Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

301. - Um Kristján B. Jónasson og höfundarréttarmál

Kristján B. Jónasson sem mér skilst að sé formaður félags íslenskra bókaútgefenda heldur úti bloggsíðunni Bókatíðindin hér á Moggablogginu og tekur sig öðru hvoru til og skrifar þar langar greinar um aðskiljanlegustu mál. Þær eru yfirleitt ágætlega læsilegar, en skoðanir hans eru oft ansi íhaldssamar. Kristján leyfir ekki athugasemdir eða komment á sínu bloggi.

Nýlega skrifaði hann grein um tjáningarfrelsi og höfundarrétt. Þar býr hann sér til strámann einn mikinn og fúllyndan í líki Salvarar Gissurardóttur og tekur síðan til við að skjóta skoðanir hennar (sem hann hefur sjálfur búið til) niður. Auðvitað er Salvör fullfær um að svara fyrir sig, ef henni finnst taka því, og hefur ef til vill þegar gert það. Mér eru þó höfundarréttarmál nokkuð hugleikin eftir að ég stóð í því um nokkurra ára skeið að koma Netútgáfunni (snerpa.is/net) á fót.

Höfundarréttarmál voru okkur á margan hátt til trafala þegar við stóðum í að setja efni á Netútgáfuvefinn. Allskyns vandræði af öðrum toga áttum við einnig við að glíma. Svo ótrúlegt sem það er þá  eru margir þeirrar skoðunar að t.d. Íslendingasögurnar eigi alls ekki að vera öllum aðgengilegar, heldur eigi þær að halda áfram að vera féþúfa þeirra sem einhverntíma hafa komið nálægt útgáfu þeirra. Á þeim árum sem Netútgáfan starfaði var lögum um höfundarrétt breytt og gildistími höfundarréttar til dæmis lengdur úr 50 árum í 70 ár eftir dauða höfundar. Ekki hefur verið sýnt fram á neina skynsamlega ástæðu fyrir þessari lengingu.

Það er ekki rétt hjá Kristjáni að almenn viðurkenning sé fyrir því á Vesturlöndum að með höfundarrétt skuli farið á sama hátt og með annan eignarrétt. Miklu nær er að líta á höfundarrétt sem einskonar samning milli höfunda og almennings um að greiðsla skuli koma fyrir afnot af höfundarréttarvörðu efni, þannig að höfundar skuli hafa nokkra umbun fyrir sitt erfiði. Mér finnst lang eðlilegast að þessi höfundarréttur gildi í ákveðinn tíma eftir að verk er gefið út.

Það er einungis hér á Vesturlöndum sem litið er á höfundarréttarvarið efni sem eign. Mjög auðvelt er að gera greinarmun á efnislegum gæðum og óefnislegum. Það eru bara útgefendur og eigendur flutningsréttar sem halda því fram að á þessu tvennu sé ekki hægt að gera greinarmun

Það getur verið að það henti Kristjáni vel að líta svo á að annaðhvort aðhyllist menn allt sem útgefndur segi í þessum efnum eða séu á þeirri skoðun að afnema beri með öllu greiðslur fyrir höfundarrétt. Ég er þó þeirrar skoðunar að milliveg sé  hægt að finna.

Þeir sem sækja sér efni á  sjóræningjavefsetur eru alls ekki neinir þjófar og misindismenn. Þeir vilja bara ekki sætta sig við yfirgang og féflettingar af hendi höfundarréttarsamtaka sem oftast eru hjómplötuútgefendur og kvikmyndaréttareigendur. Áreiðanlega vilja þeir ekki hafa neitt af rithöfundum, ef eðlilegt er að álíta að höfundarnir eigi rétt á greiðslum og þeir væru eflaust tilbúnir til að borga fyrir sitt efni, en bara ekki það sem samtök höfundarréttareigenda vilja skikka þá til að greiða.


300. - Mitt þrjúhundruðasta blogg - Um heimskulegustu framkvæmdir í vegamálum á Íslandi

Þrjár heimskulegustu framkvæmdir í vegamálum á Íslandi eru að mínu mati brúin á Óseyrarnesi, Héðinsfjarðargöngin og samgöngumiðstöðin á Reykjavíkurflugvelli. Lítum nánar á hverja þessara framkvæmda um sig.

Langt er síðan brúin yfir Ölfusá við Óseyrarnes var gerð. Á sínum tíma var þetta mikil framkvæmd og að margra áliti mjög óþörf. Nú er þó auðvitað svo komið að fólk á því að venjast að geta farið þarna um. Ef litið væri á þessa framkvæmd nú má vel vera að hún væri ekki svo dýr að frágangssök væri að ráðast í hana. Borgarfjarðarbrúin var byggð um svipað leyti og mér finnst að meiri mótmæli hafi verið í gangi þegar hún var byggð. Hún hefur þó ótvírætt sannað gildi sitt eins og Hvalfjarðargöngin hafa einnig tvímælalaust gert.

Látið var að því liggja á sínum tíma að gerð Óseyrarnessbrúarinnar mundi lífga mjög uppá atvinnulíf í bæjunum í kring. Ekki leið þó á löngu áður en mjög dró úr fiskveiðum og allskyns framkvæmdum á þessu svæði, frystihúsum var lokað og kvótinn hvarf á braut. Brúin var lengi vel afar lítið nýtt og er jafnvel enn. Auðvitað er þó ekki til neins að vera að tala um þetta núna. Brúin er komin og er á margan hátt hið merkasta mannvirki. Landslag á þessum slóðum er einnig gjörbreytt og umhverfi Þorlákshafnar allt annað en áður var. Þar voru áður svartir eyðisandar hvert sem litið var, en nú er þar allt gróðri vafið. Slíkt ber auðvitað að þakka.

Héðinsfjarðargöng eru á allan hátt gjörsamlega óþörf framkvæmd og jafnvel skaðleg á margan hátt. Reynt hefur verið að reikna út að þessi framkvæmt sé óvitlaus, en gengið illa. Ef tekið væri tillti til þess að Múlagöng verður tvímælalaust að breikka með ærnum tilkostnaði til að þessi framkvæmd komi að einhverjum notum verður dæmið ennþá ljótara.

Ég hef farið um Múlagöng og er ekki í neinum vafa um að þau verða fljótlega mikill farartálmi ef einhver teljandi umferð verður um Héðinsfjarðargöngin. Að þurfa að bíða á  meðan umferð úr gagnstæðri átt silast framhjá er algjörlega óviðunandi. Mestar líkur eru þó á að líkt fari og með Óseyrarnessbrúna að eftir einhverja áratugi verði ekkert slæmt að hafa þessi göng þarna. Ég get þó ómögulega séð að umferð verði svo mikil að framkvæmdin sýni nema brot af þeirri hagkvæmni sem auðvelt væri að ná víða annars staðar.

Að byggja samgöngumiðstöð sem fjarst öllum samgöngum er auðvitað svo galin hugmynd að varla er hægt að láta sér detta meiri fjarstæðu í hug. Þó er svo að sjá sem verið sé að tala í alvöru um að reisa samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli. Líklega verður þó reynt að láta þetta mannvirki heita eitthvað allt annað og jafnvel látið í veðri vaka að hún sé til annarra hluta ætluð, en framkvæmdin er arfavitlaus samt.

Hringbrautarhryllingurinn og jarðgöng til Vestmannaeyja eru vissulega framkvæmdir sem segja má að séu jafnvitlausar og þær sem hér hefur verið talað um, en ég hef samt kosið að láta hér staðar numið að sinni.


299. - Sæluhúsklukkan á Kolviðarhóli

Yfir dyrum hins fyrsta gistihúss á Kolviðarhóli, sem byggt var 1877, var klukka ein úr kopar.

Þannig var um hana búið, að strengur úr henni var í gegnum vegginn og mátti hringja hinni inni í húsinu. Var klukkunni hringt í dimmviðrum til þess að beina ferðamönnum leiðina að Kolviðarhóli. Að sögn fróðra manna, er best máttu vita, fullyrtu þeir, að klukkan hefði jafnframt verið fengin til þess að fæla burtu drauga, sem á þeim árum þóttu nokkuð nærgöngulir við staðinn. En það var trú manna, að draugarnir hörfuðu frá þar, sem klukknahljómur heyrðist.

Nokkuð óljóst er um uppruna þessarar klukku. Sagt er, að hún væri af útlendu skipi, er strandaði hér við land, og hafi hverið keypt sem "strandgóss" Hafi hún svo að fyrirlagi amtmanns verið látin að Kolviðarhóli og sett þar upp fyrir daga Jóns Jónssonar gestgjafa, eða nánar til tekið 1883.

Margir eldri menn mundu sæluhúsklukkuna á Kolviðarhóli, höfðu kippt í streng hennar og heyrt í henni hljóminn. Klukkan var á sínum stað fram um 1907. Þá kom Friðrik 8. að Kolviðarhóli og snæddi þar hádegisverð í tjaldbúð á völlunum. Konungur skoðaðai öll bæjarhús á Kolviðarhóli. Hann veitti sæluhúsklukkunni athygli og spurði til hvers hún væri þar höfð og hringdi henni. Nokkru eftir þetta var byggingum eitthvað breytt á Hólnum og klukkan þá tekin ofan og eigi látin upp aftur. Eftir það var hún til í mörg ár á Kolviðarhóli, en þar kom, að hún var þar ekki lenngur, og vissi enginn, hvað um hana hafði orðið.

Tíminn leið hátt á þriðja tug ára. Þá var það sumarið 1957, að klukka ein kom fram í Reykjavík. Hafði hún um langt skeið verið í smiðju Jóns Sigrurðssonar járnsmíðameistara á Laugavegi 54. Taldi Jón klukkuna vera komna frá Kolviðarhóli fyrir mörgum árum. Hefðu einhverjir komið með hana sem brotakopar til bræðslu. Eigi kvaðst hann hafa tímt að fórna henni til uppbræðslu, heldur geymt hana í smiðju sinni. - Vel mundi Jón klukkuna á Kolviðarhóli og hafði stundum hringt henni á árabilinu 1885 - 1895. - Gaf hanna svo klukkuna sumarið 1957 til væntanlegs byggðasafns Árnessýslu, og er hún þar nú geymd.

Til frekari eftirgrennslunar um þetta var af Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, þann 13. janúar 1959 beint þeirri fyrirspurn til manna, hvort þeir vissu nokkuð um hina gömlu sæluhúsklukku frá Kolviðarhóli, eða hver örlög hennar hefðu orðið. Enginn gaf sig fram, er gæti gefið frekari upplýsingar um hana. Verður því að álykta, meðan annað ekki upplýsist, að klukka sú, er fannst í Reykjavík sumarið 1957, sé hin gamla Kolviðarhólsklukka.

Klukkan er úr kopar, 24cm. í þvermál um op, og er 7,8 kg á þyngd. Af ekki stærri klukku hefur hún sérlega skæran og fagran hljóm.

Þetta er orðrétt frásögn úr bókinni "Saga Kolviðarhóls", sem tekin er saman af Skúla Helgasyni og gefin út á Selfossi árið 1959.


298. - Minningar um vetraríþróttir, hestamennsku og fleira

Vetraríþróttir hef ég aldrei stundað. Ég renndi mér þó oft á magasleða þegar ég var krakki, einkum í Gossabrekku, sem sögð var skírð eftir Gottskálk þeim sem í fyrndinni byggði sér hús við brekkuræturnar. Við systkinin vorum ekki nógu vel efnum búin til að eignast skíðasleða, sem þá voru hæstmóðins og þurftum að láta okkur magasleða nægja.

Það eru svo margir sem blogga um landsins gagn og nauðsynjar að mér er eiginlega ofaukið við það. Það er líka mesti óþarfi að vera að sperrast við að blogga á hverjum degi. Fréttalinkar finnst mér líka mikill óþarfi.

Endurminningar er það sem mér finnst mest gaman að blogga um og svo er alltaf eitthvað sem leggst til með frásagnir úr daglega lífinu, þó það sé oft harla tilbreytingalítið.

Nýr bloggvinur bættist í safnið mitt um daginn. Vefritið fór fram á að gerast bloggvinur minn og auðvitað gat ég ekki neitað því. Ekki hef ég hugmynd um hvað býr að baki. Ætli þeir (þær/þau) séu ekki bara að auglýsa sig?

En aftur að vetraríþróttunum. Einu sinni hef ég farið á skauta. Það var þegar ég var á Bifröst. Við fórum nokkur saman niður að Hreðavatni til að fara á skauta. Ég átti enga slíka og hef aldrei átt. Fékk samt lánaða hokkískauta sem ég gat með naumindum troðið mér í. Munurinn á hokkískautum og venjulegum skautum, var að minnsta kosti þá, einkum sá að á venjulegum skautum voru rifflur að framan sem hægt var að spyrna með í svellið, en ekkert slíkt á hokkískautum.

Hörku aflandsvindur var og þegar ég fór út á ísinn fauk ég strax af stað. Mér gekk bærilega að halda jafnvægi, en réði engu um það hvert ég fór. Ég fauk bara áleiðis út á vatnið. Þegar ég var kominn dágóðan spöl frá landi, sá ég að þetta stjórnleysi mitt mundi leiða til vandræða, svo ég lét mig detta og stöðvaðist við það. Skreið svo til baka og hef ekki á skauta komið síðan.

Líklega hefur það verið þegar ég var í Miðskólanum í Hveragerði sem svonefnd skíðalandsganga var haldin í fyrsta skipti. Þetta var ekki löngu eftir að 200m sundkeppnin var haldin í fyrsta sinn og var ef til vill einskonar stæling á henni.

Ganga átti þrjá kílómetra á skíðum og var lögð áhersla á mikla þáttöku. Ég hafði aldrei á skíði komið, en gat þó ekki skorast undan að taka þátt í þessu. Braut var lögð á túninu fyrir norðan Varmá, beint á móti Fagrahvammi. Fara þurfti þessa braut að mig minnir þrisvar eða fjórum sinnum fram og aftur til að ná markmiðinu.

Ég spennti á mig skíði sem ég fékk lánuð og hélt af stað. Líklega hefði ég verið fljótari án skíðanna, en ekki var um það að fást. Þrír kílómetrar er ekki löng vegalengd. Á einum stað var brautin í dálitlum halla niður að ánni og síðan beygði hún þannig að hún lá meðfram henni.

Ég hafði ekki grænan grun um hvernig ég átti að fá skíðin til að beygja svo að þegar hraðinn jókst svolítið og ég stefndi beint á ána lét ég mig bara detta á hliðina og beindi skíðunum svo lítið eitt til hliðar þegar ég stóð upp aftur og tók beygjuna þannig.

Þetta endurtók ég svo í hverri ferð og tókst að ljúka kílómetrunum þremur og fékk meira að segja leyfi til að kaupa mér gyllt barmmerki til sannindamerkis um að ég hefði lokið þessu afreki. Síðan hef ég ekki á skíði komið.

Af öðrum vetraríþróttum og mér fer engum sögum, en ég öfunda mikið fólk eins og bloggvin minn hana Stínu Jóhanns sem stundum bloggar um afrek sín á þessu sviði.

Aldrei hef ég stundað hestamennsku og sé ekkert eftir því. Þegar ég var í sveit í stuttan tíma eitt sinn að Eystri Garðsauka í Hvolhreppi voru þar tveir hestar sem hétu Gráni og Jarpur. Strákur einn þarna, sem var nokkru eldri en ég, fór með mér á bak Jarpi og sýndi mér sitthvað um gangtegundir.

Til dæmis sagði hann að valhopp og stökk væri eiginlega það sama. Stökkið bara hraðara. Tölt og brokk sýndi hann mér líka, en líklega var ekki hægt að láta Jarp skeiða. Auðvitað enduðum við með að detta af baki, en meiddum okkur ekkert.

Jarpur og Gráni voru aðallega notaðir til dráttar og þeir voru duglegir við það. Til dæmis var farið á hverjum morgni útað brúsapalli við pósthúsið á Hvolsvelli með mjólkina.

Vagn með henni dró Gráni jafnan og svo var hann orðinn vanur leiðinni að ekki þurfti að stýra honum nema lítilsháttar á tveimur stöðum. Á einum stað fór hann allof utarlega á plankabrú eina yfir síki sem var á leiðinni ef hann fékk sjálfur að ráða og svo fór hann of nálægt hliðstólpanum við hliðið á heimreiðinni.

Þessa ferð fór ég nokkrum sinnum með stráknum sem sýndi mér gangtegundirnar og ef ekki hefði verið fyrir þessa tvo staði og það að vippa mjólkurbrúsunum upp á brúsapallinn hefðum við verið alveg óþarfir í ferðirnar.

Einhvern tíma var ég að flækjast austan við Hveragerði nálægt Sogni og sá að þar voru hestar. Svo vildi til að ég var með snærisspotta í vasanum og minntist ég nú allra þeirra frásagna sem ég hafði lesið um sveitastráka sem tóku hesta traustataki og fóru eitthvað á þeim, sem gjarnan varð svo upphafið að ýmsum ævintýrum.

Í stuttu máli sagt þá ákvað ég að stela mér hesti og ríða á honum eitthvert út í buskann. Ég fann hest sem leyfði mér að setja upp í sig snærið og meira að segja líka að klöngrast á bak. Þetta var í brekku og hesturinn ákvað að fara niður eftir brekkunni og ég lét sem ég vildi það líka.

Svo vildi hesturinn fá sér að bíta og beygði hausinn niður til að fá sér nokkur grasstrá. Þá vildi ekki betur til en svo að ég hafði enga viðspyrnu á baki klársins og rúllaði fram af honum og lauk þessari reiðferð þannig.

Eitt sinn fór ég á hestamannamót á Hvítárbökkum í Borgarfirðinum. Þar hitti ég Ingólf á Flesjustöðum með tvo til reiðar. Aukahesturinn var bæði með hnakk og beisli og vildi Ingólfur, sem var svolítið við skál, endilega að ég færi á bak honum. Það gerði ég og gekk furðanlega að stýra honum í humátt á eftir Ingólfi sem fór víða.

Þegar við komum að sjoppu einni fór Ingólfur af baki til að fá sér eitthvað en ég sat kyrr á mínum hesti og hreyfði mig sem minnst. Þegar Ingólfur ætlaði á bak aftur rak hann upp mikið öskur og ætlaði að stökkva á bak klárnum sínum án þess að stíga í ístaðið. Hestinum brá við öskrið og færði sig svolítið til hliðar svo Ingólfur lenti ekki á baki hans heldur á jörðinni.

Ingólfur reiddist dálítið við þetta og rykkti klárnum að sér með beislinu, steig í ístaðið og ætlaði að sveifla sér á bak með látum en fór þá óvart útaf hinum megin.

Jæja, þetta er orðið alltof langt hjá mér, svo það er best að hætta.


297. - Aprílgöbb, inntökupróf, Bifröst í Borgarfirði og minningablogg

Það er ekki viðeigandi að vera að blogga mikið fyrsta apríl. Fólk gæti tekið það allt sem gabb. Nýjasta færsla Önnu K. Kristjánsdóttur (velstyran.blog.is) er þó skemmtileg. Þar linkar hún í gamla aprílgabbssögu eftir sjálfa sig.

Aprílgöbbin í dag 1. apríl voru fullmörg fyrir minn smekk. Ég man vel eftir fréttunum um Vanadísina á sínum tíma og oft voru góðar hugmyndir í göbbunum meðan fjölmiðlarnir voru fáir. Nú eru þeir orðnir margir og flestir vilja vera með sitt eigið aprílgabb. Einu sinni rataði aprílgabb í „Öldina okkar", en það var þegar fréttin um Grímseyjarlaxinn komst þangað. Karlakór Kolbeinseyjar var líka eftirminnilegur svo og General Gabb.

Sjálfur er ég að hugsa um að halda áfram þar sem frá var horfið um daginnn með endurminningarnar.

Þó ég næði ekki framhaldseinkunn á landsprófinu vildi mamma endilega að ég færi eitthvað meira í skóla. Í þá daga tíðkaðist alls ekki að reynt væri að taka próf aftur, ef illa gekk og ekki var um marga skóla að ræða.

Sú hugmynd að reyna að komast í Samvinnuskólann að Bifröst var áreiðanlega frá henni komin. Þegar líða tók að inntökuprófi í þann skóla fékk hún því framgengt að ég fékk nokkra aukatíma í íslensku hjá Séra Gunnari Benediktssyni, en mig minnir að í inntökuprófinu hafi verið prófað í íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku. Úr þessum aukatímum man ég það helst að Heiðdís, dóttir Gunnars og bekkjarsystir mín, var líka að læra eitthvað hjá pabba sínum á sama tíma, en ekki man ég undir hvað það var.

Svo kom að því að inntökuprófin hófust. Þau voru haldin seinnihluta sumars árið 1959 í Menntaskólahúsinu við Lækjargötu. Þeir sem reyndu við prófið voru samtals eitthvað milli sjötíu og áttatíu. Úr prófunum sjálfum man ég það helst að ég var í sömu kennslustofu og Jóna Þorvarðardóttir, sem mér fannst vera svaka kroppur. Í þá daga voru gellur bara í fiskhausum svo ekki datt mér það orð í hug.

Ég man eftir að þegar inntökuprófunum var lokið fór ég til Sigrúnar systur minnar og sagðist ekki gera ráð fyrir að komast í skólann. Það álit byggði ég meðal annars á því að svo margir reyndu við prófið, en aðeins þrjátíu hæstu eða svo áttu að komast inn og svo því að meðal próftaka var fólk sem verið hafði í Menntaskóla, en það þótti eiginlega toppurinn þá.

Sjálfur var ég samt alveg viss um að ég mundi hafa þetta, því ég hafði á þessum árum og lengi frameftir aldri óbilandi sjálfstraust og þóttist flest geta.

Reyndin varð líka sú að ég komst í skólann og mig minnir að ég hafi engan þekkt fyrirfram af væntanlegum bekkjarfélögum mínum nema Kristinn Kristjánsson frá Hjarðarbóli. Hjarðarból var (og er) eitt af nýbýlunum sem þá var verið að reisa undir Ingólfsfjalli við veginn upp að Hvammi.

Kristinn hafði byrjað skólagöngu nokkru áður við Barna- Miðskólann í Hveragerði og skáldið og hagyrðingurinn Séra Helgi Sveinsson sem kenndi við skólann hafði gert þessa vísu:

Í andríkinu af öllum ber

okkar kæri skóli.

Kraftaskáld er komið hér,

Kiddi á Hjarðarbóli.

Þegar í skólann kom æxlaðist það síðan þannig að við Kristinn urðum herbergisfélagar, og minnir mig að við höfum ráðið því sjálfir. Hinsvegar var ekkert sjálfdæmi þegar að þvi kom að setjast til borðs í matsalnum. Það var einfaldlega listi á töflunni frammi við kaupfélag þar sem tilkynnt var hverjir ættu að sitja við hvaða borð.

Sex sátu við hvert þeirra og var fyrstu og annars bekkingum blandað saman, svo og strákum og stelpum. Ég man vel við hvaða borð ég sat báða veturna og nöfn margra borðfélaga minna þó ég hafi ekkert velt þessu fyrir mér í áratugi.

Það er margs að minnast frá skólanum og ég gæti eflaust haldið áfram lengi enn. En ætli ég láti þetta ekki duga núna. Kannski er ég bestur við endurminningarnar. Bloggvinur minn Lára Hanna Einarsdóttir sagði í kommenti við færslu frá mér um daginn: „Þú gerir þér væntanlega grein fyrir þvílíkur fjársjóður skrifin þín eru fyrir afkomendur þína. Ég vildi að ég ætti eitthvað svipað frá mínu fólki."

Jú, jú. En ég reyni að hugsa ekki mikið um það sem verður eftir að ég er dauður. Auðvitað veit ég að veröldin heldur áfram, þó mér finnist stundum eins og hún sé hluti af mér.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband