Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

650. - Gæsalappablogg og svo pínulítið um peninga

„Hvað finnst þér athyglisverðast þegar þú lest blogg annarra?"

„Hvað allir eru rosalega gáfaðir og vel að sér. Einkum ef þeir skrifa um fjármál og þessháttar."

„Ert þú ekki ofsagáfaður líka?"

„Jú, það finnst mér en kannski ekki öllum. Fínustu blæbrigðin í bankahrunsmálum standa þó svolítið í mér."

„Þú ert óttalegur besservisser og viðurkennir helst aldrei að hafa á röngu að standa."

„Nú. Er það virkilega? Ekki vissi ég það."

„Jú, þú ert það. Kannski hentar það besservisserum ágætlega að blogga. Þá getur enginn tekið af þeim orðið."

„Svo þarf maður helst að eiga síðasta orðið í athugasemdunum líka."

„Já, einmitt. Það lýsir þér vel."

„En það er nú ekkert skemmtilegt þegar athugasemdirnar verða svo margar að maður getur ekki fylgst með þeim."

„Þá er að halda þeim fáum."

„Og hvernig gerir maður það?"

„Svara aldrei kommentum."

„Hvernig veistu það?"

„Mér var bara sagt það."

„Af hverju veist þú allt um blogg?"

„Ég er besservisser líka."

„En bloggar samt ekki?"

„Nei."

„Þá er kominn tími til að byrja."

„Ég kann það ekki."

„Ég skal kenna þér það. Taktu bara það sem þú ert búinn að skrifa og settu það á klippiborðið (upplýsa með shift og ör og síðan ctrl-c). Farðu svo á Moggabloggið sem þú ert búinn að stofna og segðu að þú ætlir að setja inn nýja færslu, skrifaðu rammandi fyrirsögn, settu cursorinn í auða dálkinn og segðu að þú ætlir að skeyta úr Word. Vista og birta og allt búið."

„Er þetta allt og sumt?"

„Já, ekki meiri vandi en að fá sér vatn að drekka."

„Kannski ég prófi."

„Endilega. Margir hafa samt aldrei komist lengra en að stofna bloggið. Skrifa aldrei neitt. En ef þú ert alvöru besservisser ætti þér ekki að verða skotaskuld úr að skrifa eitthvað."

„Nei."

„Byrjaðu þá."

„Láttu mig í friði. Ég vil gera þetta sjálfur."

„En ég er alveg rosaflinkur í þessu."

„Og ég verð það kannski á endanum líka."

Gæsalappaæfingu lokið. Moggabloggið er ekkert gefið fyrir þær og aflagar slíkar lappir systematískt. Hjá mér voru íslenskar og eðlilegar gæsalappir (99 og 66 niðri og uppi) í Wordinu.

Allt er á öðrum endanum útaf einhverjum milljónum. Þegar loksins er farið að ræða um upphæðir sem fólk skilur þá er voðinn vís. Mér finnst að allir stjórnmálaflokkar ættu að skila þeim peningunum sem þeir hafa fengið umfram það sem eðlilegt er og sanngjarnt. Og auðvitað beint til mín.

 

649. - Hvað er best að kjósa?

Kosningabaráttan er í vaxandi mæli farin að snúast um það hvort engir aðrir en fjórflokkurinn fái þingmenn í næstu kosningum. Litlu framboðin eru öll í sárum enda er níðst á þeim af hinum eins og mögulegt er. Athyglisvert er að Frjálslyndir eru á leiðinni út samkvæmt skoðanakönnunum.

Tap sjálfstæðismanna er staðreynd. Spurningin er bara hve mikið það verður. Að Samfylkingin skuli bæta við sig er kannski einkennilegt en þó ekki. Hægri - Vinstri skiptingin hefur enn merkingu í íslenskum stjórnmálum. Vinstri sveiflan vegna bankahrunsins er greinileg.

Í upphafi bankahrunsins þótti mér ólíklegt að fjórflokkurinn fengi mörg atkvæði í komandi kosningum. Þetta er heldur betur að afsannast. Þeir flokkar sem kalla má afsprengi búsáhaldabyltingarinnar eiga við það klassíska vandamál smáflokka að stríða að það heyrist lítið í þeim.

Ég ætla að spara mér að minnast á fjármál, mútur og þessháttar. Aðrir gera það eflaust betur en ég. Minni bara á að í merki því eftir Guðstein Hauk sem farið hefur um bloggheima sem logi yfir akur í dag er eiginlega talað um Sjálfstæðisfjokkinn, hvaða merkingu sem ber að leggja í það.

Fyrsta skoðanakönnunin eftir páska verður merkileg. Kannanir Gallup og Félagsvísindastofnunar eru bestar. Ef ekki er getið neitt um aðferðafræði og orðalag spurninga eru kannanir fremur ómarktækar.

Líklega held ég áfram minni ævintýramennsku í pólitík og kýs það sem mér dettur í hug. Gott að vera engum háður. Núna dettur mér helst í hug að kjósa O. Á kjördag kannski eitthvað allt annað.

O flokkinn sáluga sem gerði bara grín að stjórnmálamönnum kaus ég þó ekki. Það eftirminnilegasta frá honum er skilgreiningin á niðurgreiðslum: Sko, það er þegar hárið er greitt niður fyrir augun þannig að ekkert er hægt að sjá.

 

648. - Dabbi sveiflaði í kringum sig rússadindli sem reyndist svo bara vera afturhaldskommatittur

Hvað sem Evrópusambandsaðild líður þá er enginn vafi á því að okkur Íslendingum væri hollt að leita skjóls fyrir sviptivindum alheimsvæðingarinnar og þeim hremmingum sem yfir okkur geta dunið.

Auðvelt er að láta heimóttarskapinn og einangrunarstefnuna líta fagurlega út en til lengdar er sú leið samt allra vonlausust.

Þegar bankahrunið skall á okkur urðu menn talsvert ringlaðir. Davíð þreif rússadindil upp af götunni og veifaði honum í kringum sig. Geir þorði ekki að gera neitt því honum sýndist Dabbi vera svo reiður. Solla var lasin og allt í hönk.

Verst var að Geir þorði ekki að hringja í Brown og segja honum að við værum sko engir terroristar. Líklega hefði sá brúni orðið hræddur ef Davíð hefði hringt í hann.

En Davíð vildi bara tala við Simma í Kastljósinu og sagði þar galvaskur: „Við borgum ekki, við borgum ekki." Þetta misskildu margir viljandi og eins og hendi væri veifað vorum við Íslendingar orðnir stórhættulegir.

Eftir að Bandaríkjamenn fóru héðan í fússi hefur okkur semsagt sárlega vantað skjól. Ekki er á vísan að róa með að nokkur vilji með okkur hafa. Færeyingar eru þó undanskildir. Hvert eigum við eiginlega að leita ef Evrópusambandið vill okkur ekki?

Horfði á hluta af stjórnmálaumræðunum í sjónvarpinu í kvöld. Þar kom fátt á óvart. Nýliðar voru samt nokkrir. Valgeir Skagfjörð stóð sig best af þeim.

 

647. - Evrópusambandsaðild eða ekki

Eftirfarandi klausa er nokkuð dæmigerð fyrir málflutning EBE-andstæðinga. Það er Baldur Hermannsson sem segir svo í kommenti hjá Bjarna Harðarsyni:

Það kemur ekki til mála að leggja slíkan samning undir dóm þjóðarinnar. Ísland er ekki til sölu. Ísland á ekki að hverfa fyrir fullt og allt inn í Evrópu-móðuna miklu. Við göngum ekki til atkvæða um slíkt siðleysi. Við skulum halda áfram að vera sjálfstæð þjóð. Við erum menn en ekki skepnur.

Er mögulegt að hægt sé að ræða á vitrænan hátt við mann sem tekur svona til orða? Ég held varla.

Ég er þó alveg sammála málflutningi EBE-andstæðinga um tilgangsleysi tvöfaldrar atkvæðagreiðslu. Hún hjálpar bara þeim sem vilja aðild og er sprottin af þeim vilja flokkanna að hafa sitt fólk rólegt í bili. Afstaðan til EBE kemur flokkunum í rauninni ekkert við. Ef samkomulag næst um það milli ríkisstjórnarflokka að sækja um aðild er sjálfsagt að gera það. Þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðuna ef jákvæð verður er jafnsjálfsögð.

Góðar fréttir úr bankahrunsmálum eru ekki algengar. Fréttin um skýslu nefndar í neðri deild breska þingsins þar sem deilt er á Darling fjármálaráðherra Breta er þó ein af slíkum. Og ekki veitir okkur af. Móralskur sigur er talsverður sigur fyrir okkur Íslendinga í þessu efni. Kannski verður þetta okkur ekki til mikils fjárhagslegs ávinnings en við því er ekkert að gera.

Á endanum stöndum við kannski frammi fyrir vali um það hvort við viljum heldur krónuna og AGS eða EBE og EVRU. Hvorugur kosturinn er að öllu leyti góður. Þó eru þeir báðir skárri en að stökkva jafnfætis útí kviksyndið en það gæti orðið hlutskipti okkar ef ákveðið væri að borga bara ekki neitt og segja öllum að fara til fjandans. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum líka.

 

646. - Mínu málþófi er lokið

Málþóf er alltaf málþóf. Alveg sama þó reynt sé að gera það eðlilegt og neita harðlega að um málþóf sé að ræða. Sjálfstæðismenn hafa í raun tekið Alþingi í gíslingu. Við því er lítið að segja. Það er þeirra réttur.

Fjórflokkurinn (sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, kommar og kratar) er allur á móti því að halda stjórnlagaþing. Með því minnka völd þingmanna hans (fjórflokksins). Núverandi stjórnarflokkar og stuðningsflokkur þeirra hafa samt komist að þeirri niðurstöðu að líklegt sé til vinsælda að þykjast styðja stjórnlagaþing.

 

645. - Við borgum ekki. Að minnsta kosti helst ekki

Hlustaði á silfur Egils í morgun og tilfinningin var sú að við Íslendingar ættum í rauninni bara um tvær leiðir að velja. Höfum raunar átt þess kost allt frá bankahruninu mikla síðastliðið haust að segja annarsvegar: „Við borgum ekki". Eða: „Við borgum ef við mögulega getum. Hvað sem það kostar." 

Mér finnst allt hafa stefnt í það undanfarið að fara eftir seinni setningunni. Það er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill. Fjórflokkurinn og þar með stjórnvöld einnig. Búsáhaldabyltingin ekki. En fáum við vesæll almúginn rönd við reist? Ég held ekki.

Auðvitað yrði þungbært og erfitt um tíma að borga ekki. Það vita þeir sem stjórna. Allt yrði gert til að láta hlutina líta sem verst út. Völd stjórnvalda og fjármálastofnana eru mikil. Fjölmiðlarnir hálfónýtir. Bloggið frjálst en máttvana.

Inn í þetta blandast verðtrygging og lífeyrissjóðir. Það er bara það sem fjölþjóðafyrirtækin vilja. Allt á að vera svo flókið að venjulegt fólk skilji málin ekki. Það á bara að þræla og helst að skulda sem mest. Það má lappa svolítið uppá lífskjörin ef þess er gætt að auka skuldirnar um leið.

Ísland er áhugaverð tilraun. Obama vill koma. Allir vilja kynna sér málin hér. Hér ætlar hið alþjóðlega peningavald að leggja vestræna þjóð að velli í fyrsta sinn. Komið og sjáið hvernig farið er að því.

Tuttugu prósentin framsóknar eru bara kosningabrella. Peningar eða verðmæti verða ekki til úr engu. Eignatilfærsla er þetta líka í stórum stíl. Auðvitað var rán útrásarvíkinganna líka eignatilfærsla á sinn hátt. Ein vitleysa verður þó ekki lagfærð með annarri.


644. - Bara til að skrifa eitthvað og linkur í góða vísu

Hef ekki mikið fylgst með fréttum og þessháttar undanfarið. Fór á Akranes og gerði fátt blogglegt. Tók nokkrar myndir samt.

Á laugardagsmorgun las ég á mbl.is um eitthvert „killing spree" sem virðast vera að verða sífellt algengari. Þar stóð meðal annars:

Fyrstu fréttir hermdu, að árásarmaðurinn væri ungur af asískum uppruna. En sjónvarpsstöðin CNN sagði, að byssumaðurinn væri 42 ára gamall karlmaður búsettur í New York ríki.

Skil illa svona fréttaflutning. Fyrir mér er 42 ára karlmaður kannski ekki kornungur en hann getur sem best verið af asískum uppruna þó hann eigi heima í New York ríki.

Einhverju sinni stóðum við nokkrir strákar í hóp við nyrði dyrnar á Kaupfélaginu. Hannes Sigurgeirsson var þar og einhver hópur af minni strákum og þar á meðal var ég. Hannes var með upprúllað blað en vildi ekki segja okkur hvað það héti. Þetta var blað sem var nýbyrjað að koma út. Ekkert gerðist þarna en samt er mér þetta af einhverjum ástæðum minnisstætt. Á endanum komumst við að því að blaðið hét „Séð og lifað." Ég man að minnsta kosti ekki betur. Já, þetta hefur verið svona 1950 - 1955. Ef ég man rétt komu ekki út nema sárafá tímarit fyrir almenning á þessum tíma. Mamma var áskrifandi að blaði um þetta leyti sem hét „Nýtt kvennablað". Gott ef þar var ekki framhaldssaga eftir Guðrúnu frá Lundi.

Konan mín orti ágæta vísu í morgun um atburð sem varð á Alþingi nýlega. Vísuna er auðvitað að finna á hennar bloggi og fjallar um Árna Johnsen að sjálfsögðu.

Jæja, kannski ég hlusti á silfrið í beinni að þessu sinni.


643. - Sjónvarpið frá Alþingi að verða aðalrásin

Gæti trúað að áhorf fari vaxandi á Alþingis-sjónvarpið. Nú má búast við öllu í þessu leikhúsi fáránleikans. Bölv, söngur, fylliríishjal og allt í beinni. Stendur langt fram á kvöld og getur hæglega komið í staðinn fyrir ýmislegt annað. En málþóf er málþóf hver sem beitir því og af hvaða ástæðu sem er. Kannski hætta þeir þessu ekki fyrr en líður að páskum. Á endanum verður samið um eitthvað. Virðing fyrir Alþingi eykst ekki.

Endalaust má velta fyrir sér niðurstöðum úr skoðanakönnunum. Þrjú atriði eru athyglisverðust. Tap sjálfstæðismanna virðist staðreynd. Litlu framboðin verða í óttalegu basli. Frjálslyndi flokkurinn sem hefði átt að leika sér að því að fá svona 10 - 15 % atkvæða hverfur líklega af þingi.

Farið er að kalla fjármálaeftirlitið fjölmiðlaeftirlitið. Menn þarna verða að gæta sín. Ef það á bara að taka í lurginn á litla Landsbankamanninum en láta Jóakima von And landsins eiga sig getur farið illa.

Veðurfræðingar eru ómissandi. Þó Trausti Jónsson sé ekki hávær var hann oft skemmtilegur í sjónvarpinu í gamla daga. Siggi stormur er ágætur þegar honum tekst upp. Þessir tveir eru þó ekki einir veðurfræðinga um að fara með gamanmál og vera skemmtilegir á að hlýða. Fyrir löngu síðan tíðkaðist þetta hjá útvarpinu og margir bændur kunnu vel að meta það. Einn bóndi skrifaði útvarpsstjóra bréf um ýmislegt og í lokin sagði hann eitthvað á þessa leið: „Það er svosem gaman að veðurfræðingunum en í guðanna bænum hættið að láta þá trufla okkur svona um hásláttinn." 

Samfylkingin heldur spilunum fast uppað sér. Þó Vinstri grænir hafi álpast til að sverja af sér allt samræði við djöfulinn (sjálfstæðisflokkinn) ætlar hún ekki að brenna sig á því sama. Eftir kosningar skal farið aftur í stjórn. Það var svo gaman síðast. Líklega er strax farið að rífast um ráðherrastólana. Samfylkingin gæti, ef úrslitin verða á þann veg, sem hægast farið í stjórn með annaðhvort sjálfstæðismönnum eða framsókn.


642. - Um greinarmerkjasetningu og fleira. Ekki minnst á gæsalappir

Í tali manna um bankahrunið er áberandi hve margir þykjast hafa frábært vit á þessum hlutum. Í ljósvakamiðlunum forðast fólk að segja að það skilji ekki við hvað er átt þó flest af því sem sagt er sé mjög illskiljanlegt. 

Í sinni einföldustu mynd eru hægri og vinstri stefnur báðar stórgallaðar. Þetta vita allir og að miðjumoðið svokallaða er eina vonin. En hvernig á að hræra þessu saman svo vel sé? Íslendingar eru oft dálítið öfgafullir. Eftir stríðið voru allskyns höft og önnur óáran alltof lengi við lýði hér á landi. Þegar þeim var loks komið fyrir kattarnef var gegnið of langt í hina áttina og nú erum við að súpa seyðið af því.

Það sem háir mér langmest í sambandi við skrif allskonar er greinarmerkjasetningin. Orðin og réttritunin koma að mestu leyti af sjálfu sér og oftast nær einhver hugsun með. Greinarmerkin, og þá sérstaklega kommusetningin, koma hinsvegar að mestu leyti eftirá og bara þar sem mér finnst eðlilegast.

Ég geri ráð fyrir að margir eigi við svipaðan vanda að etja. Það er samt óþarfi að láta hann trufla sig. Hvað mig snertir eru flest greinarmerki nema komman fremur einföld í notkun. Gleymast þó stundum. Verst finnst mér að sífellt er verið að hringla með þetta mál og reglur sem að því lúta eru illskiljanlegar. Mér finnst orðfærið og stafsetningin segja margt um skrifin, en kommusetningin lítið. Öðrum kann að finnast greinarmerkjasetningin skipta meira máli en málfarið.

Keypti um daginn á bókamarkaðnum í Perlunni bók sem heitir: „Reglur um íslenska greinarmerkjasetningu". Sú bók er gefin út árið 2007 af hinu íslenska fornritafélagi. Bókin sem er eftir Jónas Kristjánsson er sjálfsagt hin merkasta. Mér finnst hún samt hið mesta torf.

Eftir því sem ég kemst næst af lestri þessarar bókar er íslensk greinarmerkjasetning í tómu rugli. Sérstaklega kommusetningin einsog mig hefur lengi grunað. Eiga kommur að vera „greinarmerki" eða „lestrarmerki"? Jafnvel „skýringarmerki" eða eitthvað allt annað?

Núorðið forðast ég kommur eins mikið og ég get, en nota þær samt öðru hvoru. Punktarnir eru aftur á móti orðnir mitt uppáhald. Það er alltaf hægt að byrja uppá nýtt og hafa setninguna þannig að stór stafur sé eðlilegur.


641.- Margeir og meirafíflskenningin

Andleg hrörnun er sögð hefjast við tuttugogfimm ára aldurinn. En hvenær lýkur henni eiginlega? Aldrei eða hvað? Mér finnst ég vera jafngáfaður núna og fyrir fimmtíu árum.

Þegar ég var ungur stökk ég næstum fimm metra í langstökki og hundrað og fimmtíu sentimetra í hástökki. Ekki gæti ég það núna. En ég er viss um að ég hefði ekki bloggað af neinu viti þegar ég var tvítugur.

Skyldi Margeir Pétursson skákmaður verða eini fjáraflamaðurinn sem kemur standandi niður úr þeim hremmingum sem skekið hafa skerið að undanförnu. Varkárnina og seigluna hefur hann örugglega. Kannski SPRON verði eini einkabankinn sem blaktir hér á næstunni. Margeir heyrði ég fyrstan manna tala um „meirafíflskenninguna".

Nú verða víst ekki fleiri landsþing á næstunni og lítið drukkið af öli. Aðrar skemmtanir verða samt nægar og einhverjir munu kætast að loknum næstu kosningum. Varla þó sjálfstæðismenn. Bjarni Benediktsson líkist mun meira Þorsteini Pálssyni en Davíð Oddssyni. Þessvegna verður hann varla lengi formaður flokksins.

Síst af öllu eru íslensk stjórnmál upphaf og endir alls. Eiginlega mannskemmandi. Vorkenni þeim bloggurum sem ekki geta skrifað um annað. Samt verður maður víst að kjósa. Samkvæmt útilokunaraðferðinni eru einkum tveir möguleikar hæst skrifaðir hjá mér um þessar mundir.

Annars vegar að kjósa einfaldlega Samfylkinguna aftur. Þróunin í átt til tveggja flokka kerfis er góðra gjalda verð. Skil Ómar Ragnarsson vel að hafa gefist upp á þessu bardúsi. Hann er samt enginn vinstri maður. Hinn möguleikinn er að kjósa O-flokkinn. Þar er eitthvað af góðum mönnum en hætt er við að þeir fái engan mann kjörinn og þá er verr af stað farið en heima setið.

Ef mikilvægast af öllu var að tryggja áframhaldandi sérréttindastöðu Íslands í samfélagi þjóðanna, venjubundna starfsemi í landinu og inneignir fólks í bönkunum þegar þeir hrundu voru neyðarlögin kannski þörf og eðlileg. Að öllu öðru leyti voru þau hrikaleg mistök sem á endanum geta orðið dýr. Satt að segja alveg óskaplega dýr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband