framsóknarflokksins, sambandsins og kaupfélaganna. Þar stundaði ég nám árin 1959 til 1961. Samt varð ég ekki meiri framsóknarmaður en svo að ég minnist þess ekki að hafa kosið þann flokk nema einu sinni um æfina. Ég taldi mig fremur til svokallaðra Möðruvellinga en þaðan kom Ólafur Ragnar Grímsson ef ég man rétt.
Þó ég hafi ekki kosið framsóknarflokkinn nema einu sinni hef ég kosið flesta flokka aðra, nema sjálfstæðisflokkinn, öðru hvoru. Sjálfstæðisflokkinn hef ég aldrei kosið en verið hallur undir ný framboð. Til dæmis kaus ég frjálslynda og vinstri menn" á sínum tíma og leit á Magnús Torfa Ólafsson sem minn mann.
Baldur Óskarsson var sá af bekkjarbræðrum mínum sem flestir bjuggust við að færi í pólitík. Það gerði hann þó ekki nema að takmörkuðu leyti. Aftur á móti hugsa ég að úr fáum bekkjum hafi komið jafnmargir kaupfélagsstjórar.
Á mínum skólaárum á Bifröst var svona þrisvar eða fjórum sinnum gefið út fjölritaða blaðið Þefarinn". Nafnið var auðvitað stæling á nafni sjálfs skólablaðsins og þar létu menn gamminn geysa um ólíklegustu málefni og þefuðu uppi allskyns hneykslismál. Held að ég eigi einhvers staðar í drasli hjá mér einhver eintök af þessu merka blaði.
Á Bifröst var margt brallað. Meðal annars rákum við innanhúss útvarpsstöð í hátalarakerfi því sem var þar á herbergjunum. Bifröst var nefnilega fínasta hótel á sumrin og útvarpshátalari í hverju herbergi. Mér er minnisstæð morgunleikfimislýsing Baldurs Óskarssonar þar en ætla ekki að fjölyrða um hana hér.
Í anda alvöru stéttaskiptingar voru tveir ljósmyndaklúbbar að Bifröst. Annars bekkingar voru að sjálfsögðu yfirstéttin. Þeir höfðu á sínum snærum ljósmyndaklúbbinn Foto". Þar réði ríkjum sem formaður Kári Jónasson sem seinna varð fréttastjóri ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins.
Öreigastéttin sem við fyrstubekkingar tilheyrðum hafði ljósmyndaklúbbinn Fókus". Þar vildi svo til að ég var kosinn formaður vegna þess að ég hafði fiktað við framköllun áður og þekkti muninn á framköllunarbaði og fixerbaði.
Þetta með stéttaskiptinguna missir kannski dálítið marks því ég man ómögulega hvernig starfsemi ljósmyndaklúbbanna var háttað seinni veturinn minn að Bifröst. Þá var ég samt í öðrum bekk og hefði átt að vera í yfirstéttarklúbbnum Foto", en man bara ekkert eftir því.
Og nokkrar myndir:
Eitt stykki tónlistarhús í smíðum.
Gamalt hús við Grettisgötu eða einhvers staðar þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.5.2009 | 10:02
679- Enn um dauðarefsingar
Það er margt sem bendir til þess að enn og aftur sé ástæða fyrir mig til að fjölyrða um þetta. Jón Valur Jensson hefur nokkrum sinnum skrifað heilmikið um þessi mál í athugasemdakerfið mitt. Þessi innlegg hans eiga það sannarlega skilið að vera lesin af öllum sem rekast hingað inn. Þeir eru svosem ekkert rosalega margir en eflaust fleiri en þeir sem kommentin lesa.
Jón Valur leggur heilmikla vinnu í svörin til mín og er sannfærandi. Í einstaka tilvikum hefur hann breytt skoðunum mínum en ég get alls ekki verið sammála honum í öllum atriðum. Að þessu sinni mun ég einkum beina athygli minni að svörum hans við síðasta innleggi mínu.
Margt af því sem ég hef sagt um þyngd refsinga, kynþáttamál og fælingamátt refsinga hefur Jón Valur í raun fallist á með því að minnast ekki á það. Sigurþór P. Björnsson segir í einu innleggi sínu: Hinar miklu og heitu umræður um dauðarefsingar, snúast aðallega um dauðarefsingar í Bandaríkjunum og hveru ómannúðlegar þessar refsingar eru.
Þetta er alveg rétt hjá Sigurþóri. Hvort sem það er með réttu eða röngu þá snúast umræður um dauðarefsingar einkum um hvernig þessum málum er fyrirkomið í Bandaríkjunum. Það sem Jón segir síðan um dauðarefsingar í öðrum löndum er beinlínis staðfesting á þessu. Auðvitað eru dauðarefsingar algengari víða annars staðar. Það vita þeir mjög vel sem um þessi mál fjalla. (Nefndar tölur eru samt ekki nákvæmar. Til dæmis hafa aftökur í Bandaríkjunum undanfarið verið um eitt hundrað á ári en ekki að meðaltali 50 eins og Jón segir.)
Sú staðreynd stendur samt óhögguð að Bandaríkin eru eina vestræna ríkið sem beitir dauðarefsingum. Þau ríki öll sem við berum okkur oftast saman við hafa látið af þessum grimmilegu refsingum. Þó aðrir séu verri en Bandaríkjamenn afsakar það þá ekki á nokkurn hátt. Þessu getur Jón Valur ekki kyngt og segir beinlínis á einum stað: Þessu verður ekki á nokkurn hátt jafnað til hins langtum skaplegra ástands í Bandaríkjunum.
Meginatriðið í gagnrýni Jóns í nýjasta innlegginu snýst þó um að ég hafi ekki komist réttilega að orði þegar ég sagði í bloggi mínu í gær að líta megi á Bandaríkin á vissan hátt sem höfuðvígi dauðarefsinga. Þetta get ég vel fallist á eins og fram kom í einu svara minna í athugasemdum gærdagsins.
Í síðustu athugasemd Jóns er helst að skilja að menn hljóti einkum að skrifa um dauðarefsingar til að hafa áhrif á yfirvöld í þeim löndum þar sem þær eru algengastar. Svo er alls ekki um mig. Þessi bloggskrif mín eru pælingar um mál sem allir hugsandi menn hljóta að velta fyrir sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.5.2009 | 00:18
678- Meira um dauðarefsingar
Nú ætla ég í bili ekkert að skrifa um bankahrunið eða Evrópusambandið. Sjálfur er ég orðinn hundleiður á þessum málum og reikna með að aðrir séu það líka.
Það sem ég sagði í bloggfærslu um daginn varðandi dauðarefsingar hefur vakið dálitla athygli. Athugasemdir eru allmargar og enn bætist við. Mesta athygli virtist mér vekja fullyrðing mín sem var á þessa leið: Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað."
Sennilega er ástæða til að fjölyrða nokkuð um þetta. Afbrotafræðingar sem ég hef lesið skýrslur eftir hafa lengi haldið þessu fram. Ég get þó ekki vísað í neinar sérstakar rannsóknir í þessu sambandi enda safna ég ekki greinum eða linkum um þetta. Reyni heldur að leggja innihald greinanna á minnið. Þar litast efni þeirra oft af einhverju sem ég hef áður heyrt eða haldið um viðkomandi efni.
Ég hélt að öllum væri ljóst að þyngd refsinga stendur almennt ekki í beinu sambandi við fjölda afbrota eða alvarleika þeirra þó svo geti auðvitað verið í einstökum tilvikum. Fólk heldur oft að afbrot í nærumhverfi sínu fari einkum eftir því hve þungar refsingar eru og að því þyngri sem þær eru því meiri sé fælingarmáttur þeirra.
Skýrslur sýna að þarna er ekkert beint samband á milli. Mörg önnur atriði skipta máli. Sambandið getur sem hægast verið öfugt. Það er að segja að þungar refsingar stuðli að því að alvarleiki afbrota aukist. Fælingarmáttur dauðarefsinga er til dæmis örugglega ofmetinn af flestum og segja má að þar ríki hefndin ein. Mikil refsigleði getur valdið stórfelldum vandræðum jafnvel þó horft sé framhjá líðan þeirra sem fyrir henni verða.
Kynþáttamál blönduðust svolítið inn í umræðurnar í athugasemdum við áðurnefnda færslu án míns tilverknaðar. Þau mál koma þessu við en ráða engum úrslitum. Fáránlegt er að halda að dómstólar í Bandaríkjunum stuðli viljandi að kynþáttamisrétti. Misrétti sem viðgengst í þjóðfélaginu getur þó haft áhrif á úrslit dóma.
Í Bandaríkunum sem líta má á vissan hátt á sem höfuðvígi dauðarefsinga hafa rannsóknir sýnt að verulegur meirihluti er gegn þeim ef tryggt væri að þeir afbrotamenn sem annars yrðu dæmdir til dauða fengju alls ekki tækifæri til að endurtaka verknað sinn. Vernd fyrir endurtekningu er það sem stuðningsmenn dauðarefsinga bera einkum fyrir sig. Andstaða við þessa tegund refsinga virðist einkum vera vegna mannúðarsjónarmiða og vegna mistaka sem örugglega verða þó reynt sé að tryggja að svo sé ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
7.5.2009 | 00:30
677- Fótbolti og formúlufjandinn
Mér hundleiðast þessar sífelldu umræður um bankahrunið og mál sem því eru tengd. Til dæmis smáatriði eins og stjórnarmyndun. Það er allt svo flókið í sambandi við þetta að ég er alveg hættur að botna í hlutunum. Hagfræðingar virðast snarruglaðir líka og halda fram allskyns kenningum um málin. Er ekkert hissa þó fólk rugli saman milljónum og milljörðum. Það er bara eðlilegt.
Samt er ég alltaf að skrifa um þetta. Evrópumálin eru líka óþægilega flókin þó mér finnist það ekki. Langlokurnar um þessi mál öllsömul sem víða má finna eru alveg hættar að hafa áhrif á mig einfaldlega vegna þess að ég nenni ekki að lesa þær. Svona er ég nú afskiptalaus um þjóðarhag. Samt hef ég áhuga á ýmsu. Það finnst mér að minnsta kosti sjálfum.
Eftir fréttum að dæma er ekki erfitt að komast í elítuna. Nóg að styðja aðild að Evrópusambandinu. Meirihluti Íslendinga gæti semsagt komist í hana. Skyldi fólk almennt gera sér grein fyrir þessu? Verður elítan áfram elíta þegar þeim sem ekki komast í hana fækkar sífellt og verða að lokum í algerum minnihluta? Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör.
Einu sinni hafði ég ódrepandi áhuga á fótbolta. Það var þegar Íslendingar keyptu Stoke-liðið og gerðu Guðjón Þórðarson að knattspyrnustjóra. Það gekk svo langt að ég var farinn að skrifa greinar á ensku á Oatcake vefsetrið þeirra Stokeaðdáenda áður en ég vissi af.
Svo missti ég áhugann á fótbolta og fór að fylgjast með formúlu eitt. Vissi miklu meira um hana en aumingjarnir sem lýstu henni í sjónvarpinu eða það fannst mér. Svo missti ég áhugann á henni líka og nú hef ég einkum áhuga á bloggi. Blogga líka ótæpilega sjálfur. Helst daglega og um allan fjandann. Næst líklega um fótbolta eða formúlu eitt.
Fram um efni eyddi þjóð
aum er núna vörnin.
Dýrt er lánið sótt í sjóð
sukkið greiða börnin.
Forðum daga áttum auð
ortum dýrar stökur.
Þegar allt er búið brauð
borðað getum kökur.
Þessar tvær ferskeytlur fann ég í reiðileysi hjá mér. Eflaust hef ég skrifað þær hjá mér vegna þess að mér hefur fundist þær góðar. Hefur samt alveg láðst að skrá eftir hvern þær eru. Held samt að þær séu fremur nýlegar.
Svo eru hér nokkrar myndir af því að vorið er að koma. Þær eru teknar í dag og í gær.
Fiskurinn hífður uppá bryggju.
Þessi er annað hvort að fara á flot eða á flug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.5.2009 | 00:39
676- Nokkur orð um dauðarefsingar
Í allmörgum ríkjum heims er dauðarefsing við lýði. Eina vestræna lýðræðisríkið sem beitir henni er Bandaríki Norður Ameríku. Refsigleði þar er almennt mikil. Margir hafa fjallað um þetta og tölur hafa hér lítið að segja. Í nokkrum Asíuríkjum er refsigleði einnig mikil og á margan hátt óskiljanleg okkur Vesturlandabúum.
Í alþjóðasamningum um mannréttindi er lífið talið hinn helgasti réttur allra. Ekkert mælir með því að ríkisvaldi sé heimilt að svifta menn því. Glæpir geta auðvitað verið svo svívirðilegir að mörgum sýnist réttlátt að gerningsmaðurinn sé sjálfur sviptur lífi en það veitir þó ekki ríkisvaldinu rétt til að taka líf. Önnur ráð eru tiltæk til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi fremji fleiri glæpi.
Þungar refsingar halda ekki aftur af afbrotamönnum. Það er margsannað. Það er siðferðið og almenningsálitið sem ríkir á viðkomandi svæði sem ræður mestu um ástandið fremur en dómavenjur. Það er röng stefna að krefjast ætíð þyngri refsinga fyrir afbrot.
Hefndarskyldan var lögð niður á Íslandi þegar þjóðveldið leið undir lok 1262-65. Þar með varð það hlutverk Noregskonungs að sjá um dómaframkvæmd. Á Íslandi hefur það lengi verið venja að brotaþola komi ekki í raun við hver refsing er og hvernig hún er framkvæmd. Hlutverk ríkisins sé að sjá til þess að sem fæst afbrot séu framin fremur en að tryggja að brotaþoli eða aðstandendur hans verði ánægðir með refsinguna.
Svona er þetta samt ekki alls staðar. Í Bandaríkjunum tíðkast mjög að fjölmiðlar ræði við fjölskyldur þeirra sem brotið var gegn þegar morðingjar eru teknir af lífi. Þróunin í Bandaríkjunum er samt sú að dauðarefsingum fer fækkandi og verða þær ef til vill lagðar niður þar áður en langt um líður.
Ef reynt er að gæta þess að bera ekki fyrir borð réttindi hins dæmda verður enginn sparnaður í dómskerfinu af dauðarefsingum. Þessu hafa Bandaríkjamenn kynnst af eigin raun.
Í flestum vestrænum ríkjum hefur dauðarefsing verið aflögð og rætt hefur verið um að banna hana með öllu í stjórnarskrá Íslands. Síðasta aftaka hér fór fram árið 1830.
Þar sem athafnafrelsi er mikið og dómarar kosnir í almennum kosningum er talsverð hætta á mikilli refsigleði. Sú hefur raunin orðið víða í Bandaríkjunum og þekkjum við Íslendingar dæmi þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
5.5.2009 | 01:03
675- Hvers vegna sprakk stóra alheims fjármálabólan?
Hrunið hér á Íslandi stafaði aðallega af einkavæðingu bankanna. Þar voru illa rekin tryppin og hlutirnir alls ekki gerðir eins og átt hefði átt að gera þá. Þetta er auðvelt að sjá núna í fullkominni baksjón. En einkavæðing banka á Íslandi og hrunið hér hafði engin eða að minnst kosti afar lítil áhrif á heimsbóluna. Hún sprakk samt líka og varð til þess að ekki var hægt að halda lönguvitleysunni hér á landi áfram svolítið lengur.
En hvers vegna sprakk heimsbólan? Fasteignalán í Bandaríkjunum voru ekki nærri eins góð og haldið var. Þar hafði húsnæði hækkað mjög mikið og öllum verið gert kleift að kaupa sér húsnæði með því að fá hagstæð lán. Og svo var byggt og byggt sem allra mest. Byggingafélög óðu í peningum og gátu sífellt byggt meira og hraðar.
Þeir sem veittu þessi hagstæðu lán reiknuðu með því að hvað sem öllum þrengingum liði þá héldi fólk áfram að borga af húsnæðinu sínu. Auðvitað vissu þeir að einhverjir mundu lenda í vandræðum og verða gjaldþrota. Þá mundi bankinn sem upphaflega lánaði til húsnæðiskaupanna eða einhver annar kaupa húsið á góðu verði og selja aftur með hagnaði. Á skýrslum mátti sjá að það yrði ekki nema lítið hlutfall íbúðareiganda sem yrði gjaldþrota og vandræðin yrðu ekki mjög mikil.
Hvað var það þá sem klikkaði? Margir hættu að greiða af lánum sínum. Ákváðu að fara frekar á hausinn og verða gjaldþrota en að ströggla við að borga. Áherslan var ekki á að halda húsnæðinu heldur að hafa í sig og á. Þarna varð mönnum á í messunni. Sú skoðun að fólk héldi áfram að borga af húsnæðislánunum hvað sem á gengi var bara ekki rétt.
Þetta olli verulegum vandræðum og varð upphafið að því að margt breyttist. Smátt og smátt fór að harðna á dalnum hjá þeim sem áður höfðu haft meira en nóg. Gjaldþrotum fjölgaði svo mikið að bankarnir sjálfir fóru á hausinn á endanum og svo varð fjandinn laus.
Það sem kallað er hagfræði byggist oft á skoðunum manna á mannlegu eðli sem reynast við nánari athugun eða þegar út í raunveruleikann kemur vera rangar. Þegar hagfræðin byggist á því að fólk hagi sér á ákveðinn hátt í aðstæðum sem aldrei hafa komið upp áður er lítið að marka hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.5.2009 | 06:27
674- Um blogg og bloggnáttúru. Einnig nokkrar myndir
Kommentin eða athugasemdirnar eru sér kapítuli. Margir hljóta að missa af þeim að mestu eða öllu leyti. Þessvegna er það sem þar er skrifað mun ómarkvissara en bloggin sjálf. Samt eru þau samskipti sem þannig skapast mikils virði.
Þeir sem læsa sínu bloggi mega það mín vegna. Ég get ekki haft áhuga á að lesa slík blogg. Þeir sem banna komment eða vilja fá að lesa þau yfir áður en þau eru birt mega það mín vegna en ég er samt á móti því að það sé gert.
Bloggið er hluti af hinu nýja netsamfélagi. Auðvitað hentar það ekki öllum að skrifa eða lesa blogg. Aðrar leiðir eru færar og líka vinsælar. Bloggið kemst þó á margan hátt næst því að vera einskonar fjölmiðlun. Þegar vel tekst til lesa allmargir sæmilega vel skrifuð blogg.
Vinsældasóknin truflar marga. Þeir skrifa kannski mörgum sinnum á dag og linka óspart í fréttir eða setja á bloggið myndir eða eitthvað annað sem þeir hafa fundið á flakki sínu um Netið. Oft er það góðra gjalda vert og margt skemmtilegt hef ég rekist á með því að fylgjast sæmilega með bloggum bloggvina minna á Moggablogginu og víðar.
Sumir hafa talið að Moggabloggið sé að deyja. Ég held að svo sé ekki. Tvennt hef ég einkum til marks um það. Annars vegar fjölda nýskráninga og hinsvegar hve margar vikuflettingar þarf til að komast á 400 listann.
Stundum þegar ég er að velta því fyrir mér hvað ég eigi að blogga um kemst ég að því með að gúgla einhver ákveðin orð að ég hef bloggað um það sama áður. Oft hefur það þau áhrif á mig að ég hætti við málið en auðvitað er engin ástæða til þess. Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Örugglega verður umfjöllunin ekki eins og líklegt er að lesendurnir verði það ekki heldur. Gallinn er bara sá að mér hættir til að vera full langorður.
Í lokin eru svo fáeinar myndir. Sumar þeirra er ég búinn að doktora svolítið til en ekki mikið.
Gröfustjórinn hefur líklega skroppið í kaffi.
Tréð var sagað niður en nær sér líklega alveg.
Glæsileg grjóthleðsla nálægt Hamraborginni í Kópavogi.
Veit ekki hvað þetta blóm heitir.
Einskonar auglýsing frá Landsbankanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fyrir ofan útidyrnar á sumarhúsi danska kjarnorkuvísindamannsins Niels Bohr hékk mikið notuð, skökk og skæld skeifa. Vinir vísindamannsins sem voru í heimsókn gerðu góðlátlegt grín að honum fyrir þetta. Varla væri hann, sjálfur vísindamaðurinn, trúaður á svona hindurvitni og hégiljur eins og að skeifur fyrir ofan útidyrahurð boðuðu gæfu.
Mér er sagt að þetta virki alveg jafnt hvort sem maður trúir á það eða ekki," svaraði Níels.
Svipað er því víst farið með innhverfa íhugun. Mikið létti mér þegar ég las að það skipti engu máli hvort maður tryði á þetta eða ekki. Alltaf virkaði það og hefði gert lengi. Auðvitað væri vissara að fara eftir viðurkenndum aðferðum og ekki sakaði að fara á dýrt námskeið.
Tryggvi Þór Herbertsson eyjubloggari með meiru kveinkar sér undan Netinu. Segir að þar séu þeir sem ekki komast að í viðurkenndum fjölmiðlum. Þetta getur svosem verið rétt en þeir sem gefa sig að stjórnmálum og þess háttar verða að vera undir það búnir að vera milli tannanna á fólki.
Tryggvi lýsir því í sínu síðasta bloggi að hann hafi komist að þessu með því að gúgla nafnið sitt. Síðan segir hann:
Netið hefur fært okkur margt gott en skuggahliðar þess eru að það virðist ala á hatri og mannfyrirlitningu. Því ljótari sem talsmátinn er því hærra er skorað! Fólk sem fékk ekki inn í opinberri umræðu vegna orðavals og öfga hefur nú greiðan aðgang að netinu með talsmáta sinn.
Seinna í blogginu segir Tryggvi og er mikið niðri fyrir:
Venjulegt fólk vill ekki verða fyrir árásum af þessu tagi. Fólk sem hefur mikið til málanna að leggja forðast þess vegna að koma fram með hugmyndir og innlegg í umræðuna. Það óttast að lenda í eiturbyrlurum netsins sem oftar en ekki skrifa nafnlaust. Jafnvel blaðamenn forðast að fjalla um hugmyndir og upplýsingar sem eiturbyrlurunum eru ekki þóknanlegar.
Þetta er skoðanakúgun og er til þess eins fallið að gera umræðuna fátæklegri. Málefnalegri umræðu hefur því sem næst verið útrýmt.
Þetta er íslenska útgáfan af menningarbyltingunni.
Tryggvi opinberar talsverða vanþekkingu á Netinu og umræðunni þar með þessum orðum. Umræðan nú er alls ekki fátæklegri en áður. Hjá fjölmiðlunum er það orðinn hluti af því sem þeir þurfa að sinna að fylgjast með Netinu. Öfgafólkið þar málar sig fljótlega út í horn og fáir nenna að fylgjast með skrifum þess.
Þó ýmislegt sé hægt að gúgla er ekki þar með sagt að margir taki mark á öllu sem skrifað er á Netið. Það er fáránlegt að halda því fram að Netið geri umræðuna fátæklegri og að málefnalegri umræðu hafi verið útrýmt. Sannleikurinn er sá að Netið hefur valdið raunverulegri byltingu. Nú er fólk ekki lengur eingöngu uppá stjórnvöld og fjölmiðla komið heldur hefur Netið bæst við og þar getur fólk haft sína hentisemi með fréttaöflun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
2.5.2009 | 01:18
672- Innhverf íhugun eða úthverf
Innhverf íhugun er í tísku núna. Ef ég man rétt hefur hún lengi tíðkast á Indlandi og eflaust víðar í Asíu og Bítlarnir voru eitthvað að fikta við þetta fyrir margt löngu.
Hjá mér fellur hún næstum því í sama farveg og talnaspeki og áruhreinsun jafnvel þó frægur kvikmyndaleikstjóri sé ánetjaður þessu. Auðvitað getur samt verið að eitthvert vit sé í þessu en ég bara svona ferkantaður.
Ævisaga var eitt sinn rituð um Harry Houdini töframanninn fræga. Þessa bók las ég í æsku og er ekki frá því að með þeim lestri hafi ég fengið þann antipata á miðlum og þess háttar kukli að það hafi enst mér til þessa dags. Auðvitað er þó ekki útilokað að eitthvað sé að marka þessi hjávísindi en mér er bara fyrirmunað að trúa því.
Jafnvel þó því sé trúað að miðlar og spámenn séu margfróðir og segi oftast satt get ég alls ekki lagt trúnað á að þeim sé gerlegt að starfa í gegnum útvarp á þann hátt sem oft er haldið að fólki. Þeir fjölmiðlar sem gefa slíku undir fótinn falla mjög í áliti hjá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)