550. - Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki.

Á fyrri tímum er sagt að átján skólapiltar frá Hólum hafi lagst út og hafst við í Surtshelli. Af þeim er nokkur saga og er hún nefnd Hellismannasaga. Tvo kvenmenn höfðu þeir hjá sér og áttu börn með þeim en sagt er að þeim hafi verið drekkt. 

Sér til matar rændu þeir fé bænda, einkum Hvítsíðinga. Ekki fóru þeir leynt en vopnaðir voru þeir og ferðuðust jafnan margir saman. Byggðamenn hræddust þá og þorðu ekki á þá að ráðast.

Bóndasonurinn úr Kalmanstungu tók að sér að ráða niðurlögum Hellismanna. Hann fór til þeirra og vildi ganga í flokkinn og vera sem einn af þeim. Ekki leist þeim vel á það en tóku þó við honum um síðir.

Eftir langan tíma og miklar mannraunir tókst bóndasyni loks að komast til byggða meðan Hellismenn leituðu kinda og smöluðu saman. Söfnuðu byggðamenn liði og komu að Hellismönnum sofnandi í Vopnalág og tóku frá þeim vopn öll.

Valnastakkur hét foringi Hellismanna og reyndu byggðamenn að drepa hann fyrstan allra. Það mistókst því engin járn bitu á stakk þann úr sauðarvölum er hann hafði yfir sér. Höggið kom á þann mann sem næstur honum lá og tók af höfuðið. Þá vöknuðu Hellismenn og einn þeirra hrópaði. "Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki."

Fáir Hellismanna voru unnir í Vopnalág heldur tvístruðust þeir í allar áttir án þess að hafa vopn sín og byggðamenn unnu á þeim smám saman og eiga mörg örnefni uppruna sinn í því.

Einn Hellismanna hét Eiríkur og forðaði hann sér á handahlaupum upp undir jökul sem síðan fékk af honum nafn og er nefndur Eiríksjökull. Sagan segir að hann hafi komist undan byggðamönnum einn Hellismanna þó af honum hafi verið annar fóturinn eftir viðureignina við lið þeirra.

Að þessu loknu fóru byggðamenn í hellinn og vörðust konurnar tvær sem þar voru þeim vasklega lengi vel en máttu ekki við margnum.

Af afdrifum Eiríks og bóndasonarins úr Kalmanstungu eru misjafnar sögur og verða þær ekki raktar hér.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gaman að rifja þessa sögu upp, takk.

En hvernig var það... kom ekki fram í sögunni af hverju skólapiltar lögðust út?

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.12.2008 kl. 00:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, ég hef hvergi séð hvers vegna þeir gerðu þetta. Veit heldur ekki nákvæmlega hvenær þetta var. Sú útgáfa sem ég studdist við er í Þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Það væri eflaust hægt að kanna þetta miklu betur.

Sæmundur Bjarnason, 22.12.2008 kl. 01:31

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

hvenær er talið að þessi saga hafi gerst ?  13 öld ? 

Óskar Þorkelsson, 22.12.2008 kl. 15:24

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Tímasetningar á þessu held ég að séu dálítið á reiki. Kannski er þetta allt saman byggt á munnmælasögum frá ýmsum tímum.

Sæmundur Bjarnason, 23.12.2008 kl. 01:42

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það er einmitt það sem ég hef rekið mig á Sæmi með þessar sögur.. en ég hef einhvern grun um að flestar þeirra hafi gerst fyrir svarta dauða.. en hvað veit ég svosem :)

Óskar Þorkelsson, 23.12.2008 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband