Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

169. blogg

Eftir því sem best er vitað er aðeins einn maður sem fæðst hefur á Vegamótum á Snæfellsnesi. Það var Sæbjörn Jónsson sem fæddist þar 19. október 1938. Sæbjörn dó 7. ágúst 2006 og gerð hefur verið minningarsíða um hann á trompet.is. Áhugasömum skal bent á þá síðu.

Ástæðan fyrir veru foreldra hans að Vegamótum var sú að þau höfðu fyrir nokkru hafið veitingasölu þar. Það er eins og margir vita nákvæmlega þarna sem vegurinn skiptist og annars vegar er farið norður eftir og áleiðis til Stykkishólms. Áður fyrr var farið fyrir ofan Hjarðarfell, upp Seljafellið og yfir Kerlingarskarð. Nú orðið fara víst allir hina svokölluðu Vatnaleið. Hins vegar liggur leiðin áfram vestureftir Snæfellsnesinu sunnarverðu, gegnum Staðarsveit og síðan annaðhvort yfir Fróðárheiði til Ólafasvíkur eða fyrir framan Jökul um Breiðuvík framhjá Arnarstapa og Hellnum. Eftir að foreldrar Sæbjörns fluttust frá Vegamótum komst staðurinn í eigu Kaupfélags Stykkishólms og enn síðar í eigu Kaupfélags Borgfirðinga í Borgarnesi. KB var eigandinn þegar ég vann þarna, en eftir þann tíma skilst mér að staðurinn hafi aftur komist í einkaeigu.

Áhugavert væri að taka saman sögu staðarins. Þá mætti ennfremur segja frá öðrum byggingum á svæðinu. T.d. hvenær Sláturhúsið var reist, hvenær verslunin tók til starfa, hvenær Einar í Holti byggði sitt verkstæðishús. Ég man að hann byggði við það meðan ég var á Vegamótum. Hvenær íbúðarhús tilheyrandi versluninni og veitingahúsinu var tekið í notkun. Hvenær Sigurþór Hjörleifsson reisti sitt hús o.s.frv. Einnig mætti minnast á áhaldahús Vegagerðarinnar sem er þarna í nágrenninu og geta um aðrar framkvæmdir.

Fyrir nokkrum mánuðum sá ég á bókasafni Kópavogs bók sem Gluggasteinn heitir. Hún var gerð um íbúa eins hrepps eða svo á Vestfjörðum. Þetta er stór og vegleg bók með fjölmörgum myndum bæði gömlum og nýjum. Samt hef ég ekki trú á að hún höfði til mjög stórs hóps lesenda. Einkaaðili, sem ég man því miður ekki nafnið á, gaf bókina út.

Ég er ekki að segja að Vegamót á Snæfellsnesi þurfi á bók á borð við Gluggastein að halda, en sú bók sýndi mér, það sem ég vissi svosem áður, að bókaútgáfa er orðin svo ódýr og einföld í framkvæmd að með ólíkindum er. Myndvinnsla öll er einnig orðin miklu einfaldari en áður var og vel má hugsa sér að hægt væri tæknilega séð að gefa út litla bók um ekki stórfenglegra viðfangsefni en Vegamót á Snæfellsnesi. Dreifing og sala væri að sjálfsögðu talsverður biti, en ef stofnkostnaður er ekki mikill þá gerir minna til þó sú starfsemi verði í skötulíki.

Ég spurðu Gúgla sjálfan aðeins um þessa bók og svarið var þetta:

Bókin kom út í ár hjá bókaforlaginu Gýgjarsteini og bókina er hægt að  panta hjá Sverri Gíslasyni sjálfum í síma 4875631.

Einu sinni orti ég litla vísu sem er svona:

Bindindi ég herlegt hóf

og heilsu minnar gætti.

Föstudaginn níunda nóv,

við nikótínið hætti.

Síðan hef ég margsinnis fallið á sígarettubindindum og hafið þau jafnoft aftur. Vísan er ekkert sérstök nema fyrir það eitt að í dag er föstudagur og einnig níundi nóvember. Þessi dagsetning fer þó vafalaust einkum í sögubækur vegna þess að þennan dag, allmörgum árum eftir að ég hóf mitt nikótínbindindi, féll Berlínarmúrinn margfrægi.

Og þá er komið að fáeinum myndum.

Hér erum við bræðurnir ég og Björgvin. Þessi mynd er greinilega tekin undir stofuglugganum á nýja húsinu að Hveramörk 6. Ég er greinilega að trúa Björgvini fyrir einhverju. Kannski bara að benda honum á myndavélina sem beint er að okkur.

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd er greinilega tekin löngu fyrr. Þarna er Björgvin smábarnið á myndinni. Vignir er sá sem heldur á honum og ég stend á hnjánum fyrir aftan. Fyrir aftan mig sést síðan framhjá Mel, yfir hverasvæðið og allt upp að Hamri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á þessari mynd er það ég sem er í einskonar klemmu milli systra minna en ekki Vignir eins og í gær. Þessi mynd gæti vel hafa verið tekin um svipað leyti og á svipuðum stað og myndin af Vigni og stelpunum.

 

 

 

 

 

 

Hér er enn ein mynd úr seríunni um kettlinginn. Fyrir nokkrum dögum setti ég hér á bloggið myndir af Ingibjörgu og Áslaugu þar sem þær héldu á þessum sama kettlingi. Nú er röðin semsagt komin að mér. Ég var nefnilega atyrtur fyrir að vilja frekar birta myndir af öðrum en mér sjálfum á mínu eigin bloggi.


168. blogg

Gíslína í Dal er dáin.

Hún var mikil hetja. Ég þekkti Gíslínu afar lítið, en fjölskyldu hennar og frændgarð dálítið. Auðvitað vissum við öll að endalokin voru nærri. Hún ekki síður en aðrir. Engu að síður bloggaði hún af fádæma æðruleysi og yfirvegun. Hún var afburða vel ritfær og leyndi engu í skrifum sínum. Hún fegraði málin ekki heldur og sagði frá því sem á daga hennar dreif og skrifaði einnig um málefni dagsins. Með Gíslínu sjáum við á bak konu sem þorði, vildi og gat.

Hvernig í ósköpunum fann Birgitta Jónsdóttir bloggið mitt? Varla les hún öll Moggabloggin. Kannski leitaði hún að nafninu á mömmu sinni. Þetta er nú bara forvitni hjá mér, ég kann illa á þetta dót. Ég sé samt ekki betur en ég sé orðinn númer 366 á vinsældalista Moggabloggsins, sem er mjög gott. Og svo er bloggvinum mínum að fjölga þessa dagana frekar en hitt.

Enn á ný er torrent.is komið í fréttirnar. Þetta með að menn sameinist um að hjálpa hverjum öðrum um dýr forrit er auðvitað ekkert nýtt. Ég held að einhver slík mál séu að veltast í dómskerfinu einmitt um þessar mundir og vissulega eru hlutir oft fljótir að breytast í þessum geira. Skaðabótakröfur þeirra sem fordæma þetta framtak eru oft ákaflega mikið í skýjunum. Afbrot þeirra sem að þessu standa eru heldur ekki neitt óljós. Lög og lagatúlkanir í þessum efnum eru hins vegar langt á eftir tímanum og rót vandans liggur kannski þar.

Ég man vel eftir því þegar rokkið kom til landsins. Allt í einu urðu allir, sem vildu teljast vera eitthvað, að vera í hvítum þröngum peysum og svörtum gallabuxum með hvítum saumum. Ég skildi aldrei almennilega af hverju þetta var, en svona var þetta bara.

Svo man ég vel að ég heyrði á þessum árum fyrst minnst á Harry Belafonte og hlustaði með mikilli aðdáun á hann syngja Banana boat song. Ég minnist náttúrlega ekki á Presley sjálfan. Hann var í guðatölu og menn leggja ekki nafn hans við hégóma. Svo fóru rokk og ról kvikmyndir að koma til Reykjavíkur, en búandi í nápleisi langt frá höfuðstaðnum þá hafði maður náttúrlega ekki mikinn sjens á að sækja svoleiðis. Ég er samt ekki frá því að einhverjar þeirra hafi komið til Hveragerðis löngu seinna, en ekki eru þær sérlega minnisstæðar.

Mig minnir að ég hafi sagt eitthvað um bílskúrinn hans Jóns Guðmundssonar í síðasta bloggi. Auðvitað er rangnefni að kalla þetta bílskúr. Jón hefði áreiðanlega aldrei gert það sjálfur. Skúrar af ýmsu tagi voru á þessum árum karlmönnum mjög kærir og eru líklega enn. Jón Guðmundsson og Magnús Hannesson í Grasgarðinum sameinuðust um að byggja veglegan skúr á lóðamörkunum milli lóða sinna og áttu hvor sinn helminginn.

Jón var smiður og fékkst eflaust við eitthvað sem tengdist þeirri iðn í sínum helmingi. Magnús var hinsvegar með búskap í sínum hluta. Þar hafði hann nokkrar kindur sem hann annaðist. Mér er minnisstætt að hann slátraði heima á haustin og við krakkarnir sóttum mikið í að liggja einhvers staðar í leyni til að horfa á þegar kindurnar voru skotnar. Auðvitað máttum við það ekki, en það var óheyrilega spennandi að sjá þetta.

Þá eru það gömlu myndirnar. Ég á ennþá eitthvað eftir af þeim og Bjössi sendi mér einmitt nýjan skammt í dag.

Á þessari mynd eru þau systkinin Sigrún, Ingibjörg og Vignir. Vignir er þarna eins og dálítið klemmdur milli systra sinna en engin ástæða til að vorkenna honum það.

 

 

 

 

 

 

 

Hér hafa þau sest niður og þetta er eiginlega ágætismynd.

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér er aftur á móti mynd sem ég veit fremur lítið um. Vel getur verið að hún sé tekin á skátamóti sem haldið var við Hagavík í Grafningi einhvern tíma á sjötta áratugnum. Ég er ekki með öllu viss um hverjir þetta eru en skal reyna að segja frá hverja ég þekki. Það gæti verið Jósef Skaftason sem er lengst til vinstri og snýr baki í myndavélina. Fyrir framan hann er hugsanlega Jóhannes Finnur bróðir hans. Sá stóri sem er framan við fánann og næstur í röðinni er hinsvegar nokkuð auðþekktur. Það er áreiðanlega Jói á Grund. Við hliðina á honum gæti verið Óskar Bjarnason síðan Atli Stefánsson og haldandi um stöngina á miðri mynd gæti vel verið Muggur, þ.e. Guðmundur Stefánsson bróðir Atla. Við hliðina á honum sýnist mér vera Guðmundur Bjarnason bróðir Óskars og síðan lengst til hægri og dálítið frá hópnum er greinilega Ásgeir Jónsson. Ég get með engu móti áttað mig á hver það er sem heilsar að skátasið (eða hermanna) bak við röðina.


167. blogg

Bjarni vann sína skák í gær (þriðjudag) á meistaramóti Bahamas.

nullHann á nú eftir að tefla tvær skákir og hefur aðeins misst niður hálfan vinning. Sá sem næstur honum kemur hefur tapað niður einum og hálfum vinningi. Þeir tefla saman í síðstu umferð, sem verður væntanlega tefld næstkomandi sunnudag í The Government house.(sjá mynd) Mér skilst að þar búi ríkisstjórinn og þetta séu einskonar Bessastaðir þeirra Bahamabúa. Svo gæti farið að Ken Gibson, andstæðingur hans þá, verði að vinna hann til að komast upp að hliðinni á honum í vinningum talið.

Annars vonast ég til að Bjarni bloggi eitthvað um þetta sjálfur á næstunni. Kannski verður það nokkuð sögulegt ef hann vinnur og verður Skákmeistari Bahamaeyja, því ekki er algengt að Íslendingar vinni meistaramót í einstaklingsgreinum í öðrum löndum.

Dóttir Bergþóru Árnadóttur kommentaði á bloggið mitt útaf myndunum sem ég setti þar af Bergþóru. Birgitta Jónsdóttir (Bergþórudóttir) heitir hún og bloggar sjálf heilmikið. Ég hef séð þetta blogg en sjaldan lesið það. Kannski verður breyting þar á. Mig minnir að hún fáist við einhverja listsköpun og sé framarlega í hópi þeirra sem mótmæltu á sínum tíma Kárahnjúkavirkjun og mótmæla enn stjóriðjustefnunni svokölluðu.

Subaruinn hefur verið með hálfgerð leiðindi undanfarna daga. Hitar sig öðru hvoru og sýpur vatn. Líklega lekur hann vatni en ég held ekki að það sé alvarlegt, en mun eflaust láta athuga það betur í næstu viku.

Áslaug er ekkert búin að setja af nýjum myndum á setrið sitt. (sjá hér til hliðar) Hún hefur mestan áhuga á að setja þar myndir af listaverkum sínum, bæði málverkum, glerverkum og leir. Bjarni tók á sínum tíma heilmargar myndir af slíku, en ég veit ekki hvar þær eru. Þyrfti að spyrja Bjarna um það.

Skrítið að berjast fyrir því að áfengi og bjór verði selt í matvöruverslunum. Mér finnst Sigurður Kári æsa sig í stuð þegar talað er um þetta. Hvers vegna í ósköpunum reynir maðurinn ekki að beina kröftum sínum í aðrar áttir. Kröftum sem greinilega eru talsverðir. Margt og mikið hefur verið ritað og rætt um þetta mál, en mér finnst einn vinkill þess ekki hafa hlotið mikla umfjöllun.

Ef Sigurður Kári og hans meðreiðarsveinar gera þetta allt í nafni frelsisins sjálfs, hvers vegna í ósköpunum setja þeir markið við eitthvert tiltekið styrkleikamagn? Af hverju ekki að leyfa öllum að selja allskyns áfengi? Væri það ekki mesta frelsið? Nei, tilgangurinn með þessu er augljóslega að ryðja auðvaldinu brautina. Þetta hefur ekkert með frelsi að gera. Bara að koma höggi á einkasölu ríkisins á þessum fíkniefnum.

Eflaust telja þeir vínvinir það betur til fylgis fallið að tala bara um léttvín og bjór í þetta skipti, en eftir að ÁTVR verður farið á hausinn munu matvöruverslanir áreiðanlega bjóðast til að sjá um sölu sterkra drykkja líka. Jafnvel verður frelsið með tímanum svo mikið að sérstakar vínbúðir í einkaeigu munu spretta upp í þéttbýlinu. Landsbyggðin má fara í rassgat.

Talsvert hefur verið rætt um mannréttindamál og tjáningarfrelsi á Netinu og annars staðar. Núna síðast hefur vefsíðan skapari.com verið mikið á milli tannanna á fólki. Efnið á þessari síðu er svo sannarlega þrungið kynþáttahatri og fordómum. En það er þess virði að horfa framan í óvininn og læra að þekkja hann.

Það er auðvelt að vera stuðningsmaður mannréttinda og tjáningarfrelsis þegar um er að ræða góða og fallega fólkið. Þegar komið er að þeim sem maður hefur andstyggð á, þá vandast málið. Ég reyni samt ávallt að láta menn njóta vafans jafnvel þó mér sé illa við þá. Þar reyni ég að taka mér Salvöru Gissurardóttur til fyrirmyndar, en hún bloggar oft um þessi mál af skynsamlegu viti finnst mér.

nullHér koma svo í lokin nokkrar gamlar myndir. Á þessari erum við bræðurnir ég og Vignir. Vissulega er skelfing að sjá útganginn á okkur, en ég gæti best trúað að svona höfum við verið til fara dagsdaglega. Á öðrum myndum hafi verið reynt að færa okkur í eitthvað í áttina að spariklæðnaði.

 

 

 

 

 

 

nullÁ þessari mynd eru menn ólíkt reffilegri enda tekin allnokkru seinna. Hér er það Vignir sem stendur lengst til vinstri, þá kemur Ásgeir Jónsson og síðan Siggi bróðir hans. Sigga virðist nú hálfleiðast þetta tilstand en Ásgeir er eins og hann hafi gleypt herðatré. Myndin er líklega tekin fyrir utan bílskúr Jóns Guðmundssonar pabba þeirra Ásgeirs og Sigga. Ég held reyndar að hann hafi aldrei átt bíl.

 

 

null 

Þetta er myndin þar sem Áslaug hangir í trénu. Nú, jæja eða kannski er hún að klifra. Ég efast um að svona myndarlegt tré hafi fyrirfundist í Hveragerði á þessum tíma svo vel gæti verið að þessi mynd sé tekin einhvers staðar allt annars staðar. T.d. í Vaglaskógi. Nei, bara svona hugmynd.


166. blogg

Nú eru bankarnir búnir að kasta grímunni.

Með því að gera fólki sem erfiðast fyrir með að selja íbúðir sínar, festist það þeim mun betur á öngli auðsafnaranna. Sú tilskipun að fólk geti ekki látið hagstæð lán fylgja íbúðum sínum við sölu nema borga Kaupþingi eða öðrum afætum stórfé fyrir er augljóslega gerð með hag fyrirtækisins eingöngu í huga, en algjörri fyrirlitningu á hag viðskiptavinanna. Er ekki sjálfgert að hætta viðskiptum við svona okurfyrirtæki? Þriðja september síðastliðinn bloggaði ég eftirfarandi:

"Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný."

Er þetta ekki bara nokkuð gott hjá manninum? Margir telja bankana upphaf og endi alls ills í þjóðfélaginu.

Á sunnudagskvöldið byrjaði ég einhvern tíma seint um kvöldið að horfa á sjónvarpið og datt þá inn í heimildarmynd um Guðberg Bergsson. Guðbergur er höfundur sem ég hef alltaf haft áhuga fyrir alveg síðan hann skrifaði bókina Tómas Jónsson metsölubók. Reyndar las ég um svipað leyti bók eftir hann sem heitir Músin sem læðist og hún er á sinn hátt ekki síður eftirminnileg.

Þar minnir mig að hann hafi verið að lýsa uppvaxtarárum sínum í Grindavík. Eitt það eftirminnilegasta í þeirri bók eru lýsingar hans á þeim hræðilega leyndardómi sem krabbameinið var og er. Hann var svo ungur þarna að hann skildi ekki allt sem fram fór en skildi þó að þetta var alveg hræðilegur sjúkdómur. Mér er nær að halda að enn eimi eftir af því sjónarmiði að krabbamein sé svo hræðilegur sjúkdómur að það megi helst ekki tala um hann. A.m.k. ekki upphátt.

Ég er ekki frá því að Stóra Ásgautsstaðamálið sé að taka sig upp. Áslaug fékk á mánudaginn bréf frá sýslumanninum á Selfossi og það getur vel verið að eitthvað fari að gerast í sambandi við þetta mál. Það er samt svo margflókið að ég ætla ekki einu sinni að reyna að blogga um það. Ég mundi bara týna mér í álnarlöngum útskýringum.

Svolítið um Kiljuna. Ég held að Egill sé betri í bókmenntunum en stjórnmálunum. Föstu liðirnir þarna eru líka nokkuð að mínu skapi. Kolbrún þó langsíst. Flissið í henni og augnagoturnar á Pál Baldvin fara í taugarnar á mér.

Eflaust finnst sumum Páll Baldvin Baldvinsson vera bæði fúll og hrokafullur, en ég kann samt ágætlega við hann. Einkum vegna þess að ég kynntist honum vel þegar hann vann á Stöð 2. Bæði meðan hann var þar fyrst sem einskonar aðstoðarmaður Goða Sveinssonar og svo þegar hann kom þangað sem dagskrárstjóri.

Braga Kristjónsson, bróður Jóhönnu kann ég líka alltaf nokkuð vel við og því er ekki að leyna að hann er naskur við að grafa upp áhugaverða hluti.

Og í lokin eru svo 2 gamlar myndir.

Á þessari erum við Ingibjörg með Bjögga á milli okkar sitjandi á tröppunum á Hveramörk 6. Þetta gæti verið tekið fljótlega eftir að það hús var byggt. Þetta er ágætis mynd. Eiginlega alveg furðugóð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér erum við hinsvegar fjögur systkinin og þessi mynd er greinilega tekin þónokkrum árum fyrr. Talið frá vinstri: Sigrún, Ingibjörg, ég og Vignir. Eflaust tekin fyrir framan gamla húsið á Bláfelli. Sérkennilegt hvað tröppugangurinn á hæð okkar er jafn og reglulegur.


165. blogg

Nú er ég orðinn svo forfallinn bloggisti að mér finnst dagurinn hálfónýtur ef ég blogga ekki neitt.

Öðru hvoru poppa upp í huga mér orð eða vísuhelmingar sem láta mig ekki í friði. Koma alltaf aftur og aftur og mér finnst að ég ráði litlu um hvað þetta er. Núna hljóma til dæmis sífellt fyrir eyrum mér vísuorðin: "Kögur og Horn og Heljarvík, huga minn seiða löngum."

Ég er nokkuð viss um að þetta er úr kvæðinu Áföngum eftir Jón Helgason. Heljarvík er sennilega það sama og Hælavík.

Hér er mynd sem sýnir Kögrið. Húsið hægra megin á myndinni er skálinn sem við gistum í þegar við vorum í Fljótavík í sumar. Mér tókst ekki að klífa Kögrið þegar tilraun var gerð til þess eitt kvöldið.

 

 

 

 

 

 

 

 

Í gærkvöldi (sunnudag) tók ég mig til og horfði bæði á Kiljuna frá því á miðvikudaginn, viðtal Evu Maríu við Guðlaugu Þorsteinsdóttur og þar að auki Silfur Egils.

Silfrið fannst mér síst af þessu. Þar er bara þetta venjulega stjórnmálaþras. Þessir menn sem í því standa eru eflaust sannfærðir sjálfir um að þau mál séu mikilvægari en önnur, en mér finnst alls ekki svo vera. Margt af þessu er endemis þras sem engu máli skiptir.

Ágúst Borgþór Sverrisson var í Kiljunni og stóð sig ágætlega. Verið er að gefa út skáldsögu eftir hann. Ég held að það sé hans fyrsta skáldsaga. Hingað til hafa einkum komið smásögur frá honum.

Hann vann um tíma uppi á Stöð 2 þegar ég var þar og ég kynntist honum svolítið. Þegar hann fór svo að blogga fyrir allmörgum árum þá var hann lengi einn af mínum uppáhaldsbloggurum. Ég veit ekki hversvegna ég hætti að mestu að lesa bloggið hans, en líklega er það Moggablogginu að kenna. Nú er ég að hugsa um að fara aftur að lesa bloggið hans. Hann er ágætur bloggari þó hann skrifi um þessar mundir á Vísisblogginu en ekki hjá Mogganum.

Bjössi bróðir sendi mér allmargar gamlar myndir um daginn og vel getur verið að ég setji eitthvað af þeim hér á bloggið, til þess hef ég leyfi hans.

Hér er t.d. mynd sem er greinilega tekin eftir að búið er að byggja nýja húsið við Hveramörkina. Krakkarnir þeirra Árna og Öllu Möggu hafa þarna verið í heimsókn hjá okkur. Á þessari mynd eru eftir því sem ég best fæ séð, talið frá vinstri: Björgvin, Margrét Árnadóttir (kölluð Gréta) Eysteinn (Denni) Gunnarsson (held ég) Bergþóra Árnadóttir (frægur vísnasöngvari seinna meir) Vignir og Jón Sverrir bróðir þeirra Margrétar og Bergþóru.

 

 

Og hér er svo ansi krúttleg mynd af þeim Bjögga og Bergþóru.

 

 

 

 

 

 

 

Áslaug pantaði aðgang að 123.is í dag og prófaði meira að segja að setja inn nokkrar myndir. Hún fær að hafa þetta ókeypis í 30 daga en svo þarf hún að borga 3000 krónur á ári að mig minnir. Urlið er 123.is/asben og svo er rétt að minna á að hjá Bjössa er það 123.is/blafell og hjá Bjarna 123.is/lampshadow. Búinn að linka á síðuna hennar.


164. blogg

Ég býst við að ég mundi lesa mannamálspistla Sverris Páls á Akureyri oftar ef þessar aðfinnslur hans sumar hverjar væru ekki svo gamlar tuggur að þær eru orðnar leiðinlegar. Kannski er ég orðinn ónæmur fyrir heimskulegum málfarsvillum því þær vaða svo uppi að maður er eiginlega hættur að taka eftir þeim. Svo skilur maður oftast hvað átt er við þrátt fyrir villurnar, eða þykist að minnsta kosti gera það.

Sverrir Páll er furðu naskur að finna villur í fjölmiðlum og heldur sig að mér sýnist einkum við þá prentuðu. Það væri að æra óstöðugan að ætla sér að ragast í ambögum sem sjást á Netinu. Eðlilegt er að gera harðari kröfur til útbreiddustu fjölmiðlanna. Sjálfum finnst mér langleiðinlegast að sjá málvillur í auglýsingum sem víða fara.

En verður þetta allt ekki til þess að lélegt málfar þyki sjálfsagt og eðlilegt. Hugsanlegt er það. Ég er samt alltaf dálítið hallur undir þá skoðun að rangt mál geti orðið rétt með tímanum. Þágufallssýkin er t.d. orðin svo útbreidd að mér sýnist næsta tilgangslaust að vera að amast við henni. Hver eru svo rökin fyrir því að ekki megi segja mér langar? Er það nóg að einhverjir umvandarar séu sífellt að segja að það megi ekki. Ekki finnst mér það.

Eru bloggarar aðallega að skrifa fyrir sjálfa sig og aðra bloggara. Þessu hef ég séð haldið fram en held að sé ekki rétt. Það eru áreiðanlega talsvert margir sem lesa blogg. Hugsanlega fjölmargir og sumir þeirra vilja helst ekki viðurkenna það. Tölur þær sem birtast á Moggablogginu benda til þess að bloggið sé ótrúlega vinsælt. Samt hefur það á sér heldur slæmt orð. Vissulega eru vinsældir þess nýtilkommar. Þetta er líka alveg ný samskiptaaðferð.  Mér dettur þetta sem hér er sagt í hug svona í framhaldi af málfarsumræðunni hér á undan.

Málfarið hjá sumum bloggurum er alveg hrikalegt. Þó finnst mér það ekki gera svo mikið til. Oft á tíðum eru þeir ekki að skrifa fyrir marga. Er ekki alveg eins líklegt að málfar á sendibréfum, nú eða tölvubréfum sé slæmt líka. Hverjir skaðast svosem á því? Voru sendibréf alltaf svo miklu frábærari hér áður fyrr? Kannski eru það bara þau bestu sem hafa varðveist. Hin hafa gleymst og skaða engan.

Horfði í kvöld á viðtalsþátt Evu Maríu við Guðlaugu Þorsteinsdóttur. Ég man vel eftir þeim tíma þegar sem mest bar á henni í skákinni. Síðan hvarf hún einginlega úr mínum huga en kom aftur til baka þangað fyrir nokkrum árum síðan þegar hún fór aftur að tefla og hafði engu gleymt. Hún er svona fjórum eða fimm árum eldri en Bjarni og þau hafa oft teflt hvort við annað held ég.

Mér fannst þessi þáttur að mörgu leyti góður. Einkum fannst mér Guðlaug koma vel fyrir. Skákmaðurinn sem hún hitti á Geðdeild Landsspítalans gæti hafa verið Haukur Angantýsson, mig minnir að ég hafi einhvern tíma heyrt að hann hafi átt við geðsjúkdóm að stríða. Ég man vel eftir Hauki. Hann var einhver eftirminnilegasti skákmaður sem ég hef séð og hef ég séð þá nokkra.

Ég er samt ekki þeirrar skoðunar að geðveiki sé algengari hjá skákmönnum en öðrum. Hinsvegar eru fordómarnir gagnvart geðsjúkdómum ótrúlega miklir ennþá í þjóðfélaginu. Skemmtilegasta kommentið frá Guðlaugu var um kennarann sem sagði henni að Friðrik Ólafsson hefði ekki heldur verið neitt sérstaklega góður í stærðfræði.


163. blogg

Atli Harðarson hringdi í mig í gær. Hann og Björgvin eru að undirbúa ættarmót í júní næsta sumar. Þetta er nú allt á undirbúningsstiginu ennþá og eflaust á ég eftir að blogga oftar um þetta.

Atli sendi mér fréttabréf um þetta efni. Þar var kort af svæðinu (Mýrdalurinn) myndir af skólanum (gamli barnaskólinn að Ketilstöðum) og hótelinu (Dyrhólaey) sem er þarna rétt hjá. Þeir ættingjar sem þetta lesa geta rukkað eitthvað af okkur systkinunum um meiri upplýsingar ef þörf er á.

Alveg tókst mér lygilega vel að myndskreyta bloggið mitt í gær. Ég ætti kannski að fara að leggja þetta fyrir mig. Allavega á ég alveg eins von á að ég haldi áfram með einhverjar tilraunir. Þetta er alls ekki svo vitlaust og hreint ekki flókið. Þolinmæðisverk er það samt dálítið að senda myndirnar, en sennilega er það tölvunni að kenna.

nullHér er til dæmis mynd af Ingibjörgu. Ekki veit ég hvað kettlingurinn heitir, en það er eins og hann sé hálfhræddur greyið. Benni skannaði allar þessar myndir fyrir mig um daginn.

 

 

 

 

 

 

 

 

nullOg hér er mynd af Áslaugu með sama kettlinginn sýnist mér og áreiðanlega tekin í sama skipti. Þessar myndir snúa ekki eins svo ég veit ekkert hvernig þær koma út. Þetta eru bara tilraunir.

 

 

 

 

nullOg hér er Hölli að mynda hina frægu Bingóútsendingu sem ég sagði frá í síðasta bloggi.

Jæja best að ég láti þetta nægja að sinni. Næst þarf ég að prófa að setja litmyndir og kannski ég fari bara að safna myndum til að setja upp. Nei, segi bara svona. Mér finnst miklu merkilegra að setja gamlar myndir á bloggið mitt, en myndir sem ég finn að Netinu.

Fór í dag að skoða vinsælustu bloggin á Moggablogginu. Ég vissi svosem að ekki þýddi fyrir mig að gera ráð fyrir að ég væri meðal þeirra 50 vinsælustu en þegar ég skoðaði 400 vinsælustu bloggana sá ég nafnið mitt nr. 387. Þetta hef ég ekki séð áður svo líklega er þetta met. Auðvitað er þetta nokkuð há tala en kannski í áttina ef svo má segja.

Hafdís var í fréttunum í sjónvarpinu í kvöld. Þar var hún að afhenda jól í skókassa. Ég fór með henni og Áslaugu að skila þessum kössum því tíminn var víst að renna út. Allt gekk þetta vel og við fengum okkur svolítið af kaffi og kökum á eftir og skoðuðum myndir og bréf á veggjunum og tókum að sjálfsögðu eftir sjónvarpsmönnunum en reiknuðum ekki með því að koma í fréttunum.


162. blogg

Foreldrafélag var stofnað við Laugagerðisskóla skömmu áður en ég flutti frá Snæfellsnesi.

Einn fulltrúi var kosinn í fulltrúaráð félagsins fyrir hvern bekk í skólanum. Ég man að ég var kosinn í þetta ráð fyrir einn bekkinn, en man ekki fyrir hvaða bekk það var. Kvenfólk var kosið fyrir alla hina bekkina.

Þegar þetta ráð kom saman í fyrsta sinn (og líklega það síðasta einnig) áttu konurnar í því auðvelt með að koma sér saman um eitt og það var að ég skyldi vera formaður félagsins. Það lognaðist líka fljótt útaf held ég.

Margt skemmtilegt skeði í sambandi við vídeófélagið í Borgarnesi. Mér er minnisstætt að við héldum einu sinni Bingó í beinni. Það hefur eflaust verði svona á árunum 1984-5 og hugsanlega hefur það verið fyrsta beina útsendingin frá Bigói á landinu.

Líklega var dreifing á miðum í Bingóið í samstarfi við Ungmennafélagið á staðnum. Tekjur ef einhverjar hafa verið kunna líka að hafa runnið til þess. Myndir eru til af þessum fræga atburði. Meira að segja er ein slík hér á tölvunni minni og vel getur verið að ég prófi að setja hana upp um leið og þetta. Það yrði þá fyrsta myndskreytingin á þessu bloggi.

Bingó í BorgarnesiÞórður í Strympu stjórnaði Bingóinu. Ég held að það hafi átt að heita að ég stjórnaði útsendingunni. Benni stjórnaði einhverju. Líklega hefur hann verið með deili í höndunum og sent út af Skonrokk-safnpólu sem við áttum meðan við biðum eftir því að þeir sem fengu Bingó kæmu uppeftir til þess að ná í vinninginn sinn.

Já, þannig var þetta hjá okkur, ég er alveg klár á því. Þeir sem fengu Bingó áttu að koma upp í Hrafnaklett 6 með spjaldið og láta Þórð fara yfir hvort ekki væri allt rétt. Það vildi svo til að austari íbúðin á efstu hæðinni var laus um þetta leyti og ég fékk hana lánaða undir þessa tímamótaútsendingu.

Það var árið 1956 sem Vilhjálmur Einarsson stökk sitt fræga stökk á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Seinni veturinn minn á Bifröst var Vilhjálmur kennari við Samvinnuskólann þar. Auk þess að vera frábær þrístökkvari var árangur Vilhjálms í atrennulausum stökkum (langstökki, þrístökki og hástökki) á heimsmælikvarða. Ég man eftir nokkrum íþróttamótum á Bifröst þar sem Vilhjálmur stökk ótrúlega hátt í hástökki án atrennu, án þess þó að setja heimsmet, en litlu munaði.

Þegar Ólympíuleikarnir voru endurvaktir voru atrennulaus stökk jafnan á dagskrá þar, en síðar var því hætt. Vegalengdir í hlaupum voru framanaf mjög á reiki. Af hverju er t.d. keppt á Ólympíuleikum í 110 metra grindahlaupi en ekki 100 metra? Af hverju er keppt í spjótkasti en ekki drumbakasti? Þannig má endalaust spyrja. Mér datt þetta í hug um daginn þegar ég var að skrifa hér á bloggið um Örn Clausen og 1000 metra boðhlaupið sem hann átti heimsmet í ásamt öðrum.


161. blogg

Mikið er rætt þessa dagana um negrastrákana tíu.

Mig langar að leggja fáein orð í þann belg. Ég man vel eftir þessari bók og hef oft heyrt vísurnar sungnar. Þegar ég leit fyrst á vísurnar sjálfar hjá Sigurði Hreiðari mundi ég enn betur eftir þeim en myndunum. Ég man að ég tók vel eftir því strax þegar ég las bókina í fyrsta sinn að höfundurinn var að leita að rímorðum við töluorðin frá einum upp í tíu og tókst það ekkert sérstaklega vel. Þó fannst mér taka steininn úr í lokin þegar hann lét tíu ríma við bíó. Myndirnar fannst mér ekkert sérstakar og hinn rasíski boðskapur bókarinnar fór alveg framhjá mér.

Semsagt þetta var eiginlega mín fyrsta lexía í bragfræði og mér er nær að halda að ég hafi aldrei borið þess bætur. Sé ennþá að leita að betri rímorðum við tölurnar einn til tíu.

Ég man líka vel eftir bókinni „Litli svarti Sambó" og að ég vorkenndi vesalings tígrisdýrinu mikið að breytast í sýróp. Mér fannst Sambó greyið vera aukaatriði í þeirri sögu. Negrastrákarnir í bókinni „Tíu litlir negrastrákar", hurfu bara úr sögunni og maður velti örlögum þeirra lítið fyrir sér. Ef aldir hafa verið upp í mér fordómar gagnvart fólki frá Afríku var það miklu fremur með bókinni „Blámenn og villidýr" sem ég las á þessum árum eða nokkru seinna. Mig minnir að í þeirri bók hafi verið sögukaflar frá Afríku og þar hafi rasískar og fordómafullar hugmyndir vaðið uppi.

Ég minntist á Kidda á Hjarðarbóli nýlega. Systir hans minnir mig að héti eða heiti Loftveig. Ég þekkti hana ekki neitt en nafnið minnti mig alltaf á nafnið Lofthæna sem ég held að hafi verið til sem kvenmannsnafn. Svo segir sagan að minnsta kosti. Hún segir líka frá nafninu Fimmsunntrína sem ég held að hafi verið til. Hún átti að hafa verið fædd á fimmta sunnudegi eftir Trinitatis (Þrenningarhátíð).

Börn hafa stundum verið skírð undarlegustu ónefnum. Mér verður oft hugsað til þess hvort foreldrarnir hafi virkilega hugsað um hag barnanna sjálfra þegar nafnið var valið.  Sveinn - Sveinsína - Sveinsíníus er velþekkt, en mér finnst ótrúlegt að fólk sé svo skyni skroppið við kynbreytingar á nöfnum eins og þarna er gefið í skyn. Að Þórey sé kvenmyndin af Eyþór finnst mér hins vegar nokkuð kúl.

Yfirleitt mátti aldrei áður fyrr skíra barn eftir öðrum nema hann væri dáinn. Mér er minnisstætt að einhvern tíma sagði einhver við mömmu að barn hefði verið skírt Arnviður Ævar. Mamma sagði strax:

„Ha, er hann Arnviður Ævar dáinn?"

Svo var held ég ekki, heldur var þarna um alveg furðulega tilviljun að ræða. Ég man einkum eftir þessu vegna þess að bæði nöfnin eru sjaldgæf og saman hljóta þau að vera enn sjaldgæfari.

Ljótur hét strákur einn í Hveragerði þegar ég var að alast þar upp. Mamma hans hét Bergljót, og ég skil ekki hversvegna strákgreyið mátti ekki heita Bergur eða eitthvað þess háttar.

Bjarni er búinn að blogga. (lampshadow.blog.is - eða - linkur hér við hliðina) Allir að lesa það. Eins og þið sjáið set ég þetta aftast í mitt blogg en ekki fremst til að það þurfi að lesa mitt fyrst. Ha ha, sneri á ykkur.


160. blogg

Sagt var í dag að Noel stefndi á Bahamaeyjar, en Bjarni vildi ekki gera mikið úr því. Talaði um smágolu og tropical storm warning.

Talaði við hann seint á miðvikudagskvöld (snemma kvölds hjá honum) og þá var komið rok og útlit fyrir versnandi veður. Gert ráð fyrir versta veðrinu uppúr hádegi á fimmtudag en þó ekki neinu aftakaveðri. Mest hætta á flóðum.

Eitthvað fór línuskiptingin í handaskolum hjá mér í síðasta bloggi og bið ég forláts á því, það var ekki með vilja gert.

Mér sýnist stóra fréttin á mbl.is vera sú að á Hellu hafi krakkar kastað snjóboltum í bíla. Er þetta virkilega fréttnæmt?

Ég sé ekki betur en bloggið mitt sé að breytast í einskonar vísnablogg (og auglýsingablogg fyrir Láru Hönnu). Kannski er það svosem allt í lagi. Þessar vísur, sem ég hef verið að birta að undanförnu og á eflaust eftir að birta meira af á næstunni, eiga það allar sameiginlegt að ég hef einhvern tíma talið ómaksins vert að læra þær. Það finnst mér eiginlega vera stóri dómurinn um það hvort vísur hafi heppnast eða ekki hvort þær eru lærðar af þeim sem heyra þær. Góðar hef ég yfirleitt eingöngu talið þær vísur, sem ég hef lært við fyrstu heyrn. Slíkar vísur minnist ég varla að hafa ort sjálfur.

Eitt sinn orti Þórhallur Hróðmarsson þessa vísu um mig, að því er ég best veit án sérstaks tilefnis:

Sæmi gerði samning við

svokallaðan fjanda.

Sæmi fengi sálarfrið

en Satan flösku af landa.

Ekki veit ég hvers vegna, en þessi vísa minnir mig á vísubrot sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan er komið. Ég veit ekki heldur hvort þetta er upphaf eða endir á vísu. En brotið er svona:

Mikill fjandi flaskan brast

fór í sandinn andi.

Einhvern tíma á Bifröst vorum við að yrkjast á, Skúli Guðmundsson, Kristinn Jón Kristjánsson frá Hjarðarbóli og ég. Skúli hafði baunað einhverju á Kidda og hann þurfti að svara fyrir sig. Eftir svolítið japl og jaml kom þessi eðalfína oddhenda:

Yrkir ljóðin ansi góð

okkar fróði maður.

Gerir fljóðin alveg óð

enda sóðagraður.

Báðar þessar vísur, eftir Þórhall og Kristinn, fannst mér svo góðar á sínum tíma að ég var í vafa um hvort þeir segðu satt um að hafa ort þær sjálfir. Líklega miðaði ég bara við sjálfan mig og þess vegna þótti mér þetta ótrúlegt.

Um Kristinn á Hjarðarbóli orti Séra Helgi Sveinsson, þá kennari við Barna og Miðskólann í Hveragerði, eitt sinn skömmu eftir að Hjarðarbólsfólkið flutti í Nýbýlahverfið.

Í andríkinu af öllum ber

okkar kæri skóli.

Kraftaskáld er komið hér.

Kiddi á Hjarðarbóli.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband