908 - Eiður Smári

Mál Eiðs Smára Guðjohnsen gegn DV er áhugavert. Er Eiður svo þekktur að hann þurfi að sætta sig við minnkað persónufrelsi eins og margir aðrir eða er DV að ganga alltof langt í að upplýsa okkur um fjárfestingarstarfsemi hans. Hvernig á að meta hvenær fólk þarf að sætta sig við hverskyns umfjöllun í fjölmiðlum? Og hvernig eru fjölmiðlar skilgreindir? Sannleikurinn í málinu skiptir engu máli. 

Fleiri mál af þessum toga munu koma fyrir dómstóla á næstunni. Bubbi vann sitt mál ef ég man rétt og setti fjölmiðlum dálítið þröngar skorður. Ný löggjöf í þessum efnum er kannski á leiðinni. Ekki veitir af. Erum við bloggarar að taka einhverja áhættu með því að fjalla um viðkvæm mál? Veit það ekki og er alveg sama. Hugsa bara um sjálfan mig eins og flestir aðrir. Ekki er ég í því að ýfa fjaðrir fræga fólksins. Hef samt lúmskt gaman af því að aðrir geri það.

Nafnleysi er nauðsyn þó sumir vilji afnema það með öllu. Ef í hart fer verður samt að vera hægt að upplýsa hver skrifaði hvað, eða a.m.k. hver ber ábyrgð á hverju. Að allir geti alltaf vitað hver skrifaði hvað er óþarfi nema í algjöru lögregluríki þar sem stóri bróðir veit allt og hefur vit fyrir öllum.

Ein er þjóð í afneitun
aum er hennar líðan.
Eftir banka affelgun
eltir Davíð síðan.

Þetta er pólitísk vísa sem kom til mín alveg óforvarendis. Auðvitað ættu lokaorðin í síðustu ljóðlínunni ekki að vera í þessari röð, en rímið heimtar að svo sé. Svo getur Davíð alveg verið síður mín vegna.

bokBesta jólabókin

Án þess að við vissum tók dóttir okkar tók sig til og safnaði saman af Netinu vísum eftir okkur hjónakornin og myndum eftir mömmu sína og setti saman í bók. Þetta er að mínum dómi besta og eftirminnilegasta jólabókin. Var bara gefin út í tveimur eintökum svo ekki verður hún metsölubók. Þessa bók fengum við síðan í jólagjöf.

Gleymdi að geta þess þegar ég fjallaði um foreldra mína og jólagjafainnpökkun þeirra að þau notuðu að sjálfsögðu jólapappír frá fyrra ári eða fyrri árum. Áður fyrr tíðkaðist nefnilega að endurnýta jólapappír ef mögulegt var og mér blöskrar stundum hve miklu magni af úrvals jólapappír er hent nútildags um hver jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Sæll Sæmundur og gleðileg jól til þín og þíns fólks.

Þessi gjöf frá dóttur ykkar er frábær hugmynd að jólagjöf!

Kveðja, Sigurjón

Sigurjón, 27.12.2009 kl. 04:26

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Sæll Sæmundur. Ég ólst upp við að farið var varlega með jólapappírinn, hann straujaður og geymdur til næsta árs. Í dag er það illmögulegt því ekki er annað að hafa en bölvað skítti.

Yngvi Högnason, 27.12.2009 kl. 13:40

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigurjón, mér fannst þetta líka góð jólagjafahugmynd.

Yngvi, já en jólapappírinn í dag lítur ágætlega út. Hef ekki lagt það á mig að skoða hann nákvæmlega. Öllu er hent, jafnvel mat og bókum.

Sæmundur Bjarnason, 27.12.2009 kl. 13:49

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hef aldrei skilið þau rök blaðamanna að um suma megi fjalla nánar en aðra í því skjóli að um opinberar persónur sé að ræða.

hver hefur gert Eið að opinberri persónu? hann sjálfur? nei. fjölmiðlar sjálfir. skondið að geta upp á sitt einsdæmi gert einhvern að opinberri persónu og talið sig í því ljósi getað síðan opinberað öll hans einkamál.

Brjánn Guðjónsson, 27.12.2009 kl. 22:05

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Oft eiga þínar skilgreiningar við, Brjánn en stundum verður ekki betur séð en fræga fólkið og fjölmiðlarnir nærist hvert á öðru. Pólitíkusar og ráðamenn fórna að nokkru leyti einkalífi sínu fyrir frægðina. Á Íslandi er þetta samt öðruvísi en víða annarsstaðar.

Sæmundur Bjarnason, 27.12.2009 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband