877 - Alþingi

Undanfarin kvöld hefur verið opið fyrir sjónvarpsútsendingar frá Alþingi á mínu heimili. Ekki get ég sagt að umræðurnar séu áhugaverðar. Einhver kynni að kalla þetta málþóf en það má víst ekki. Í stjórnarandstöðunni virðist ríkja það lögmál að hver og einn sem á staðnum er sé skyldugur til að nýta allan þann tíma sem þingsköp mögulega leyfa honum. Þetta er slæmt en ekkert við því að gera. Fundarsköp eru nauðsyn og þeir sem nú eru í stjórnaraðstöðu geta lent í því fyrr eða síðar að þurfa að nota þetta. 

Einhver varhugaverðasta þróun í íslensku þjóðlífi er það lögfræðingaveldi sem hér er að skapast. Til lengri tíma litið eru það eingöngu lögfræðingar sem munu hagnast á kreppunni. Þeir gráðugustu þeirra munu missa einhverja spóna úr aski sínum á næstu árum en þeir verða fljótir að koma sér uppúr því. Jafnvel vesælir innheimtulögfræðingar munu hafa nóg að gera. Þeir sem kunna bærilega á skattakerfið og gengismál munu þéna feitt. Viðskiptafræðin er ekki lengur „in" en lögfræðin er það og hefur alltaf verið.

Ekki meira að sinni. Nóg er málæðið í öðrum svo ég fari nú ekki að bæta við það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmundur á sextán skóm,
sjaldan hefur barið lóm,
og aldrei sjást hans orðin tóm,
en Elli smellir hér í góm.

Þorsteinn Briem, 27.11.2009 kl. 01:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Staðfastur er Steini Briem.
Stöðugt hingað lætur rím.
Virkar fínt það vísna-lím
sem varla nokkur kallar flím.

Sæmundur Bjarnason, 27.11.2009 kl. 01:43

3 Smámynd: Eygló

Lögfræðingarnir munu lifa af endalok veraldar - eins og kakkalakkarnir.

Fram að því standa þeir upp úr ásamt saumavélaviðgerðarmönnum!

Vona bara í lengstu lög að við þurfum ekki að óttast að þeir sem geta reddað nægum peningum í slyngustu lögfræðingana, sleppi. (sbr. Ó Djei Simpson)

Eygló, 27.11.2009 kl. 04:35

4 identicon

Þingmenn stóðu í þingsal, voru að bulla bull
Bull er ekki bullað nema þingmenn bulli bull
Ein bulla þingmenn bull, tví bulla þingmenn bull.....

DoctorE 27.11.2009 kl. 17:41

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Það er með ólíkindum að fullorðið fólk á alþingi trúi að málþóf sé lausn á einu né neinu eins og stjórnarandstaðan virðist telja að sé þjóðinni til bjargar á þessum erviðu tímum sem einmitt stjórnarandstaðan ber ábyrgð á og neitar þó allri ábyrgð. Ég skil þetta ekki enda áhugamanneskja um haldbæra rök-umræðu sem ekki virðist vera þekkt aðferð í þeirra málflutningi.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.11.2009 kl. 23:11

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eygló. Ekki tala of illa um lögfræðingana. Þeir koma til með að stjórna öllu. (Gera það reyndar að mestu)

DoctorE. Stebbi stóð á ströndu... er eiginlega betra. Það reynir á tunguna.

Anna Sigríður. Já, sú mynd sem við fáum af Alþingi þessa dagana er ekki góð.

Sæmundur Bjarnason, 28.11.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband