Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
20.11.2008 | 00:09
518. - Nú færist sennilega fjör í leikinn
Svei mér ef það fara ekki hausar að fjúka. Ég hef verið að glugga í umsagnir um ræðuna frægu hjá Davíð Oddssyni og sé ekki betur en eitt og annað geti leitt af því sem þar er sagt. Það má búast við að ýmislegt gerist næstu daga. Jafnvel að afsögn Guðna Ágústssonar verði smámál. Það er samt ekkert fyndið við ástandið á landinu núna þó erfitt sé að taka það alvarlega. Að mörgu leyti minnir þetta allt saman á lélega gamanmynd. Ætlar þetta engan endi að taka. Er yfirríkisstjórnin kannski í Seðlabankanum? Sumir hafa gefið það í skyn. En þetta eru skemmtilegir tímar þó kreppufjandinn sé það ekki. Margt er að gerast og eflaust er margt eftir enn. Davíð á förum og ríkisstjórnin hugsanlega líka. Nú er vitað að allir helstu ráðamenn þjóðarinnar vissu að minnsta kosti í febrúar síðastliðnum hvert stefndi með fjármálakerfið íslenska. Ég tek undir það með Friðriki Skúlasyni að fróðlegt væri að fá nákvæmt yfirlit yfir það hverjir forðuðu sínum fjármunum á öruggari staði eftir að þetta varð ljóst. Ég er næstum viss um að allir ráðherrarnir hafa gert það og sennilega miklu fleiri. Með því hafa þeir að sjálfsögðu fyrirgert rétti sínum til áframhaldandi setu í valdastöðum og hugsanlega brotið lög. Þónokkur komment fékk ég í kommentakerfið mitt vegna orða minna um EU aðild og Samfylkinguna. Ég gæti vel haft um nóg að skrifa þó ég skrifaði eingöngu um Evrópumál. Mér liggur bara svo margt annað á hjarta að ég á erfitt með að einbeita mér að því. Athyglisverðust þóttu mér þessi orð Þorgeirs Ragnarssonar: Og hvaða lausnir býður Samfylkingin upp á? ESB og evru, jafnvel þótt vitað sé að evran verði í fyrsta lagi komin til skjalanna eftir að kreppan verður liðin hjá. Svar Samfylkingarinnar er það að henda sjálfstæði landsins í ruslið og ganga í ríkjasamband þar sem áhrif okkar verða engin og ein helsta auðlind landsins verður afhent skriffinnum í Brussel. Þetta er það sem ég hef kallað landráðakenninguna. "Að henda sjálfstæði landsins í ruslið" er ágæt myndlíking en ekkert meira. Ég gef lítið fyrir svona málflutning. Vissulega er þó að mörgu að hyggja en nærtækast er að horfa á hvernig öðrum smáþjóðum hefur gengið að fóta sig á Evrópubandalagssvellinu. Vinsamleg samskipti við aðra hljóta ævinlega að kalla á einhverja eftirgjöf. Hver hún verður er að sjálfsögðu undir okkur sjálfum komið. Lítum ekki bara á Evrópu. Lítum einnig á aðrar heimsálfur. Ríki Bandaríkjanna eru um margt lík þjóðríkjum. Söguleg arfleifð er þó ekki mikil þar eftir að Indíánum var útrýmt. Viljum við vera eins og Amish-fólkið er þar og afneita öllu sem nýmóðins er? Ef við neitum öllum samskiptum við aðra nema á okkar eigin forsendum getum við endað einhvern vegin þannig. Ég get ekki séð að þau ríki sem gegnið hafa í Evrópubandalagið hafi týnt sjálfstæði sínu. Norðmenn hafa hingað til verið okkur góð fyrirmynd í Evrópuandúðinni en svo getur vel farið að þjóð af þeirra stærðargráðu og með gnægð olíupeninga einangrist á endanum ef hún heldur áfram að fúlsa við öllu sem að EU snýr. Mér finnst að við ættum að vera á undan Norðmönnum í Evrópubandalagið því þeir enda þar líka. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.11.2008 | 00:05
517. - Samfylkingin þarf að fara að sýna tennurnar. Það vinnst ekkert á því að vera bara viðhengi Sjálfstæðisflokksins
Já ég kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum og fannst óvitlaust hjá Ingibjörgu að þiggja stjórnarþátttöku með Íhaldinu. Það er ekki fyrr en núna í bankakreppunni sem ég er farinn að verða verulega óánægður með stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar. Það er ekki hægt að lafa endalaust í kjólfaldi Geirs. Það þarf að gera eitthvað. Það þarf að tala við fólk og útskýra hvað er að gerast. Ekki bara með fáeinum orðum á misheppnuðum blaðamannafundum eða nokkrum setningum í Silfri Egils. Heldur með samtölum við venjulegt fólk. Fundum út um allt. Fjölmörgum. Ef einhvern tíma var ástæða til að reka pólitískan áróður þá er það núna. Eigum við að horfa uppá að allt sem boðið er uppá séu afsagnir fáeinna framsóknarmanna og bollaleggingar um það hvort Þorgerður Katrín þori hugsanlega í formannsslag við Geir góða? Þegar einhver af forystumönnum Samfylkingarinnar sýnir örlítið sjálfstæði gagnvart yfirgangi Sjálfstæðisflokksins skal ég viðurkenna að það er ef til vill ekki þeirra æðsti draumur að hanga á ráherrastólunum eins og hundar á roði. Fyrr mun ég ekki gera það. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Samfylkingarforkólfar ætli sér að sitja út núverandi kjörtímabil í óbreyttu stjórnarsamstarfi eins og ástandið í þjóðmálum er. Með því tryggja þeir að Samfylkingin verður aldrei annað en lítill flokkur hræddra sérvitringa og valdastreitumanna. Af hverju aðhafðist Samfylkingin ekki neitt þó ráðherrum í ríkisstjórninni hafi verið það mæta vel ljóst lengi að í óefni stefndi? Af hverju eru ráðherrar Samfylkingarinnar allir í felum og þora ekki að segja neitt? Ingibjörg segist vera á móti veru Davíðs í Seðlabankanum en lætur þar við sitja. Eru forystumenn flokksins tóm dusilmenni og hengilmænur? Sá áðan í sjónvarpinu Guðbjörgu Hildi bloggvinkonu mína. Hún var þar að ræða um blogg og annaðhvort kom það fram í hennar máli eða þáttarstjórnanda að þeir sem ég hef viljað kalla forsíðubloggara hjá Moggablogginu séu 200. Margt annað athyglsvert kom þarna fram og ég er alls ekki frá því að talan 200 sem þær nefndu sé mjög nærri lagi. Þegar ég var að byrja að blogga minnir mig að ekki hafi þurft nema svona 250 gesti á viku til að komast á vinsældalistann yfir þá 400 bestu. Nú virðist þurfa hartnær 600 gesti til að ná því sama. Samkvæmt þessu eru vinsældir Moggabloggsins mikið að aukast. Mig minnir að það kæmi einnig fram í áðurnefndum sjónvarpsþætti að Moggabloggarar líti niður á aðra slíka. Það væri þá athyglisverður viðsnúningur því upphaflega var litið mjög niður á Moggabloggararæflana. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.11.2008 | 00:10
516. - Spennandi og skemmtilegir tímar framundan segir Þorgerður Katrín og líður vel með sína peninga á öruggum stað til að vera á
Spennandi og skemmtilegir tímar framundan sagði Þorgerður Katrín. Ekki minnkar gamanið þegar Guðni er farinn að skemmta í utanþingsliðinu. Stöð 2 segir að Guðni hækki í launum snemma á næsta ári þegar hann fer á eftirlaun samkvæmt eftirlaunalögunum frægu. Þetta er áhugavert og spurning hvort það virkar vel að borga mönnum fyrir að hætta. Kannski Þorgerður segi bara af sér til að komast í utanþingshópinn skemmtilega. Hver veit nema Valgerður bætist í hann fljótlega. Ekki virðist Geir ætla að gera það. Hann verður þó að velja í hvaða armi Sjálfstæðisflokksins hann kemur sér fyrir þegar flokkurinn eini og sanni klofnar með látum og sennilega að minnsta kosti í þrjár til fjórar einingar. Annars held ég að það væri hollt að spekúlera í næstu kosningum án þess að gera ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn klofni. Hann hefur oft staðið frammi fyrir ósættanlegum sjónarmiðum en hefur flokka best úrval plástra. Nýir flokkar gætu séð dagsins ljós en ekki er víst að þeir gangi mjög í augu kjósenda. Ekki geta samt allir kosið vinstri græna eða samfylkingu og verða kannski í vandræðum ef ópólitíski og stóri flokkurinn verður alltíeinu orðinn lítill. Ef mögnuð EU andstaða og landráðahjal á að verða límið í nýjum stjórnmálaflokki þá held ég að hann verði ekki fjölmennur. Og ef fyrrverandi framsóknarmenn verða ráðandi þar boðar það ekki gott. Þetta blogg mitt er að verða eitt allsherjar stjórnmálablogg. Það er skaði. Stjórnmálin eru bara svo athyglisverð um þessar mundir þó venjulega sé pólitíkin leiðindatík. Þessu áhugaverða tímabili lýkur kannski ekki fyrr en í næstu kosningum hvenær sem þær verða. Ég fæ oft svolítið af kommentum. Gaman að því og mest gaman að svara þeim í blogginu sjálfu. Þannig lengist það svolítið. Við Mána (sem erfði sæti Gurríar í útsvarsliðinu) vil ég bara segja: Af hverju getur Gurrí ekki bloggað eins og Jens Guð? Þ.e.a.s. á báðum stöðunum. Og við Sigurð Þór vil ég segja að ég hafi nú ekki beinlínis haldið því fram að skáldskapurinn hefði drepið Jónas. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2008 | 00:05
515. - Samið við Breta og andi minn glímdi við Guð
Jú, jú. Þau þykjast svosem vera búin að semja eins og allir vissu en allt er þetta leyndó ennþá. Fljótlega verður þó að segja Alþingismönnum frá þessu trúi ég og þar með vita það allir. Mín skoðun er sú að samningurinn sé bara nokkuð góður. EU vill líklega fá okkur um borð. Þá hætta stjórnvöld hér á ísa köldu landi að geta hagað sér eins og fífl í efnahagsmálum. EU fær með samningnum einnig sinn skilning viðurkenndan á því sem deilt var um. Það er ekki lítils virði.
Í sambandi við tuðið um Guð í stuði og allt það þá dettur mér í hug kvæði eftir Jónas sem svaf í ár og er einhvern vegin svona:
Andi minn glímdi við Guð.
Og það var gasalegt puð.
En eftir dúk og disk
dró ég úr honum fisk.
Minnið hef ég misst
mælti Drottinn sem var að pissa
Hvernig höfum við hist?
Hvenær var það fyrst?
Mikið er ég hissa.
Ég strauk hendinni um hnakkann
og hneppti frá mér frakkann.
Það var helvíti heitt.
Og hjartað var farið úr skorðum.
Það hneig niður himinbrattann
og hikstaði framan í skrattann
þessum þrettán orðum.
Þyrstur af trega ég teyga.
Tæmi flöskur og fleyga.
Friðlausa guðaveiga.
Birt án ábyrgðar. Eitthvað kann að hafa skolast til í minninu en þetta var einhvern vegin svona. Jónas Svafár var mikið skáld en hrikalega misskilinn og dó í mikilli fátækt eins og sönnu skáldi sæmir.
Ekki man ég hvert Gurrí kattakona á Skaganum fór þegar hún hætti sem Moggabloggari. Vona bara að hún hafi getað herjað einhverja peninga útá flutninginn. Mér er hún alveg týnd og eflaust fleirum. Svo var henni líka sparkað úr útsvarsliðinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2008 | 00:18
514. - Krafan er: Davíð í burtu og helst einhverjir fleiri líka
Jafnvel æstustu stuðningsmenn Davíðs Oddssonar viðurkenna að hann hafi varla gert annað en tómar vitleysur að undanförnu. Mjálma samt eitthvað um að ekki megi persónugera núverandi vandræði. Þegar Davíð loks hætti í stjórnmálum fyrir nokkrum árum sætti fólk sig við að hann færi í seðlabankann því bankinn var og er álitinn nokkurskonar elliheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn. Fólk bjóst ekki við að hann mundi valda skaða þar. Annað hefur komið á daginn og það er engin furða þó fólk vilji fyrir hvern mun losna við hann úr bankanum.
Við skulum bara átta okkur á því", segi ég í Reykásstíl, að við höfum aldrei fengið að vita hvað þetta icesave-mál snýst um í raun og veru. Ráðamenn hafa aldrei fengist til að segja um hvað er deilt. Hinir svosem ekki heldur enda hefur Geir eflaust beðið þá að þegja yfir því sem fram fer á fundum. Fyrir okkur er þetta lífsspursmál og almenningur þarf sannarlega að fá að segja sitt álit á þessum farsa öllum. Ekki bara mæna á Geir og Sollu á blaðamannafundum þar sem þau hafa ekkert að segja.
Mér fannst greiðsluvísitalan (það er greiðslan) ekkert flott hjá þeim skötuhjúunum þar sem þau stóðu framan við Drekkingarhylsmyndina á blaðamannafundinum. Geir verður alltaf illur og skömmóttur á þessum blaðamannafundum jafnvel þó hann sé spurður ofur varlega.
Geir hefur reynt að telja okkur trú um að Bretar og Hollendingar krefjist þess að við borgum svona 600 milljarða. Ég held ekki að það sé það sem krafist er. Þegar honum lokst tekst að semja um eitthvað miklu minna þá verður hann eflaust voða rogginn og þykist hafa gert vel. Drífur samkomulagið í gegnum þingið og þykist geta setið að völdum lengi enn útá afrekið.
Byrjaði að horfa á Kátu Maskínuna hans Þorsteins J frá því á fimmtudaginn en varð því miður að gefast upp. Ég er ekki sammála honum um að gamlar og lélegar vídeóupptökur eigi erindi til almennings bara vegna þess að þær eru gamlar og lélegar. Fleira þarf að koma til.
Það er misskilningur af versta tagi hjá Jóni Ásgeiri að hægt sé að höfða mál gegn manni fyrir það eitt að bera upp spurningu eða spurningar. Hins vegar verða bankastjórarnir að eiga það við sjálfa sig hvort þeir svara því sem þeir eru spurðir um eða ekki. Jafnvel kæmi til greina að reka þá með skömm ef þeir svara ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.11.2008 | 17:35
513. - Ágætur útifundur þó kalt væri í veðri
Já, ég er nýkominn af útifundinum. Mér fannst hann fara vel fram í alla staði. Margt var á fundinum og áreiðanlega hef ég aldrei verið á fjölmennari fundi. Frá mínu sjónarmiði voru eins margir á Austurvelli og þar komust fyrir með góðu móti. Hvernig ástandið var í nærliggjandi götum hef ég ekki hugmynd um.
Við Áslaug komum svona 7 mínútum áður en klukkan varð þrjú og komum okkur fyrir þar sem við heyrðum sæmilega. Fljótlega fylltist svo allt af fólki og þó kalt væri var hljóðið í fundarmönnum ágætt. Ræðumenn stóðu sig vel og ég varð ekki var við nein læti neinsstaðar.
Einhverjir grímuklæddir menn breiddu úr fána á nálægu húsþaki undir lok fundarins en þegar Hörður Torfason bað þá um að taka af sér grímurnar forðuðu þeir sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.11.2008 | 00:12
512. - Ég skora á alla að mæta á Austurvöll í dag laugardag og mótmæla þessari duglausu ríkisstjórn
Já, ég hef víst sagt þetta áður en nú er alvara að færast í málið. Hver veit nema þetta hafi á endanum einhvern tilgang.
Aðgerðapakki ríkistjórnarinnar og spunkuný og spennandi vísitala er það sem Imba og Geir hafa kokkað upp og ætla að nota til að slá ryki í augun á almenningi og svo ætla Sjálfstæðismenn að halda fund í janúar. Nei takk. Ég er á því að meira þurfi til. Eðlilegasta byrjunin væri að láta Davíð og seðlabankastjórnina alla fara frá. Síðan þarf ríkisstjórnin að fara sömu leið. Og svo.......
Af hverju er verið að rifja upp núna lætin sem urðu þegar Inga Jóna kona Geirs Haarde sagði sig úr stjórn Flugleiða. Fyrir mér lyktar þetta af því að verið sé að reyna að koma höggi á Geir. Hann hefur alveg unnið fyrir sínum höggum sjálfur. Inga Jóna hefði hugsanlega átt að fara öðru vísi að á sínum tíma en ég sé ekki að það sé það sem mestu máli skiptir núna. Fjölmiðlar virðast oft vera undir einhverjum annarlegum áhrifum. Og allt í einu er Hannes Smárason orðinn eins og einhver hvítþveginn engill og allir trúa orðum hans eins og nýju neti.
Það er auðvelt að gagnrýna allt og finna að. Heimta jafnvel að stjórnin segi af sér. Það sem öllu máli skiptir er samt hvað muni taka við ef stjórnin fer frá. Ingibjörg Sólrún hefur líf stjórnarinnar í hendi sér. Eflaust er hún fyrst og fremst að hugsa um tímasetninguna. Hún þarf líka að vita hvort líklegast sé að efnt verði til kosninga. Trúlega hefur Geir mögulegt þingrof alfarið í hendi sér. Hann gæti auðvitað reynt að kippa öðrum uppí til sín og þrauka þannig til 2011 ef Ingibjörg ákveður að yfirgefa hann. Ég treysti ekki núverandi stjórnarandstöðu til að gera endilega það sem þjóðinni er fyrir bestu. Til þess eru völdin of sæt.
Vilhjálmur Örn segir að ég þurfi að fá mér draumatenginu. Ég hélt að ég væri með SpeedTouch þráðlausa draumatengingu í gegnum rosalega flottan ráter. Nú, hann meinar kannski beina bloggtengingu við draumana. Veit ekki hvar slíkar fást en þær gætu verið spennandi.
Ég veit ekki hvað er komið yfir mig. Ég er farinn að blogga tvisvar á dag hvað eftir annað. Kannski fer eins fyrir blogginu mínu eins og eignum Landsbankans í Bretlandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.11.2008 | 16:20
511. - Blaðamannafundir um ansi lítið
Svei mér þá. Þrýstingurinn á Geir er sennilega að verða óbærilegur. Að halda sérstakan blaðamannafund um að halda eigi landsfund hjá Sjálfstæðisflokknum eftir nokkra mánuði. Ég held að lengra verði varla komist í viðleitninni til að velta hlutunum á undan sér. Líklega dreymir Geir um að halda völdum allt til landsfundar og jafnvel eftir hann ef allt fer að hans óskum.
Það var síðan fátt nýtt sem kom fram á seinni blaðamannafundinum. Jú, sennilega eru Íslendingar að beygja sig í icesave málinu. En það vissu nú allir.
Dimmt er yfir mannheimum og Guð er dottinn í það", segir Sigurður Þór. Ljótt er að heyra þetta með fylliríið en ég held að það sé ekkert dimmara yfir mannheimum en venjulega. Það er bara dimmt yfir hér á norðurslóðum eins og vant er um þetta leyti árs og bankakreppa Vesturveldanna reynir svolítið á fjármálakerfi heimsins. Hjá okkur Íslendingum er þetta heldur verra en það birtir aftur. Kannski verða efnin ekki eins mikil og venjulega en náttúran mun ekkert láta allt þetta vesen á sig fá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.11.2008 | 08:43
510. - Ég er orðinn ansi þreyttur á þessu
Í svefnrofunum sem ég stundum glimrandi góða bloggpistla. Gallinn er bara sá að þegar ég kemst að tölvunni man ég aldrei nema eitthvert hrafl úr þeim. Við þetta verð ég að una og get engu um það breytt.
Í mínum huga snýst málið ekki lengur um það hvort ríkisstjórnin fari frá heldur einungis hvenær það verður. Geir getur tæplega gert sjálfum sér og öðrum það öllu lengur að þrjóskast við segja af sér. Afglöp hans eru slík að óhjákvæmilegt er að hann fari. Ingibjörgu Sólrúnu er nokkur vorkunn vegna veikinda á slæmum tíma en auðvitað er best að hún fari líka og allir hinir ráðherrarnir einnig. Mín spá er sú að svo margir mæti á mótmælafundinn á laugardaginn kemur að jafnvel Geir sjálfur sjái að sætasta stelpan er ekki í Svörtuloftum. Nú er hann búinn að glata því tækifæri sem hann hafði á að fórna Doddsyni og ekkert minna dugar en að þeir fari báðir og sjáist ekki framar.
Hvað tekur við þegar Geir er búinn að segja af sér? Það er ekki með öllu ljóst. Alþingi ætti að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í því að skipa nýja ríkisstjórn. Helst ættu ekki að vera neinir Alþingismenn í henni en líklega þarf þó fólk í hana sem þingflokkarnir geta sætt sig við svo friður skapist. Svo ætti auðvitað að vinda bráðan bug að því að fara að undirbúa kosningar. Tímasetning þeirra getur orðið talsvert vandamál en varla má það dragast lengur en til næsta sumars að kjósa.
Það gengur ekki lengur að halda öllu sem hægt er leyndu fyrir þjóðinni. Í samningum við aðrar þjóðir eru hlutirnir ekki bara svartir og hvítir. Einhverjar millileiðir hljóta að hafa verið athugaðar. Það skiptir meira máli hvernig og hvort samningar takast en hvor vinnur endanlega fyrir dómstólum. Engir geta beðið eftir slíku. Nóg er komið af andskotans biðinni.
Þetta með stýrivextina er hlálegt en bara ein birtingarmynd af ruglinu sem viðgengst hjá stjórnvöldum. Til hvers er eiginlega að hækka stýrivexti eftir kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef hann ætlar svo ekki að gera neitt. Hvað lá eiginlega á?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2008 | 00:34
509. - Þessvegna vil ég að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið
Þegar ég var í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu og staddur í Magasin du Nord (sem Íslendingar áttu ekki þá) sá ég að fólk safnaðist saman og horfði á eitthvað merkilegt í sjónvarpstækjum sem til sölu voru í vöruhúsinu. Ég skildi ekki almennilega hvað var á seyði fyrr en drengur einn kom skokkandi og rétti mér prentaðan seðil. Ég fór strax að stauta mig framúr því sem á miðanum stóð.
Efst stóð Löbeseddel" . Næst stóð Politiken". (Eða var það öfugt) Síðan kom svo setning með langstærsta letrinu Krag gaar av". Ég man ekki hvort það stóð nokkuð meira á seðlinum. Allavega skipti það ekki miklu máli því aðalmálið var auðvitað að Krag hafði sagt af sér sem forsætisráðherra öllum að óvörum.
Jens Otto Krag (1914 - 1978) var forsætisráðherra Danmerkur til 1972. (Fyrst frá 1962 til 1968 og svo aftur 1971 til 1972) Það var einmitt þá sem ég var staddur í Kaupmannahöfn og daginn áður hafði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Danir gengju í Efnahagsbandalagið. Krag hafði fyrst og fremst litið á það sem sitt hlutverk að koma þeim þangað. Þegar því takmarki var náð var ástæðulaust fyrir hann að vera forsætisráðherra lengur.
Krag var giftur leikkonunni Helle Virkner. Eitt sinn voru þau hjón heiðursgestir á pressuballi hér uppi á Íslandi. Pressuböll voru fínustu böllin sem haldin voru á Íslandi í þá daga og heimsókn þeirra Krag-hjóna jafnaðist fyllilega á við þegar töluvert seinna fór að tíðkast að fá heimsfræga söngvaragutta til að skemmta í afmælum nýríkra Íslendinga.
Það var Anker Jörgensen sem tók við af Jens Otto bæði sem flokksformaður og forsætisráðherra. Hann var svarthærður, svartbrýndur og með svart skegg. Satt að segja minntu myndir af honum mig alltaf á þann svarta sjálfan en það er önnur saga.
Því minnist ég á þetta að allt frá þessum tíma hef ég verið sannfærður um að við Íslendingar mundum að lokum enda í Evrópusambandinu. Allt frá þessum tíma hef ég líka verið því hlynntur að svo yrði og engin rök hafa ennþá breytt þeirri skoðun minni. Í mínum augum er það merkilegt hve lengi Íslendingar hafa staðið utan við sambandið. Sennilega hefði samt verið betra að ganga í það meðan við vorum velkomnir þangað en ekki er víst að svo sé enn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)