186. - Vandræði í þýskutíma

Jón Sigurjón Skúlason seldi mér glósur til að nota í yngri bekknum á Bifröst þegar ég hóf nám þar árið 1959.

Viðskipti með glósur voru fjörug á þessum tíma og greinilega höfðu sumar þeirra farið í gegnum marga eldraunina. Glósur Sigurjóns voru ekki bara nýjar heldur líka vandaðar og ítarlegar. Hann hafði samið þær sjálfur og þær voru auk alls annars vel skrifaðar.

Einu sinni sem oftar mætti ég ólesinn með öllu í þýsku. Tíminn var í þeim hringlaga hluta hússins, sem eflaust sér ennþá stað, en við kölluðum hátíðasalinn. Ástæðan hefur líklega verið sú að þurft hefur einhverra hluta vegna að nota skólastofurnar tvær niðri í kjallara í eitthvað annað. Þarna voru mjúkir stólar og gott að sofa. Hörður Haraldsson, spretthlaupari og teiknari með meiru, kenndi þýsku. Hann var talinn eiga það til að taka upp sofandi menn, þó ekki komi sú hegðum við sögu í þessari frásögn.

Þó ég væri ólesinn kveið ég engu. Svo var glósunum Sigurjóns fyrir að þakka. Hófst nú tíminn. Snemma í honum var ég tekinn upp. Fyrirkomulag var þannig að fyrst átti að lesa textann á þýsku en síðan að þýða hann á íslensku. Lesturinn gekk áfallalítið og meðan á honum stóð fletti ég upp í glósubókinni góðu.

Horror og skelfing. Árið áður hafði þessum kafla verið sleppt og engar glósur að finna. Þegar lestrinum lauk og kom að þýðingunni gat ég ekki sagt neitt. Ég skildi ekkert af því sem ég hafði lesið. Gataði semsagt ítarlega. Hörður lét mig dingla í snörunni talsverða stund, en bað svo einhvern betri þýskumann en mig að taka við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Skemmtilegur pistill, Sæmundur. Og fróðlegur - tam. vissi ég að þú hafðir verið í Bifröst en ekki að þú hafðir komið inn um haustið þegar ég fór út um vorið. En það hefur þú ugglaust vitað. -- Sé Hörð fyrir mér meðan hann horfði á þig engjast í snörunni --

Smá hressing á minnið: Hátíðasalurinn var inn af borðsalnum og hægt að opna á milli þegar mikið lá við, svo sem á 1. des. -- Ætli dalbúum sé enn boðið til hátíðar í Bifröst á 1. des? -- Bogasalurinn sem Guðlaug kallaði alltaf karnappið var hluti af setustofunni, framan við borðsalinn, dyr til vinstri þegar komið var inn um aðaldyr. Sá hluti Bifrastar mun enn standa þar líkur og var og líklega er þar enn hringborðið með Íslandskortinu og gullhnapp á réttum stað fyrir hvert kaupfélag -- eins og þau voru -- hvenær? Árið 1955?

Góð kveðja

Sigurður Hreiðar, 29.11.2007 kl. 13:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, auðvitað var þetta ekki hinn eiginlegi hátíðasalur. Við kölluðum það þó alltaf að tímarnir sem þar lentu væru haldnir í hátíðasalnum, þó þeir væru eiginlega í setustofunni. Hægt var að opna úr setustofunni í borðsalinn og þaðan í hátíðasalinn og þá fannst okkur hann orðinn geysistór. Ég minnist þess ekki að þetta væri nokkurn tíma kallað karnappið heldur var þetta eiginlega hluti af setustofunni. Ég man vel eftir 1. des. hátíðahöldunum og líka þegar 50 ára nemendur komu í heimsókn. Þvílík gamalmenni.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2007 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband