Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
30.11.2008 | 00:16
528. - Enn um icesave, Moggann og aðrar náttúruhamfarir
Undanfarið hefur mín heimasíða á Netinu verið mbl.is. Nú er ég búinn að skipta og setja google.com í staðinn. Ástæðan er sú að það gengur stundum illa að ná sambandi við mbl.is og það tefur mig dálítið. Einkum er þetta áberandi á kvöldin og ég er ekki frá því að breytingin sé til bóta. Ekki hef ég haft saemi7.blog.is sem mína heimasíðu á Netinu enda held ég að það sé óþarfi.
Undanfarið hefur verið í fréttum að Mogginn sé að fara á hausinn. Ekki er það gott og hreint afleitt þegar fyrirtæki geta ekki borgað starfsfólki sínu umsamin laun. Ef tölvukerfið þeirra er nú að fara á hliðina líka útaf fjárskorti líst mér illa á það. Verð að viðurkenna að sem Moggabloggara líst mér jafnvel verr á það en hið fyrrnefnda. Fjölyrði ekki meira um þetta núna en kannski verður ástæða til að gera það seinna. Vonandi þó ekki.
Var að lesa tilkynningu um áhugaverða grein eftir Stíg Helgason á Vefritinu. Veit ekki hvort ég nenni að lesa greinina sjálfa en í kynningunni er sagt frá tilkynningu ríkisstjórnarinnar um að tryggja bankainnistæður allra Íslendinga sem gefin var í upphafi bankakreppunnar.
Eftir því sem harðnaði á dalnum í icesave málinu varð mér æ oftar hugsað til þess hvort það hafi ekki verið enn ein vitleysan hjá stjórnvöldum að tilkynna þetta. Öll mistök eru samt að einhverju leyti eðlileg og ég veit ekki hverjir það eru sem eiga umtalsverðar innistæður á sparisjóðsreikningum. Ekki er það ég og mínir líkar sem vöndust á það á verðbólguárunum að eyða hverri krónu að minnsta kosti strax og hennar var aflað. Helst fyrr.
Kjör flestra Íslendinga rýrna áreiðanlega talsvert vegna gengisfalls og verðbólgu á næstunni. Ef ekki hefði verið tilkynnt að tryggja ætti allar innistæður Íslendinga í bönkum upp í topp hefði kannski verið hægt að sleppa skár frá icesave málinu og verðbólga og gengisfall ef til vill ekki orðið til eins mikils skaða. Bara að spögúlera.
Ég er með antipata á langlokum á blogginu. Ef blogglokur eru ógnarlangar og eftir Sigurð Þór Guðjónsson les ég þær samt. Sú nýjasta eftir hann er um sjálfsvíg og ég er beinlínis farinn að halda að hann íhugi slíkt sjálfum sér til handa. Ekki get ég talið honum hughvarf í því efni en vona bara að hann haldi áfram með blogglokurnar sínar. Veðurmas hans les ég þó á harðahlaupum og mjög illa. Sigurður mælir líka með fésbókinni. Athuga það.
Þessa vísu dreymdi mig áðan að Davíð færi með og hefði á sér ógeðslegt glott við það. (Líklega var það Steingrímur Helgason sem inspíreraði mig.)
Fánýtt mal um allt sem er.
Öllu skal ég ljúga að þér.
Ef ég næ í úldið smér
úða skal því út frá mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.11.2008 | 00:23
527. - Byltingin er byrjuð og jafnvel langt komin
Við erum í miðri byltingu segir heimspekingurinn Kristján Arngrímsson í althyglisverðri grein í Morgunblaðinu. Það er margt rétt í því að þegar grannt er skoðað er bylting á Íslandi akkúrat núna. Hún er að vísu ekki blóðug og kemur þar tvennt til. Annars vegar er slíkur sóðaskapur víðast hvar aflagður nú um stundir og auk þess erum við Íslendingar friðelskandi þjóð eða svo er okkur sagt.
Gamlar hugmyndir um byltingar segja samt að þær eigi að vera blóðugar og einhver fjöldi fólks að láta lífið. Ef svo er ekki er byltingin hálfgert ómark í margra augum. En er það ekki bara hluti byltingarinnar að hugmyndir okkar um byltingar byltist og breytist?
En í hverju er þessi bylting fólgin? Jú, nú skal gömlu þjóðlegu gildunum varpað fyrir róða og upp teknar alþjóðlegar reglur um alla hluti. Við Íslendingar höfum lengi sótt margt til útlanda og munum enn gera. Að bankamálum og ýmsu öðru verði stjórnað erlendis frá er sjálfsagt. Gamla rómantíska hugmyndin um þjóðríkið og föðurlandsástina alltumlykjandi er dauð. Nútímamaðurinn leggur meiri áherslu á að hafa það gott en að vera gagntekinn af einhverjum óljósum hugsjónum. Með öðrum orðum það er betra að vera ánægt svín en óánægður Sókrates.
Mér hefur fundist að margir líti á þá byltingu sem nú stendur yfir sem afturhvarf til gömlu gildanna. Sú er ekki raunin. Það sem er að gerast núna er svanasöngur þeirra. Nýju gildin hafa beðið skipbrot en munu rísa upp endurnýjuð í syntesu Nýja Íslands ásamt gömlu gildunum lagfærðum og endurbættum. Eldgömlu gildin munu endanlega hverfa og sömuleiðis þau nýju og misheppnuðu sem náðu hámarki sínu í útrásarvíkingunum sem allt þóttust vita og allt geta.
Ég tel krónuvesalingnum varla viðbjargandi lengur. Þó held ég að sú tilraun sem gera á með að láta hann fljóta sé sú skynsamlegasta sem fær er. Hræddur samt um að það mistakist. Gjaldeyrishömlurnar sem beitt verður munu auka líkur á að það takist ef þeim verður beitt tímabundið en ekki í tvö ár eða meir eins og allar líkur eru á.
Varðandi heimasíðu háskólans í Reykjavík sem um þessar mundir er vinsælt að fjölyrða um vil ég segja eftirfarandi: Eðlilegast er að stjórnendur skólans ráði hvað fer á þessa síðu. Einhver sér væntanlega um að koma því þangað og fer eftir reglum þar um. Ef samþykkt verður að breyta þeim reglum fer ekki hjá því að afturvirkni slíkra reglubreytinga er ritskoðun og ekkert annað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Það er ekki oft sem ég er sammála Agli Helgasyni. Er reyndar að mestu hættur að lesa bloggið hans. Ég er þó sammála því sem hann segir um forpokaðan hugsunarhátt nemenda við Háskólann í Reykjavík.
Að skora á skólayfirvöld að fjarlægja grein eða ræðu sem birt hefur verið á heimasíðu skólans bara af því að umræddir nemendur eru á móti lagarökum í ræðunni sýnir algjört skilningsleysi þeirra á nútíma fjölmiðlun. Ef þessum nemendum finnst ekki skólanum sæmandi að hafa þessa grein þarna þá væri nær fyrir þá að gagnrýna þá sem ábyrgð bera á því. Að biðja opinberlega um að fjarlægja eitthvað er bara til þess fallið að auglýsa það sem gagnrýnt er.
Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir að allir séu sammála þessari ræðu. Líklega hefur henni verið að ljúka þegar ég kom á fundinn. Þá var kona að tala sem var mikið niðri fyrir og hafði hátt. Ég man ekki hvað hún sagði.
Að því er Vísir segir er áskorun nemenda við Háskólann í Reykjavík svohljóðandi:
Við, nemendur Háskólans í Reykjavík, skorum hér með á Háskólann í Reykjavík að fjarlægja ræðu Katrínar Oddsdóttur af heimasíðu Háskólans í Reykjavík. Lagarök í ræðu Katrínar sem flutt var 22.nóvember sl. eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og langt frá því að vera í nokkru samræmi við það sem kennt er við skólann. Mikilvægt er svo laganámið og þá sérstaklega kennsla í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík haldi trúverðugleika sínum sem ,,metnaðarfullt og nútímalegt laganám" að skólinn fjarlægi frétt um ræðuhöld hennar af heimasíðu skólans. Að sama skapi finnst okkur með öllu óásættanlegt að Háskólinn í Reykjavík stæri sig af, á forsíðu heimasíðu skólans, ummælum Katrínar sem hótar ofbeldi og valdaráni í ræðu sinni. En þar kemst hún að sama skapi að þeirri niðurstöðu að valdarán sé ekki brot á lögum. Teljum við það skóla okkar ekki til sóma að fjalla um ræðu hennar á heimasíðu skólans og krefjumst þess að færslan verði fjarlægð."
Máni Atlason frændi minn stundar nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og líklega er hann ekki sammála Katrínu og varla svona rugli heldur.
Í lokin eru svo fáeinar myndir sem ég hef tekið nýlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.11.2008 | 00:10
525. - Um skákgagnrýni Torfa Stefánssonar og fleira
Það er oft gaman að lesa þau komment sem ég fæ í kommentakerfið mitt. Þó ég svari þeim ekki nærri alltaf þarf það alls ekki að þýða að mér þyki þau ekki svaraverð. Stundum ætla ég mér einmitt að svara þeim ítarlega í næsta bloggi en svo verður eitthvað annað sem fangar hugann og mér finnst endilega að ég verði að blogga um. Svo er þetta tiltekna atriði sem ég ætlaði að fjölyrða um kannski orðið úrelt. Eða þá að ég er bara búinn að gleyma því.
En hvað um það. Ég gær bloggaði ég um Hegelisma og þóttist voða gáfaður. Ég skil samt ákaflega lítið í heimspeki og er hvergi nærri nógu fróður um hana. Gallinn við að skrifa um málefni sem maður er ekki þeim mun betur að sér í er að maður á það á hættu að blotta sig herfilega. Það getur vel verið að ég hafi gert það í heimspekiruglinu í gær en það verður þá bara að hafa það. Betra er að skrifa tóma vitleysu en að skrifa ekki neitt. Þetta meina ég auðvitað ekki.
Einn af bloggvinum mínum er Torfi Stefánsson. Mér finnst oft gaman að lesa það sem hann skrifar. Ég las oft það sem hann skrifaði á skákhornið en þar var hann alltaf gerður útlægur með reglulegu millibili. Svo hefur hann ágætt vit á knattspyrnu og hefur búið í Svíþjóð. Mest gaman er þó að lesa það sem hann skrifar um skák. Þar gagnrýnir hann allt og alla ótæpilega en hefur mjög oft mikið til síns máls. Miklu meira en skákmenn eru yfirleitt tilbúnir að viðkenna.
Hér kemur nýjasta hugleiðing hans og ég bið hann afsökunar á að ræna þessu svona frá honum en oft held ég að aðrir lesi mitt blogg en hans og stundum fleiri. Torfi linkar með þessari færslu í frétt af mbl.is og notar fyrirsögnina:
Lélegasti árangur karlalandsliðsins ever!
Já, óhamingju íslenskrar skákar verður allt að vopni. Lélegasti árangur íslenskrar karlasveitar á Ólympíumóti er staðreynd eða 64. sæti. Allar Norðurlandaþjóðirnar urðu fyrir ofan okkur, meira að segja Færeyingar!!
Til samanburðar má nefna það að fyrir rúmum tíu árum eða á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar varð íslenska sveitin iðulega í 10 efstu sætunum (5. sætið sem besti árangur). Fallið hefur því verið mikið og hratt að undanförnu, eða allt frá árinu 2000 þegar sveitin hafnaði í 55. sæti.
Kvennaliðið stóð sig enn verr núna en karlaliðin, en við því var svo sem búist.
Þessi afleiti árangur er þeim mun undarlegri í ljósi þess að skákin hefur undanfarin ár fengið ágæta fyrirgreiðslu hjá ríki og borg. Ekki aðeins það að stórmeistarar í skák eru á ágætis launum hjá ríkinu (þó svo að þeir tefli lítið sem ekkert), og skákskóli er rekinn fyrir almannafé, heldur er Skáksambandið og skákfélögin styrkt myndarlega af opinberu fé.
Þá er og ámælisvert hvernig forystumenn skákhreyfingarinnar hafa á undanförnum árum reynt að leyna þessari hnignun skákarinnar hér á landi. Þeir hafa látið eins og allt hafi verið í besta lagi, mikil skákþátttaka hér á landi og fjöldi ungra og efnilegra skákmanna að koma upp. Sérstaklega hefur verið tala um stelpurnar í þessu sambandi.
En því miður hefur þessar lýsingar átt við lítil rök að styðjast og virðast einkum hafa verið fram settar til að geta setið áfram að styrkjum frá ríki og borg.
Segja má að vandamál samfélagsins í dag birtist í hnotspurn hjá Skáksambandi Íslands. Þar er ekkert gagnsæi, upplýsingum haldið leyndum fyrir almennum skákáhugamönnum og ákveðnir aðilar skara eld að eigin köku á kostnað hreyfingarinnar í heild.
Stór hluti áhugamanna eru meðvirkir, kóa með í fagurgalanum rétt eins og menn hafa gert hvað útrásarvíkinga og stórgróðamenn varðar úti í samfélaginu.
En nú er þessu meðvirka skeiði lokið úti í þjóðfélaginu og menn krefjast breytinga. Hvenær ætla skákmenn að hætta sinni meðvirkni og krefjast breytinga á stjórn skákmála hér á landi? Þegar við erum lentir í 100. sæti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008 | 00:24
524. - Heimspekilegar pælingar. Um Hegelisma og fleira
Ég hef alla tíð verið dálítið hallur undir heimspeki. Á sínum tíma þótti mér mikið koma til fyrirlestra Guðmundar Sveinssonar skólastjóra á Bifröst um þýska heimspekinginn Friedrich Hegel (1770 - 1831). Guðmundur þóttist vera að kenna okkur svokallaða Menningarsögu en talaði bara um það sem hann hafði sjálfur áhuga á.
Kenningar Hegels um tesu antitesu og syntesu höfðuðu mjög til mín og mér hefur alltaf fundist að mörg fyrirbrigði í lífinu sé hægt að setja upp þannig. Mörgum finnst að fræði þau sem heimspekingar bollaleggja um séu torskilin. Það hefur mér yfirleitt ekki fundist. Þeir eru samt oft dálítið sér á parti með skilning sinn á algengum hugtökum og vilja gjarnan skýra hluti um of. Sumt er einfaldlega ekki hægt að skýra og óþarfi að skýra nokkuð.
Mest hef ég áreiðanlega lesið eftir heimspekingana Atla Harðarson og Pál Skúlason og reynt að tileinka mér dálítið efni eftir útlenda frumherja á þessu sviði. Ég hef líka stundum skrifað um að ég sé í rauninni kommúnisti. Samt er Karl Marx sá heimspekingur sem ég hef hvað minnst álit á.
Mörgum finnst einkennilegt að kenna Playboy við heimspeki en það var nú samt einskonar framhald af heimspekipælingum mínum að lesa greinar eftir Hugh Hefner í Playboy. Hann boðaði það afbrigði af kapítalisma sem kallast hedonismi en það er heimspeki sem mér finnst á margan hátt vera undanfari nýfrjálshyggjunnar sem svo er nefnd.
Kommúnisminn mistókst í Rússlandi. Tókst næstum því á Kúbu og gæti tekist í Kína ef alþjóðavæðingin og markaðsbúskapurinn taka hann í sátt. Mér finnst samt kapítalisminn vera miklu misheppnaðri sem stjórnmálaheimspeki því þar er beinlínis gert ráð fyrir því að menn séu afleitir og smáir í hugsun. Hegelisminn gerir hinsvegar ráð fyrir því að ástand allt muni smátt og smátt fara batnandi ef tesukenningin er heimfærð á stjórnmálaheimspeki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.11.2008 | 01:32
523. - Burt með bankaleyndina
Fundurinn sem sjónvarpað var í kvöld tókst vel. Fundarstjórinn var alveg ágætur. Talaði kannski fulllengi í upphafi en stýrði umræðunum eftir það með sóma. Setti ofaní við Ingibjörgu Sólrúnu strax í upphafi þegar hún byrjaði á sinni pólitísku messu. Eftir það voru ráðherrarnir sæmilegir nema hvað Geir var alveg úti á þekju.
Einar Már var góður en það var samt verkakonan á svæðinu sem flutti flottustu ræðuna. Langeftirminnilegasta setning kvöldsins var hennar og ég setti hana einfaldlega í fyrirsögnina á þessari færslu. Til hvers höfum við þessa eilífu bankaleynd. Hún virðist vera mest notuð af glæpamönnum til að hylja slóð sína. Auðvitað væri hægt að misnota mjög afnám bankaleyndar en samt er nauðsynlegt að gera það stundum.
Þessi fundur í Háskólabíói og mótmælin á Austurvelli sem eru orðin viss passi á hverjum laugardegi eru einstök i sögu þjóðarinnar. Sumir reyna að gera lítið úr þessu og kvarta undan því að óljóst sé hverju er verið að mótmæla. Þeir hinir sömu eru ótrúlega skilningsvana. Óhugsandi er að allir geti sameinast um eina kröfu og lagt á hana sömu áherslu.
Þó ekki sé um eina fastmótaða kröfu að ræða er enginn vafi að óánægjan með stjórnvöld er mikil. Fólk legði ekki á sig að mæta ef ekkert væri á bak við það. Íslendingar eru seinþreyttir til vandræða en svo má brýna deigt járn að bíti. Ég held að stjórnarflokkarnir séu utan við sig af hræðslu við það sem er að gerast. Það er ekki bara Geir heldur ríkisstjórnin í heild sem brugðist hefur trausti almennings með öllu. Geir er enn í fullkominni afneitun. Ingibjörg segist í rauninni vera á móti ríkisstjórninni en þorir þó ekki að gera neitt.
Aldrei var nein von til þess að vantrauststillagan sem flutt var á Alþingi yrði samþykkt. Alþingi er nánast að verða stofnun sem engu máli skiptir. Þó gætu Alþingismenn vel látið að sér kveða. Þá vantar bara að losna undan þessum eilífa flokksaga sem allt er að drepa. Auðvitað hefðu kosningar nú ekki verið til neins en strax og fer að vora er nauðsynlegt að kjósa.
Af hverju er svo illa komið fyrir okkur Íslendingum eins og raun ber vitni? Mér finnst einfaldasta skýringin vera sú að stjórnvöld hafi bara verið svona ofboðslega fattlaus að þau hafi ekki gert sér grein fyrir því hvert stefndi. Það er alls ekki hægt að ætlast til þess af okkur sauðsvörtum almúganum að við höfum vit fyrir þeim. Við megum ekki vera að því.
En hversvegna í ósköpunum gerðu stjórnvöld ekki neitt. Líklegasta skýringin er sú að það lýðræði sem við búum við henti okkur ekki. Þetta er samt bara venjulegt fulltrúalýðræði eins og tíðkast um allan hinn vestræna heim. Mér finnst það einkum vera vegna þess að við erum svo fá og smá sem þetta form lýðræðis hentar okkur ekki.
Það er meðal annars útaf þessu sem ég er fylgjandi því að við göngum í Evrópusambandið. Þar er úrval mikið af mannskap til að sinna stjórnunarstörfum og ef íslenskir afglapar fá minni tækifæri til að láta að sér kveða því betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.11.2008 | 00:41
522. - Um Hörð Torfa, Moggann og margt fleira
Jæja, þá er víst kominn mánudagsmorgunn einu sinni enn. Ekki þýðir að láta eins og blaðamannafundir og undanbrögð stjórvalda séu bara vondur draumur. Ég fór á mómælafund á Austurvelli á laugardaginn. Mannfjöldi virtist mér vera svipaður og laugardaginn á undan. Fór í Kolaportið áður en fundurinn var búinn eftir að hafa fengið smásúpuslettu sem var ágætt í hráslaganum. Heyrði ekki hvort Hörður Torfa eggjaði menn til að fara að lögreglustöðinni við Hverfisgötu eins og sumir segja. Hafi hann gert það þá eru það mistök. Núna er einmitt að koma út æfisaga Harðar Torfa þó ég muni ekki í augnablikinu hvað bókin heitir. Það eru líka mistök en kannski ekki hans. Hörður hefur að mörgu leyti staðið sig vel í þessu mótmælastandi öllu og ekki er hægt að efast um einlægni hans í mannréttindamálum. Enginn kemst þó mistakalaust í gegnum lífið. Ég ætla ekkert að fjölyrða um lætin við lögreglustöðina en þau sýna bara að ástandið er eldfimt og ekki má mikið útaf bera. Er Mogginn orðinn aðalmálsvari lítilmagnans í landinu? Öðru vísi mér áður brá. Ólafur Thors mundi snúa sér við í gröfinni ef hann vissi af þessu. Ef Jón Ásgeir á Fréttablaðið hver á þá Moggann? Björn Bjarnason kannski? Nei annars þetta er ekkert fyndið með fjölmiðlana. Þeir eru á hraðri niðurleið. Fólk er alveg hætt að trúa þessum sneplum. Leynimakk út yfir líf og dauða. Ættingjar fengu ekki aðgang að tölvupósti látins manns. Athyglisverð frétt var á mbl.is fyrir nokkru. Hún var héðan frá Íslandi en ég hef fáa séð fjölyrða um hana. Maður sem lést hafði haft tölvupóstfang hjá fyrirtæki sem hann hafði áður starfað hjá. Þegar hann dó vildu ættingjar hans fá aðgang að tölvupóstinum en var neitað um það. Persónuvernd komst í málið og tók undir það að enginn mætti hnýsast í þessa tölvupósta. Ef einhver getur sannað að hann sé annaðhvort Guð almáttugur eða sá svarti sjálfur fær hann þó líklega að sjá þessa háleynilegu tölvupósta. Ég bíð spenntur og Jónína Ben sennilega líka. Og svo er það vantrauststillagan í kvöld. Ekki dettur mér í hug að hún verði samþykkt. Líklega rata allir á sína jötu og greiða atkvæði eftir flokkslínum. Þetta lið ætti að segja af sér á einu bretti. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.11.2008 | 00:14
521. - Frásögn af margboðaðri bók
Heyrði nýlega sagt frá margboðaðri bók. Datt strax í hug bókin "Frásögn um margboðað morð" eftir Nóbelsskáldið Gabriel Garcia Marques en það er ekki sú rétta. Það var Kristján B. Jónasson sem sagði frá þessari bók á sínu bloggi. Upphaflega átti hún að heita "Sex, Lies and Supermarkets". Nú er sagt að hún eigi að heita "The Iceman Cometh". Ef þessi bók kemur einhverntíma út mun hún verða á ensku og koma út í London. Samt mun hún fjalla um Íslending að nafni Jón Ásgeir Jóhannesson.
Sagt er að Jón Ásgeir sé að reyna að koma í veg fyrir að þessi bók komi út. Að því leyti líkist hann fóstbróður sínum Davíð Oddssyni. Eiríkur Jónsson blaðamaður á DV skrifaði eitt sinn bók um Davíð Oddsson í óþökk Davíðs.
Um daginn var mér boðið að skrifa í Heima er best. Ég er orðinn svo vanur að blogga að ég er ekki viss um að ég komist úr blogg-gírnum. Reyni samt kannski. Um daginn sá ég myndbandið fræga frá Njarðvíkuskóla sem var á youtube. Þar spörkuðu þrír unglingar með tilþrifum í þann fjórða. Ógeðslegur andskoti. Það er að verða með öllu úrelt að skrifa og eltast við orð eins og ég geri. Ungdómurinn hugsar aðallega í myndum.
Menn geta hæglega verið stjórar án þess að stjórna nokkru. Þannig gæti Geir Haarde sem best verið rafveitustjóri austur á Langanesi án þess að valda nokkrum skaða. Davíð gæti meira að segja verið aðstoðarmaður hans þar og þá væru tvær flugur slegnar.
Lára Hanna er lögst í sagnfræðirannsóknir. Hér fer á eftir smákafli úr gamalli ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar sem hún birti á sínu bloggi. Ég vorkenni fólki að lesa miklar langlokur á Netinu og því birti ég bara niðurlag ræðunnar en það sýnir vel hver hans hugsun er. Minni líka á að mér vitanlega er Ólafur sá eini sem tengist bæði stjórnvöldum og útrásarvíkingum og hefur nánast beðist afsökunar á heimsku sinni. Það gerði hann í Kastljósi 13. október s.l. og Lára Hanna gerir því að sjálfsögðu einnig skil.
Hin fjölþætta útrás sem orðið hefur drifkraftur nýsköpunar á mörgum sviðum hefur alla burði til að verða veigameiri í framtíðinni; hún getur skapað undirstöður blómlegrar tíðar og haft jákvæð áhrif á hagsæld allra íbúa landsins, á alla r byggðir, stéttir og starfsgreinar. Útrásin er ekki einkamál þeirra sem ryðja brautir. Hún litar samfélagið allt, opnar augu landsmanna fyrir tækifærum á mörgum sviðum, dregur fram það sem gerir Íslendinga í stakk búna til að eflast og styrkjast í veröldinni. Hin breytta heimsmynd er okkur hliðholl og tækifærum fjölgar ört.
Blómaskeið með rætur í útrásinni - blómaskeið í viðskiptum, vísindum og listum - er sú framtíðarsýn sem hæglega getur orðið að veruleika og þótt ætíð sé gott að hafa varann á sér, efast um ágæti þess sem fyrir augu ber og árétta nauðsyn þess að stoðir útrásarinnar verði áfram traustar, bendir fátt til annars en að útrásin muni á komandi árum færa okkur sífellt nýja landvinninga og gefa öllum Íslendingum kost á að njóta betra lífs.
Útrásin hefur margháttuð áhrif á líf þjóðarinnar, líka fólksins sem finnur ekki í fljótu bragði samhljóm með fréttum af landvinningum í fjarlægum löndum. Hún hefur leitt til þess að lífskjör Íslendinga hafa batnað þótt margir landsmenn búi því miður enn við þröngan kost. Útrásin getur, ef vel er á haldið, skapað hér meiri hagsæld en við höfum áður haft í augsýn.
Helsti ávinningurinn er þó fólginn í því að útrásin veitir ungu fólki ótvíræða sönnun þess að besti kosturinn er að sameina íslenskar rætur og athafnasemi á alþjóðavelli, að krafturinn sem Ísland gefur er vænlegt veganesti, að hægt er að vera í senn skapandi Íslendingur og áhrifaríkur heimsborgari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2008 | 00:07
520. - Mikið var að beljan bar, kötturinn gaut og tíkin
Svona var oft komist að orði í mínu ungdæmi þegar eitthvað sem lengi hafði verið beðið eftir gerðist loksins. Vel má segja eitthvað á þessa leið um vantrauststillöguna á ríkisstjórnina. Oft hefur vantraust verið borið fram af minna tilefni. Auðvitað getur það verið tvíeggjað að gera svona lagað núna og jafnvel orðið til þess að auka viðsjár milli manna. Umræður gætu orðið hin besta skemmtun og spennandi í ofanálag. Hvað gerir samfylkingarfólkið sem hæst hefur haft að undanförnu? Segja einhverjir ráðherrar af sér? Nær glundroðinn jafnvel til Sjálfstæðismanna? Og síðast en ekki síst. Hvernig fer atkvæðagreiðslan eiginlega? Líklegast er að tillagan snúist á endanum upp í stuðningsyfirlýsingu við ríkisstjórnina og meirihlutinn haldi með glans. Kosningar held ég að verði samt næsta sumar jafnvel þó Geir og Imba séu bæði á móti því. Mér finnst stjórnvöld vera farin að misnota blaðamannafundi. Kannski eru þeir samt ágæt leið til að koma upplýsingum frá sér. Alltaf er verið að ásaka stjórnvöld um laumuspil og kannski eru blaðamannafundirnir svar þeirra við því. Egill Helgason er á rangri hillu. Hann á bara að gera bókmenntaþætti. Horfði áðan á upptöku af Kiljunni. Hún er orðin sá þáttur í íslensku sjónvarpi sem ég vil síst missa af. Sá líka að Lára Hann klippti bút úr þættinum og setti á bloggið sitt. Í þeirri iðju jafnast enginn á við hana. Í þessum bút flytur Hallgrímur Helgason rithöfundur ljóð sitt um landið. Þetta er ágætiskvæði og byrjar svona: Ísland er stjórnlaust |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.11.2008 | 00:07
519. - Af hverju liggur svona gríðarlega á að koma gjaldeyrismarkaði af stað? Jú, það er meðal annars til að eigendur Jöklabréfa geti innleyst hagnað sinn
Ég er skíthræddur um að lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé hvergi nærri nóg. Vonandi verður hægt að fá viðbótarlán. Hvernig öll þessi lán verða svo greidd vil ég helst ekki hugsa um. Sennilega verða skattar hækkaðir og kannski verður það í lagi ef þeim hækkunum verður hæfilega dreift. Nú eru kaflaskil í Íslandssögunni. Lánið mikla komið og Guð mun væntanlega líta niður til okkar og segja: Mikið eru þeir krúttlegir þessir Íslendingar. Kannski maður bjargi þeim bara. Upplagt væri af þessu tilefni að stokka pínulítið upp í ríkisstjórninni. Geir skilur bara alls ekki hvernig á því getur staðið að einhverjir vilji fá að kjósa. Til hvers í ósköpunum að vera með svoddan vitleysu. Best væri ef hægt væri að kjósa Geir í burtu en það er víst ekki í boði. Engin leið að losna við nema í mesta lagi Þórunni og Bjögga. Af hverju skyldu þau hafa tekið upp á að fara að tala um kosningar? Þykir þeim ekkert vænt um ráðherrastólana eða hvað? Í öllum þeim hremmingum, blaðamannafundum og annarri óáran sem yfir landið hefur dunið á undanförnum vikum og mánuðum er mér minnisstæðast Kastljósviðtal við Þorstein Má Baldvinsson þar sem hann lýsti því yfir nánast grátandi að hann hefði augljóslega gert mikil mistök þegar hann fór framá aðstoð Seðlabankans við Glitni. Það er samt aðildin að EU sem er mál málanna og mun yfirskyggja allt annað í íslenskri pólitík næstu árin. Hugsanleg aðild og upptaka Evru hefur þó lítið með núverandi ástand í efnahagsmálum að gera. En ef ekki má minnast á aðild þegar illa gengur og heldur ekki þegar allt leikur í lyndi þá er þröngt skorinn stakkurinn. Stuðningur við Evrópusambandsaðild hefur líklega aukist að undanförnu en ef það er eingöngu vegna þeirra erfiðleika sem við okkur blasa er hann lítils virði. Séra Baldur Kristjánsson í Þorlákshöfn skrifaði eftirfarandi á sitt blogg fyrir nokkru: "Hreif kotbændur með sér en lét kotungshugarfar stjórna sér. Sat fastur í Flóanum á meðan Framsókn flaug til Brussel. Nú er það bara spurning um Bessastaði eftir þrjú ár. Þegar við hin förum að máta okkur við Evrópu væri krútt að hafa heimakæran forseta sem rifjar upp fornsögurnar og ljóðin." Þarna er Séra Baldur að tala um Guðna Ágústsson og það er alltaf gaman að því sem hann skrifar um framsóknarmenn. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)