Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

860 - Hefur spilað fótbolta allt sitt líf

Las svolítið um visakorts-málið í DV og sá svo fjallað um það í Kastljósi. Ef hægt er fer hlutur KSÍ í málinu sífellt versnandi.

Aumingja fjármálastjórinn álpaðist blindfullur inn á strípi-stað í Sviss og lánaði nærstöddum Visa-kortið KSÍ. Þetta var fyrir mörgum árum og svo verður allt vitlaust núna. Þetta er góður maður og hefur spilað fótbolta allt sitt líf, segir Geir Þorsteinsson sjálfur. Þá þarf ekki framar vitnanna við. Auðvitað eru allir englar sem hafa einhverntíma spilað fótbolta. Svo er Geiri Goldfinger eitthvað að auglýsa sig í tilefni af þessu. Ekki fara knattspyrnumenn til hans. Því trúi ég barasta ekki.

Ekki ætla Reykvíkingar að hætta við sína elsku stöðumæla þó reynslan af klukkukortum sé góð á Akureyri. Víða annars staðar eru þau einnig notuð með ágætum árangri. Reykvískir embættismenn eru ekki vanir að láta blekkjast af rökum.

Minnisstæð er líka að sérstök rannsókn var gerð á því uppátæki Akureyringa að hafa ókeypis í strætó. Í ljós kom í þeirri viðamiklu rannsókn að fleiri ferðuðust með strætisvögnum en ella ef fargjald var fellt niður. Þetta kom gríðarlega á óvart og enginn hafði reiknað með þessu.

Þó Reykvíkingar vilji fjölga strætisvagnafarþegum var ákveðið að lækka fargjöldin ekki. Rekstur kerfisins var betur tryggður með hækkun fargjalda. Líklega hættir hinn óþarfi strætisvagnaakstur hér í Reykjavík og nágrenni alveg þegar allir verða hættir að ferðast með þeim. Þeim árangri má ná með því að hafa fargjaldið nógu hátt.

Nú er ég búinn að komast að því hvernig vísan er sem kom til umræðu hérna um daginn. Sá hana á blogg.gáttinni. Hún er svona:

Selfyssinga er sinnið heitt.
Sundurlyndið stöðugt vex.
Í því tafli er brögðum beitt.
Bxg6.

Svo er DoctorE allt í einu orðinn aðalmálið aftur í kommentunum hjá mér. Aðalatriðið í hans máli er nafnleysið en ekki trúarfóbían. Það þarf að tryggja að nafnleysið njóti réttar. Andstæðingar þess vilja fyrir hvern mun koma böndum á tjáningarfrelsið.


859 - DoctorE

Jóhanna Magnúsdóttir tilkynnir á bloggi sínu í grein sem hún nefnir „Þeim vanstillta hent út", að hún hafi lokað bloggi sínu fyrir DoctorE. Í fyrstu án þess að nefna hann á nafn en í athugasemdum kemur fljótlega í ljós hvern hún á við. Fleiri en Jóhanna hafa lokað á DoctorE og stjórnendur Moggabloggsins hafa meinað honum að blogga hér. Hann hefur þó leyfi til þess að kommenta eins og aðrir og meira að segja eins og hann sé bloggari hér.

Mér finnst aldrei og ég undirstrika ALDREI, réttlætanlegt að loka á menn með þessum hætti. Vissulega er DoctorE oft æði hranalegur og stuðandi. Þeir sem um trúmál blogga verða því annað hvort að brynja sig gagnvart því sem hann segir eða mæta honum á annan hátt. Það sem DoctorE er heilagt er einmitt nafnleysið. Honum finnst hann hafa rétt á því að láta skoðanir sínar í ljós á þann hátt sem honum sýnist og án þess að gefa upp nafn sitt. Í þessu er ég honum sammála.

Mig minnir að ég hafi fyrst kynnst DoctorE þegar ég í bloggi númer 452 í september árið 2008 skrifaði dálitið um söguna frægu um Bjarna-Dísu. Þá skrifaði hann þetta:

Fjúkk... gott að þetta var ekki "alvöru" draugasaga, þá hefði ég kannski þurft að eiga við þig eins og eitt orð um það að draugar eru ekki til

DoctorE, 16.9.2008 kl. 20:07

Þetta fannst mér yfirlætislegt með afbrigðum. Síðan hef ég kynnst DoctorE betur og styð hann algjörlega í nafnleysismálinu. Í trúarlegum efnum deili ég ekki við hann. Jóhanna nefnir eftir einhverjum öðrum að líta beri á DoctorE sem einskonar „bakgrunnshávaða." Þetta finnst mér vel sagt. Ef fólk getur ekki höndlað það sem DoctorE segir um trúmál þá er upplagt að tala frekar um eitthvað annað.

Ég mundi vilja hafa fídus í bloggkerfinu hér sem gerir mér kleift að fá ekki tilkynningar um nýjar athugasemdir við ákveðin blogg. Kannski er hann til án þess að ég kunni á hann og vonandi kennir einhver mér þá á hann. Þegar það kemur fyrir að fjöldi athugasemda keyrir úr hófi þá er nauðsynlegt að geta hætt að taka þátt í því rugli sem þar getur verið á ferðinni og halda áfram að blogga um annað. Athugasemdir við vinsæla bloggið eru þá stundum til trafala við að fylgjast með athugasemdum við önnur blogg.

 

858 - Kanarí

Var að mestu búinn að skrifa þessa sunnudagsfærslu en henti henni svo óvart. Áreiðanlega hefur hún verið ansi góð. Verst að ég man bara svo lítið eftir henni. Jú, ég man að ég minntist á að líklega mundi ég fara í bloggfrí í janúar næstkomandi. Þá ætla ég nefnilega til Kanaríeyja í fyrsta skipti á ævinni.

Ef ég man ekki eftir neinu öðru þá hefur þessi færsla kannski ekki verið eins frábær og ég hélt. Getur samt orskakað að þetta blogg verði í styttra lagi.

Lagt hefur verið til að ráðnir verði vængjaðir kettir til að passa ofurhraðalinn í Sviss. Hann gæti orðið fyrir brauðmolaárás og ofhitnað. Nei, ég er ekki að grínast. Lesið bara um þetta á bloggi Egils Jóhannssonar. Hann er eins og ég afar hrifinn af þessari græju og fylgist vel með sífelldum bilunum í henni og þess háttar.

Er ekkitrú trú? Er það trú að trúa ekki? Er ég trúaður þó ég segist ekki trúa á neitt? Það eru undarleg trúarbrögð. Mikið er rifist á fjölda blogga um þessar einföldu spurningar. Vísasti vegurinn til að fá mikinn fjölda kommenta er að segja eitthvað tvírætt um trúmál.

Tvíræð eru trúmálin.
Trúleysi er bannað.
En fræðast má um fjármálin
og fara eitthvert annað.

Ég hef á tilfinningunni að ég sé alltaf að skrifa aftur og aftur um það sama hér á blogginu. Bara með svolítið breyttu orðalagi. Annars vegar finnst mér að aldrei gerist neitt og hinsvegar að allir hlutir séu sífellt að breytast með vaxandi hraða og ég hafi engan vegin við. Hvort ætli sé réttara?

Kjós rétt, þol ei órétt. Þetta hélt ég að ég væri að gera þegar ég kaus Borgarahreyfinguna í vor. Svo var ekki. Hvað er þá til ráða? Bíða eftir því að aftur verði kosið? Kannski kýs ég vitlaust þá líka. Veit samt ekki hvað verður í boði.

Lesið Staksteina í dag (laugardag). Frétt DV um að ellefu þúsund áskrifendur Mogga hafi hætt hefur komið við kauninn þar. Menn eru beinlínis með böggum hildar.

 

857 - Egill Helgason

Þetta blogg fjallar eingöngu um Egil Helgason. Ég þarf ekki að biðjast afsökunar á því. Egill er svo fyrirferðarmikill orðinn í íslensku menningarlífi að mörgum finnst nóg um. Sjálfum finnst honum það þó ekki og áreiðanlega ekki heldur æstustu aðdáendum hans.

Byrjum á blogginu hans. Það skoða ég allajafna en athugasemdirnar sjaldan. Skilst samt að þær séu oft margar og sumar þeirra vel þess virði að lesa. Google Readerinn minn býður þó ekki upp á það. Með því að klikka á fyrirsögnina og fara á bloggið sjálft gæti ég að sjálfsögðu skoðað kommentin. Finnst samt yfirleitt ekki taka því. Bloggið hans er eiginlega hvorki vont né gott. Yfirgripsmikið samt og mikið lesið og áhrifaríkt. Mest kannski vegna vinsælda hans á öðrum sviðum.

Augljóst er að margir hafa samband við hann og hann fær margt að vita sem öðrum er hulið. Aðrir sem hefðu sömu upplýsingarnar og samböndin hans gætu eflaust bloggað betur. Lára Hanna gerir það og tekur honum í raun og veru langt fram. Bæði eiga þau sér samt óvildarmenn.

Egill sóar hæfileikum sínum líka í annars flokks umræðuþátt um stjórnmál. Vinsældir þáttarins byggjast á því einu að hann hefur enga samkeppni. Mér finnst engin goðgá að segja að „Silfur Egils" sé annars flokks þáttur. Aðrir gætu sem best stjórnað slíkum þætti miklu betur en hann gerir. Oft hefur hann þó staðið sig ágætlega í vali viðmælenda. Stjórn hans á þáttunum er hins vegar afleit. Þar talar hver upp í annan og Egill spyr langra spurninga og misheppnaðra og veifar handleggjunum í allar áttir.

Kiljan er aftur á móti afbragðsvel gerður þáttur. Þar er Egill á heimavelli. Bókmenntir og saga eru það sem hann kann að fjalla um. Jafnvel Bragi er að verða klassískur. Þegar maður horfir á Kiljuna verður manni hugsað til þess hve sjónvarpið er búið að starfa lengi án þess að gera bókmenntum skil að ráði.

Trú mín er sú að þó Kiljuþátturinn mundi leggjast af mundi spretta upp annar bókmenntaþáttur. Slíkt hefur vantað lengi og vandséð er hvernig hægt væri að komast af án slíks þáttar. Varðandi bókmenntirnar hefur Egill gert það sem engum öðrum hefur tekist. Búið til vinsælan og öflugan framhaldsþátt í sjónvarpi um þær. Það er afrek sem munað verður.

 

856 - AGS/IMF

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er sagður hafa gefið í skyn að lækka eigi húsnæðisskuldir og svigrúm sé til þess. Þetta kann vel að vera rétt en fréttir af þessu er oft sagðar á þann hátt að helst er að skilja að upphæðir þær sem nefndar eru komi svífandi úr loftinu. Mín reynsla er að peningar og verðmæti verði aldrei til úr engu. Útrásarvíkingarnir bjuggu reyndar til þannig verðmæti en nú er reikningurinn að koma í hausinn á okkur.

Tuttugu pósentin Sigmundar höfðu hvað mig snertir aldrei tilætluð áhrif. Fréttaflutningur af því máli var jafnan þannig að helst mátti skilja að fjárhæðir kæmu svífandi fyrir galdra og fjölkyngi.

Nú segir AGS að svigrúm sé til lækkunar húsnæðisskulda. Það kann að vera vegna þess að lánardrottnar vilji heldur fá eitthvað en ekkert. Eftirgjöf skulda til þeirra sem mest skulda og minnstar líkur eru á að greiði sínar skuldir er eflaust betra að komi húsnæðiseigendum til góða en öðrum. Þeir hafa greinilega orðið fyrir mikilli ósanngirni. Skuldirnar hafa hækkað mikið en fasteignirnar fallið í verði.

Hef ekki kynnt mér Hagamálið nógu vel til að úttala mig um það. Hirðmenn Davíðs hafa þó tekið við sér og ég tek eftir því að að Hannes Hólmsteinn bloggar um það af mikilli hind.

Einu sinni fékk hann „gæsalappadóm" á sig. Nú virðist hann vera að bíða eftir „greinaskiladómi".
Í alvöru talað finnst mér skrýtið að jafn „ritfær" maður og Hannes skuli geta skrifað jafnlangar greinar og hann gerir án þess að draga andann.

„Hvað segir klósettið þitt um þig?"

„Ég held að það steinhaldi kjafti."

„Nú, þá er það ekki almennilegt auglýsingaklósett."

„Það getur vel verið. Ég vil bara ekkert að það sé að kjafta um mína klósetthegðun."

 

855 - Karakúl og sími

Einu sinni í fyrndinni var Búnaðarritið gefið út árlega. Pabbi var áskrifandi að því enda fyrrverandi bóndi og las ég stundum eitt og annað þar ef ekki var annað að hafa. Í þann tíð var Páll Zóphaníasson búnaðarmálastjóri. 

Einhverntíma fyrir mitt minni en þó á tuttugustu öldinni var flutt inn svonefnt Karakúlfé. Það átti að auka mjög arðinn af hinni íslensku landnámsrollu en reyndin varð sú að með því kom mæðiveikin sem hafði miklar hörmungar í för með sér.

Ragnar Ásgeirsson ráðunautur bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands bjó að Helgafelli í Hveragerði. Hann var hagmæltur vel og hafði yndi að hverskyns þjóðlegum fróðleik. Gaf meðal annars út þjóðsagnabókina Skruddu. Eftirfarandi vísa er eftir hann og um Pál búnaðarmálastjóra.

Þegar Palli þenur gúl
þykir kárna gaman.
Hann er eins og Karakúl
kynblendingur í framan.

Símamál ættu ekki að þurfa að vera ákaflega flókin. Símafyrirtækin leitast þó við að gera þau sem allra flóknust til að geta svindlað sem mest á fólki. Á mínu heimili erum við með einn heimasíma og tvo farsíma sem eru lítið notaðir. Auk þess ADSL-Internetsamband. Um daginn ætlaði ég fyrir þrábeiðni konu nokkurrar í þjónustudeild Símans að skipta um fyrirtæki. Þ.e. skrá mína síma hjá Símanum í stað Vodafone.

Í sem stystu máli sagt er allt búið að vera í ólestri síðan og sennilega búið að klúðra því sem hægt er að klúðra. Svo blönduðust sjónvarpsmál inn í þetta allt saman og ekki bætti það úr skák. Sennilega dygðu mér tæpast tíu blaðsíður til að gera sæmilega grein fyrir þessu öllu svo ég sleppi því bara en vona að málin komist í lag á endanum.

Rannsóknir á ruslahaugum. Páll Theodórsson segir að landnám Íslands hafi orðið um 670. Það finnst mér trúlegt og hefur það lengi verið haft fyrir satt meðal fornleifafræðinga að landnámið hafi átt sér stað þónokkru fyrr en Ari fróði segir. Fyrir nokkru bloggaði ég um þetta og minntist þá á hugmyndir Páls um að rannsaka kolagerð frá fyrri tímum. Sömuleiðis eru ruslahaugar hvers konar mjög forvitnilegir til rannsókna. Þetta verkefni er að fara í gang núna og fyrstu niðurstaðna jafnvel að vænta fyrir næstu jól.

 

854 - Þingvallavatn

Í Þingvallavatni er álíka mikill vökvi og 4300 manns mundu míga á 50 árum. Margir hafa gaman af að heyra fánýtan fróðleik af þessu tagi. Fáir mundu hafa fyrir því að athuga hvort þetta gæti staðist. Gallinn er sá að þetta er enginn fróðleikur. Ég bjó bara þessar tölur til og var ekki lengi að því. Svona lagað gæti ég samið í löngum bunum og kannski eru einhverjir sem gera það. Fánýtum fróðleik treysti ég sjaldan. Lágmarkið er að ljósmyndir fylgi.

Það er oft gaman að blogginu hennar Salvarar. Verst að hún skuli vera framsóknarmaður. Það á ég erfitt með að fyrirgefa henni. Nú er hún dottin í föndrið. Það er alveg klassi. Bara að fleiri framsóknarmenn færu þangað.

Framsóknar í föndrið nú
fara allir saman.
Skrambi mikil skemmtun sú
og skelfilega gaman.

Salvör fer í sveitina.
Sýður marga hausa.
Fleygir oní feitina
og fer síðan að ausa.

Nei, nú er rímið búið að taka af mér öll völd svo það er best ég hætti.

„Kabúlfarar í Kjúklingastræti" er gott bókarnafn og hérmeð frátekið. Vandinn við að gera þetta að heiti á reisubókarkorni er einkum sá að ég hef aldrei til Asíu komið en auðvitað er hægt að bæta úr því.

Þetta með Haga er alls ekki neitt smámál. Morgunblaðið undir stjórn Davíðs leggur mikla áherslu á að forða Högum frá Jóni Ásgeiri. Verst að þá er líklegast að nýir útrásarvíkingar (nóg er af þeim) nái tökum á fyrirtækinu. Hver á að eiga Haga? Tveir aðilar sýnast stefna á það. Jón Ásgeir og Nýja Kaupþing. Hvorugur kosturinn er góður. Marínó G. Njálsson bloggar um þetta og leggur til að stofnað verði  almenningshlutafélag um eignarhaldið á Högum. Það er skynsamlegt.

Bloggin mín eru að breytast. Sumt í þeim er jafnvel ómerkilegra en æskilegt væri. Auðvitað á ég ekkert að vera að dæma um hvað er ómerkilegt og hvað ekki. Það er allsekki víst að aðrir séu mér sammála um það. Aðalkostuinn við þau er samt að ég leita víða fanga. Skrifa um ólíklegustu mál og sjaldan færri en nokkur í sama blogginu.

 

853 - Hagar

Það er margt sem bendir til þess að helsta átakamálið í stjórnmálum næstu vikurnar verði eignarhaldið á fyrirtækinu Högum. Sú er að minnsta kosti von sjálfstæðismanna sem virðast hafa þá köllum umfram aðrar að koma núverandi ríkisstjórn frá. Hvað þá tekur við er afar erfitt að segja en svo virðist sem forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji fremur fiska í því grugguga vatni en vera þægir og hugsa um þjóðarhag. Sjálfstæðismenn þurfa líka að huga að því að talsverðar líkur eru á að flokkurinn klofni og hefur sú hætta farið vaxandi að undanförnu í réttu hlutfalli við aukin völd Davíðs Oddssonar.

Hvur er það sem hefur Haga?
Hann Geiri litli Bónus-son?
Úr hans magt vill Dabbi draga
Og dempa mjög hans hagavon.

(hagavon = hagnaðarvon - held ég)

Ég held samt að ríkistjórn Jóhönnu og Steingríms muni tóra enn um sinn og jafnvel koma einhverju í verk. Eflaust ekki nógu samt til að friða þá óánægðu sem sífellt fer fjölgandi. Næstu kosningar held ég að verði vorið 2011.

Orku-umræða öll mun fara mjög vaxandi á næstu mánuðum og misserum. Inn í hana blandast að sjálfsögðu náttúruverndarsjónarmið sem munu skipa sífellt hærri sess í hugum fólks. Ómar Þ. Ragnarsson og Dofri Hermannsson mundu aldrei eiga framtíð fyrir sér í Sjálfstæðisflokknum en vel er hugsanlegt að þeir plumi sig í Samfylkingunni enda eru þeir báðir þar og ætla sér áreiðanlega stóra hluti.

Svo bíða menn átekta eftir að umræður um stóra málið blossi upp einu sinni enn. Hér á ég auðvitað við ESB. Alls ekki er víst að allir aðilar fjórflokksins svonefnda komist í gegnum þau ósköp. Verstur verður klofningurinn í þessu máli líklega í Sjálfstæðisflokknum. Ef flokkurinn færist verulega til miðju eins og sumir vilja þá munu stuðningsmenn ESB-aðildar hugsa sér til hreyfings. Kvóta-auðvaldið og nýfrjálshyggjan munu þá ef til vill kljúfa sig frá öðrum í flokknum.

Lána bankar löngum frekt.
Líka stöku jóði.
En barnalán er barnalegt
og barnar sparisjóði.

 

852 - mbl.is

Aðaluppistöðufrétt mbl.is í morgun (sunnudag) hafði fyrirsögnina: „Tilhæfulaus árás á lögreglu". Árásin kann vel að hafa verið tilefnislaus en hingað til hefur örlað á hugsun í fyrirsögnum mbl.is þó greinarnar sjálfar hafi oft verið afspyrnuilla skrifaðar. Nú er sú tíð víst liðin. 

Sem bloggara líður mér hérna eins og ég sé í stjórnarandstöðu þó ég sé eiginlega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Það kemur til af því að hér á Moggablogginu eru þeir miklu fleiri sem styðja Davíð en Jóhönnu þó ég sé ekki sama sinnis. Á ekki von á að viðsjár minnki verulega á næstunni í stjórnmálum landsins. Ég sé árásir þær á ríkisstjórnina sem nú eru stundaðar af miklum móð fyrst og fremst sem örvæntingarfullar tilraunir útrásarvíkinga til að ná völdunum aftur.

Annars hef ég einkum það að segja um pólitík að menn ættu ekki að taka hana of alvarlega. Fleira er matur en feitt ket og mun hollara er að borða það ekki. Eða að minnsta kosti fremur lítið af því. Auðvitað skiptir Icesave samt máli og ESB jafnvel líka, en það er ekki ráðlegt að láta slík smámál stjórna lífi sínu nema fá almennilega borgað fyrir það.

Ómari Ragnarssyni er ekki fisjað saman. Helst er á honum að skilja að hann ætli að blogga bæði á Moggablogginu og Eyjunni. Líklega verður honum engin skotaskuld úr því.

Ómar segist ætla að blogga
Eyju hjá og líka Mogga.
Enda skrifar á við þrjá
eitilharður karlinn sá.

Til hvers eru rím og stuðlar í vísum? Mér finnst augljóst að það sé til að auðveldara sé að kunna þær og muna. Ekki bætir það vísur og ljóð að neinu marki. Fjölnisgrein Jónasar Hallgrímssonar um íslenskar rímur var alltof sönn. Vísnagerð hefur ekki borið sitt barr síðan. Sigurður Breiðfjörð var þó ágætt skáld og átti alls ekki þá meðferð skilda sem Jónas veitti honum.


851 - Ómar Ragnarsson

Sé á Eyjunni að Ómar Þ. Ragnarsson er sagður vera byrjaður að blogga þar. Um það er helst að segja að ég sé dálítið eftir Ómari héðan af Moggablogginu. En þó hann sé farinn er vel hægt að fylgjast með honum á nýja staðnum og lesa bloggin hans þar. Tek samt eftir því að á Eyjunni leyfir hann ekki athugasemdir en það gerði hann þó hér á Moggablogginu. Kannski á það eftir að breytast. 

Eyjan var upphaflega stofnuð til höfuðs mbl.is og Moggablogginu. Að mörgu leyti hefur þeim tekist vel upp. Er samt ekki sannfærður um að betra sé að blogga þar. Ekki veit ég hvernig þeim hefur tekist að safna þeim bloggurum í sinn hóp sem þar eru. Flestir þeirra held ég að hafi hafið sinn bloggferil á Moggablogginu og séu blogg þeirra skoðuð sést að margir þeirra eru óttalega óvirkir þó nafnasúpan líti vel út.

Á Eyjunni er Ómar nú
sem alla hefur langað.
Eigi menn sér fína frú   (TF-FRU)
fræknir komast þangað.

Nú er að komast festa á stéttaskiptingu bloggara. Í mínum huga skiptast þeir í ofurbloggara, Eyjubloggara og Moggabloggara. Hingað til hefur vandinn verið sá að bloggarar hér og þar (Blogspot, Wordpress, visir.is blogg.is o.s.frv.) hafa litið niður á Moggabloggara og þóst vera þeim fremri. Nú eru þeir eiginlega allir orðnir ómark. Það dugar ekkert minna en að komast á Eyjuna. Moggabloggarar eru þó ennþá „Scum of the Earth."

Ef Davíð Oddsson og aðrir öfgasinnaðir hægrimenn fara að hafa of mikil áhrif hér á Moggablogginu fer ég vissulega að íhuga að hætta skrifum hér. Skorað hefur verið á mig að gera það en ég hef hingað til daufheyrst við því einkum vegna þess að ég tel áhrif af stefnu Morgunblaðsritstjóra ekki ná hingað inn nema að litlu leyti og Moggabloggið einfaldlega bjóða notendum sínum bestu þjónustuna. Samstarf þeirra við aðrar bloggveitur gæti þó verið betra.

Svo segist Svanur Gísli vera að hætta hér líka og er þá farið að fjúka í flest skjól. Hvert skyldi Svanur vera að fara? Lára Hanna er þó ekki enn farin eftir því sem ég best veit.

Í grein á mbl.is (sem ég linka ekki í fremur en ég er vanur) er sagt frá því að jafnvel standi til að fækka grunnskólum í Borgarbyggð úr 5 í 3. Borgarafundir verða haldnir á næstunni um málið og aðrar leiðir eru hugsanlegar samkvæmt fréttinni á mbl.is. Annars er þessi frétt á mbl.is svo illa skrifuð og full af villum að skelfilegt er. Ritvillur voru jafnvel í fyrirsögninni þegar ég sá hana fyrst. Skiljanleg er fréttin þó að mestu leyti. Ég er viss um að reynt verður að laga hana svolítið til svo ég nenni ekki að telja villurnar upp.

Og nokkrar myndir.

IMG 0050Kópavogskirkja.

IMG 0053Skyldi hann ætla að skella sér niður á Kringlumýrarbrautina?

IMG 0096Tré.

IMG 0097Hættulegt.

IMG 0099Fyrir ketti sem kunna að lesa. (Anna í Holti á víst einn slíkan.)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband