Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
30.4.2009 | 00:16
670- Evrópa Evrópa Evrópa
Miklu meira heyrist í Evrópuandstæðingum í fjölmiðlum þessa dagana en stuðningsmönnum aðildar. Það sem hæst ber í fréttum núna er að einhver stækkunarstjóri hjá sambandinu á að hafa sagt að Íslendingar fengju engar undanþágur. Hvað átti maðurinn að segja? Jú, við viljum endilega fá ykkur og göngum að öllum ykkar kröfum." Það sem hann segir skiptir engu máli og hann hefur oft sagt þetta áður.
Sífellt er hamrað á því að hitt og þetta gerist eða gerist ekki ef við göngum í sambandið. Fæst af því er rétt eða skiptir verulegu máli. Mestu máli skiptir að halda áfram tengslum við vinaþjóðir okkar. Við getum ekki eilífllega ákveðið að vera í sama báti og Norðmenn. Þó finnst mér ekkert að því að sætta sig við að vera utan sambandsins ef þjóðin hafnar hugsanlegu samkomulagi.
Að verið sé að láta af hendi sjálfstæði landsins er fjarstæða. Sömuleiðis munum við eins og aðrar þjóðir í ESB halda fullum yfirráðum yfir auðlindum okkar. Kannski þó ekki fiskimiðunum ef áfram verður haldið með óbreytta stefnu þar og sömu hlutir í boði hvað það snertir og síðast þegar Norðmenn ákváðu að ganga ekki í ESB. Einn heyrði ég um daginn halda því fram að ekki væri hægt að ganga úr Evrópubandalaginu og því til sönnunar nefndi hann að Suðurríkin í Bandaríkjunum hefðu viljað ganga úr sambandi sínu við Norðurríkin en það hefði kostað stríð. Þrælastríðið svonefnda.
Vissulega snerist það stríð meðal annars um rétt ríkja til að segja sig úr ríkjasambandinu. En það eru næstum 150 ár síðan það stríð hófst og þarna er verið að leggja þessi tvö ríkjasambönd að jöfnu sem auðvitað er fjarstæða. Ef því er raunverulega trúað að farið yrði með hernaði á hendur okkur ef okkur dytti í hug að hætta er engin furða þótt tilfinningar séu miklar í þessu máli. Grænlendingar gengu úr sambandinu 1985 og ekki var ráðist á þá. Færeyingar eru reyndar ekki heldur í ESB enda vildu þeir ekki fara þangað þegar Danir gengu í sambandið árið 1972 og komust að sjálfsögðu upp með það.
Ekki liggur sérstaklega á að fara í viðræður um aðild að Evrópubandalaginu. Því er til dæmis haldið fram að Svíar sem fara munu með forystu í sambandinu síðari hluta þessa árs verði okkur svo hagstæðir. Slíkt er afar ósennilegt. Fremur er hægt að trúa því að hagstæðara væri fyrir okkur að vera í sambandinu þegar fiskveiðistefna þess verður endurskoðuð og að hugsanlega snúist margt okkur í vil við það eitt að ríkisstjórnin sæki um aðild. Þessu er þó valt að trúa. Við höfum lengi stillt okkur um að sækja um inngöngu í ESB og ætti ekki að verða skotaskuld úr að bíða aðeins lengur.
Samningsstaða okkar Íslendinga er heldur alls ekki sérlega góð um þessar mundir. ESB sækist áreiðanlega ekki eftir að fá okkur. Að allt muni breytast hér samstundis ef við göngum í ESB er örugglega ekki rétt. Vextir og verðlag munu þó lækka smám saman, stöðugleiki aukast og skipulag á mörgum sviðum fara að líkjast því sem er í ESB. Heimskulegt er að halda því fram að atvinnuleysi hér yrði undir eins sambærilegt við meðaltalið í ESB. Það þarf ekki annað en líta á mismunandi atvinnuleysi hjá ESB þjóðum til að sannfærast um það.
Samt sem áður kýs ég fremur aðild að sambandinu en aðildarleysi. Einkum vegna þess að við hljótum að þróast með tímanum annaðhvort í átt til Evrópu eða Bandaríkjanna ef við viljum ekki stefna á einangrun og útilokun frá samfélagi við aðra og ég tek Evrópu framyfir Bandaríkin af ýmsum ástæðum.
Að setja aðild að ESB upp sem reikningsdæmi þar sem hugsanlegur ávinningur er öðru megin en mögulegir ókostir hinum megin er fjarstæða því bæði munum við sem þjóð og ekki síður ESB breytast og þróast með árunum. Það sem mestu máli skiptir er að fylgjast með tímanum og einangrast ekki. Þeir sem þreytast ekki á að útmála ESB sem ímynd hins illa eru auðvitað að mæla með aukinni einangrun þó þeir neiti því ef til vill og bendi á samninga við þjóðir annars staðar en í Evrópu. Þá er einkum talað um þjóðir sem eru miklu stærri en við og óskyldari okkur en Evrópuþjóðir. Ólíklegt er að þær hafi mikinn áhuga á samningum við okkur. Gróði okkar af því til lengri tíma litið yrði líka mjög vafasamur jafnvel þó hægt væri að græða til skammst tíma á nálægðinni við ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.4.2009 | 00:27
669- Evrópumál og kosningar. Er hægt að skrifa um eitthvað annað?
Tillaga Björgvins um að láta Alþingi ráða varðandi Evrópusambandsumsókn er allrar athygli verð. Óþarfi að láta hræða sig frá þeirri hugmynd. Það getur samt vel verið að vinstri flokkarnir nái saman um þetta.
Enginn vafi er samt á því að niðurstöðuna úr viðræðunum verður að leggja fyrir þjóðina og næstum örugglega að kjósa aftur til Alþingis áður en hugsanlega getur orðið um inngöngu að ræða.
Það er ekki trúlegt að vinstri flokkarnir láti núverandi tækifæri til ríkisstjórnarmyndunar sér úr greipum ganga. Að mynda ríkisstjórn án þátttöku bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur ekki áður boðist.
Undarlegt er að sjá bollaleggingar ýmissa um sigurvegara kosninganna. Sá einn sigrar sem flesta flesta þingmenn hlýtur. Aðrir geta byrjað vel, bætt mestu við sig frá síðustu kosningum og þess háttar en sigurvegarinn er bara einn.
Lýðræðishreyfingin galt áreiðanlega fyrir það að vera of tengd einum manni. Ástþór var bæði andlit hreyfingarinnar í augum fólks og sá sem öllu máli skipti. Aðrir féllu algjörlega í skuggann.
Að mörgu leyti er eftirsjá að Frjálslynda flokknum. Hjaðningavígin urðu þeim einkum að falli og svo virtist Guðjón Arnar varla nenna þessu.
Borgarahreyfingin gætti þess að vera nægilega hefðbundin til að fólk sæi sér fært að kjósa hana. Að mörgu leyti er hún samt ekki eins og venjulegir einsmálsflokkar og klofningsframboð og vel er hægt að líkja henni frekar við Kvennalistann sáluga. Hún er líka greinilegt afsprengi búsáhaldabyltingarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.4.2009 | 00:09
668- Samfylkingin getur ekki endalaust veifað Evrópu-kortinu. Líka svolítið um málfar og fleira
Úrslit kosninganna er hvorki hægt að túlka sem sigur fyrir Evrópusinna eða Evrópuandstæðinga. Enda var ekkert um slíka afstöðu spurt. Aðildarviðræður með einum eða öðrum hætti hljóta þó að vera líklegri eftir en áður. Úrslit í stjórnarmyndunarviðræðum ráða þó miklu um það. Samfylkingin hlýtur að berjast fyrir því að farið verði í viðræður. Ekki er hægt að veifa Evrópu-kortinu hvað eftir annað án þess að nota það. Mér finnst ekki ólíklegt að þjóðin verði spurð á komandi kjörtímabili um afstöðu sína til Evrópusambandsins. Miklu máli skiptir þá hvernig spurningin verður og hvað verður í boði. Tvöföld atkvæðagreiðsla gagnast eingöngu Evrópusinnum nema hvað málin tefjast líklega eitthvað með því móti. Annars finnst mér meira gaman að skrifa um málfar en pólitík. Baldur McQueen virðist álíta mig einhvern sérfræðing í íslensku. Svo er alls ekki. Eina aðferð nota ég oft. Ef ég er í vafa um rithátt eða annað þá segi ég hlutinn bara öðruvísi. Stundum læt ég samt vaða þó ég sé ekki viss. Kannski nýt ég þess þá ef fleiri en Baldur álíta mig einhvern sérfræðing í málfari. Stundum fæ ég á mig málfarsgagnrýni í athugasemdum. Einkum fyrir óhóflega kommunotkun og mikla notkun á hvers kyns útlenskuslettum. Held að ég klikki sjaldan á einföldum málfræðiatriðum. Setningafræði er mér þó að mestu lokuð bók. Við nánari athugun sé ég auðvitað að ég get notað aðrar aðferðir en að gagnrýna málfar beinlínis á blogginu. Ég get skrifað athugasemdir hjá viðkomandi eða haft beint samband við þá með tölvupósti eða á annan hátt. Það geri ég samt sjaldan. Forðast þó að gagnrýna aðra bloggara með nafni en þá sem ég er viss um að kippa sér ekki upp við það. Las um daginn sögu sem heitir. Viltu vinna milljarð?" Yfirleitt endist ég ekki til að lesa skáldsögur spjaldanna á milli hvort sem það eru krimmar eða eitthvað annað. Það gerði ég samt í þetta sinn. Það er eitthvað við þessa bók sem gerir manni erfitt að hætta . Í grunninn er þetta ósköp venjuleg spennusaga en frásögnin er svo óvenjuleg og sett í svo einkennilegt umhverfi að auðvelt er að hrífast með. Það er eiginlega ekki fyrr en í blálokin sem söguþráðurinn fer að verða svo fáránlegur að mann langar til að hætta en þá er hvort eð er svo lítið eftir af bókinni. Hrannar Baldursson er gríðarlega afkastamikill og skemmtilegur bloggari. Slóðin hans er don.blog.is og ég hvet alla til þess að kynna sér bloggið hans. Það er annars athyglisvert hve margir bloggarar aðhyllast Borgarahreyfinguna. Í athugasemd hjá mér var hún köllum Bloggarahreyfingin. Kannski verður hún kölluð Bloggaraflokkurinn eða einnhvað þess háttar í framtíðinni. Ég held samt að hættan felist einmitt í því að þingmenn hennar fari að líta á sig sem flokk. Þau eru bara einstaklingar og sem slík kosin á þing. Rödd þeirra þarf að heyrast en við þurfum ekki eina flokksklíkuna til. Tók eftir því áðan að í upptalningu Sjónvarpsins á nýjum þingmönnum var Margrétar Tryggvadóttur að engu getið. Það fannst mér klént. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2009 | 00:06
667- Eins konar málfarsblogg
Hún skipar 2. sæti á framboðslista Frjálslynda flokksins í Reykjavík suður á eftir Sturlu Jónsson. Segir gervigrasalæknirinn Jens Guð. Þarna skýst skýrum. Yfirleitt er Jens Guð ágætur í réttritun og beygir eiginnafnið alveg rétt en sleppir að beygja föðurnafnið. Það er ekki margt sem hundstungan finnur ekki. Eiður Guðnason hefur sagt það á sínu bloggi að gera eigi kröfur um rétt mál á vinsælum bloggum. Ég er sammála honum. Janfvel þó ég yrði gripinn í einhverri bölvaðri vitleysunni gæti ég vitaskuld sagt að ég sé ekki nógu vinsæll til að teljast með. Ekki veit ég hvaðan ég hef þessa bloggnáttúru. Það á einfaldlega vel við mig að blogga og engin ástæða til að hætta því. Sjálfum finnst mér ég ekki blogga meira um sjálfan mig en góðu hófi gegnir. Mjög sjálfmiðaðir þvergirðingar í bloggarastétt fara svolítið í taugarnar á mér. Líkar aftur á móti vel við þá bloggara sem eru útsettir með að fræða lesendur sína um allan fjandann. Málfarsbloggarar eru líka ágætir. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.4.2009 | 19:14
666- Viðeigandi númer. Ég er búinn að kjósa
Já, ég er búinn að kjósa. Og kaus rétt. Semsagt Borgarahreyfinguna. Samfylkingin á ekkert gott skilið. Brást illilega þegar mest á reið. Þarf samt að verða stærri en Vinstri grænir og nær því eflaust án minnar aðstoðar. Lítið spennandi við væntanlegt stjórnarmynstur. Flest fyrirsjáanlegt. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það hefur sennilega verið nálægt miðjum sjöunda áratug síðstu aldar að ég vann hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar sem þá var til húsa að Hallveigarstíg 10. Einhverju sinni átti ég erindi að Lundi við Nýbýlaveg í Kópavogi. Geir minnir mig að bóndinn þar hafi heitað. Ég get ómögulega munað hvert erindið var en á borði þar inni var nýlegt eintak af Lesbók Morgunblaðsins. Í þessu eintaki Lesbókarinnar var annaðhvort á forsíðu eða baksíðu ljóð eftir Dag Sigurðarson sem hét Meðvituð breikkun á raskati." Mér er sérstaklega minnisstætt að síðasta orðið var einmitt skrifað svona. Geir bóndi var að sýna mönnum sem þarna voru þetta kvæði og úthrópa það sem mikið bull og að það bæri ónáttúru höfundar ljóslega vitni. Ljóðið fjallar ef ég man rétt um fínan mann sem er dálítið feitlaginn og fær sér amerískan kagga til að hafa sæmilega rúmt um sig við akstur í borginni. Mér er hulin ráðgáta hvers vegna ég man svona vel eftir þessu. Nafnið á ljóðinu hlýtur eiginlega að vera skýringin og svo aðdáun á Degi. Einu sinni átti ég heima að Lynghaga 17. Leigði í kjallaranum hjá Herði Hjálmarssyni. Kosningadag einn þegar ég bjó þar hitti ég Helga Haraldsson á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi (HHHH) úti á strætóstoppi. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að þetta væri í fyrsta sinn sem hann væri í Reykjavík á kjördag og fílósóferaði eitthvað um veðrið. Minnistæðast er mér þetta vegna þess að Helgi var nokkuð áberandi í þjóðlífinu á þessum tíma. Horfði á upptöku af Kiljunni í gærkvöldi. Þar rifust Kolbrún Bergþórs og Páll Baldvin um Agöthu Christie. Í gamla daga þótti mér Ellery Queen betri en Agatha Christie man ég. Samt eru nokkrar góðar persónur sem Agatha hefur skapað. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2009 | 19:56
664- Tölvumenn RUV eru til háborinnar skammar eins og venjulega
Mér blöskrar virðingarleysi RUV-manna við þá sem vilja horfa á fréttaútsendingar frá þeim á Netinu. Tölvumenn þeirra eru til háborinnar skammar. Segi ekki meir. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2009 | 00:46
663- Nú elskum við friðinn og strjúkum kviðinn
Erfitt er að stilla sig um að skrifa um pólitísk mál þegar örfáir dagar eru til kosninga. Svo eru öll mál pólitísk í eðli sínu ef vel er að gáð. Útrásarvíkingarnir eru ekki fordæmdir fyrir siðferðisafglöp sín. Miklu fremur fyrir að hafa mistekist ætlunarverk sitt. Það er betra að vera ánægt svín en óánægður Sókrates. Yngvi Högnason kommentar stundum á mitt blogg og les það líklega oft. Hann segir eftirfarandi í athugasemd við grein Hrannars Baldurssonar sem ég skrifaði um í gær: Ef fer sem horfir þá verður Borgarahreyfingin ekki í stjórn eftir kosningar og því ekki álitlegur kostur að kjósa nema það sé verið að kjósa í stjórnarandstöðu. Þáttaka þessa fólks í kosningaþáttum sjónvarps hefur ekki verið til að auka álit á því til starfa fyrir almenning. Stjórnmál og störf á Alþingi fara eftir ákveðnum reglum og ef einhver segist ætla að breyta því í næstu viku eða síðar,þá er hann ekki trúverðugur. En það er alltaf til fólk sem er til í að kaupa plástur sem læknar heilaskemmdir og græðir á afskorna limi. Reynum alltaf að vera í sigurliðinu. Hvort sem við þurfum að ganga gegn sannfæringu okkar eða ekki. Það gætu hrokkið brauðmolar af borðum hinna ríku til okkar smælingjanna. Glory hunters" eru svona menn kallaðir á engelsku. Kannski meinar Yngvi þetta ekki svona og þá getur hann leiðrétt það. Áhugaverða grein um Evrópubandalagið las ég í dag. Hún er á vefritinu Nei og er eftir Hauk Má Helgason. Höfundur leitast við að gera vinstri mönnum það ljóst að með því að kjósa Vinstri græna stuðli þeir að inngöngu í Evrópubandalagið. Á þessu er einkum sá galli að samþykktir á flokksþingum Vinstri grænna ganga í aðra átt. Pælingar höfundar um svonefndan singularisma" og universalisma" í upphafi greinarinnar eru áhugaverðar. Einnig sýn hans á Ísland á fyrri tíð. Grunnurinn að þeirri tvöfeldni sem viðgengist hefur lengi hér á Íslandi og er forsenda allrar stjórnmálastafsemi á skerinu var lagður þegar Þorgeir Ljósvetningagoði skreið undan feldinum fyrir margt löngu og sagði: Við skulum þykjast vera kristnir en halda samt áfram að vera heiðnir ef okkur sýnist svo. Það er hagstæðast." |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.4.2009 | 00:10
662- Hrannar Baldursson veit hvað hann vill og rökstyður mál sitt vel
Hann fjallar um kosningar á bloggi sínu og mér finnst flest annað sem ég sé og heyri um pólitík þessa dagana aðallega vera hávaði. Hávaði getur auðvitað átt rétt á sér og verið nauðsynlegur en mér finnst Hrannar segja það sem segja þarf. Skammstafanir eru ær og kýr fjölmiðlamanna. Þeim þykir mjög gaman að slá um sig með allskyns skammstöfunum. Jöfnum höndum eru skammstafanirnar dregnar af íslenskum og enskum nöfnum og frösum. Engar tilraunir eru gerðar til að útskýra fyrir óinnvígðum hvað þessar skammstafanir þýða. Ef þú veist ekki hvað ÖSE, RÖSE, IMF, AGS, EU, EBE, EBS, EEC, EES, ECC, UN, SÞ og allt mögulegt annað þýðir þá ertu bara ekki viðræðuhæfur um landsins gagn og nauðsynjar. Fyrsti pésinn sem ég eignaðist var Cordata tölva sem ég keypti í Microtölvunni. Hún hafði tvö fimm og kvart tommu floppy drif en engan harðan disk. Skjárinn var innbyggður og að sjálfsögðu grænn að þeirrar tíðar hætti. Einhvers staðar er hún enn til og orðin forngripur hinn mesti. Þegar ég stóð í því að setja efni á Netútgáfuna í hverjum mánuði fengum við oft tölvupósta frá hinum og þessum. Eitt sinn fengum við bréf frá íslenskum námsmanni í Noregi. Ekki man ég hvað hann heitir en hann var búsettur þar og átti tvö börn. Hann sagði okkur í bréfinu að börnin sín væru orðin háð íslenskum þjóðsögum sem hann nálgaðist á vef Netútgáfunnar og neituðu með öllu að fara að sofa nema fá eina sögu lesna fyrir sig á hverju kvöldi. Af einhverjum ástæðum yljaði þessi frásögn mér meira en margar aðrar. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.4.2009 | 00:13
661- "Ekki ert þú í framboði helvítið þitt."
Framboðssaga. (Líklega úr Íslenskri fyndni) Þetta var á dögum einmenningskjördæmanna. Þingmannsefni var á framboðsferðalagi á Vestfjörðum og kom á bæ einn síðla dags. Ekki varð hjá því komist að gista. Bóndi átti ekkert aukarúm en vildi helst að komumaður hefðist við um nóttina í baðstofunni hjá þeim hjónum þar sem þau sváfu ásamt dóttur sinni gjafvaxta. Þingmannsefnið tók það ekki í mál og sagði sér fullgott að sofa í hlöðunni. Fór þangað og svaf af nóttina. Um morguninn heyrir hann einhvern fyrirgang fyrir utan og lítur út um gluggann. Sér þá að verið er að halda belju en nautið hefur lítinn áhuga á henni. Bóndadóttir er þar til aðstoðar og leiðist þófið. Hleypur að tudda, sparkar í hann og segir: Ekki ert þú í framboði helvítið þitt." Útlendingar sem gaspra hjá Agli Helga eru ekkert merkilegri en aðrir. Þeir sem voru að skora á okkur um daginn að gefa alþjóðagjaldeyrissjóðnum langt nef og hætta alveg að borga skuldir hafa samt heilmikið til síns máls. Við erum bara of smáir til að geta rifið almennilega kjaft. Ekkert þýðir að benda á Bandaríki Norður Ameríku til samanburðar. Enginn er svo aumur að hann geti ekki hundsað okkur. Horfði á þær stöllur Þóru og Agnesi yfirheyra Ástþór. Kallinn komst bara ágæta vel frá þessu. Hugmyndir hans eru kannski óttalega vitlausar sumar en hann má þó eiga það að hann er óhræddur við að hugsa útfyrir kassann sem er meira en sagt verður um marga pólitíkusa. Tölvusnillingarnir á RUV gera það sem þeir geta til að fólk sé ekki að horfa á útsendingar þeirra á Netinu. Myndgæðin eru þó ágæt þar þegar samband næst. Reynt er að slíta útsendingar sem mest í sundur og aldrei er hægt að vita hvort samband næst. Þetta er óskaplega leiðigjarnt og ég er hættur að halda að þetta sé mér eða mínu tölvukerfi að kenna. Þetta á einkum við um beinar útsendingar. Gamlar upptökur eru mun skárri. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)