Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Níunda blogg

Þetta er bölvað vesen. Ég á líka erfitt með að ákveða hvort ég vil heldur skrifa þetta í Word eða á blogginu sjálfu. Er búinn að prófa hvorttveggja. Greinaskil vilja týnast og fontastærð og þessháttar er í einhverju rugli. Eflaust er þetta mest sjálfum mér að kenna. Best að hafa þetta blogg ekki alltof langt svo ég geti haldið áfram með frekari tilraunir.

Já og ég gleymdi alveg að lýsa því þegar við ég, Áslaug, Bjarni og Hafdís fórum að hjálpa Bjarna Harðar í prófkjörinu. Á fimmtudaginn var semsagt síðasti sjens að kjósa utankjörfundar og skrifstofunni á Hverfisgötunni átti að loka klukkan fimm. Klukkan 4 var Áslaug búin að vinna og kom heim klukkan eitthvað að ganga 5. Svo var farið til Hafdísar og þá hringt í Bjarna og allir sóttir sem sækja átti. Á leiðinni niður á Hverfisgötu var klukkan svo alveg að verða fimm, en við sluppum inn á síðustu stundu og væntanlega hefur Bjarni þar fengið ein fjögur atkvæði og veitir víst ekki af. Afleiðingar þess frumhlaups að skrá sig í Framsóknarflokkinn eru strax farnar að koma í ljós því í pósthólfinu mínu hjá Snerpu var núna rétt áðan komin tilkynning um þorrablót Framsóknarfélags Kópavogs.

Búinn að ganga frá Atlas reikningunum og á morgun förum við Hafdís e.t.v. á sýningu hjá þeim í Perlunni. Bjarni er að keppa á Skákþingi Reykjavíkur. Kominn með 3 vinninga eftir sex umferðir og keppir í þeirri sjöundu á morgun. Horfði á Íslendinga bursta Ástrali á himstrakeppninni í Þýskalandi.

 


Áttunda blogg

Þetta gengur nú hálfilla hjá mér, en eflaust læri ég á þetta með tímanum eins og aðrir. Í blogginu í gær hurfu öll greinaskil og fonturinn er fjandi stór. Annars er það svosem allt í lagi.

Kannski það sé betri hugmynd að skrifa þetta bara hér á blogginu og vera ekkert að blanda Word í þetta. Sjáum til.

Nú er ég semsagt að hugsa um að byrja skrifin fyrir morgundaginn og láta þau vera hér sem uppkast.

 

 


Sjöunda blogg

 Eftir ítarlegt bloggfall frá því fyrir jól, ætla ég nú að fara af stað aftur. Moggabloggið er að mínu mati ágætis hugmynd, einkum vegna þess að með þvi er gert afskaplega einfalt og auðvelt að blogga. Einnig myndast hér einskonar bloggsamfélag, sem ég gef nú reyndar ekkert sérlega mikið fyrir. Ég hef talsvert lengi fylgst með ýmsum bloggum (lesið þau og stöku sinnum kommentað á þau) og það hefur svosem ekki háð mér mikið að bloggin séu á ýmsum stöðum. Sumir virðast afar uppteknir af allskonar fídusum sem boðið er uppá hér og hugsa mest um allskyns talningar og vinsældir, en mér finnst þessháttar allt litlu máli skipta. Bjarni lenti í árekstri á miðvikudaginn. Bílarnir báðir sem í árekstrinum lentu voru óökufærir á eftir en enginn slasaðist. Mér finnst líklegt að Bjarni verði dæmdur í rétti. Það er þó ekki alveg öruggt, en kemur í ljós. Hafdís benti mér í gær á “timarit.is” síðuna. Ég vissi nú svosem af henni en hafði ekki skoðað hana lengi. Ég benti henni svo á að athuga Morgunblaðið frá 26. júní 1980 bls. 32 og hún mér á sama blað frá 14. febrúar 1993 (B-blað) bls. B10-B11. Áslaug fékk í dag bréf frá lögmönnum á Selfossi útaf Ásgautsstaðamálinu. Það skýrist hægt og ég er ekki svo mikið inni í því að það sé ástæða fyrir mig að skrifa um það. Þetta mál hefur bara sinn gang. Eitt af því sem blogg geta eflaust gert nokkuð vel er að þjóna sem tímamælir. Þá á ég við að það sem skrifað er á blogg getur hugsanlega þjónað sem vegvísir til að staðsetja  atburði sem fá aukið vægi seinna meir af einhverjum ástæðum. Þarna á ég einkum við blogg eins og mitt sem ekki er lesið nema af mjög fáum og er að sjálfsögðu undir því komið hvernig það verður varðveitt. Sumir virðast greinilega halda að fjöldi fólks bíði málþola eftir að þeir útdeili speki sinni. Ég nefni engin nöfn.  Fréttablogg eru sérstakur kapítuli. Stundum geta þau ágætlega þjónað því hlutverki sínu að gefa lesendum smánasasjón af þeim kjaftasögum sem hæst ber í það og það sinnið. Verst er þegar fréttabloggararnir fara að líta svo stórt á sig að mestöll skrif þeirra fara í að skammast út í aðra fréttabloggara og fjölmiðla af ýmsu tagi. Ekki meira í dag. Látum þetta gott heita. Og auk þess legg ég til að Stefán kaninkubloggari láti af heimskulegum ónotum sínum útí moggabloggið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband