Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
21.4.2009 | 00:12
660- Sjónvarpsauglýsingar flokkanna og fleira
Þorbjörn Broddason segir að sjónvarpsauglýsingar flokkanna snúist bara um ímyndir. Það finnst mér líka. Tek ekki mikið eftir slíkum auglýsingum en í þeim sem ég hef séð finnst mér áherslan vera á gluggagægjum. Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast" er einn af mínum uppáhaldsmálsháttum. Var í mesta sakleysi að horfa á fréttir á Stöð 2 þegar þegar Edda Andrésdóttir segir allt í einu fullum fetum. Nú segir Hans Kristján Árnason okkur íþróttafréttir". Ég kipptist við. Fáum hef ég kynnst um æfina sem eru eftirminnilegri en Hans Kristján Árnason. Hann og Jón Óttar Ragnarsson settu Stöð 2 á fót árið 1986 og eru báðir ógleymanlegir hugsjónamenn. Auðvitað mismælti Edda sig þarna. Það var Hans Steinar Bjarnason sem sagði íþróttafréttirnar eins og venjulega. Auglýsing í Bændablaðinu er þannig: (eftir því sem Jens Guð segir) Vilt þú hætta mjólkurframleiðslu, selja kýrnar en eiga kvótann og hirða beingreiðslurnar fyrirhafnarlaust?" Undir er svo símanúmerið 841 8618. Þetta finnst mér athyglisvert. Hélt að svona lagað væri alltaf neðanjarðar og menn viðkenndu það ekki. Auðvitað er margt af þessu tagi stundað ótæpilega en er það virkilega orðið svona sjálfsagt að svindla opinberlega? Illa hef ég fylgst með. Kannski verður það á endanum Borgarahreyfingin sem ég kýs. Þeir lofa á margan hátt góðu. Man samt ekki í smáatriðum hvernig stefnuskráin þeirra er. Kannast við sum nöfnin sem þar eru á listum og líkar bærilega. Fjórflokkinn kýs ég varla. Margt bendir til að Vinstri hreyfingin grænt framboð verði stærsti flokkurinn að kosningum loknum. Verður þá ekki Steingrímur Jóhann sjálfsagt forsætisráðherraefni? |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2009 | 09:04
659- Kosningar og Evrópumál einn ganginn enn
Nú er runninn upp tími kosningaáróðursins. Hann tröllríður bæði blöðum og bloggi. Allir eru á kafi í pólitík. Kosningarnar verða eflaust spennandi en þó ekki. Skoðanakannanir draga úr spennunni. Þær eru sumar furðulegar og ótraustvekjandi. Af einni heyrði ég þar sem Ástþór og Co. voru langefstir með vel yfir 30 prósent atkvæða á öllu landinu.
Evrópumálin koma talsvert inn í umræðuna. Sú umræða er einkennileg og ótrúlega tilfinningaþrungin. Flestir gera ráð fyrir að krónan sé ónýt en margir tala út og suður um að taka upp einhverja aðra mynt með illu eða góðu. Krónan getur gagnast okkur ef við viljum helst vera eins og korktappi á ólgusjó. Sveiflast þar upp og niður en þó aðallega niður vegna þess að íslensk stjórnvöld verða aldrei þau skynsömustu í heimi.
Eiginlega er bara um tvennt að ræða. Reyna að lappa uppá krónuræfilinn með aðstoð alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þreyja Þorrann og Góuna með harmkvælum miklum og kannski árangursleysi eða sækja sér skjól með samvinnu við aðra. Þar er Evrópusambandið nærtækast hvað sem hver segir.
Eitthvað skárra en krónan kemur ekki bara til okkar sisvona. Ef við ákveðum að sækja um aðild að EU gæti evran komið einhverntíma. Annars aldrei. Krónan er ónýt og því ónýtari sem gjaldeyrishöftin vara lengur. Ekkert bendir til þess að þau höft hverfi fyrr en krónunni verður kastað.
Það er lítill vandi að finna upp eitthvað til að framleiða ef innflutningur leggst að mestu af eins og útlit er fyrir. Sápugerð fyrir innanlandsmarkað gæti verið ein leiðin.
Ég minninst þess að um 1960 fórum við á Samvinnuskólanum í heimsókn til Akureyrar. Þar voru Sambandsverksmiðjurnar í blóma og meðal annars sáum við sápugerð. Hráefnið í handsápuna kom í löngum ormi til vélarinnar sem mótaði hana. Verkstjórinn sýndi okkur stoltur að mótunarvélin sló ekki mótinu niður nema tekið væri í stýringar undir borðinu með báðum höndum af stúlkunni sem sat við vélina. Þetta væri mikið öryggisatriði og kæmi í veg fyrir slys.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.4.2009 | 16:18
658- Fyrirspurn til fræðinga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.4.2009 | 00:08
657- Þá er þingstörfum lokið og hægt að snúa sér að kosningabaráttunni
Ekki tókst Alþingi að koma neinum markverðum umbótum á. Andstaða allra sem á Alþingi sitja við persónukjör og stjórnlagaþing var auðséð. Þó þingmenn allra flokka hafi lýst yfir stuðningi við lýðræðisumbætur er ekkert að marka það. Þeir ljúga allir og hugsa fyrst og síðast um eigin hag. Komandi kosningar eru vafalaust mikilsverðar. Úrslit þeirra munu að mestu verða í samræmi við síðustu skoðanakannanir. Þó eru vonbrigði almennings meiri en gera mátti ráð fyrir. Ólíklegt er að þing það sem nú verður kosið sitji í fjögur ár. Mér blöskrar oft hvernig Evrópuandstæðingar láta. Þegar allt um þrýtur hika þeir ekki við að kalla þá alla landráðamenn sem vilja ganga í Evrópusambandið. Slíkt er ekki til fagnaðar fallið. Þeim leiðist líka áreiðanlega að vera kallaðir einangrunarsinnar. Í pólitík dagsins er það ekkert meginmál hvort sótt verður um Evrópusambandsaðild fljótt, nú eða strax. Það sem mestu máli skiptir er að jafna sig á bankahruninu og láta hlutina fara að rúlla aftur. Hlýða alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða segja honum að fara til fjandans. Ef við sækjum um aðild að EU núna hefur sambandið líklega mun betri spil á hendi en við. Einhver áhrif mundi það samt hafa ef næsta ríkisstjórn lýsti því yfir að sótt verði um aðild. Í lokin eru svo sex myndir. Þrjár frá Þingvallavatni og þrjár frá Rauðavatni. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.4.2009 | 00:17
656- Meira um Borgarnesmyndirnar og fleira
Varðandi Borgarnesmyndirnar sem ég sagði frá um daginn er ég að hugsa um að setja þær allar á bloggið mitt eða eitthvað annað og leyfa þeim sem vilja að dánlóda. Þetta verður kynnt nánar þegar þar að kemur. Myndirnar sem ég birti voru bara sýnishorn og minni í pixlafjölda en þær verða væntanlega. Hringt var í mig frá Safnahúsinu í Borgarnesi í dag og málið er í vinnslu. Í gær (held ég) voru tvær fyrirsagnir hjá mbl.is á sömu fréttinni. Þessar fyrirsagnir voru svona: Fylgið hrynur af Sjálfstæðisflokknum." og Samfylking stærst í Reykjavík norður". Hvað er þarna á ferðinni? Glittir í eigandaskiptin? Er farið að lesa yfir fréttir á mbl.is? Greinilega þótti einhverjum fyrri fyrirsögnin ekki nógu góð. En af hverju? Það er til merkis um hve Samfylkingin er orðin stór að hún skuli geta gleypt Ómar Ragnarsson og fylgdarlið án þess að verða hið minnsta bumbult. Ómar segist geta unnið að sínum hugðarefnum innan Samfylkingarinnar og haft meiri áhrif þar en með því að halda áfram (ef til vill árangurslaust) að bjóða fram. Eftir það sem á hefur gengið hefði ég samt frekar kosið hann en einhvern af fjórflokkunum. Björn Bjarnason hefur hátt um virðingu Alþingis. Ekki megi halda stjórnlagaþing vegna þess að með því sé vald og virðing Alþingis minnkuð smá. Ja, svei. Virðing Alþingis má svo sannarlega minnka og Björn Bjarnason verður örugglega ekki kosinn á stjórnlagaþing. Ef persónukjör væri leyft væri kannski hægt að halda því fram að þjóðin hefði valið sér fulltrúana sem á Alþingi sitja. Svo er bara ekki. Það eru flokkarnir sem hafa valið þá og kosið að setja sem mestar hindranir í veg fyrir aðrar aðferðir en þær sem þeim hugnast. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2009 | 16:07
655- Lóan er komin að kveða burt snjóinn
Ömurlegt að vera að hugsa um pólitík núna þegar vorið virðist loksins vera að koma. Náttúran er óðum að búa sig undir sumarið. Farfuglarnir flykkjast til landsins og birtutíminn lengist óðum.
Í fréttum er það helst að einhverjir virðast vera að reyna að koma veg fyrir að flokkurinn sem Ástþór er í forsvari fyrir geti boðið fram. Ef frambjóðendur finnast og nægilegur fjöldi meðmælenda þá er sjálfsagt að úrskurða framboðið gilt en ekki reyna að fella það á einhverjum formsatriðum.
Kominn yfir að reyna að gera við hlutina ef það er hægt. Áðan bilaði kaffivélin og undireins var bara keypt ný. Í gróðærinu og einkum auðvitað hjá auðmönnunum ómissandi var líkt á komið með sjónvörp, allskyns heimilistæki og jafnvel bíla og þess háttar. Bara henda því sem bilar og kaupa nýtt. Þetta er hugsunarháttur sem er mér dálítið framandi. Áður fyrr var allt notað og flest verðmæti. Ruslið minna o.s.frv.
Hve oft skal blogga hugleiðir Jónas Kristjánsson og kemst að þeirri niðurstöðu að hæfilegt sé að blogga einu sinni á dag. Sammála.
Bloggaði um Borgarnesmyndir í gær. Kannski verður framhald á því síðar. Ýmsar hugmyndir eru á kreiki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2009 | 13:51
654- Ekkert um stjórnmál. Bara Borgarnes
Efni það sem orðið hafði til hjá Videófélaginu varð eftir í Borgarnesi og er líklega komið þar á safn. Ef til vill þarf að gera það efni aðgengilegra og hugsanlegt er að ég gæti orðið þar til aðstoðar. Mögulega er þar efni sem þykir merkilegt í dag þó ekki væri nema fyrir aldurs sakir.
Af einhverjum ástæðum varð hinsvegar innlyksa hjá mér mappa með filmum frá Borgarblaðinu. Ég var alveg búinn að gleyma henni en um daginn kom í ljós að þar er talsverður fjöldi mynda frá Borgarnesi á þessum árum. Sumar þeirra hafa eflaust á sínum tíma birst í Borgarblaðinu en fráleitt allar.
Myndirnar eru um 2000 talsins og nú þegar er búið að skanna rúmlega 200 þeirra. Mér finnst ástæða til að öllum verði gefið tækifæri til að eignast myndir úr þessu safni. Einnig væri mjög gott að vita nöfn þeirra sem á myndunum eru ef úrval úr þeim verður sett á ljósmyndasafn sem ég efa ekki að einhverjir Borgnesingar kunni að hafa áhuga á.
Æskilegast væri að allar myndirnar yrðu settar á Netið. Ég á einnig einhversstaðar öll þau tölublöð sem komu út af Borgarblaðinu. Ef til vill væri einnig ástæða til að skanna þau og setja á Netið.
Þessu mundi fylgja einhver kostnaður og ég vona að einhverjir þeirra Borgnesinga sem sjá þetta láti mig vita um sín sjónarmið í þessu máli. Hér fyrir neðan eru nokkrar af þeim myndum úr möppunni sem búið er að skanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Varðandi pólitík hef ég ekki miklu við það að bæta sem ég hef áður skrifað. Ég bíð eftir marktækri skoðanakönnun og tel að það sem einkum verður rætt um varðandi bankahrun og stjórnmál fram að kosningum sé kosningaáróður.
Ég er svo undarlega þenkjandi að mér finnst lykilspurningin í spillingarmálunum vera þessi: Af hverju mistókst útrásarvíkingunum að sölsa undir sig Orkuveituna? Á þessum tíma mistókst þeim ekki margt. Eiginlega var allt sem þeir gerðu gott og fallegt. Stöku sinnum dálítið torskilið en gott samt.
Ég mun svo reyna að forðast að fjalla um stjórnmál framvegis. Það er óttalega tilgangslaust. Flestir eru búnir að ákveða sig og álit minni háttar bloggara skipta litlu. Hætt er við að ef maður álpast til að blogga um stjórnmál sé erfitt að hemja sig. Haldi semsagt áfram að blogga um þessa vitleysu og annað komist varla að. Fjölbreytni er aðalkostur bloggsins.
Ég les alltaf málfarspistlana Eiðs Guðnasonar. Hann er samt stundum fullsmámunasamur. Um daginn var hann að afsaka villur (sínar eigin) með því að hann kunni ekki fingrasetningu. Hafi lært í MR og þar hafi verið til siðs að kalla Verslunarskólann vélritunarskólann. Ég lærði fingrasetningu á Bifröst. Það var fyrir daga rafritvélanna. Mér er alltaf minnisstæður djöfulgangurinn sem skall á í skólastofunni þegar okkur var sagt að byrja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.4.2009 | 00:59
652- Fáein orð um flokkana
Mér sýnast vera vaxandi líkur á því að ég muni kjósa Borgarahreyfinguna í næstu kosningum. Sumt af því sem þaðan kemur hugnast mér þó ekki fullkomlega, en enginn gerir svo öllum líki. Sjálfstæðisflokkur. Samfylking. Framsóknarflokkur. Vinstri grænir. Frjálslyndir. Lýðræðishreyfingin. Óskastaðan hefði verið að geta kosið sameiginlegt framboð Borgarahreyfingarinnar, Lýðræðishreyfingarinnar og samtaka þeirra sem Ómar Ragnarsson veitti forstöðu. Auðvitað eru fáir mér sammála í öllum atriðum. Geta þó kannski fallist á einhver þeirra. Svo getur þróunin fram að kosningum breytt bæði mínu áliti og annarra. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)