181. blogg

Ég sé að Lára Hanna "is on a mission". Hún leggur mikið á sig í baráttunni við virkjanaskrímslin og einbeitir sér að Bitruvirkjun.

Ég  held að Bitruvirkjun sé sú virkjun sem fyrirhuguð er á Ölkelduhálsi. Ég þekki vel hverasvæðið þar og hef gert í marga áratugi. Á þessum slóðum vorum við skátarnir í Hveragerði oft og einatt í útilegum á mínum unglingsárum. Heiti lækurinn í Klambragili er líka alveg stórkostlegur. Það sem nú heitir Grændalur kölluðum við alltaf Grensdal á þeim árum.

Stundum veiddum við okkur silunga til matar þarna og flæktums víða í kringum Kattartjarnir og Djáknapoll. Líka man ég vel eftir Álftavatni sem er skammt uppaf Grensdalnum. Lengst í norður konumst við sennilega þegar við gengum eitt sinn á Súlufell, sem er næstum því niður við Þingvallavatn. Einhverntíma gengum við líka á Hrómundartind og að sjálfsögðu á Skeggjann. Skáli var í Klambragilinu sem við gistum oft í og fórum jafnvel í heimsóknir þaðan í skátaskálana sem þá stóðu undir Skarðsmýrarfjalli. Innstidalur er líka skemmtilegt svæði og ekki síður þrengslin milli hans og Fremstadals.

Á sínum tíma stóð til að leggja Búrfellslínu 3 yfir hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Þar hitti ég eitt sinn mælingamenn sem sögðu mér að til stæði að legga línuna beint yfir hverasvæðið. Eitt af möstrunum átti að standa svotil alveg á bakka eins glæsilegasta hversins þarna. Þetta var á þeim tíma sem til stóð að reisa álver á Keilisnesi. Ég man að mér blöskraði yfirgangurinn, en líklega er ástandið engu betra nú.

Á mánudagskvöldið var ég eitthvað að kíkja á bloggið hennar Salvarar Gissurardóttur og þá var hreyfimynd af henni þar. Ekkert hljóð var og ég nennti ekki að horfa lengi. Nú sé á blogginu hennar að líklega hefur hún verið að prófa beina útsendingu á blogginu sínu. Það eru hennar ær og kýr að prófa allskyns nýja hluti og það er auðvitað bara gaman að því.

S.l. þriðjudagskvöld var talsvert um jarðskjálfta í nágrenni Selfoss. Suðurlandsskjálftann 17. júní 2000 varð ég ekkert var við, því ég var í bíl þá . Síðari skjálftinn reið síðan yfir um það bil viku seinna og voru upptök hans nokkru vestar. Vísindamenn vissu að gera mátti ráð fyrir öðrum skjálfta fljótlega og vissu líka hérumbil hvar hann mundi verða. Samt sem áður voru engir látnir vita. Vel hefði getað orðið manntjón í síðari skjálftanum en sem betur fór varð ekki svo. Menn vissu auðvitað ekkert með vissu, hvorki um tíma, styrk eða staðsetningu, en frá þessum tíma treysti ég varlega öllum yfirlýsingum opinberra aðila þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Sjálfsagt er þó að hlýða fyrirmælum og komst eftir megni hjá ringulreið.

Í febrúar árið 2000 varð gos í Heklu. Tilkynnt var um gosið í útvarpi áður en það hófst. Þetta held ég að hafi verið í fyrsta skipti sem slíkt gerðist og að því leyti markar þessi atburður tímamót. Sá tími kann að koma að unnt verði að segja á sama hátt fyrir um jarðskjálfta og þó það skipti okkur Íslendinga kannski ekki verulegu máli, þá er víst að með slíku mætti bjarga fjölda mannslífa.

Ha, ha. Englendingar komust ekki frekar en Íslendingar á Evrópumótið í knattspyrnu og Danir að sjálfsögðu ekki heldur. Að gleðjast svona yfir óförum annarra er auðvitað ekki fallegt, en einhverjir hafa komist í staðinn.

Hér er Unnur á tröppunum á Hveramörk 6. Já, svona var tískan þá. Það er ég viss um.

 

 

 

 

Hér er fermingarmynd af Sigrúnu. Hún er í hinum hefðbundna skautbúningi og ég man vel eftir því að talsvert mál var að klæða hana í hann og koma öllu heim og saman eins og vera átti.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það segirðu satt, Lára Hanna "is on a misson" og leggur mikið á sig í baráttunni við virkjanaskrímslin. Ekki veitir af og mikið lifandis skelfing vildi ég óska þess að hægt væri að vekja fólk af þeim Þyrnirósarsvefni sem umvefur það. Ef ég hef einhvern tíma upplifað málsháttinn "Að fljóta sofandi að feigðarósi" þá er það núna.

Það hefði til dæmis getað verið titillinn á blogginu þínu núna, Sæmi: "Flotið sofandi að feigðarósi" - ef þú hefðir innt mig álits...

Þeir sem hafa upplifað fjölbreytni náttúrunnar og fegurðina á Ölkelduhálsi og þar í kring skilja áreiðanlega af hverju Lára Hanna "is on a mission".

Bitruvirkjun verður að stöðva, svo einfalt er það.



 

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.11.2007 kl. 02:05

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Endilega haltu áfram að nota Grensdal fremur en upppússaðan Grændal. Fyrir vestan er Kletthálsinn orðinn að Klettshálsi. Og nú heita Suðurhlíðar Úlfarsfells þar sem hét Lambhagafell þegar ég var lítill.

GPS er að vísu komið í staðinn fyrir örnefni -- en samt …

Sigurður Hreiðar, 22.11.2007 kl. 11:03

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gallinn er sá að vel getur verið að Grensdalur sé afbökun úr Grændalur. Mér finnst dalurinn ekkert grænni en aðrir dalir. Um örnefni má lengi fjölyrða og kort eru ekki endilega neinn stóridómur.

Sæmundur Bjarnason, 22.11.2007 kl. 15:03

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Gjarnan eiga örnefni á Íslandi sér langa sögu, eru frá landnámsöld jafnvel þegar landið leit svolítið öðruvísi út. Vel má því vera að dalurinn hafi verið grænni en nú þegar honum var gefið nafn.

Svo er líka mögulegt að þarna hafi verið tófugreni og grens-nafnið dregið af því - sbr. orðið gren sem merkir hola eða gjóta, bæli sumra villidýra, greni - tófugren.

Á einhver Landnámu til að fletta í?

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.11.2007 kl. 15:48

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég fann fyrir skjálftanum  

Búinn að lesa og það var mikið...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.11.2007 kl. 16:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband