Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
11.12.2009 | 00:20
892 - Gáfaður í bloggheimum
Það er auðvelt að þykjast voða gáfaður í bloggheimum. Staðreyndir má auðveldlega gúgla og ef maður nennir því ekki eða getur ekki er hægt að skrifa framhjá þeim. Skrifi maður um eitthvað sem maður hefur lítið vit á er ráðlegast að hafa það yfirborðslegt og ekki of langt. Það sem maður hefur þó vit á er svo sjaldan til umræðu að ekki er orðum að því eyðandi.
Endurminningar eru ágætis bloggefni en engin ástæða til að trúa þeim bókstaflega. Hef oft tekið eftir að það sem maður heldur endilega að sé satt og rétt í þeim efnum er það alls ekki. Ástæðan er sú að hugurinn er sífellt að endurraða minningum og henda allskyns óþarfa. Fáir eru með þvílíkt límminni að þeir muni alla hluti sem gerast á langri æfi.
Þegar maður skrifar blogg-greinar er alltaf álitamál hve mikið á að linka í annað efni. Best er að endursegja það eftir eigin höfði og eiga ekkert á hættu með að missa lesandann. Hann á samt sinn rétt. Maður hefur hvort sem er allt sitt vit af Netinu og líka er gott að linka í sjálfan sig og sleppa þannig við endurtekningar. En fara lesendur nokkuð eftir þessu? Nenna þeir að flækjast um víðan völl bara af því að linkað er í allt mögulegt? Ekki hann ég. En kannski sumir.
Held að blogg.gáttar bloggurum sé verulega að fjölga. Fréttagreinar virðast samt enn vera mun fleiri en bloggin. Bráðum verða allir bloggarar þar hvort sem þeir eru góðir eða slæmir. Ég skrolla bara niður eftir listanum og kíki á þær fyrirsagnir og þau nöfn sem mér líst á. Eflaust gera flestir það.
Jóhann Hauksson er að verða einn af mínum uppáhalds pólitísku bloggurum. Langorður að vísu en vinstrisinnaður á ágætan hátt. Jónas Kristjánsson er líka góður. Davíðshatur beggja er samt dálítið barnalegt á köflum. Báðir eru þeir á blogg-gáttinni og best að fylgjast með þeim þar. Ef Staksteinar (morgunbladid.blog.is) eru dæmi um Davíðsfyndni er hún sífellt að verða ómerkilegri.
Var að lesa frétt og þar var talað um þverfaglegan aðgerðahóp." Þetta er tískufyrirbrigði en ég er bara svo skrýtinn að ég má helst ekki sjá orðið þverfaglegur" því þá dettur mér alltaf í hug orðið þvagleggur" og ekki meira um það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.12.2009 | 00:08
891 - Facebook og blogg
Las grein um Facebook og hópamyndanir þar eftir að hafa kíkt á bloggið hjá Don Hrannari í morgun og athugasemdast ögn hjá honum. Datt í hug að gera smávísu um fésbókina og lauk við hana um líkt leyti og ég kláraði greinina.
Vísan er svona:
Fésbókina forðast ég
finnst hún vera léleg.
Eiginlega asnaleg
og ekki mikið féleg.
Greinin var á deiglunni.com og þangað var mér vísað af blogg.gáttinni.is.
Vísnagerð róar hugann næstum eins mikið og hraðskák. Maður ræður litlu um efnið, því stuðlar og rím taka völdin. Samt verður útkoman eitthvað í líkingu við það sem maður vildi sagt hafa. Þægilegt er að hafa blað og blýant við höndina og hripa niður það sem manni dettur í hug. Annars gleymist það bara. Venjulega dettur manni fljótt í hug nothæf setning og svo er bara að prjóna við hana. Í þessu tilfelli datt mér fyrst í hug fyrsta ljóðlínan.
Varðandi hraðskákirnar er ég bara að tala um skákir á Netinu við einhverja sem maður þekkir ekki neitt. Fyrst æsa þær mann upp. Svo þegar maður er hættur að vilja endilega vinna og orðið sama um stigin, þá róa þær mann bara.
Nú er orðið úr þessu þokkalegasti partur úr blogg-grein og kannski nota ég þetta í kvöld.
Einu sinni voru bara tvö hringtorg í Reykjavík. Melatorg og Miklatorg. Svo þótti ekki nógu fínt að hafa Miklatorgið fyrir hringtorg og eftir það voru hringtorg lengi mjög óvinsæl. Svo komust þau aftur í tísku og undanfarin ár hefur þeim fjölgað svo mikið að ég gæti trúað að enginn viti lengur hve mörg þau eru á höfuðborgarsvæðinu.
Engin hringtorg er mér samt eins illa við og þau í Mosfellssveitinni sem verða fyrir manni þegar maður er á leið norður eða vestur. Núorðið lýkur þessum ósköpum ekki fyrr en í Kollafirðinum. Ef Sundabrautin kemst í gagnið áður en ég hrekk uppaf og hægt verður að losna við þessi ósköp verð ég ógeðslega feginn.
Þegar hægri umferð var tekin upp hér á landi lentu sumir í vinstri villu fyrst á eftir. Stundum olli það slysum. Reynt var að nota þetta pólitískt og auðvitað mætti núna tala um hægra hrun. Áður var líka oft í pólitíkinni talað um móðuharðindi af mannavöldum".
Svona merkimiðar eru samt lítils virði og ef menn hafa ekki annað til málanna að leggja er betra að láta stjórnmálin eiga sig. Nóg annað er til.
Á kaffistofu Pressunnar er eftirfarandi setning og meira að segja vísað á blogg-gáttinni til þeirrar greinar sem hún er í:
Fjarvera beggja var áberandi í ljósi mikilvægis málsins og þess hversu litlu munaði að það yrði samþykkt til þriðju umræðu."
Þarna er verið að tala um fjarveru þingmannanna tveggja Helga Hjörvar og Sifjar Friðleifsdóttur við atkvæðagreiðsluna í gær. Nú veit ég að frumvarpið VAR samþykkt til þriðju umræðu og væntanlega höfundur þessarar málsgreinar einnig. Hann hefur þó fremur daufan málskilning og þarf ég varla að rökstyðja það frekar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.12.2009 | 00:25
890 - Dísa
Í mínum augum er eftirminnilegasta Dísa Íslandssögunnar sú Þórdís Þorsteinsdóttir sem úti varð á Fjarðarheiði á Austurlandi í lok átjándu aldar og gjarnan er kennd við bróður sinn og kölluð Bjarna-Dísa. Man satt að segja ekki eftir öðrum sögufrægum Dísum nema þá helst þeirri í Dalakofanum sem sungið var oft um í gamla daga. Hef bloggað áður um Bjarna-Dísu og vísa bara í það. (blogg nr. 452 frá 16. September 2008 - ef linkurinn skyldi klikka)
Tölvupóstar eru í tísku núna.
Þar má telja:
Tölvupósta Jónínu,
tölvupóst Bjarna Harðar
tölvupóst Möggu Tryggva
og tölvupósta Indriða. Hvar endar þetta eiginlega?
Hlustaði svolítið á umræður á Alþingi síðastliðna nótt (aðfaranótt þriðjudags). Þar var Pétur Blöndal að lesa úr gömlum þingræðum. Þannig er hægt að viðhalda málþófi út í það óendanlega án þess að þurfa að hugsa um samhengi eða ræðumennsku. Held samt að þátttakendum hafi verið farið að fækka þegar þarna var komið.
Moggabloggið er skrýtin skepna. Fyrir nokkru sá ég á heimsóknalista mínum að IP-tölur voru sagðar 60 en gestir 59. Þetta hélt ég að ætti ekki að geta gerst. Einhverjar IP-tölur eru eftir þessu að lesa blogg upp á eigin spýtur. Varhugavert og jafnvel hættulegt. En mikið er Moggabloggið gáfað að geta greint þarna á milli.
Hvað verður um þá bloggara sem detta útaf 400-listanum? Ekki að ég sé hræddur um það eftir að ég komst í bland við stórhausana. Villi í Köben var einu sinni settur af sem stórhaus og brást illa við. Komst þangað aftur með harðfylgi. Kannski er óttinn við að verða settur útaf sakramentinu það sem heldur stórhausunum á mottunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.12.2009 | 00:18
889 - Djákninn á Myrká
Einhver frægasta draugasaga á Íslandi er sú um djáknann á Myrká. Bærinn Myrká er í Eyjafirði og konan sem djákninn hélt við hét Guðrún og átti heima á Bægisá sem einnig er í Eyjafirðinum en hinum megin Hörgár. Djákninn vildi nú bjóða Guðrúnu sinni í partý um jólin og sagðist mundi koma og sækja hana á hesti sínum sem Faxi var nefndur. Allt kostaði þetta aukaferð því enginn var síminn.
Þegar hann fór heim frá því að bjóða Guðrúnu í jólapartýið hafði veður versnað og vaxið í Hörgá frá því sem áður hafði verið. Drukknaði hann þar og segir ekki meira frá því. Höfuð hans skaddaðist á ísjaka í ánni og var líkið flutt að Myrká og jarðað þar í vikunni fyrir jól.
Guðrún á Bægisá hafði ekki frétt af þessu og á aðfangadag jóla hafði veður skánað nokkuð. Bjó hún sig þá til ferðar að Myrká. Barið var að dyrum og Guðrún flýtti sér áleiðis út og fór bara í aðra ermina á kápunni en lagði hina yfir öxlina og greip í hana. Faxi og aðkomumaður einn biðu hennar fyrir utan og haldið var strax af stað. Við Hörgá lyftist hattur draugsa og sá þá í bera hauskúpuna. Tungl óð í skýjum. Hann kvað:
Máninn líður,
dauðinn ríður,
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?
Henni brá en þagði við. Við Myrká segir hann:
Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan ég flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða.
Henni verður litið í kirkjugarðinn. Þar sér hún opna gröf og verður mjög hrædd. Greip hún þá til þess ráðs að hringja kirkjuklukkunum sem mest hún mátti. Þá var gripið í hana en kápan var hálflaus og hélt hún annarri erminni en draugsi steyptist ofan í gröfina með afganginn af kápunni. Draugurinn ásótti Guðrúnu næstu vikurnar og að lokum var fenginn galdramaður vestan úr Skagafirði og gat hann sært djáknann aftur ofan í jörðina.
Auðvitað trúir þessu ekki nokkur maður. Draugar eru ekki til og myrkfælni er bara aumingjaskapur. Í flestum útgáfum er sagan miklu lengri og ítarlegri en þetta. Ekki veit ég af hverju hún er svona fræg. Draugasögur eru yfirleitt hálfgerð endileysa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.12.2009 | 00:05
888 - Icesave enn og aftur
Mér finnst bloggið orðið pólitískara en áður var. Icesave er alla að drepa. Margir blogga samt þindarlaust um það. Spákonur og alls kyns hjávísindi eru vinsæl hjá ljósvakamiðlunum. Heyrði um eina slíka sem spáði falli Icesave-frumvarpsins og einhverju fleiru. Ég spái hinsvegar að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi en hvort forsetinn neitar undirritum eða ekki get ég ekki séð. Forsetinn er á leiðinni í óþolandi aðstöðu. Áskoranir um að undirrita ekki Icesave lögin eru orðnar það margar að það er sama hvort hann gegnir því eða ekki, óvinsældir hans munu aukast. Það gerir ekki mikið til fyrir hann en embættið mun líða fyrir það. Hann getur ekki beitt sér eins og hann langar til enda brugðust útrásarvíkingarnir honum gersamlega. Eins og hann hafði gaman af þessu. Ég er ekki að hæðast að Ólafi. Hann breytti ýmsu í sambandi við embættið og lánaði útrásarvíkingunum kraft þess en vildi vel og er ekki nærri eins skyni skroppinn og sumir útrásarvíkinganna. Hefur líka beðist afsökunar á sínum hlut í útrásinni. Einhver hrikalegustu mistök sem gerð hafa verið í lagasetningu eru neyðarlögin svokölluðu. Um þetta hef ég bloggað áður og ætla ekki að endurtaka það. Icesave er stórt mál en þó bara hluti af þeim vanda sem við Íslendingar glímum við. Algjör hugarfarsbreyting er nauðsynleg. Fjórflokkurinn stendur styrkur sem fyrr en innviðir hans breytast. Vænn hluti af starfi blaðamanna í dag er að fylgjast með markverðum bloggskrifum. Flestir hafa ýmigust á bloggurum en þeir eru ómissandi eins og hver önnur óværa. Fréttir eiga oft uppruna sinn hjá þeim og þegar fólk sem ekki hefur annað að gera fer að pæla í því sem þeir halda fram getur ýmislegt komið í ljós. Svo lenda þeir stundum í einhverju frásagnarverðu. Ég hef svo stutt attention span" að ég nenni afar sjaldan að lesa löng og ítarleg blogg. Kannski eru bloggin mín styttri þessvegna. Reyni alltaf að lesa bloggin mín yfir áður en ég sendi þau út í eterinn og yrði átakanlega lengi að því ef þau væru eins löng og hjá sumum. Það eru til allskonar blogg. Pólitísk blogg, trúarblogg, vísindablogg, málfarsblogg, tónlistarblogg o.s.frv. Verst hvað ég hef áhuga á mörgu. Les blogg og jafnvel bækur stundum en hentugt væri ef bloggin væru ekki svona áhugaverð. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.12.2009 | 00:08
887 - Fischer og draugasögur
Ekkert um Icesave núna. Fleira er markvert en það sem gerist á Alþingi.
Það sem einkum vekur athygli mína í fréttum dagsins er draugasaga Þórs Magnússonar fyrrum þjóðminjavarðar og baráttan um arf Fischers.
Oft er gert útá það sem sagt er vera útbreidd hjátrú Íslendinga. Mér hugnast ekki hve mikil áhersla er oft lögð á það af hálfu ferðaþjónustuaðila að Íslendingar trúi upp til hópa á drauga, álfa og hvers kyns forynjur. Þvi stend ég með Þór Magnússyni í þessu máli og trúi því varla að úr þessu verði dómsmál.
Oft hefur verið fjölyrt um fyrrverandi heimsmeistara í skák Robert James Fischer. Hann var íslenskur ríkisborgari þegar hann lést og íslensk lög og íslenskir dómstólar eiga því að skera úr um málefni dánarbús hans. Stuðningur fjölmiðla við aðila þessa máls á ekki að hafa áhrif á úrslit þess. Samkvæmt sjónvarpsfréttum eru það einkum hin japanska eiginkona Fischers og dóttir hans frá Filippseyjum sem hagsmuna hafa að gæta í þessu máli. Svo er þó ekki. Bandarískir ættingjar Fischers vilja einnig fá sinn skerf af arfinum. Tvöhundruð og sjötíu milljónir króna minnir mig að um sé að ræða.
Horfði á spurningaþáttinn í ríkissjónvarpinu áðan. Hvað sem segja má um einstakar spurningar og frammistöðu keppenda er enginn vafi á því að formið á þættinum er vel heppnað og stjórnendurnir góðir.
Svokallaðir bloggarar" eru af mörgu tagi. Margir þeirra taka oft meira uppí sig en þeir geta staðið undir. Eru líka oft ákaflega orðljótir. Sumir eru reyndar mjög vel að sér á afmörkuðum sviðum en reyna gjarnan að vera sem mestir besservisserar" um alla mögulega hluti.
Jónas Kristjánson (jonas.is) er góður eins og venjulega og talar um erlenda eineltið. Minnist líka á Davíð Oddsson og endurkomuáhuga hans. De Gaulle er leiðarstjarnan í lífi Davíðs og hann dreymir um að þjóðin komi skríðandi á hjánum til sín og biðji um frelsun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.12.2009 | 00:11
886 - Grímulaus árás
Sé ekki betur en blaðamannafundur stjórnarandstöðunnar og tillaga um að vísa Icesavemálinu frá sé árás á ríkisstjórnina. Tvísýnt er um að hún takist. Líklegt er að viðbrögð ríkisstjórnarinnar ráði mestu um hvernig fer. Einkennilegt er að í áskorun stjórnarandstöðunnar er lagt til að ESB miðli málum.
Gefið er í skyn að ríkisstjórnin ætli sér að láta handhafa forsetavalds samþykkja Icesave frumvarpið en ekki forsetann sjálfan. Það væri hættulegur leikur hjá stjórninni.
Þingmaður úr stjórnarliðinu leggur til að Icesave málið verði tekið úr höndum Alþingis. Sú lausn kann að verða ofaná.
Vinsælt er af mörgum sem vilja vera hátíðlegir í þingræðum að fjölyrða um sögu landsins. Auðvelt er að túlka hana á margan hátt. Sumir reyna að fyrna mál sitt sem mest og tala sem hæst.
Fyrir nokkru sá ég ógleymanlegt brot úr kvikmynd. Þar var einhverfur drengur að staulast niður stiga eða tröppur og hafði mikið fyrir því sem flestum hefði verið auðvelt. Held að þetta hafi verið úr íslensku kvikmyndinni sem nefnd er Sólskinsdrengurinn."
Nú eru sagðar fréttir af því að HBO sjónvarpsstöðin bandaríska hafi keypt þessa mynd og að hún verði hugsanlega tilnefnd til Óskarsverðlauna.
Á uppboði hjá góða hirðinum voru ýmsir áhugaverðir munir til sölu. Mesta athygli mína vakti gamaldags þvottabretti sem kaupandinn ætlaði að nota sem einhvers konar taktstokk. Sú var tíðin að þvottabretti voru ekki spor merkileg. Man vel eftir slíkum hlutum í notkun. Einnig taurullum sem nú er alveg hætt að nota. Þvottabretti voru svo algeng áður fyrr að notkun orðsins í óeiginlegri merkingu um slæma malarvegi skildu allir.
Myndræn framsetning hugmynda getur verið af því góða. Slík framsetning tíðkast mjög á Netinu. Vel er þó hægt að setja flestar hugmyndir í orð.
Mjög hefur tíðkast undanfarið hjá stórum fyrirtækjum að tala fremur um svið en deildir. Til dæmis eru flestar tölvudeildir nú orðnar að upplýsingasviðum. Þá sé ég jafnan fyrir mér sviðahaus með gulum minnismiða. Þetta væri einfalt að setja fram á myndrænan hátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.12.2009 | 00:20
885 - Moggabloggið
Ég hef fylgst með íslenskum bloggum síðan um aldamót eða svo. Markverðasta nýjungin sem fram hefur komið á þeim tíma er Moggabloggið. Þar var öllum, sem á annað borð litu öðru hvoru inn á fréttavefinn vinsæla mbl.is, gefinn kostur á að blogga ókeypis á afar einfaldan hátt.
Að leyfa öllum að blogga eins og þeim sýndist hafði ýmsa galla sem Moggabloggið hefur ekki farið varhluta af. Ýmislegt sem stjórnendur Moggabloggsins hafa fitjað uppá síðan þeir byrjuðu hefur fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum bloggurum. Eyjan og fleiri hafa fengið til sín marga af bestu Moggabloggurunum. Þeir hafa þó ekki gengið eins langt í því að leyfa öllum að blogga eins og þeim sýnist án endurgjalds og losna því við sum þeirra vandamála sem hrjáð hafa Moggabloggið.
Veran á Moggablogginu tók nýja stefnu þegar Davíð Oddsson gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Allmargir vinsælir bloggarar fóru þá annað og létu þarmeð pólitískar skoðanir hafa áhrif á blogg sitt. Síðan hefur Moggabloggið látið talsvert á sjá. Ég er samt ekki að skrifa þetta vegna þess að ég ætli að hætta hér á Moggablogginu.
Nokkuð er um það hjá fyrirtækjum að lokað sé fyrir fésbókaraðgang og jafnvel að fleiri vefsetrum þó aðgangur að Internetinu sé óhindraður að öðru leyti. Ég efast ekki um að þetta sé gert til þess að starfsfólk freistist síður til að vanrækja vinnuna. Samt felst í þessu vanmat á starfsfólkinu og hugsanlega er hægt að túlka þetta sem tilraun til umræðustýringar. Ekki er mér kunnugt um að fyrirtæki loki fyrir aðgang að innlendum fréttamiðlum eða bloggsetrum og líklega er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2009 | 00:07
884 - Blogg, Icesave og ESB
Enn fjölgar Eyjubloggurum og er það engin furða. Mogginn gerir í því að fæla fólk frá sér. Þar er samt mjög gott að blogga og hugsanlega er mbl.is ennþá dálítið vinsælla en Eyjan sem fréttamiðill.
Sýnist að Eyjubloggararnir Lára Hanna og Ómar Ragnarsson ætli sér að blogga einnig á Moggablogginu. Kannski eru fleiri sem það gera. Hef bara ekki gáð. Annars fer þeim alltaf fækkandi bloggunum sem ég nenni að lesa. Les heldur ekki blöð eða bækur að neinu ráði. Lifi mest í gamla tímanum. Kíki þó jafnan á stórhausana á Moggablogginu, Blogg-gáttina, Eyjuna, Google readerinn og bréfskákirnar mínar. Póstinn minn líka öðru hvoru. Skoða jafnvel stöku sinnum dv.is og visi.is, einnig bloggvinina og tilkynningar frá þeim. Auk þess horfi ég talsvert á sjónvarpsfréttir. Verð að viðurkenna að ég les fremur blogg hjá Moggabloggurum en Eyjubloggurum og skoða afar sjaldan blogg hjá Bloggheimum nema mér sé sérstaklega vísað þangað. Til dæmis af Blogg-gáttinni eða Readernum mínum.
Andstæðingar ESB halda því jafnan fram að með aðild tapi Íslendingar fullveldi sínu. Þetta er bara skoðun en ekki staðreynd. Fulltrúar þeirra þjóða sem eru meðlimir telja lönd sín fullvalda og lítið er efast um það. Þegar Austur-Evrópu þjóðirnar gengu í ESB töldu flestir sem þar búa að einmitt væri verið að styrkja fullveldið með því að ganga í ESB.
Samt er enginn vafi á því að með aðild framselja ríkin hluta fullveldis síns til sameiginlegs bandalags. Þetta hefur alltaf verið ljóst og er einmitt grundvöllur sambandsins. Upphaflega töldu ríkin það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir styrjaldir í álfunni. Síðan hefur sambandið þróast og aukið mjög velsæld aðildarríkjanna, einkum þó með hinum stóra sameiginlega markaði.
Sambandið er semsagt í þróun og ekki hægt að segja með vissu hvert það stefnir. Ekkert er samt sem bendir til þess að stórríki með svipaða stöðu og Sovétríkin sálugu eða Bandaríki nútímans sé á döfinni.
Nú er þess farið á leit við Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands að hann neiti að undirrita nýju lögin um Icesave. Beiðnin setur Ólaf í nokkurn vanda. Þegar hann neitaði að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004 bjuggust margir við að hann mundi minnast sinnar pólitísku fortíðar og gera það. Nú búast fáir við að hann neiti undirskrift. Samt gæti svo farið. Reikna samt með að núverandi ríkisstjórn mundi í því tilfelli efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í raun og veru. Í Icesave málinu gæti þó allt fallið í ljúfa löð á síðustu stundu til dæmis með einhverjum smávægilegum breytingum.
Ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur mun hún alls ekki snúast eingöngu um Icesavemálið heldur ekki síður um stuðning við ríkisstjórnina og hvað líklegast sé að taki við verði Icesavefrumvarpið fellt. Við gæti blasað alvarleg stjórnarskrárkreppa ofan á allt annnað.
Málþóf er nú stundað af miklu kappi á Alþingi af svokölluðum þingmönnum". Einn þeirra talaði um daginn um svokallaða bloggara". Eiginlega er bloggið allt eitt risavaxið málþóf. Samt væla þingmenn undan því. Mér finnst að stjórnarandstaðan megi stunda málþóf ef hún álítur það nauðsynlegt og ófært að þingmenn hennar séu að kveinka sér undan því að heyrist í svokölluðum kjósendum" .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.12.2009 | 05:02
883 - Steingrímur fúli
Steingrímur fúli, Steingrímur Búri
stígur til jarðar þungt.
Icesavið ljóta, Icesavið harða
ætti að fara burt.
Steingrímur er dálítið fúll og segir að Alþingi ráði ekki við Icesave. Rétt hjá honum. Hann ekki heldur. Kannski þjóðin. Treystum á Óla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)