Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
12.5.2008 | 00:09
332. - Það var ekki kapítalisminn sem gekk af kommúnismanum dauðum, það voru Sovétmenn sem eyðilögðu hann
með misheppnaðri tilraun. Það sem einkum má læra af þessari misheppnuðu tilraun er að kommúnisma verður trauðla komið á með byltingu. Hægfara þróun er heppilegri. Hvort sú þróun tekur tuttugu ár eða tvöhundruð skiptir litlu máli. Eiginlega var sjötíu árum stolið úr lífi margra þjóða. Bæði Rússa og annarra. En kommúnisminn mun koma aftur. Fyrstu merkin um það eru í Evrópubandalaginu. Það er þess vegna sem ég er fylgjandi aðild að því. Ég er nefnilega kommúnisti.
Já, sósíalismi eða kommúnismi er límið í Evrópubandalanginu hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki. Þjóðernishyggjan og ættjarðarástin er það sem einkum stendur kommúnismanum fyrir þrifum. Þó vinnast sigrar. Ekki voru Austur Evrópuþjóðir fyrr sloppnar úr tilrauninni hjá Sovétmönnum en þær vildu ólmar komast í aðra tilraun. Hún virðist á margan hátt vera mildari og reynir að ná tökum á hugum fólks, án beinnar andstöðu við kapítalískt skipulag.
Eitt af því sem gerir mig hvað mest fráhverfan vestrænu skipulagi er sú áhersla á helgi eignarréttarins sem þar ræður ríkjum. Þetta skipulag er til dæmis nú þegar orðið ónothæft á sviði höfundarréttar og einkaleyfa. Það stríðir einfaldlega gegn allri skynsemi, að óefnislegir hlutir sem stafræn tækni hefur gert mögulegt að afrita óendanlega mörgum sinnum, án verulegs kostnaðar, séu eign einhverra.
Auðvitað er það hugvit og sköpun að búa verkin til upphaflega, en það er engin sanngirni í því að notendur skuli endalaust eiga að halda áfram að borga fyrir það sem vinsælt er, og helst því meira sem það er vinsælla. Miklu eðlilegra er að þeir sem verkin gera upphaflega fái eðlilega greiðslu fyrir það og hugsanlega vernd fyrir afritun í stuttan tíma, en síðan verði öll notkun frjáls og heimil.
Þegar stafræn tækni fer að ráða við efnislega hluti verða mörk eignarréttarins ennþá óskýrari og flóknari. Sú eignarréttarhugsun sem hið kapítalíska skipulag Vesturlanda byggist á, gerir ráð fyrir skorti á öllu. Þegar skorturinn er ekki lengur til staðar (hann hefur þegar yfirgefið hugverkin) verður augljóst hve mikið slík hugsun tefur fyrir allri framþróun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.5.2008 | 00:48
331. - Á Bifröst fyrir næstum hálfri öld
Á Bifröst var margt brallað. Árin þar eru á margan hátt mjög eftirminnileg. Ég man að einhverju sinni kom þangað fólk sem útskrifast hafði frá Samvinnuskólanum 50 árum fyrr. Þvílík gamalmenni. Algjörlega komin að fótum fram. Nú eru bara 3 ár þangað til 50 ár verða síðan ég útskrifaðist. Hmm, ekki gott mál það.
Það er merkilegt hvað maður man frá þessum tíma. Eflaust er samt líka margt sem maður man alls ekki. Þegar fyrir dyrum stóð að fara í ferðalag að Reykjum í Hrútafirði var farið að leita að fólki í hinar ýmsu íþróttagreinar til að taka lýðinn þar í karphúsið. Meðal annars var farið að Varmalandi til að prófa fólk í sundi. Eitthvað heyrði ég á tímatökur minnst hjá þeim sem farið höfðu þangað og þótti skítur til koma. Lét víst í mér heyra þegar þetta kom til tals og var drifinn með í næstu ferð að Varmalandi. Þar tókst mér að mestu að standa við stóru orðin og komst í boðsundssveit skólans.
Þetta var að því leyti sögulegt að ég var nánast fastur maður í anti-sportistaklúbbnum svokallaða sem tíðkaði gönguferðir í útivistartímum í stað þess að ólmast í fótbolta og þess háttar óhollustu niðri á íþróttavellinum hjá Glanna. Útivistargöngunum lauk að vísu stundum í Hreðavatnsskála (Leopoldville) þar sem Fúsi vert hafði áður ríkt með sóma og sann.
Sund hafði ég stundað nokkuð í Hveragerði á uppvaxtarárunum, þegar ekki þótti tiltökumál að fara tvisvar til þrisvar í sund sama daginn. Komst jafnvel svo langt að keppa fyrir hönd Hvergerðinga (Ungmennafélags Ölfusinga) á árlegu sundmóti Skarphéðins oftar en einu sinni.
Þegar til kom og keppt hafði verið í hinum margvíslegustu íþróttagreinum við nemendur á Reykjum í Hrútafirði var ljóst að við Samvinnuskólafólk höfðum farið algjöra sneypuför norður og þegar að boðsundinu kom voru úrslitin ráðin. Við höfðum tapað í samanlögðu og töpuðum svo í sundinu einnig. Ég man eftir að Krístján Óli Hjaltason var með mér í sveitinni og vildi skipta við mig og taka síðasta sprettinn, en ég hafði staðið mig svo vel á Varmalandi að ég hafði unnið mér rétt til að taka hann. Kristján hafði verið í Reykjaskóla áður en hann kom að Bifröst, held ég.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.5.2008 | 00:34
330. - Borgarastríð í Líbanon? Einu sinni, einu sinni enn
Það var fyrst í dag sem ég sá fréttir um að ástandið í Líbanon færi síversnandi. Í framhaldi af því ætlaði ég að kíkja á blogg bloggvinar míns Davíðs Loga Sigurðssonar, sem síðast þegar ég vissi starfaði í Líbanon.
Þá uppgötvaði ég að hann var ekki lengur bloggvinur minn. Þessu hafði ég einfaldlega ekki tekið eftir fyrr. Þegar ég ætlaði síðan á bloggið hans samt sem áður, var það læst. Ég sendi beiðni um að fá aðgang að því og fékk hann fljótt.
Ef hann vill ekki vera bloggvinur minn lengur verður bara að hafa það. Það er samt alltaf áhugavert að lesa bloggið hans. Ég skil ekkert í því hvað það var auðvelt að gleyma honum eftir að hann ákvað að losa sig við mig og líklega einhverja fleiri, því ég sé ekki betur en bloggvinir hans séu orðnir fremur fáir.
Jú, jú. Davíð er enn í Líbanon, en vonandi ekki í neinni hættu. Annars getur ástandið þar breyst með litlum fyrirvara.
Hér áður fyrr var myrkur myrkur. Nú getur fólk náð fullorðinsaldri án þess að hafa nokkru sinni séð almennilegt myrkur. Auðvitað eru götur upplýstar og skær ljós í næstum því hverjum glugga. Erfitt er að varast þá hugsun að sum ljós séu minna þörf en önnur.
Mér datt þetta í hug þegar mér varð litið inn í stofu áðan eftir að búið var að slökkva loftljósin þar. Rautt ljós á sjónvarpinu, að minnsta kosti 5 eða 6 ljós á routernum, ljós á fartölvunni, blátt ljós á einni mús og rauð eða gul ljós á einhverjum fleiri raftækjum. Meira að segja fjöltengi geta ekki án ljósadýrðar verið. Eitthvert raftæki blikkaði meira að segja öðru hvoru.
Á mbl.is er Taser frétt sem er mjög athyglisverð. Púkinn gerir þetta mál að umtalsefni og ég hvet fólk til að lesa þá grein. Í áðurnefndri mbl.is grein er samt ein setning sem mér finnst alveg gullvæg og ætti hiklaust að ramma inn. Veit samt ekki hvar væri best að hengja hana upp. Þessi setning er svona: "Bæði Amnesty og Taser International voru stofnuð í göfugum tilgangi."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2008 | 01:31
329. - Er Ólafur á förum, eða hvað?
Það fer ekki milli mála að hart er nú sótt að Ólafi borgarstjóra. Komi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins honum ekki til hjálpar, gæti þetta riðið honum að fullu.
Nú er um það rætt að liðinn sé einhver ákveðinn tími frá því að stúdentar og aðrir voru við það að gera allt vitlaust í París og víðar. Sonur okkar var að byrja að læra að tala um það leyti sem þetta var. Orðskýringar hans voru oft skemmtilegar. Meðal annars man ég eftir að hann spurði: "Stúdentar? Eru þeir kallaðir það, af því að þeir eru alltaf að stúta rúðum?"
Þó mér finnist aldrei neitt gerast í málum sem snerta sjálfan mig, er auðvitað ekki svo. Áðan sá ég í blaði að það var fyrrum bekkjarbróðir minn, sem fórst í bílveltunni í Kömbunum fyrir stuttu. Síðan heyrði ég ekki betur í sjónvarpinu í gær en systurdóttir mín væri hér með orðin Mannréttindastjóri Reykjavíkur eða eitthvað þessháttar.
Heyrði áðan á einhverri útvarpsstöðinni talað um umferðaröryggi. Meðal annars var rætt um átakið gegn syfju og slysum af hennar völdum. Ég man eftir að þegar það verkefni fór af stað lögðu sumir illt til þeirra sem þjást af kæfisvefni. Þeir voru sagðir sérlega hættulegir í umferðinni. Í mínum augum var þetta gott dæmi um fordóma og heimsku. Ég veit að fáir eru sér betur meðvitaðir um hættur af þessu tagi, en þeir sem þjást af kæfisvefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.5.2008 | 00:09
328. - Moggablogg, vísnablogg, fréttablogg og allskonar blogg
Mikið er fjargviðrast útaf Moggablogginu þessa dagana. Mér er alvega sama. Þeir sem vilja alhæfa með því að segja að Moggabloggarar séu svona eða hinsegin, verða bara að fá að gera það.
Fyrir nokkru stofnaði ég sérstakt vísnablogg hér á Moggablogginu (visur7.blog.is) Ég viðurkenni að margt sem þar er sett fram er óttalega lítils virði. Vísurnar bölvað hnoð og umræðuefnin ómerkileg.
Már Högnason hefur þó alllengi þennan steininn klappað og ef menn geta ekki sætt sig við að allir geti látið í sér heyra, þá verður bara að hafa það. Ég sé ekki betur en Mási láti flest flakka í sínum vísum og sé oft æði orðljótur og ónærgætinn. Það er ágæt hugmynd að linka vísurnar við fréttir. Þessháttar fréttablogg held ég þó að séu á undanhaldi, enda eru þau oft skelfilega léleg.
Auðvitað gætu þeir sem Moggablogginu stjórna haft hlutina öðruvísi. Mér finnst þeir samt standa sig alveg þokkalega. Þjónustan er góð og þetta kostar ekki neitt. Bjarni Rúnar Einarsson hefur gagnrýnt margt í starfsemi Moggabloggsins og vel getur verið að þeir bæti sig með tímanum. Auðvitað vilja stjórarnir fá nokkuð fyrir sinn snúð og vefurinn mbl.is er með þeim vinsælustu á landinu. Þar með geta þeir eflaust selt mikið af auglýsingum.
Þeir sem hæst hafa í gagnrýni sinni á Moggabloggið ættu að reyna að grafa undan því með því að bjóða betri þjónustu. Það þjónar engum markmiðum að fá sem flesta til að hallmæla þessu fyrirbrigði. Það er komið til að vera og hefur nú þegar haft umtalsverð áhrif.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2008 | 00:10
327. - Skák og Evrópumál - framhald
Ég fæ yfirleitt ekki mörg komment á mitt blogg. Tveir nafnleysingjar eru þar samt stundum á ferli. Ellismell og nöldursegg minnir mig að þeir kalli sig. Þeir hafa eflaust sínar ástæður til að koma ekki fram undir nafni og mér finnst sjálfsagt að virða þær. Komment þeirra eru líka alltaf málefnaleg og valda alls engum vandræðum. Mig grunar að þeir séu báðir skólafélagar mínir frá Bifröst en veit ekki hverjir þetta eru.
Í síðasta bloggi ræddi ég smávegis um Evrópumál og sagði eitthvað á þá leið að á endanum verði þessi mál ekki reikuð út með plúsum og mínusum heldur verði menn að taka afstöðu útfrá tilfinningu. Tilfinningarök ráða líka oft afstöðu fólks til stjórnmálaflokka. Slík rök eru á engan hátt ómerkilegri en svokölluð staðreyndarök, þó oft sé reynt að gera þau tortryggileg.
Staðreyndarök geta breytt afstöðu fólks, á því er enginn vafi. Þau geta líka virkað í öfuga átt og haft áhrif á tilfinnarök sem fyrir eru. Staðreyndarök um Evrópumálin leiða menn stundum útí óttalega vitleysu og þar má til dæmis benda á linsoðnu eggin hans Ögmundar.
- 1. e4 e5
- 2. Rf3 Rc6
- 3. Bc4 Rf6
- 4. Rg5 d5
- 5. exd5 Rd4
- 6. d6 Dxd6
- 7. Rxf7 Dc6
- 8. Rxh8 Dxg2
- 9. Hf1 De4
- 10. Be2 Rf3 mát
Þetta var kallað fjalakötturinn eða fjósabragðið í mínu ungdæmi og ég man að mér þótti þetta afar merkileg byrjun á sínum tíma. Ég hef alltaf haldið tryggð við þessa byrjun og leik t.d. gjarnan Rg5 í fjórða leik ef ég fæ færi á því. Þegar ég tefli á Netinu vil ég yfirleitt hafa hvítt og byrja alltaf eins. Það er að segja með fjalakattarbyrjuninni. Auðvitað er það undir andstæðingnum komið hve lengi þessari leikjaröð er fylgt. Algengust eru einhver afbrigði af Sikileyjarvörn eða þá af tveggja riddara tafli, Evans bragði eða Ítalska leiknum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrst svolítið um Sturlumál. Lætin við Rauðavatn á síðasta vetrardag voru alvöru. Nokkrum dögum síðar var krakkahópur með einskonar mótmæli á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Það var í þykjustunni.
Málstaður vörubifreiðastjóra er ekki slíkur að almenningur geti umsvifalaust tekið undir hann. Þeir komu samt af stað mótmælaöldu sem ekki er enn séð hvort muni leiða til einhvers. Umhverfisverndarsinnar hafa einnig unnið nokkuð á að undanförnu. Málflutningur þeirra er stundum meira sannfærandi en stjórnvalda. Ég hef samt ýmislegt að athuga við það sem sumir þeirra segja.
Þessi mál öll eru mikið alvörumál og ásamt með mörgu öðru sýna þau að órói fer vaxandi í þjóðfélaginu. Stjórnarandstaða götunnar er mun hættulegri ríkisstjórninni en hin svokallaða stjórnarandstaða á Alþingi. Steingrímur dælir úr sér sömu gömlu frösunum, Guðni snýst í hringi og í öðrum heyrist varla. Annars ætla ég ekki að ræða um pólitík hérna, stjórnmálaþrætur eru yfirleitt heldur leiðinlegar. Egill Helgason má þó eiga það, að oft hefur hann lag á að fá til sín viðmælendur sem hafa eitthvað að segja.
Evrópumálin eru svo sannarlega komin á dagskrá núna. Sjálfur hef ég lengi verið eindreginn stuðningsmaður aðildar að Evrópubandalaginu. Þar er ekki hægt að reikna alla hluti út. Minnimáttarkennd og hóflaust mikilmennskubrjálæði einkennir oftast málflutning Evrópuandstæðinga. Það sem fyrst og fremst þarf að ræða í aðildarviðræðum eru sjávarútvegsmálin. Þar er margt óljóst enn. Lykilatriðið er að fiskveiðar skipta flestar þjóðir í Evrópubandalaginu fremur litlu máli, en okkur miklu.
Kannski ég haldi áfram að skrifa um skák. Ég hef alltaf haft gaman af henni. Ég hef þó aldrei lagst djúpt í byrjanapælingar og þess háttar og er alls ekki nema miðlungsskákmaður. Einhvern tíma tefldi ég á helgarskákmóti í Borgarnesi og eftir það mót komst ég á stigalista og var með fimmtánhundruð og eitthvað stig.
Sennilega gefa þessi stig ágæta hugmynd um skákstyrk minn. Þó veit ég svosem ekkert um það. Hef líka alltaf haft gaman af að kynna mér skáksöguna. Í seinni tíð á ég orðið erfiðara með að einbeita mér að tafli, en hef þó gaman af léttum skákum við menn sem ekki taka málin of alvarlega. Iðka það þó einkum á Netinu, enda hentar það afar vel til slíks. Ég held að þessi stig á Borgarnesmótinu hafi bara verið reiknuð úr þremur skákum.
Á því móti tefldi við Guðmund Ágústsson og skíttapaði. Jafntefli gerði ég við Júlíus Sigurjónsson frá Bolungarvík, sem mig minnir að hafi verið jafnoki Halldórs Grétars á þeim tíma og á svipuðum aldri. Einhverja vinninga fékk ég líka og ég man að í síðustu umferðinni vann ég með herkjum John Ontiveros sem þá var svotil nýbúinn að læra að tefla.
Afrek mín á skáksviðinu eru heldur fá og smá og ég hef ekki teflt á skákmótum sem komið hafa til stigaútreiknings eftir þetta. Í síðasta bloggi skrifaði ég nokkuð um skák í Hveragerði forðum daga og nú ætla ég að halda svolítið áfram þar sem frá var horfið, flestum eflaust til sárra leiðinda.
Á Bifröst var ég með bestu skákmönnum. Af mínum bekkjarbræðrum voru þeir Baldur Óskarsson og Theodór Jónsson þó tvímælalaust betri en ég. Nokkrir voru að mínu áliti á svipuðu stigi og ég og aðrir lakari. Ég man eftir að fyrri veturinn minn á Bifröst fórum við í skákferðalag til Akraness og tefldum þar á tíu borðum við Akurnesinga. Þessari viðureign töpuðum við og fengum ekki nema fáeina vinninga alls, líklega bara tvo eða þrjá. Af þessum vinningum man ég að tveir komu af okkar borði í matsalnum og vorum við nokkuð stolt af því. Ég vann mína skák og borðfélagi minn sem vann sína var Þorsteinn Árni Gíslason úr Garðinum, bróðir þess kunna aflaskipstjóra Eggerts Gíslasonar.
Auk þeirra skákmanna sem áður eru nefndir man ég að Ingþór Ólafsson úr eldri bekknum var ágætur skákmaður og ef til vill fleiri. Vel getur verið að þeir Ingþór, Baldur og Theodór hafi verið á borðunum fyrir ofan mig í viðureigninni við Akurnesinga og ég á fjórða borði.
Ég man lítið eftir skákiðkun á Bifröst að öðru leyti en þessu. Þó man ég að við Skúli Guðmundsson tefldum nokkuð oft síðari veturinn og líklega höfum við verið af svipuðum styrkleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2008 | 00:15
325. - Skák í Hveragerði forðum daga
Nú ætla ég skrifa um skák í því Hveragerði sem ég ólst upp í. Ætli ég hafi ekki verið svona sex eða sjö ára þegar ég lærði mannganginn. Ég lék mér á þessum árum oft við syni Skafta garðyrkjumanns, Jósef og Jóhannes eins og ég minntist aðeins á í frásögn minni af brunanum á Bláfelli.
Stundum sátum við inni hjá Möggu konu Skafta og ég man að fyrir kom að við tefldum skák þá, án þess að kunna mikið fyrir okkur. Líklega hefur þetta einkum verið ef veðrið var ekki við hæfi, því auðvitað var miklu skemmtilegra að hamast úti í fótbolta eða einhverju þess háttar.
Ég man að við fundum það út sjálfir og án allrar hjálpar að beran kóng var hægt að hrekja hvert sem var með kóng og hrók og máta síðan glæsilega. (Það fannst okkur allavega). Þetta var meiriháttar uppgötvun, því nú höfðum við að einhverju að keppa, öðru en að þreyta andstæðinginn eða máta hann fyrir slysni.
Kannski lærði ég að tefla af þeim Skaftasonum, eða kannski kenndi pabbi mér mannganginn, ég hreinlega man það ekki. Ég man bara að einhvern tíma alllöngu seinna var ég að tala um skák við pabba eða hann að fylgjast með mér tefla við einhvern og þá kom í ljós að vissulega kunni hann að tefla, en ýmsar reglur voru öðruvísi hjá honum en mér. Þegar þetta var hef ég líklega ekki verið búinn að læra að drepa í framhjáhlaupi. Allavega kom það ekki til umræðu að þessu sinni.
Það sem var öðru vísi hjá honum var einkum það að eftir að kóngurinn varð ber varð að máta í mjög fáum leikjum. Mig minnir átta, en það kunna að hafa verið tólf eða sextán leikir. Hann taldi líka að oft hefði verið teflt þannig að ekki var hægt að vekja upp annan mann en samskonar þeim sem verið hafði á uppkomureitnum í byrjun skákar. (Veit ekki hvað átti að gerast á e-línunni) Valdskák sagði hann einnig hafa verið mjög vinsælt afbrigði og mikið iðkað. (Þá má alls ekki drepa mann sem er valdaður)
Ég var 11 eða 12 ára þegar Taflfélag Hveragerðis var stofnað. Axel á Reykjum var sterkasti skákmaðurinn og aðrir fulltíða menn sem ég man eftir frá taflæfingum eru Hallgrímur Egilsson, Hans Gústafsson, Þórður Snæbjörnsson, Júlíus Guðjónsson og Gestur Eyjólfsson. Bjössi fjósamaður á Reykjum tók líka stundum þátt í taflæfingum með okkur. Hann varð seinna fyrir því óláni að taka líf Concordiu Jónatansdóttur, en það er allt önnur og hryllilegri saga. Taflfélagið var hið merkasta félag og ég man að það átti nokkrar skákklukkur, en slíka gripi hafði ég ekki augum litið fyrr.
Fyrst stunduðum við taflæfingar að Hverabökkum hjá Árnýju og Herbert. Skólahald hafði þá lagst af í kvennaskólanum fyrir nokkrum árum. Ekki man ég hve lengi við höfðum aðsetur okkar þar. Kannski var það bara einn vetur, en seinna fengum við aðsetur uppi í Laugaskarði, því þá var Hjörtur búinn að byggja íbúðarhúsið sitt.
Snemma hófum við þátttöku í Hrókskeppninni svokölluðu, en það var sveitakeppni sem taflfélög í Árnessýslu héldu á hverjum vetri. Keppt var í tíu manna sveitum og Stokkseyringar voru náttúrulega sterkastir. Auk okkar man ég líka eftir sveitum frá Selfossi og úr Hraungerðishreppi.
Sigurður Jónsson hét maður sem bjó að Hrauni í Ölfusi eða hélt a.m.k. oft til þar. Ég man að hann var talinn afar snjall skákmaður þó aldrei kæmi hann á æfingar hjá okkur. Ef tókst að fá hann til að tefla með okkur í viðureignum okkar í Hrókskeppninni, var hann sjálfsagður á efsta borðið. Efstu menn hjá þeim Stokkseyringum og eflaust einhverjir frægustu skákmenn Suðurlands á þessum tíma voru þeir Skipabræður Hannes og Sigtryggur.
Nokkrum sinnum fékk ég tækifæri til að keppa með Hvergerðingum þrátt fyrir ungan aldur og man ég sérstaklega eftir tveimur slíkum keppnum. Önnur var háð í Þingborg og þangað keyrði Kalli Magg okkur á Garantinum sínum og þurfti að glíma við bilaðan gírkassa á heimleiðinni. Hin keppnin var haldin á Hótelinu í Hveragerði og ég man ekki betur en þá höfum við einnig keppt við sveit úr Hraungerðishreppi. Ég er hræddur um að ég hafi tapað í bæði þessi skipti, því ef ég hefði unnið hefði ég áreiðanlega munað vel eftir því. Áföllunum gleymir maður að sjálfsögðu. Líka minnir mig að við höfum eitthvað æft eða teflt á vegum Taflfélagsins í litla salnum á Hótelinu, en er þó ekki alveg viss.
Eitthvað hélt þetta taflfélag áfram starfsemi sinni eftir að ég fór að Bifröst, því ég man að sumarið 1960 þegar ég leysti af í Kaupfélaginu í Hveragerði þá var Kaupfélagsstjóri þar Þorsteinn sem seinna varð verslunarstjóri í bókabúð Norðra í Hafnastræti. Hann var með bestu skákmönnum Hveragerðis á þeim tíma og hann og Sigtryggur á Skipum, sem keyrði flutningabílinn sem kom á hverjum morgni til Hveragerðis, tefldu þá langa og seigdrepandi skák þar sem aðeins var leikinn hálfur leikur á dag.
Þegar ég varð síðan útibússtjóri í Kaupfélaginu nokkrum árum seinna var gerð tilraun til að endurreisa félagið og ég kosinn formaður þess. Það reið félaginu að fullu og hugsanlega ber ég ábyrgð á því að skákklukkurnar og aðrar eigur félagsins glötuðust.
Eitt sinn á þessum árum var haldið fjöltefli á Selfossi. Þar tefldu þeir Taimanov og Ilivitsky og einhverjir Hvergerðingar tefldu við þá. Júlíus Guðjónsson frá Gufudal sat við hlið Axels Magnússonar kennara á Reykjum og tefldu þeir við Ilivitsky. Júlíus náði manni af Ilivitsky snemma tafls og ég man að Axel missti að mestu áhugann á sinni skák og fylgdist einkum við skákinni hjá Júlíusi. Enda fór það svo á endanum að Júlíus vann (ef til vill með einhverri hjálp frá Axel) og gott ef það var ekki eina skákin sem Ilivitsky tapaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 00:37
324. - Bloggvinir og orkusparnaður
Náttúruvernd og orkusparnaður hefur margar hliðar. Mikið hefur verið rætt um hve asnalegt sé að rækta korn til eldsneytisframleiðslu frekar en til manneldis. Eflaust er það rétt, en bensín eða annað eldsneyti úr korni eða öðrum jarðargróðri verður framleitt þegar það fer að borga sig og þá skiptir ekki máli þó einhverjir svelti þess vegna. Þetta er það skipulag sem náð hefur yfirhöndinni í heiminum. Það eru peningarnir sem ráða. Með skattheimtu eða einhverju þessháttar er þó hugsanlegt að breyta þessu.
Mér hefur alltaf fundist óeðlilegt hve mikið er gert af því í heiminum að láta grasbíta framleiða kjöt. Ég er viss um að það kæmi betur út að rækta eitthvað sem fólk gæti borðað á þeim víðlendum sem notaðar eru til að framleiða fæðu fyrir grasbíta. Þessu mætti líka hugsanlega breyta með tímanum.
Uppáhaldsbloggvinir mínir eru þeir sem ég þekkti svolítið fyrir. Á þessu eru þó undantekningar. Gunnar Helga Eysteinsson hef ég aldrei séð svo ég viti, en hann er bæði frændi minn og með afbrigðum duglegur að kommenta. Bloggar alltof sjaldan, en spáir mikið og spekúlerar. Topplistinn hans er til dæmis ágæt uppfinning.
Fleiri skyldmenni eru meðal bloggvina minna og mér finnst alltaf gaman að lesa bloggin þeirra. Ellismellurinn kommentar stundum á bloggið mitt og ég er viss að ég þekki hann, þó hann vilji ekki segja til nafns. Bæði Önnu í Holti og Láru Hönnu þekkti ég áður en ég byrjaði að blogga og kannaðist við þónokkra til viðbótar. Arnþór Helgason þekkti ég líka. Bloggarar sem ég hef lengi fylgst með og eru núna komin á moggabloggið eru til dæmis. Bjarni Rúnar Einarsson, Anna K. Kristjánsdóttir og Salvör Gissurardóttir.
Annars er ekki rétt að vera að draga bloggvini sína svona í dilka. Þeir eru allir einstakir og engum öðrum líkir. Það er mitt markmið flesta daga að ná því að kíkja á bloggin þeirra. Auðvitað les ég þau misvandlega. Ég er líka svo seinlesinn eins og mig minnir að ég hafi einhverntíma bloggað um. Margir bloggvina minna hafa komið mér á óvart og verið miklu skemmtilegri en ég átti von á.
Nú er ég búinn að þurrka út skoðanakönnunina. Hún kom ágætlega út og ég reikna með að taka heilmikið mark á henni. Ég er mest hissa á hve margir nenntu að taka þátt í þessu. Ég mun sennilega halda áfram að blogga um allan fjárann, sem mér dettur í hug. Líka getur vel verið að ég setji upp skoðanakönnun aftur.
Helgi Seljan sagði í Kastljósinu við Láru Ómarsdóttur um daginn: "Hættirðu þá bara vegna þess að einhver bloggari segir eitthvað?" Þetta sagði hann með augljósum fyrirlitningartón í orðinu bloggari. Helgi var sjálfur bloggari einu sinni (meira að segja Moggabloggari) og bloggaði undir nafninu 730.blog.is.
730 held ég að sé póstnúmerið á Reyðarfirði. Helgi er ágætur bloggari og ég las oft bloggið hans, þó ekki væri hann bloggvinur minn. Einn af núverandi bloggvinum mínum er hinsvegar búsettur á Reyðarfirði og er alltaf með skoðanakönnun uppi með spurningu um það hvar fólk búi. Ég hef ekki tekið þátt í þeirri könnun vegna þess að ekki er gefinn neinn kostur á Kópavogi eða öðrum útborgum Reykjavíkur. Mér líkar ekki að geta bara valið um það hvort ég bý í Reykjavík eða á Vesturlandi. Ef orðinu Reykjavík væri breytt í Höfuðborgarsvæðið yrði ég sáttur. Suðurnes mættu líka mín vegna bætast við.
Athyglisvert hjá Salvöru að hún er búin að fá sér lénið salvör.net. (kíkið á það) Ég ætti kannski að fá mér sæmi.net.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.5.2008 | 14:56
323. - Svarhali, matur og trampólín
Alllangur svarhali myndaðist við eina af vísum Más Högnasonar. Venjulega eru langir svarhalar frekar leiðinlegir, en þessi er bara ágætur, einkum fyrir vísnavini. Þetta segi ég náttúrulega mest vegna þess að þarna eru nokkrar vísur eftir mig.
Vorið er komið. Það sýna trampólín-slysin, segir lögreglan. Og þá þarf ekki frekar vitnanna við.
Ætli ég láti ekki skoðanakönnunina frá því í gær vera uppi í svona einn dag enn. Það er svolítil þátttaka í þessu. Mesta furða.
Erna á Stakkhamri bloggaði um daginn um kartöflukonfekt að mig minnir. Ég man vel eftir því að mamma gerði alltaf í gamla daga tvær tegundir af konfekti fyrir jólin. Annað var kartöflu-konfekt, sem mér er ekki alveg ljóst hvort hlaut þetta nafn vegna kartaflna eða kartöflumjöls. (trúlega mjöls þó) Gott var það samt og marglitt og líklega var hellingur af flórsykri í því. Hin tegundin var hafrakonfekt. Í því var haframjöl, en einnig heilmikið af súkkulaði og svo var því í lokin velt uppúr kókosmjöli.
Ef ég á að fara að blogga um mat, þá er ekki víst að ég geti stoppað. Auðvitað var maturinn hennar mömmu sá besti. Segja það ekki allir? Annars þótti mér siginn fiskur aldrei sérlega góður. Reykt ýsa ekki heldur. Flest annað minnir mig að ég hafi borðað með sæmilega góðri lyst.
Prýðilegt var að hafa tómatsósu útá fisk í stað hamsanna, sem samt voru ágætir. Líka mátti hafa útá hann brúna kjötsósu ef hún var til eða jafnvel smjör eða smjörlíki. Oft fór svo mikill tími í að hreinsa fiskinn, brytja kartöflurnar, setja sósuna útá og stappa allt í einn graut eftir kúnstarinnar reglum að maturinn var orðinn hálfkaldur þegar maður var loksins tilbúinn. Já, nú man ég. Það var þessvegna sem mér líkaði hálfilla við hamsatólgina. Hún varð bragðverri og leiðinlegri þegar hún kólnaði.
Fiskur var æði oft á borðum, og saltfiskur alltaf á laugardögum, en fjölbreytnin í eldun á fiski var ekki sérlega mikil. Yfirleitt var hann bara skorinn í stykki og soðinn í vatni. Fiskur var líka hræódýr. Ég man að þegar ég var útbússtjóri í Kaupfélaginu í Hveragerði þá kostaði kílóið af ýsunni sjö krónur meðan kjötfarsið kostaði átján eða nítján krónur og sígarettupakkinn annað eins. Það þætti ekki afleitt hlutfall í dag. Og auðvitað voru þetta gamlar krónur.
Auðvitað smakkaði ég aldrei pizzur eða hamborgara og þreifst samt ágætlega. Á sunnudögum var alltaf lambakjöt, læri eða hryggur og svo ís á eftir. Þetta þekkja nú allir og óþarfi að fjölyrða um það. Verst var kartöfluleysið, sem var næstum árvisst, því ekki þótti við hæfi að flytja inn kartöflur, sem þó voru nauðsynlegar á þessum árum með öllum mat. Reynt var að gera grænkálsjafning eða eitthvað þess háttar, en kartöfluleysið var samt kvöl og pína og oft var frekar farið út í kálgarð og tekið upp undan fáeinum grösum, þó auðvitað væri ansi smátt undir þeim.
Bræðingur var ekki góður ofan á brauð. Þá var nú smjörlíkið skárra. Oft var smjöri og smörlíki blandað saman til að nota ofan á brauð. Kökur og annað bakkelsi var alltaf til. Mjólk var drukkin með flestu og aldrei man ég eftir öðru en við krakkarnir fengjum eins mikið af öllu og við vildum. Auðvitað réðum við samt ekki hvað var á boðstólum. Vignir bróðir minn fann einu sinni uppá því að kalla magurt kjöt feitt og feitt kjöt magurt og spratt allskyns misskilningur útaf því uppátæki. Uppáhaldsgrautarnir mínir voru fyrir utan grjónagraut með rúsínum, sætsúpa, kakósúpa og tvíbökumjólk.
Ég átti það til sem krakki að misskilja algeng orð. Til dæmis fannst mér alltaf að sungið væri: "Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld". Mér þótti sætsúpan einmitt betri köld og ekki var verra ef smá rjómasletta var útá hana. Ég átti líka alltaf erfitt með að gera greinarmun á orðunum "einfættur" og "innfæddur". Brauðsúpu var helst ekki hægt að borða nema með rjóma. Hann þótti mest íþrótt að borða ásamt súpunni um leið og hann bráðnaði ofaná henni. Jæja, nú hætti ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)