520. - Mikið var að beljan bar, kötturinn gaut og tíkin

Svona var oft komist að orði í mínu ungdæmi þegar eitthvað sem lengi hafði verið beðið eftir gerðist loksins. Vel má segja eitthvað á þessa leið um vantrauststillöguna á ríkisstjórnina. Oft hefur vantraust verið borið fram af minna tilefni. Auðvitað getur það verið tvíeggjað að gera svona lagað núna og jafnvel orðið til þess að auka viðsjár milli manna. 

Umræður gætu orðið hin besta skemmtun og spennandi í ofanálag. Hvað gerir samfylkingarfólkið sem hæst hefur haft að undanförnu? Segja einhverjir ráðherrar af sér? Nær glundroðinn jafnvel til Sjálfstæðismanna? Og síðast en ekki síst. Hvernig fer atkvæðagreiðslan eiginlega? Líklegast er að tillagan snúist á endanum upp í stuðningsyfirlýsingu við ríkisstjórnina og meirihlutinn haldi með glans. Kosningar held ég að verði samt næsta sumar jafnvel þó Geir og Imba séu bæði á móti því.

Mér finnst stjórnvöld vera farin að misnota blaðamannafundi. Kannski eru þeir samt ágæt leið til að koma upplýsingum frá sér. Alltaf er verið að ásaka stjórnvöld um laumuspil og kannski eru blaðamannafundirnir svar þeirra við því.

Egill Helgason er á rangri hillu. Hann á bara að gera bókmenntaþætti. Horfði áðan á upptöku af Kiljunni. Hún er orðin sá þáttur í íslensku sjónvarpi sem ég vil síst missa af.

Sá líka að Lára Hann klippti bút úr þættinum og setti á bloggið sitt. Í þeirri iðju jafnast enginn á við hana. Í þessum bút flytur Hallgrímur Helgason rithöfundur ljóð sitt um landið. Þetta er ágætiskvæði og byrjar svona:

Ísland er stjórnlaust
því enginn því stjórnar.
Ísland er fleki af dýrustu gerð.
Ísland er landið sem flokkurinn fórnar
Ísland á reki í sjónum þú sérð.
Ísland í forsetans orðanna skrúði.
Ísland sem bankana auðmönnum gaf.
Ísland sem sonanna afrekum trúði.
Ísland er land sem á verðinum svaf.
Íslensk er þjóðin sem allt fyrir greiðir.
Íslensk er krónan sem fellur hvern dag.
Íslensk er höndin sem afvegaleiðir.
Íslensk er trúin: Það kemst allt í lag.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

:)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 22.11.2008 kl. 16:01

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Egill er á tveimur hillum og báðum réttum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.11.2008 kl. 18:14

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei hann er eiginlega á þremur og það er of mikið. Hann er með silfrið, kiljuna og bloggar þar að auki fjandann ráðalausna. Aðrir gætu sem best séð um stjórnmála-rifrildisþátt og sem bloggari er hann ekkert sérstakur.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2008 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband