Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

189. - Stigið í spínatið

Heyrði í RUV um daginn sagt um Verkamannaflokkinn í Bretlandi að hann hefði stigið í spínatið.

Þetta er orðtak sem ég minnist ekki að hafa heyrt áður. Kannski er það bara bein þýðing. Samt er þetta ágætis orðtak, einkum vegna þess að það er tiltölulega auðskilið. Þ.e.a.s. ef það þýðir það sem ég held. Nefnilega að gera í buxurnar, leika af sér, gera sig sekan um einhvers konar afglöp eða þess háttar. Algengara er að heyra fréttamenn afbaka þekkta málshætti en koma með nýja.

Í útvarpinu (ruv.is) í kvöld,fimmtudagskvöld um sexleytið var talað um Frakkarstíg. (alveg greinilega) Hann hlýtur samt að heita Frakkastígur. Hitt er bara bull. Skýst þó skýrir séu. Venjulega eru þeir hjá RUV ekki slæmir í þessu, heldur með þeim bestu. Þessvegna gerir maður ósjálfrátt kröfur til þeirra.

Sigurður Þór er í botnhreinsun segir hann. Sennilega hendir hann mér út af sínum bloggvinalista aftur fyrir að segja þetta. Ég er alltaf að blogga eitthvað um hann. Mér finnst bara hans skrif svo miklu merkilegri en margt annað.

Sigurður Hreiðar gerir athugasemd við pistilinn sem ég skrifaði um daginn um þýskutímann hjá Herði Haralds. Ég svaraði honum þar, þó athugasemdin hafi komið svolítið eftirá og þessvegna hætta á að einhverjir missi af henni eins og alltaf er með síðbúnar athugasemdir. Bendi bara þeim sem áhuga hafa á málefninu að skoða þessa færslu aftur.

Bifrastartíminn var merkilegur. Margs er að minnast þaðan og vel getur verið að ég skrifi eitthvað um það fljótlega. Kennararnir eru margir eftirminnilegir og áhættulaust fyrir mig að skrifa það sem mér dettur í hug um þá.

Þetta blogg er eiginlega mest af skyldurækni gert. Ég er nefnilega búinn að venja mig á að blogga daglega og finnst ég helst ekki geta svikið þessa sem lesa það sem ég skrifa, þó þeir séu ekki ákaflega margir. Auðvitað væri vitið meira að blogga sjaldnar og vanda sig betur.

Bjarni frændi skrifar skemmtilegan pistil um feril sinn sem kaffidama í bókakaffinu sínu. Þangað þarf ég endilega að koma einhverntíma. Mér hefur alltaf fundist merkilegt að heyra hann titlaðan bóksala. Í mínum augum hefur hann alltaf verið blaðamaður og útgefandi og síðan að sjálfsögðu þingmaður nú uppá síðkastið. Ég á líka eftir að skoða Draugasafnið á Stokkseyri en Bjarni hafði einmitt afskipti af stofnun þess á sínum tíma og hefur kynnt það fyrir mörgum.


188. - Hugsandi heimilistæki

Subaruinn er öðru hvoru með leiðindi. Stundum ákveður hann að starta bara alls ekki. Við héldum að hann væri hættur þessum ósið eftir að hafa fengið að fara á nýtt verkstæði. En svo var ekki. Ekki er hægt að treysta því hvernig gengur að fá hann ofan af þessu. Stundum er nóg að leyfa honum að hvíla sig í nokkrar mínútur, banka létt í startarann, eða fara með einhverjar töfraþulur. Stundum dugar ekkert af þessu og um daginn lét hann sér ekki segjast fyrr en eftir meira en tveggja daga hvíld.

Svo tekur hann öðru hvoru upp á að hita sig og eyða vatni. Þetta er einkum pirrandi núna þegar búast má við frosti og að sífelldar vatnsgjafir þynni út frostlöginn í kerfinu. Stundum fer þjófavarnarkerfið í bílnum af stað með miklum látum og veldur stressi og vandræðum þangað til manni tekst loksins að slökkva á því. Já, ég held að bílar séu miklir stressvaldar. Einkum ef þeir eru farnir að eldast og venja sig á einhverja dynti.

Fyrir nokkrum mánuðum keyptum við ódýra kaffivél. Ég var bara ánægður með hana í byrjun. Þegar hún var búin að hella uppá pípti hún glaðlega til að láta vita af því. Reyndar var hún fullfljótfær því ef maður tók mark á henni mátti búast við að kaffi sullaðist á hitaplötuna. Svo virtist hún vera prógrammeruð til að halda kaffinu heitu í tvo tíma. Að þeim tíma liðnum pípti hún með vonbrigðastunum og gafst upp á að bíða.

Svo gafst hún alveg upp um daginn og ekki var nokkur leið að kveikja á henni. Við gáfum hana ekki upp á bátinn alveg strax, heldur fékk hún að vera á sínum stað í nokkrar vikur, en við leystum kaffivandamálin með öðrum hætti, án þess þó kaupa nýja kaffivél. Þetta er ekki sú fyrsta sem hættir störfum hjá okkur. Fyrir nokkrum dögum byrjaði vélin aftur að láta að sér kveða og allt í einu var hægt að kveikja á henni og nú pípir hún öðru hvoru eins og ekkert hafi ískorist.

Sjónvarpið er tekið upp á þessu sama. Öðru hvoru slökknar á því og ekki er hægt að kveikja á því aftur fyrr en eftir dálitla stund. Það tókst reyndar að plata það svolítið og ná  hljóðinu úr útsendingunni í hátalara sem Benni smíðaði af mikilli snilld. Nú heyrum við semsagt í því þó slökkni á myndlampanum og í fréttum dugar það oftast ágætlega. Það er hvort eð er ekki margt annað en fréttir sem tekur því að horfa á í imbakassanum.

Sem minnir mig á að þegar ég vann uppi á Stöð tvö sagði Marínó Ólafsson hljóðmeistari eitt sinn við mig að myndir í sjónvarpi væru yfirleitt bara til skrauts. Það væri hljóðið sem öllu máli skipti. Marínó, sem dó úr krabbameini langt um aldur fram, hafði meira vit á þessu en flestir aðrir.

Tölvan er líka stundum í ótrúlegu letistuði. Fangaráðið er auðvitað oftast að endurræsa hana og byrja uppá nýtt. Stundum þegar ekkert gengur að ná sambandi við Netið er gott að slökkva á ráternum líka og láta hann ná sambandi að nýju. Þegar hægt gengur og illa er auðvitað alltaf vafamál á hvorum endanum eða hvar á leiðinni tafirnar eru. Mér blöskraði þó alveg um daginn þegar tölvuræksnið tilkynnti mér að það mundi taka rúmlega tvo og hálfan klukkutíma að ná í tíu megabæta videóspilara sem ég þurfti á að halda. Benni gat náð í þennan spilara á örstuttum tíma með almennilegri tölvu.


187. - Polgarsystur, sálfræðin og Guðni

Horfði á um klukkutímalanga heimildamynd að nafni "My brilliant brain" á Netinu í gær.

Þessi mynd er fyrst og fremst um Susan Polgar, sem er elst hinna frægu Polgar systra. Þar er einkum fjallað um hvernig heilinn starfar og er myndin fróðleg sem slík. Minnst er á uppeldi þeirra systra að sjálfsögðu og kenningar föður þeirra.

Eins og margir muna eru þær Polgarsystur þrjár. Susan er elst, þá Sofia og Judit yngst. Allar eru þær framúrskarandi góðir skákmenn, en minnst hefur þó borið á miðsysturinni að undanförnu. Susan sem varð stórmeistari í skák árið 1991 býr nú í Bandaríkjunum og hefur atvinnu af skák. Judit yngsta systirin hefur teflt meira á skákmótum en hún og er ótvírætt meðal sterkustu skákmeistara í heimi. Þær eru fæddar í Ungverjalandi á árunum 1969 til 1976. Allar lærðu þær ungar að tefla og voru mjög efnilegar. Til dæmis var Susan ekki nema fjögurra ára gömul þegar hún vann telpnaflokk (undir 11) á meistaramóti Ungverjalands.

Laszlo Polgar, faðir þeirra systra er ekkert sérstaklega góður skákmaður sjálfur, en skáksérfræðingur mikill, skákþjálfari og höfundur skákbóka. Einnig á hann yfir 10 þúsund binda skákbókasafn. Hann er sálfræðingur að mennt, hefur mikinn áhuga á barnauppeldi og hélt því fram bæði í ræðu og riti að snillingar fæðist ekki bara, heldur séu búnir til. Hann lýsti í bók hvernig ætti að gera það og dætur hans þrjár eru lifandi sönnun kenninga hans.

Genius is one percent inspiration and 99 percent perspiration, sagði Thomas Alva Edison eitt sinn og hafði eflaust rétt fyrir sér.

Mikið var sagt frá því um daginn í fréttum að Guðni Ágústsson formaður framsóknarflokksins hefði sagt að forsetinn hefði ugglaust haldið áfram að neita að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004, þó þeim hefði verið breytt. Ég verð nú að segja að mér finnst þetta ansi mikið ef, þegar og kannski. Ólafur mundi hafa gert þetta eða hitt ef eitthvað hefði verið öðru vísi eða hinsegin. Hvernig getur svona rugl orðið að frétt? Og hvernig dettur mönnum í hug að vitna í tveggja manna tal með þessum hætti?

Það að Guðni skuli láta skrifa ævisögu sína þýðir að hann verði ekki lengi enn í pólitík. Deilurnar í flokknum eru þó svo hatrammar að engin leið er að sjá hver verður arftaki hans. Þegar flokkar verða mjög litlir magnast deilur innan þeirra að miklum mun. Í stórum flokkum er ekki mikið um innanflokksátök. Þetta virðist fjarstæðukennt við fyrstu sýn, en reynslan sýnir þetta.

Hér eru þrjár gamlar  myndir. Efst er Björgvin, þá Vignir og ég síðastur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


186. - Vandræði í þýskutíma

Jón Sigurjón Skúlason seldi mér glósur til að nota í yngri bekknum á Bifröst þegar ég hóf nám þar árið 1959.

Viðskipti með glósur voru fjörug á þessum tíma og greinilega höfðu sumar þeirra farið í gegnum marga eldraunina. Glósur Sigurjóns voru ekki bara nýjar heldur líka vandaðar og ítarlegar. Hann hafði samið þær sjálfur og þær voru auk alls annars vel skrifaðar.

Einu sinni sem oftar mætti ég ólesinn með öllu í þýsku. Tíminn var í þeim hringlaga hluta hússins, sem eflaust sér ennþá stað, en við kölluðum hátíðasalinn. Ástæðan hefur líklega verið sú að þurft hefur einhverra hluta vegna að nota skólastofurnar tvær niðri í kjallara í eitthvað annað. Þarna voru mjúkir stólar og gott að sofa. Hörður Haraldsson, spretthlaupari og teiknari með meiru, kenndi þýsku. Hann var talinn eiga það til að taka upp sofandi menn, þó ekki komi sú hegðum við sögu í þessari frásögn.

Þó ég væri ólesinn kveið ég engu. Svo var glósunum Sigurjóns fyrir að þakka. Hófst nú tíminn. Snemma í honum var ég tekinn upp. Fyrirkomulag var þannig að fyrst átti að lesa textann á þýsku en síðan að þýða hann á íslensku. Lesturinn gekk áfallalítið og meðan á honum stóð fletti ég upp í glósubókinni góðu.

Horror og skelfing. Árið áður hafði þessum kafla verið sleppt og engar glósur að finna. Þegar lestrinum lauk og kom að þýðingunni gat ég ekki sagt neitt. Ég skildi ekkert af því sem ég hafði lesið. Gataði semsagt ítarlega. Hörður lét mig dingla í snörunni talsverða stund, en bað svo einhvern betri þýskumann en mig að taka við.


185. - "Launamunur kynjanna er ekki til"

Var að enda við að horfa á upptöku af Silfri Egils.

Ég hjó eftir því að Sigríður Andersen sagði "Launamunur kynjanna er ekki til." Þetta finnst mér vera fullyrðing út í bláinn. Vissulega er margt hægt að finna að mörgum könnunum um þetta efni og greinilega eru fjölmiðlamenn mjög veikir fyrir öllu sem hægt er að kalla kannanir eða rannsóknir.

Ég man vel þá tíð þegar konur í daglaunavinnu fengu einfaldlega mun lægra kaup en karlar. Stéttarfélög voru með launatöflur yfir bæði kvennakaup og karlakaup.

Þetta tíðkast ekki lengur, veit ég vel, og okkur körlunum finnst oft að þróunin til jöfnunar hafi verið nokkuð hröð síðustu áratugina. Ég er samt ekki viss um að konum finnist almennt það sama. Að halda því fram eins og Sigríður Andersen gerir að málið sé bara dautt, er einfaldlega ekki rétt.

Þeir stjórnmálamenn sem hugsa svipað og Sigríður Andersen tala oft um frelsið. Frelsi fólks til að ráða sér sjálft, jafnvel til að taka skaðlegar ákvarðanir. Öfgar á báða bóga eru skaðlegar. Auðvitað er skaðlegt að afskipti opinberra aðila af öllum sköpuðum hlutum séu of mikil. Engin mega þau heldur ekki vera. Hér sem annarsstaðar er það hið gullna meðalhóf sem gildir. Því miður er það bara vandfundið.

Einhvern tíma las ég Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson og kannski fleiri bækur eftir hann. Samt hreifst ég aldrei mikið af Gunnari. Fannst guðsorðastaglið vera of mikið fyrir minn smekk. Ég man samt eftir einni setningu úr bók eftir Gunnar (líklega Fjallkirkjunni) þar sem söguhetja hjá honum er að formæla annarri söguhetju og segir: "Hundaklyfberi, lúðulaki, lufsa."

Svartfugl er þó mögnuð saga. Ég man vel að þegar ég las þá bók fyrst fannst mér útilokað að hægt væri að segja frá Sjöundármálunum á annan veg en þar var gert.

Löngu eftir þetta las ég bók þar sem orðið lufsa var greinilega notað sem einhverskonar skrauthvörf fyrir orðið píka. Þetta var á þeim árum sem ekki þótti við hæfi að nota svo dónaleg orð í virðulegum bókum. Áreiðanlega meinti Gunnar Gunnarsson þetta þó ekki þannig.

Hér er Ingibjörg. Sennilega er hún í nýrri úlpu. Kannski er líka kalt í veðri. Hvað veit ég.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er Sigrún Helgadóttir. Ein besta vinkona Ingibjargar. Systir Jónu sem var í bekk með mér. Jóna býr núna í Ameríkunni og var meðal þeirra sem komu því á að við bekkjarsystkinin hittumst orðið reglulega á tveggja ára fresti.


184. - Lilla Hegga, Lára Hanna og Fischer

Málflutningur feminista er stundum þannig að ekki er að sjá annað en þeir vilji koma því inn hjá fólki að kvenremba sé jafnsjálfsögð og karlremba.

Nefni þó engin dæmi. Best væri auðvitað að vera laus við hvorttveggja.

Videofréttirnar sem ég skrifaði um í gær eru bráðskemmtilegar, það er líka gaman að fylgjast með tilraunum Salvarar Gissurardóttur með vídeóblogg. Ég kíkti á eitthvað þess háttar hjá henni í kvöld og leist bara vel á.

Sigurður Þór var að blogga um Mömmugöggu og Sobbeggi afa og ég get sagt frá því að ég var einu sinni (fyrir 1970) verslunarstjóri í litlu Silla og Valda búðinni sem var á Hringbraut 49. Þangað komu þau heiðurshjón oft og það fór ekkert á milli mála að Margrét réð að minnsta kosti öllu um heimilishaldið. Þórbergur kom stundum og keypti eitthvað smálegt. Einkum lýsi og drottningarhunang minnir mig.

Þegar ég var á Bifröst (1959 - 1961) var stúlka í bekknum á undan mér, að nafni Birna Torfadóttir. Því var hvíslað að okkur nýnemunum að þetta væri hvorki meira né minna en systir Lillu Heggu. Meira þurfti ekki að segja.

Lára Hanna skrifar á sitt blogg fínan pistil sem hún kallar: "Bloggað um blogg og bloggara." Þar skrifar hún meðal annars um þau blogg sem hún les reglulega og gefur þeim umsagnir. Flestar eru þær mjög lofsamlegar. Þetta segir hún t.d. um mig: "Þessi er gamall vinnufélagi og mér finnst alltaf gott að lesa bloggið hans. Honum er einkar lagið að blanda saman hlutum í skrifum sínum, er einstaklega vel máli farinn og segir skemmtilega frá." Takk, Lára Hanna, það liggur við að ég fari hjá mér og ég reyni að telja mér trú um að ég eigi þetta skilið.

Sagt er að Bobby Fischer aka Robert James Fischer sé alvarlega veikur. Í mínum augum verður hann alltaf mesti skáksnillingur sem uppi hefur verið og hann gerði á sinn hátt meira fyrir skáklistina en nokkur einn maður annar. Menn hafa löngum hamast við að ata hann auri en samanborið við snilli hans við skákborðið er það lítilvægt. Enginn gerir svo öllum líki og ekki Guð í Himnaríki. Ég hef löngum talið það mér til tekna að vera sem næst jafnaldra tveimur af mestu íþróttamönnum síðustu aldar þeim Bobby Fischer og Muhammed Ali.


183. - Frábær fyrirsögn

Ég fæ yfirleitt ekki mikið af kommentum við þessi bloggskrif mín.

Samt hefur nokkrum sinnum verið kvartað þar yfir fyrirsagnaleysi. Ég er því að hugsa um að semja við sjálfan mig um að ég megi setja fyrirsagnir á bloggin mín þegar mér sýnist, ef ég held bara áfram mínum að birta réttar raðtölur líka. Bráðum er komið ár síðan ég byrjaði á þessu. Í byrjun var þetta dálítið stopult hjá mér, en að undanförnu hef ég skrifað daglega og í seinni tíð líka birt heilmikið af gömlum fjöskyldumyndum.

Ég blogga samt aldrei oft á dag eins og sumir. Ég nenni því ekki og má eiginlega ekki vera að því. Í staðinn reyni ég að skrifa ekki óhóflegar langlokur og sem oftast að skrifa um fleiri hluti en einn í sama blogginu.

Bloggið mitt er ekkert tiltakanlega vinsælt og það er í góðu lagi. Breytingar á útliti þess hafa verið afar hægar enda er ég mjög íhaldssamur. Nýlega breytti þó ég upplýsingum um bloggvini mína þannig að nöfn þeirra koma fram en ekki login-nafn eins og áður var og er sennilega sjálfgefið því þannig er það víða. Annað sem ég breytti  nýlega er að heimsóknartölur sjást ekki lengur nema hjá innskráðum. Þetta skiptir litlu máli, því þeir sem hingað koma eru varla að spekúlera mikið í fjölda heimsókna.

Hinn sjálfskipaði yfirbloggari landsins, Stefán Pálsson tilkynnti um daginn að Moggabloggið væri dautt og hætti þar með sínum daglegu bölbænum um fyrirbrigðið. Ég sé aftur á móti ekki betur en vinsældir þess séu enn að aukast, hvernig sem á því stendur. Auðvitað þykjast sumir bloggarar vera öðrum fremri og hvort sem er á Moggablogginu eða annars staðar eru bæði góðir bloggarar og vondir, en þó einkum mismunandi. Það er einmitt fjölbreytnin sem gerir bloggið svona skemmtilegt. Það er hægt að láta allt flakka, svo framarlega sem maður treystir sér til að standa við það.

Eitt af því sem ég hef til marks um auknar vinsældir Moggabloggsins er að það er erfiðara að komast á vinsældalistann (400 vinsælustu bloggin) en áður. Ég komst á hann fyrir nokkru en virðist vera dottinn út af honum aftur. Svo eru líka alltaf að bætast við nýir bloggarar eins og sjá má ef litið er á þá hlið. Ekki veit ég samt hvað Moggabloggarar eru margir.

Þegar ég var áðan að kíkja á nýjustu bloggin þá vakti eitt nafn athygli mína. Feministafrettir.blog.is og auðvitað kíkti ég á það. Þar er Youtube vídeó af lesnum fréttum og þó varahreyfingar stemmi ekki alveg við hljóðið var þetta að mörgu leyti ágætlega gert. Af hverju það stendur að þetta sé formúlublogg í haus þess fæ ég samt ekki skilið, því þar er augljóslega um að ræða lógó frá karlrembuíþróttinni formúlu eitt.

Engar myndir í dag, því ég er ekki með þær við hendina. Fleiri myndir eru þó væntanlegar.


182. blogg

Fljótið ekki sofandi að feigðarósi, segir Lára Hanna í kommenti við bloggið mitt.

Í mínum huga eru virkjanir ekki endilega neinn feigðarós, og mér finnst ég ekki umvafinn neinum Þyrnirósarsvefni. Vissulega orkar virkjun á Ölkelduhálsi þó mjög tvímælis. Það er leitun að jafn ósnortnu hverasvæði og fjölbreyttu og því sem er á Ölkelduhálsi. Líka er sú nýtni sem hægt er að ná úr gufunni til rafmagnsframleiðslu ansi lítil. Ef vel er að verki staðið held þó að virkjun gufuafls sé skáski kosturinn, ef endilega þarf að virkja. Jafnvel er hægt að hugsa sér að framkvæmdir við slíkar virkjanir séu afturkræfar ef í það færi. Ég sé ekkert útaf fyrir sig sem mælir meira á móti því að virkja fyrir stóriðju en smáiðju.

Þegar álverið í Straumsvík var byggt á sínum tíma var mjög haft á orði að ekki væri seinna vænna, því áður en langur tími liði yrði orka frá kjarnorkuverum orðin svo ódýr að vatnsaflsvirkjanir gætu ekki keppt við hana. Nú eru gufuaflsvirkjanir sagðar mun vistvænni en vatnsorkuver en samt ómögulegar. Það er vandlifað fyrir virkjunarsinna. Ætli kjarnorkuverin komi bara ekki bráðum aftur inn í umræðuna. Ekki hverfur orkuþörfin, hvernig sem menn láta.

Langt mál um lítið efni er að finna hjá orðháknum og karlrembunni Sverri Stormsker um ráðherra og ráðherfur. Mér finnst reyndar óþarfi að eyða tíma Alþingis í svona vitleysu. Íslenskt mál hefur sinn gang og gæti alveg klárað sig án þeirra Sverris Stormskers og Steinunnar Valdísar.

Í ríkissjónvarpinu var sagt áðan (fimmtudagskvöld) í fréttunum að eitthvað hefði ollið (eða ekki ollið) tilteknum bruna. Mér finnst alltaf ljótt að sjá eða heyra svona vitleysur. Sumum finnst þær kannski ekkert verri en aðrar og í heild er RUV yfirleitt til fyrirmyndar í málnotkum. Einhverntíma sá ég fyrirsögn í blaði sem var svona: "Mennirnir ullu óspektum" Ég sá fyrir mér óspektirnar bókstaflega vella uppúr þeim eins og ælu. Ég get bara ekki skilið hvað er svona flókið við notkun þessara sagna. Sögnin að olla er einfaldlega ekki til í íslensku í þessari merkingu.

Natturan.is sem Lára Hanna bendir á í blogginu sínu er ágætisvefur. Þar eru fréttir og allt mögulegt sem snertir náttúruvernd og þ.h. Núorðið finnst mér einn mesti gallinn við hefðbundna fréttamiðla að þar ægir öllu saman og sumt af því sem þar er að finna er svo ómerkilegt að ég reiðist stundum sjálfum fyrir að eyða tímanum í að lesa eða hlusta á þessa endemis þvælu.

Hér sitja þeir Bjössi og Björgvin saman "sunnan undir vegg" líklega að Hveramörk 6.

Hér hefur Bjössi verið píndur til þess að fara í jakka af mér og er greinilega ekkert hamingjusamur með það.

 

 

 

 

 

 

 

Þessi mynd gæti verið tekin um sama leyti og myndin af Bjössa í stóra jakkanum. Þetta erum við Björgvin, greinilega eitthvað að fíflast.


181. blogg

Ég sé að Lára Hanna "is on a mission". Hún leggur mikið á sig í baráttunni við virkjanaskrímslin og einbeitir sér að Bitruvirkjun.

Ég  held að Bitruvirkjun sé sú virkjun sem fyrirhuguð er á Ölkelduhálsi. Ég þekki vel hverasvæðið þar og hef gert í marga áratugi. Á þessum slóðum vorum við skátarnir í Hveragerði oft og einatt í útilegum á mínum unglingsárum. Heiti lækurinn í Klambragili er líka alveg stórkostlegur. Það sem nú heitir Grændalur kölluðum við alltaf Grensdal á þeim árum.

Stundum veiddum við okkur silunga til matar þarna og flæktums víða í kringum Kattartjarnir og Djáknapoll. Líka man ég vel eftir Álftavatni sem er skammt uppaf Grensdalnum. Lengst í norður konumst við sennilega þegar við gengum eitt sinn á Súlufell, sem er næstum því niður við Þingvallavatn. Einhverntíma gengum við líka á Hrómundartind og að sjálfsögðu á Skeggjann. Skáli var í Klambragilinu sem við gistum oft í og fórum jafnvel í heimsóknir þaðan í skátaskálana sem þá stóðu undir Skarðsmýrarfjalli. Innstidalur er líka skemmtilegt svæði og ekki síður þrengslin milli hans og Fremstadals.

Á sínum tíma stóð til að leggja Búrfellslínu 3 yfir hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Þar hitti ég eitt sinn mælingamenn sem sögðu mér að til stæði að legga línuna beint yfir hverasvæðið. Eitt af möstrunum átti að standa svotil alveg á bakka eins glæsilegasta hversins þarna. Þetta var á þeim tíma sem til stóð að reisa álver á Keilisnesi. Ég man að mér blöskraði yfirgangurinn, en líklega er ástandið engu betra nú.

Á mánudagskvöldið var ég eitthvað að kíkja á bloggið hennar Salvarar Gissurardóttur og þá var hreyfimynd af henni þar. Ekkert hljóð var og ég nennti ekki að horfa lengi. Nú sé á blogginu hennar að líklega hefur hún verið að prófa beina útsendingu á blogginu sínu. Það eru hennar ær og kýr að prófa allskyns nýja hluti og það er auðvitað bara gaman að því.

S.l. þriðjudagskvöld var talsvert um jarðskjálfta í nágrenni Selfoss. Suðurlandsskjálftann 17. júní 2000 varð ég ekkert var við, því ég var í bíl þá . Síðari skjálftinn reið síðan yfir um það bil viku seinna og voru upptök hans nokkru vestar. Vísindamenn vissu að gera mátti ráð fyrir öðrum skjálfta fljótlega og vissu líka hérumbil hvar hann mundi verða. Samt sem áður voru engir látnir vita. Vel hefði getað orðið manntjón í síðari skjálftanum en sem betur fór varð ekki svo. Menn vissu auðvitað ekkert með vissu, hvorki um tíma, styrk eða staðsetningu, en frá þessum tíma treysti ég varlega öllum yfirlýsingum opinberra aðila þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Sjálfsagt er þó að hlýða fyrirmælum og komst eftir megni hjá ringulreið.

Í febrúar árið 2000 varð gos í Heklu. Tilkynnt var um gosið í útvarpi áður en það hófst. Þetta held ég að hafi verið í fyrsta skipti sem slíkt gerðist og að því leyti markar þessi atburður tímamót. Sá tími kann að koma að unnt verði að segja á sama hátt fyrir um jarðskjálfta og þó það skipti okkur Íslendinga kannski ekki verulegu máli, þá er víst að með slíku mætti bjarga fjölda mannslífa.

Ha, ha. Englendingar komust ekki frekar en Íslendingar á Evrópumótið í knattspyrnu og Danir að sjálfsögðu ekki heldur. Að gleðjast svona yfir óförum annarra er auðvitað ekki fallegt, en einhverjir hafa komist í staðinn.

Hér er Unnur á tröppunum á Hveramörk 6. Já, svona var tískan þá. Það er ég viss um.

 

 

 

 

Hér er fermingarmynd af Sigrúnu. Hún er í hinum hefðbundna skautbúningi og ég man vel eftir því að talsvert mál var að klæða hana í hann og koma öllu heim og saman eins og vera átti.

 

 

 


180. blogg

Heimsmeistaramót ungmenna í skák stendur nú yfir í Tyrklandi og hvet ég alla sem áhuga hafa á skák til þess að fylgjast með því.

Best er að fara á skak.is og líka er verulega góð síða á Moggablogginu sem kölluð er unglingaskak.blog.is. Það er Edda Sveinsdóttir móðir þeirra Jóhönnu Bjargar og Hildar Berglindar sem skrifar hana. Hildur Berglind er sú sem tefldi við Geir Haarde forsætisráðherra og sigraði hann svo eftirminnilega um daginn.

Þegar hitaveita var lögð í Hveragerði lá skurðurinn sem stokkurinn var lagður í rétt hjá Bláfelli. Hitaveita í Hveragerði - hvað er nú það? Jú, þannig var að í fyrstu byggð þar redduðu menn sér sjálfir um hita úr hverunum. Það sem meðal annars gerði Hveragerði fýsilegan kost fyrir marga á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina var að þar var hægt að hita hús með litlum tilkostnaði. Þegar að því kom að leggja Hitaveitu um þorpið, þá var það á vegum hreppsins og vönduð framkvæmd.

Rétt hjá Bláfelli var trébrú yfir hitaveituskurðinn og þar gátu bílar farið yfir. Vinsælt var að vera undir brúnni þegar bílar fóru yfir og visst hraustleikamerki enda var brúin bara úr plönkum og bil á milli þeirra. Að rétta höndina upp um bil milli planka þegar bíll nálgaðist var hámarkið. Ekki voru margir sem þorðu að gera það.

Af einhverjum ástæðum setti ég veruna undir þessari brú í samband við vísuna frægu sem flestir kunna. Mér fannst karlinn bókstaflega vera undir þessari brú þegar fór að dimma. Vísan er svona:

Karlinn undir klöppunum

klórar sér með löppunum.

Baular undir bökkunum

og bíður eftir krökkunum

á kvöldin.

Ég bendi á vefinn http://www.freerice.com/. Þar er hægt að reyna sig við merkingar enskra orða og gefa um leið peninga til þróunarhjálpar. Það er heldur marklaust af mér að reyna að lýsa þessu, en langskynsamlegast að kíkja á vefinn, það kostar ekki neitt og þar er þetta útskýrt mjög vel. Það er ekki ónýtt að geta leikið sér á vefnum við eitthvað uppbyggjandi og gera gagn um leið.

Í kynningu á þessu framtaki segir meðal annars:

Vefsíðan freerice.com hóf göngu sína þann 7. október sl. Fyrsta daginn nam framlag síðunnar aðeins 830 hrísgrjónum sem er varla hnefafylli. En í fyrradag var framlag dagsins uþb. 200 milljónir hrísgrjóna. Tíu hrísgrjón eru veitt fyrir hvert rétt svar og fara þau til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (United Nations World FoodProgram). Meðan þú ert að svara spurningum á síðunni sérðu hrísgrjónunum fjölga við hvert rétt svar. Netauglýsingar fjármagna framlagið þitt.

Hér er fín mynd af Hveragerði sem tekin er árið 1946. Þessi mynd þolir heilmikla stækkun (prófa að klikka aftur og aftur) og gamlir Hvergerðingar geta eflaust fundið þarna heilmörg hús sem þeir þekkja. Ég man reyndar best eftir þorpinu nokkru seinna, en það breytir því ekki að myndin er ágæt.

 

 

 

Hér eru þær Sigrún og Ingibjörg greinilega að þvo stórþvott fyrir utan gamla húsið á Bláfelli og ég er líklega eitthvað að hjálpa til (eða flækjast fyrir) þarna á milli þeirra. Takið eftir þessu líka úrvals þvottabretti sem Sigrún er með í höndunum.

 

 

 

 

Og hér er Bjarni, núverandi Bahamameistari í skák að viðra sig niðri á Austurvelli. Í baksýn er stallurinn á styttu Jóns Sigurðssonar og Gevafoto.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband