878 - Bloggið bætir, hressir og kætir

Í vaxandi mæli hef ég á tilfinningunni að ég sé að blogga fyrir þá sem ég veit af ýmsum ástæðum að lesa skrif mín reglulega. Í gegnum samskipti mín í kjötheimum veit ég um suma. Aðrir kommenta öðru hvoru og svo framvegis. Flestir hafa einhver áhrif á hvernig ég skrifa. Líka þeir sem aldrei heyrist frá en þeir hljóta að vera þónokkrir. 

Áhrif þeirra sem kommenta eru stundum augljós. Til dæmis hefur Steini Briem afar góð áhrif á hagyrðingstaugina í mér. Oft má sjá áhrif kommentanna bæði í bloggum og svörum við athugasemdum og þau samskipti eru næstum alltaf á léttu nótunum. Að minnsta kosti svara ég kommentum oftast með því sem mér dettur fyrst í hug. Stundum er það svolítið út úr kú eða jafnvel asnalegt en við því er ekkert að gera.

Freistandi er að halda að því fleiri sem lesendurnir eru samkvæmt Moggabloggsteljaranum því betri séu skrifin. Svo er þó ekki. Það eru fyrirsagnirnar, efnið sem um er fjallað og fyrstu línurnar sem skipta mestu máli. Oft heldur maður að tiltekin skrif veki mikil viðbrögð í teljaramálum en hefur svo eftir allt saman alrangt fyrir sér. Ekki er með neinu móti hægt að sjá þau fyrir.

Ef ég blogga ekki finnst mér eins og ég sé að bregðast mínum föstu lesendum. Kannski eru þeir samt bara fegnir og þessvegna er ég að hugsa um að hætta núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú bloggar að allaveganna í mínum takti. Takk.

Ólafur Sveinsson 28.11.2009 kl. 00:21

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ómissandi fyrir svefninn að lesa miðnæturþanka Sæma.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.11.2009 kl. 00:31

3 identicon

Þú ert ómissandi á bloggrúntinum, Sæmi minn. Ég myndi amk. sakna þín mikið.

Skorrdal 28.11.2009 kl. 02:37

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hér áður fyrr notuðum við símann til að hlera um sveitungana, núna er það bloggið :)

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.11.2009 kl. 06:02

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bloggið þitt og bloggið mitt,
bloggin Sæma og Steina,
lítið mitt en þrútið þitt,
þú veist hvað ég meina.

Þorsteinn Briem, 28.11.2009 kl. 11:52

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Horfið næstum bloggið Briem.
Bókstafirnir fúna.
Sorfið hefur runurím.
Rósu stælir núna.

Sæmundur Bjarnason, 28.11.2009 kl. 13:23

7 Smámynd: Finnur Bárðarson

Sæmundar bloggið hefur öðast verðugan sess. Gerist ekki betra.

Finnur Bárðarson, 28.11.2009 kl. 17:36

8 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæmundur, ef þú ætlar raunverulega að hætta að blogga vil ég þakka þér fyrir það sem ég hef lesið og lært af þér. Þú hefur mjög víða réttláta sýn á mörgu.

Skil hvað þú ert að tala um þegar þér finnst eins og þú sérst að svíkja ef þú svarar ekki eða rökræðir á blogginu. Ég blogga til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri en hef svo ekki nógu marga klukkutíma í sólarhringnum til að rökræða athugasemdirnar. Mér finst ekki gott að sinna þessu ekki eins vel og ég vildi helst en tel að betra sé að henda af og til inn skoðunum þegar tími gefst og koma umræðu í gang.

Ég hvet þig til að halda áfram því þú ert að kenna okkur öllum eitthvað gott og gagnlegt. Oftast held ég að kommenta-skortur sé vegna tíma-skorts. Ég mun sakna þín á blogginu ef þú hættir. Við erum öll jafn mikilvæg, hver á sinn hátt meða sína lífsreynslu-skoðanir.

Hættu að hugsa um að hætta að blogga og haltu endilega áfram því þú hefur mikið að gefa okkur öllum . Með kærri kveðju Anna.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 28.11.2009 kl. 21:53

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.
Anna Sigríður. Ég held að þetta sé óverðskuldað. Ég hugsa að ég hætti aldrei alveg að blogga. Það er of gaman til þess. Reyni að hafa einstök blogg ekki alltof löng. Tekst stundum.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2009 kl. 01:57

10 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þetta er ekki óverðskuldað Sæmi. Þín blogg verða adrei of löng vegna þinnar visku og kennslu, en veit að ég á það til að þvæla hlutina of mikið. Ég er að læra á blogginu og líkar það vel. Þökk sé þér og svo mörgum öðrum fyrir svo margt sem ég hef fengið að lesa á blogginu. Við þurfum fleiri svona menn eins og þig á bloggið.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.12.2009 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband