906 - Jólin

Þegar mamma og pabbi lokuðu sig inni í stofu og fóru að pakka inn jólagjöfunum var spenningurinn slíkur að tilgangslaust var að reyna að hugsa um annað. Þegar því var lokið voru pakkarnir settir inní stofuskáp. Ekki kom til greina að reyna að skoða pakkana eða þreifa á þeim. Það var bannað og ekki að vita hverjar afleiðingarnar yrðu af slíku athæfi. Síðustu dagna fyrir jól reyndum við krakkarnir alltaf að hlýða því sem okkur var fyrirskipað því reiði fullorðna fólksins var hættuleg á þessum tíma. 

Þegar pabbi tók sig til og raðaði tugum kerta á stólkoll úr eldhúsinu og kveikti á þeim öllum í einu voru jólin komin í raun og veru. Kertin voru mislit og þó þau væru mjó voru þau fjölmörg. Birtan af þeim var svo mikil að mér er það ennþá minnisstætt.

Borðað var inni í stofu sem annars var ekki gert. Stofuborðið stækkað um helming og lærið hesthúsað í flýti. (Eða var það hryggur - man það bara ekki) Biðin eftir jólagjöfunm var samt alltaf nokkuð löng. Þegar búið var taka af borðinu, minnka það og raða jólagjöfunum á það var hægt að hefjast handa. Það yngsta okkar sem þó kunni að lesa var jafnan látið útdeila pökkunum.

Samanburðarfræðin voru stunduð grimmt þegar búið var að opna pakkana. Auðvitað fengum við yfirleitt ekki þau leikföng sem við höfðum mænt sem mest á niðri í kaupfélagi en við bjuggumst hvort eð er ekki við því. Ánægð vorum við þó að sjálfsögðu.

Það skyggði þó dálítið á ánægjuna að ekki vorum við fyrr farin að skoða gjafirnar almennilega en kominn var tími til að fara niður á hótel í jólamessuna. Þvílíkur óþarfi. Upplagt hefði verið að notfæra sér kirkjuleysið í Hveragerði á þessum tíma og sleppa þessu alveg. En nei. Maður var rifinn frá jólagjöfunum og drifinn niður á hótel til að hlusta á einhverja messu sem ekki var einu sinni í kirkju.

Svo þegar heim var komið var brátt kominn svefntími en auðvitað fóru gjafirnar ekkert og jólin voru næstum öll eftir þó aðfangadagskvöldið nýttist ekki til fulls.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

skemmtileg endurminning.

Brjánn Guðjónsson, 25.12.2009 kl. 05:27

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sniðugt að setja kerti á stól í stað könnu.

Ekkert jólatré á heimilinu eða grenigreinar slútandi yfir myndir á veggjunum vegna gróðurhúsaáhrifa í Hveragerði, gæti ég trúað.

Eitt sinn var ég með stelpu í Hveragerði, sem þótti svo merkileg að hún var sett á frímerki, og ég sé smávegis eftir henni, enda þótt ég hafi þurft að sleikja hana töluvert upp.

En enginn má í sköp renna, eins og máltækið segir.

Þorsteinn Briem, 25.12.2009 kl. 16:35

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, við vorum oftast með jólatré. Oftast fremur lítið og úti í horni. Ég man eftir grenigreinum slútandi yfir myndum. Gróðurhúsaáhrif voru engin í Hveragerði enda ekki búið að finna þau upp. Aðkomufólk sagði þó að þar væri hveralykt.

Sæmundur Bjarnason, 25.12.2009 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband