Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

870 - Unga fólkið og atvinnuleysisbæturnar

Í frétt á forsíðu Morgunblaðsins segir að um 2550 ungmenni á aldrinum 15 - 24 ára séu á atvinnuleysisskrá og búi enn í foreldrahúsum. Þetta getur vel verið rétt þó ég sjái ekki í fljótu bragði hvernig blaðið kemst að þessu með foreldrahúsin. Eflaust byggist það samt á lögheimilisskráningu sem allir vita að alls ekki er alltaf í samræmi við raunveruleikann. 

Það er engin furða þó Árni Páll félagsmálaráðherra vilji komast yfir peningana sem þetta fólk fær með réttu í atvinnuleysisbætur. Þarna er örugglega um umtalsverða upphæð að ræða sem muna mundi um í kreppunni. Reglur segja samt að þetta unga fólk skuli fá atvinnuleysisbætur og það ber að virða en ekki breyta reglunum í skyndingu nú bara vegna þess að ríkisstjórninni kemur það vel.

Í framtíðinni getur það vel orðið vandamál ef margt af þessu unga fólki festist í því böli sem atvinnuleysið er. Það er hinsvegar sjálfstætt úrlausnarefni og ég kem ekki auga á að rétta ráðið sé að svipta fólkið atvinnuleysisbótum. Það er þjóðfélagið sem hefur brugðist fólkinu og ekki batnar málið ef líka á að refsa því.

Langbest er að þeir peningar sem af fólki eru teknir fari beint og milliliðalaust til þess að mennta það og veita því starfsreynslu. Skikka má fólk til að sækja slíkt.

Bloggið hentar mér ágætlega að því leyti að mér finnst mjög gott og eiginlega meiriháttar að geta á þennan hátt komið daglega frá mér texta sem ég veit að einhverjir lesa.

Ég geri ekki mjög oft athugasemdir við blogg annarra. Hef samt lent í því þrívegis að fá athugasemdir ekki birtar en í staðinn orðsendingu um að bloggsíðu-eigandi þurfi fyrst að samþykkja athugasemdina. Þessi þrír aðilar eru: Stefán Friðrik Stefánsson, Svavar Alfreð Jónsson og Jón Magnússon. Sumir gefa alls ekki kost á athugasemdum og að sjálfsögðu forðast ég blogg þeirra eins og heitan eldinn.

Lára Hanna Einarsdóttir bloggar því miður sjaldan núorðið en setur samt öðru hvoru inn greinar úr blöðum. Um daginn setti hún inn grein eftir Sverri Ólafsson. Ég byrjaði að lesa þá grein en komst ekki langt því fordómar greinarhöfundar virkuðu illa á mig. Hann segir snemma í greininni:

Síðan undirritaður kvæntist hefur hann talið að Þingeyingar væru yfirleitt betur gefnir en annað fólk. Sú skoðun hefur nú beðið alvarlegan hnekki. Suðurnesjamenn koma hins vegar ekki á óvart.

Lengra gat ég ekki lesið vegna eigin fordóma gagnvart fordómum annarra. Vel getur samt verið að þetta sé hin merkasta grein sem ég hefði betur lesið alla með athygli.


869 - Lítilmennið Árni Páll Árnason

Oft er sagt að það sé lítilmannlegt að ráðast að kjörum aldraðra og öryrkja. Mér finnst það ekki. Þeir geta þó svarað fyrir sig. Það geta unglingar ekki. Þessvegna er það sérstaklega lítilmannlegt af félagsmálaráðherranum Árna Páli Árnasyni að ráðast með þeim hætti sem hann gerir á ungt fólk. Sem ástæðu ber hann ekki aðeins fyrir sig sinn eigin aumingjaskap og ríkisstjórnarinnar heldur segir hann fullum fetum að unga fólkið hafi gott af því að stolið sé frá því. Þvílík skinhelgi.

Eitt sinn var það samþykkt í samningum milli launþega og vinnuveitenda að greiða ekki fullt verkamannakaup fyrr en við 18 ára aldur. Lengi hafði þá tíðkast að greiða fullt kaup við 16 ára aldur. Margir voru alfarið á móti þessu. Meðal annars beitti ég mér þá fyrir því sem formaður Verslunarmannafélags Borgarness að samningarnir voru felldir þar. Endirinn varð sá að sú unglingaárás sem gerð var frá Garðastrætinu var dregin til baka.

Nú hyggst ríkisstjórn Íslands höggva í þennan sama knérunn og níðast á unglingum landsins með því að svipta þá atvinnuleysisbótum. Slíka ríkisstjórn get ég ekki stutt.

Ekki eru allir jafnánægðir með þingmanninn unga og nýkjörinn formann Heimssýnar Dalamanninn Ásmund Einar Daðason. Þetta blogg-bréf sem ég birti hér ber vott um það.

,, Sæll Ásmundur og til hamingju með formannsembættið í Heimssýn. En sem félagsmaður  þar  skora ég  á þig að greiða atkvæði gegn nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar um icesave. En það tengist klárlega umsókn Íslands að Evrópu-
sambandinu. Hyggst þú hins vegar greiða atkvæði með icesave, skora ég á þig að segja af þér sem formaður Heimssýnar, svo komist verði hjá alvarlegum klofningi þar, því margir, þar á meðal ég, munu segja sig úr samtökunum, taki formaður Heimssýnar þá and-þjóðlegu afstöðu að greiða fyrir inngöngu Íslands í ESB með samþykki á þjóðsvikasamningnum um icesave. HJÁSETA eða FJARVERA
verður túlkað sem samþykki á icesave.

                   Virðingarfyllst.
                   Guðm.Jónas Kristjánsson   "

Þetta sannar bara gamla spakmælið að því minni sem samtök eða stjórnmálaflokkar eru því líklegri er klofningur þar.

Óhreinu börnin hennar Evu.

Kommúnistar.
Holocaust deniers.
Climate change deniers.

Þetta eru frasar sem notaðir eru til að reyna að gera menn að ómerkingum. Sigurður Þór Guðjónsson minnist á það síðastnefnda á bloggi sínu. Þetta er bara nýjasta afurðin en notuð á sama hátt. Á þennan hátt fá viss orð og orðasambönd aukamerkingu sem hugsanlega er ekki öllum ljós. Þeir sem lenda í því að vera kallaðir „Climate change deniers" vita samt alveg hvað þetta þýðir.


868 - Spólum til baka á öskudaginn fræga

Einhverntíma þegar Doddsson var forsætis ætlaði Hreinn Loftsson að tala við hann með tveimur hrútshornum en heyktist svo á öllu saman. Hvernig væri að byrja bara aftur þar og fara öðruvísi í málin? Kannski slyppum við þá við hrunið og allt.

Horfði aðeins á sjónvarp frá Alþingi í dag. Þar var Pétur Blöndal að halda ræðu. Hann er oft álitinn hafa gott til mála að leggja. Einkum er það vegna þess að hann lætur ekki forystu Sjálfstæðisflokksins alltaf segja sér fyrir verkum. Stundum beitir hann líka nauðaómerkilegum mælskubrögðum. Svo var í þetta sinn. Mig minnir að til umræðu hafi verið laun þingmanna.

Pétur byrjaði á því að tala um Icesave. Einkum vexti af því láni og gerði mikið úr þeim. Taldi líka þingmennn bera mikla ábyrgð. Gaf í skyn að þeir réðu því til dæmis alfarið hvort vextir af Icesave láninu væru 1 prósent, 10 prósent eða eitthvað þar á milli. Allir vita að svo er alls ekki. Útaf þessu lagði hann mörgum sinnum í ræðu sinni en í mínum augum var hún með öllu ómarktæk vegna vaxtaumræðunnar í upphafi hennar.

Það er sorglegt að sjá son séra Árna í Söðulsholti taka að sér að verja þá tröllheimsku að svipta ungt fólk atvinnuleysisbótum bara vegna þess að það er ungt. Svona gera menn ekki.

Eins og flestir vita eiga taflborð að snúa þannig að hvítur reitur sé í hægra horni hjá báðum. Síðan eiga drottningar að ráða reitum eins og sagt er en það þýðir að hvíta drottningin á að vera á hvítum reit og sú svarta á svörtum.

Eitt sinn þegar Taflfélag Reykjavíkur var nýbúið að festa kaup á fasteign sinni við Grensásveg var ég að tefla þar kvöld eitt. Þegar við ég og andstæðingur minn komum að taflborðinu var búið að raða mönnunum upp. Það var samt ekki gert á réttan hátt.

Það er að segja að svörtu mennirnir voru þeim megin sem þeir hvítu áttu að vera og öfugt. Andstæðingurinn spurði hvort mér væri ekki sama og ég jánkaði því. Með þessu móti urðu allar tölur og bókstafir á jöðrum taflborðsins ómark og ég minnist þess að þetta truflaði mig mikið. Svo mikið að ég tapaði skákinni, en gat auðvitað ekki viðurkennt það og farið fram á að rétt yrði raðað upp.

Það eru stundum einföld sálfræðileg atriði af þessum toga sem ráða úrslitum skáka og ég er yfirleitt ekki hissa þó skákmenn deili oft um það sem virðast vera lítilvæg atriði.


867 - Lagst í ræsið

Skelfingu lostnir bloggararnir tvístruðust í allar áttir þegar ógnvaldurinn mikli, Davíð í Hádegismóum, birtist í kofadyrunum. Sína gerði svipu upp vega séra Sverrir Stormskers-lega og hrukku þá allir í kút. Jafnvel Eiði litla Guðnasyni sem sat úti í horni og rýndi í gamlar útprentanir af mbl.is brá svo mikið að hann missti blöðin sín og gat ekki molast neitt í þrjá daga. Gömul blogghænsni eins og Lára Hanna og Sæmi Sæmundarháttur voru of sein að forða sér en Svani Gísla og ýmsum öðrum bloggurum tókst að komast undan og taka til flugfjaðranna og stefndu rakleiðis til Bloggheima. Þar fengu þau skjól um sinn.

Svona gæti ævintýrið um Mogglingana hafist. En það er ekki búið að skrifa það ennþá.

Sverrir Stormsker er sagður hafa skrifað grein í Moggann. Af því tilefni skrifar Eiður Guðnason blogg-grein sem hann kallar „Mogginn leggst í ræsið". Eiður kveður fast að orði þarna og ég er ekki viss um að ég sé honum alveg sammála. Hef samt ekki mikið álit á Sverri og jafnvel minna á Mogganum en auðvitað þykir hverjum sinn fugl fagur. Eftir því sem Eiður segir er Sverrir þarna að skrifa um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að lesa þá grein.

Þessa dagana er ég að lesa bókina hans Eiríks Bergmann um Evrópusambandið. Mér finnst hún spennandi og skemmtileg en er nokkuð viss um að ekki eru allir sama sinnis. Bókin er ágætlega skrifuð og gefur gott yfirlit yfir þau flóknu og yfirgripsmiklu mál sem sameining Evrópu í Evrópusambandinu er.

Þó útlit sé nú fyrir að Evrópusambandsandstæðingar sigri auðveldlega í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild sem gæti orðið eftir svona eitt til tvö ár er ég ennþá sannfærður um að aðild mundi verða okkur Íslendingum til góðs.

Ég ætla samt ekkert að reyna að rökstyðja það núna. Tel bara að við getum ekki endalaust þegið allt mögulegt af öðrum og aldrei látið neitt í staðinn. Að ímynda sér að ESB sé að verða einhvers konar USA og að við þurfum að kvíða herskyldu í framtíðinni til dæmis er svo fáránlegt að það er ekki einu sinni fyndið.

Egill Helgason skrifar um það á blogginu sínu að ESB-samningurinn verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stefán Pálsson andmælir þessu á sínu bloggi og segir að samningurinn verði ekki felldur einfaldlega vegna þess að aldrei verði gengið frá honum.

Þetta eru áhugaverðar pælingar og ekki fráleitt að spekúlera einmitt í svonalöguðu meðan ekkert er vitað um hvort samningar takist eða hvernig þeir verða. Ég er sammála skoðun Stefáns að því leyti að líklegt er að Alþingiskosningar fari fram á undan atkvæðagreiðslu um ESB þó það sé alls ekki það sem Jóhanna vill. Úrslitin í þeim kosningum munu ráða mjög miklu um örlög væntanlegs ESB-samnings.

Með því aðgerðarleysi sem einkennt hefur núverandi ríkisstjórn er útilokað að hún verði við völd út kjörtímabilið. Þá er líka útséð um að ESB-aðild kemur ekki til atkvæðagreiðslu fyrr en eftir Alþingiskosningar.

Visir.is gefur í skyn að 122 þjóðfundarfulltrúar hafi lagt ólöglega í Laugardalnum á laugardaginn. Eflaust eiga menn síðan að hneykslast á þessu og draga í efa heiðarleik þeirra sem svona gera. Þannig er það bara ekki. Allir leggja ólöglega ef þeir sjá að aðrir gera það líka. Hefur ekkert með heiðarleika eða aðra kosti að gera.

Að svipta ungt fólk atvinnuleysisbótum eingöngu vegna þess að það er ungt er eins fráleitt og nokkur hlutur getur verið. Brýtur örugglega í bága við stjórnarskrá og að auki gegn réttlætiskennd allra hugsandi manna.


866 - Marteinn

Eitthvað hef ég heyrt talað um nýja framhaldsþætti á RUV og jafnvel séð bloggað um þá. Flest er það heldur neikvætt. Einn kom fram í athugasemdum hjá guðinum sjálfum og sagðist vera handritshöfundur að þessum þáttum og fólk mætti ekki fordæma þá svona. Það væri illa gert og þeir sem að þessu stæðu væru fjölmargir og liði illa útaf þessu.

Það sem ég hef séð skrifað um þættina bendir til þess að ég hafi ekki misst af miklu þó ég hafi verið eitthvað annað að sýsla þegar þeir voru sýndir. Prýðilegt. Þá þarf ég ekki að vorkenna sjálfum mér að hafa misst af þeim.

Félagar í Heimssýn eru sagðir vera næstum átján hundruð. Áreiðanlega mun enginn þeirra kjósa yfir sig ESB. Að öðru leyti er lítið um þá vitað. Þeir eru þó duglegir og fyrirferðarmiklir á bloggsíðum og hafa yndi af að skrifa stuðningsgreinar við þann vonlausa og neikvæða málstað að koma í veg fyrir að Íslandi gangi í Evrópusambanndið.

Loksins datt þeim í hug að skipta um formann og nú er þingmaðurinn ungi og röski úr Dölunum orðinn formaður. Samninganefnd hefur verið skipuð af hálfu Íslendinga og nú verður farið að takast á um málin.

Ég hef semsagt ekki trú á að farið verði eftir ósk Heimsýnar um að hætta við umsóknina. Frumvarp um slíkt hlýtur þó að verða lagt fram á Alþingi.

Og svo er Orkuveita Reykjavíkur víst að fara á hausinn. Hvernig má það eiginlega vera? Samt var verðið á heita vatninu hækkað af því að það var svo hlýtt í veðri. Já, það tapa víst allir á þessum gróðurhúsaáhrifum. Líklega betra að vera undir einhverjum öðrum áhrifum. Kannski hafa stjórnendur orkuveitunnar verið það þegar þeir þóttust vera að vinna vinnuna sína.

Og nokkrar myndir.

IMG 0188Á leiðinni til Jóns Geralds í dag.IMG 0194

Í búðinni hans.

IMG 0104Beðið eftir stjórnarfundi.

IMG 0105Í tilefni dagsins.

IMG 0107Útsýni úr Melahverfi.

IMG 0134Á Álftanesi.

IMG 0144Mannvirki á Álftanesi.

IMG 0150Tré.

IMG 0165Ýmislegt.


865 - Séra Helgi Sveinsson

Séra Helgi Sveinsson kenndi mér og okkur í landsprófsdeild Miðskóla Hveragerðis Mannkynssögu á sínum tíma. Meðal annars reyndi hann að koma í okkar heimsku  hausa helstu atriðunum í Ódysseifskviðu Hómers. Síðan prófaði hann kunnáttu okkar í þessu eðla kvæði. Ég var ekki slakastur í upprifjun á efni þessu en lét þess getið að þegar Ódysseifur komst heim til sín fyrir rest eftir mikla hrakninga var Penelópa kona hans búin að taka saman við annan.

Á þessum tíma var það ekki til siðs í fínu máli að segja „fyrir rest" (líklega er það dönskusletta - þær voru það hræðilegasta á þessum tíma) og þessvegna setti séra Helgi eftirfarandi vísupart neðst á prófblaðið mitt þegar hann skilaði prófunum.

Heim er komst hann fyrir rest
konan hafði hjá sér gest.

Ég er sannfærður um að ég væri gott efni í alkohólista. Mér finnst nefnilega svo gott að vera fullur. Eða að minnsta kosti svolítið hífaður. Auðvitað veit ég að of mikið má af öllu gera. Kannski hefur það bjargað mér frá bölvun áfengisins hve skelfilega dýrt það er hér á Íslandi.

Mér finnst bara gott á hægra liðið að þurfa nú um sinn að sætta sig við vinstri stefnu í skattamálum og öðru. Þeir þurfa bara að passa sig á því að hugsanlegt er að fólk vilji heldur skandinviskan stórabróðurleik en stöðuga þjófnaði frjálshyggjuliðsins eins og viðgengist hafa undanfarið.

Það er þungt fyrir fæti að vera stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Þó er áróðurinn gegn henni stundum svo einfeldnigslegur og vanhugsaður að hlægilegt er. Samt eru tímarnir þannig að mjög auðvelt er að vera á móti henni.

Ef hægri menn ætla að gera ESB málið að einhverju flokkspólitísku máli þá er eins víst að við lendum í Evrópíska stórríkinu sem þeir þreytast ekki á að vara okkur við. Reyndar verður það ekkert stórríki því Evrópusamtökin eru samtök fullvalda ríkja en ekki undirokaðra smáríkja.

Sjálfstæðismenn ráðast nú að sínum fyrrverandi formanni sem þeir komu að flestra áliti illa fram við á sínum tíma. Það er einfaldlega lítilmannlegt að ráðast að Þorsteini Pálssyni fyrir það eitt að fylgja eftir sannfæringu sinni.


864 - Hinn dýrlegi Davíð

Illrannsakanlegar eru óravíddir Moggabloggsins. Svona skrifar einn af aðdáendum hins nýja ritstjóra þar um slóðir alveg nýlega:

„Fyrst verður þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um stakkaskiptin, sem orðið hafa á blaði allra landsmanna, Morgunblaðinu, við ritstjóraskiptin á blaðinu haustið 2009.  Nú er málvöndun, framsetning máls og efnistök með allt öðrum hætti og mun rismeiri en áður var, vettvangur ritstjórnar orðinn skýr og tæpitungulaus, stundum með skáldlegu ívafi og hnyttni, en laus við orðagjálfur og holtaþokuvæl, sem áður vildi brenna við.  Þá hefur hortittum og ambögum stórlega fækkað í blaðinu.  Að hlakka til að fá sinn Mogga í morgunsárið var liðin tíð, en sú tilfinning kom að nýju sama dag og ritstjóraskiptin urðu, og er slíkt þakkarvert í skammdeginu, þegar fátt eða ekkert gerist upplyftandi á hinum opinbera vettvangi" 

Mikill er máttur hins dýrlega Davíðs. Blaðamenn hætta samstundis sínu holtaþokuvæli og vefja um sig skáldlegheitum og hnyttni. Verst hvað fáir tóku eftir þessum mögnuðu umskiptum.

Fram fer fróðleg umræða um höfundarrétt í athugasemdadálki Salvarar Gissurardóttur við greinina um Hallgrímskirkjumyndina. Einkum er þar rætt um höfundarrétt að myndum og nú sé ég að ég þarf að kynna mér betur þetta „Creative Commons" sem Salvör hefur stundum skrifað um. Nýjasta innleggið í umræðurnar er reyndar frá einhverjum sem telur Salvöru áður fyrr hafa talað fyrir öðru en remixi og gjaldfrjálsu umhverfi.

Nú er fjasað og þrasað sem aldrei fyrr í þinginu um persónukjör, stjórnlagaþing og þess háttar. Alveg er ég viss um að þingmenn drekkja þessum málum í málæði. Það kæmi mér mjög á óvart ef eitthvað verður úr þessu öllu saman. Á frekar von á að sæki í gamla farið á öllum vígstöðvum og hrunið gleymist að mestu í næstu þingkosningum. Einskonar þjóðfundur skilst mér samt að verði nú um helgina. Kannski verður hann upphafið að einhverju.

Þetta með Sigurð G. Tómasson og Jussa Björling er að verða svolítið pínlegt. Ég er ekkert að draga úr því að Jussi geti sungið en hef sannfrétt að fleiri geti það. Og ekki orð um það meir.


863 - Höfundarréttur og fleira

Salvör Gissurardóttir skrifar athyglisverða grein á sitt Moggablogg sem hún kallar „Bannað að birta mynd af Hallgrímskirkju". Þessi grein hefur vakið talsverða athygli og það vantar ekki að sumir sem andvígir eru skoðunum hennar séu henni reiðir.

Salvör hefur marga fjöruna sopið og þekkir höfundarréttarmál út og inn og þarf ekki á minni aðstoð að halda. Það var þó meðal annars vegna óþarfrar breytingar á höfundarrétti sem Netútgáfan hætti starfsemi sinni árið 2001. Meðan ég stjórnaði þeirri útgáfu kynnti ég mér vel margt sem ritað er um höfundarréttarmál og var lengi áskrifandi að póstlista þar sem þau mál voru ýtarlega rædd af kunnáttumönnum um allan heim.

Skiljanlega var það samt sá réttur sem fylgir rituðu máli sem ég kynnti mér best. Sá eignarréttarskilningur sem lagður er í höfundarrétt hefur á síðustu áratugum farið vaxandi á Vesturlöndum. Annars staðar í heiminum er hann alls ekki ríkjandi.

Velti stundum fyrir mér hvort Sverri Stormsker finnist sjálfum að bullið í sér sé fyndið. Mér finnst það ekki. Hann er of mikið í kúk og piss bröndurum og ómerkilegum útúrsnúningum og uppnefningum fyrir minn smekk. Gamansemi hans er oft ógeðsleg. Samt vil ég ekki láta loka fyrir vitleysuna úr honum. Baggalútur er þó mun fyndnari og jafnvel Spaugstofan á köflum.

Eitthvað var verið að gagnrýna guðsmenn í bloggpistli um daginn. Þá kommentar einn: „Enginn verður óbarinn biskup". Síðueigandi var fljótur til svars og spurði með þjósti: „Nú, hver barði Karl?"

Hér á heimilinu er til bókin „Hermikrákuheimur" eftir Kleópötru Kristbjörgu. Ekki kannski mikið lesin en samt til. DV skrifar mikið um Kleópötru og kallar hana Majónesdrottningu. Gísli Ásgeirsson og Jónas Kristjánsson minnast líka á hana. Jónas telur hana vera skylda Sylvíu Nótt. Það kann vel að vera að Majónesdrottningin sé bara auglýsingatrix og endi sem þátttakandi í Evróvisjón.


862 - Jón Steinar Ragnarsson

Sé ekki betur en Jón Valur Jensson sé enn að munnhöggvast við Jón Steinar Ragnarsson. Les JVJ ekki jafnaðarlega en hann setti nafn Jóns í fyrirsögn hjá sér nýlega svo ég kíkti á þá færslu. Gæti skrifað margt um Jón Steinar. Hann kommentar stundum á bloggið mitt og er oftast dálítið neikvæður og stundum áberandi fljótfær.

Virðist fara sem hvítur stormsveipur um lendur Moggabloggsins (og kannski víðar) og kommenta út og suður. Bloggar samt sjálfur líka, að minnsta kosti öðru hvoru. Setur þó stundum aftur og aftur sömu sögurnar og lætur þess ekki getið að um endurbirtingu sé að ræða. Sögurnar eru samt góðar því hann er ritfær í besta lagi. Það er kannski eðlilegt að JVJ sé uppsigað við Jón því hann er einmitt annar af mestu afkristnunarpostulum Moggabloggsins (hinn er DoctorE)

Nú er ég búinn að blogga það mikið um Jón Steinar að ég get skammlaust sett nafnið hans í fyrirsögnina hjá mér og tryggt mér þannig umtalsverðan lestur. Trúi að minnsta kosti ekki öðru en Jón Valur kíki á þetta.

Jónas Kristjánsson skrifar á sínu bloggi um reiða hægrið og hefur eins og jafnan talsvert til síns máls. Fylgi Borgarahreyfingarinnar virðist vera á hraðferð til Sjálfstæðisflokksins. Slíkt er skammtímaminni kjósenda að ekki er hægt að sjá annað en núverandi ríkisstjórn sé kennt um báknið og hrunið. Hvítþvottur Bjarna Ben og Davíðs virðist semsagt ætla að virka. Hvítþvottur Framsóknarmanna sem fram fór á síðasta flokksþingi þeirra virðist aftur á móti ekki ætla að virka. Sennilega er það vegna þess að þeir Sigmundur og Höskuldur eru óttalega seinheppnir að ekki sé sagt vitlausir.

Á það til að kommenta hjá öðrum. Stundum fæ ég tilkynningu um að athugasemdin muni birtast síðar ef síðuhöfundur samþykki hana. Þetta dregur mjög úr löngun minni til að kommenta oftar hjá viðkomandi. Get ekki að því gert. Hef líka lent í því að athugasemdirnar eru ekki samþykktar, sem mér finnst vera bölvaður dónaskapur.


861 - Hriflu-Jónas

„Ófeitur eftir Jón Jónsson frá Hreyfli." hrópaði blaðsöludrengurinn hátt og snjallt. Þetta þótti Hriflu-Jónasi ekki fyndið. Strákurinn hefði átt að segja: „Ófeigur eftir Jónas Jónsson frá Hriflu." 

Hriflu-Jónas er án vafa sá stórbrotnasti persónuleiki sem ég hef kynnst um ævina. Ég kynntist honum þó afar lítið en hóf nám við Samvinnuskólann að Bifröst haustið 1959. Þar sveif andi Jónasar enn yfir vötnum enda hafði hann stjórnað Samvinnuskólanum frá stofnun hans árið 1919 og þangað til hann var fluttur upp í Borgarfjörð árið 1955. Þá var Jónas orðinn sjötugur.

Jónas átti sumarbústað við Reyki í Ölfusi sem kallaður var Fífilbrekka. Þar sá ég hann oft og kynntist honum örlítið á árunum áður en ég fór í Samvinnuskólann. Fyrri veturinn minn þar var skólastjóri séra Sveinn Víkingur sem leysti Guðmund Sveinsson af þann vetur. Sennilega var þó sá andi sem Guðmundur vildi hafa í sínum skóla meira í anda Jónasar.

Séra Sveinn var meinlaus og afskiptalítill og ekki nærri eins strangur og Guðmundur eða stífur á meiningunni. Eldhræddur var Sveinn þó með afbrigðum. Í hans tíð voru oft haldnar brunaæfingar og meðal annars tekin í notkun tréílát fyrir ruslasöfnun í stað járndallanna sem áður voru notaðir. Í kvikmynd sem sýnd var sást vel að eldtungur úr járndöllum teygðu sig mun hærra en úr tréílátum og voru þess vegna mun hættulegri við þær aðstæður sem voru að Bifröst.

Bifrastarárin eru um margt minnisstæð. Þarna var allt í föstum skorðum. Útivistartímar, lestímar, matmálstímar og aðrir tímar stjórnuðust alfarið af klukkunni og mátti þar mjög litlu skeika. Fjarri fór því að við fengjum að ráða því sjálf hvar við sætum í matsalnum. Annað mál var þó með sætin í kennslustofunum.

Oft þurfti annar bekkurinn á báðum kennslustofunum niðri að halda. Þá var kennsla hins bekksins flutt annað á meðan. Til dæmis í setustofuna þar sem stólar voru mjúkir. Ef slíkir tímar voru snemma dags var erfitt að komast hjá áframhaldandi svefni. Sveini Víkingi hefði aldrei dottið í hug að taka upp sofandi mann. Guðmundur Sveinsson hefði vel getað fundið upp á því. Hörður Haraldsson hlaupari var orðlagður fyrir að taka upp sofandi fólk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband