Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

322. - Skáktyrki og skoðanakönnun

Var að enda við að lesa skáldsöguna um skáktyrkjann sem út kom fyrir síðustu jól. Það er langt síðan ég hef lesið svona langa skáldsögu, en hún er nokkuð góð. Ég hafði náttúrlega heyrt sagt frá þessum skáktyrkja fyrir löngu, en ekki velt mikið fyrir mér þeim aðstæðum sem ríktu á þessum tíma. Höfundurinn segir aðallega frá fyrstu árunum eftir að vél þessi kom fram. Um þann tíma eru ekki til miklar heimildir og höfundurinn skáldar rösklega í eyðurnar. Gerir þó svolitla grein fyrir því í eftirmála.

Bókin snýst alls ekki mikið um skák, reyndar svo lítið að höfundurinn kann líklega ekki að tefla. Það gerir ekkert til, því sagan snýst ekki neitt um skák heldur er þessi alþekkta saga bara rammi utanum það sem höfundurinn vill segja. Sennilega hefði ég aldrei byrjað á bókinni ef hún hefði ekki haft þessa skákvísun.

Hvers vegna er maður að eyða tímanum í að lesa skáldsögur þegar staðreyndirnar hrópa allsstaðar á mann? Ég skil þetta ekki. Líklega er maður bara að flýja vonsku heimsins.

Netið er skelfileg ruslakista. Þar ægir öllu saman og aðalmálið er að vita hvað maður vill sjá eða vita og hvar maður á að leita að því. Líklega verður þetta sífellt erfiðara, því ég held að bull-hlutfallið á Netinu aukist jafnt og þétt.

Ég er að hugsa um að setja upp smá skoðanakönnun á blogginu mínu. Þar ætla ég að spyrja um hvað lesendur mínir (sem eru ótrúlega margir) vilja helst að ég skrifi um. Ætli ég hafi spurninguna ekki einhvern vegin svona: Hvað á ég helst að skrifa um?

Minningar frá Hveragerði (fæddur og uppalinn þar.)

Minningar frá Bifröst (þar var ég við nám árin 1959 - 1961, Ógleymanlegur tími.)

Minningar frá Vegamótum (þar var ég verslunarstjóri árin 1970 - 1978) Eftir það bjó ég í Borgarnesi og Reykjavík og auðvitað hefur ýmislegt á dagana drifið þar.

Endurminningar yfirleitt

Fréttir (án þess að linka í þær)

Íþróttir og skák (Já, ég veit svolítið um sumar íþróttir t.d. formúluna á árum áður.)  Heimspekilega séð eru íþróttir samt ekkert annað en flótti frá raunveruleikanum. Varðandi skákina þá lærði ég að tefla 5 eða 6 ára gamall  og hef haft gaman af skák síðan, sérstaklega skáksögunni.

Kveðskap og vísnagerð (á vísnablogginu mín má sjá að auðvelt er að gera bragfræðilega nokkurn vegin réttar vísur. Góðar vísur verða samt ekki til nema formið og efnið fallist í faðma.)

Allt mögulegt (eins og verið hefur)

Bókmenntir

Ekki neitt

Ef margir láta freistast til að taka þátt í þessari skoðanakönnum sem væntanlega stendur yfir í ótilgreindan tíma þá mun ég taka tillit til þess. Það er alltaf gaman að fá smáhugmynd um hvernig lesendum síðunnar líkar við skrif mín. Svo getur líka vel verið að ég taki ekkert mark á þessu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband