819 - Breiðdalsjökull, vefsafn.is og fleira

Æseifið ógurlega
ekkert ég skilið fæ.
Veldur mér tárum og trega.
tæpast ég sönsum næ. 

Samt er það mín óbifanlega trú að upphafið að Icesafe-hörmungunum hafi verið í þeirri fáránlegu vitleysu sem Alþingismenn voru plataðir til að samþykkja á næturfundi og kallað neyðarlög.

Nú er Jóhanna farin að sýna tennurnar. „Hundskastu til þess Steingrímur minn að stjórna þínu fólki", finnst mér hún vera að segja. „Annars er þetta bara búið hjá okkur."

Kannski er dögum núverandi ríkisstjórnar að ljúka. Kannski komast Sjálfstæðismenn í ríkisstjórnina og fá að vera memm. Samfó og VG neyðast þá til að sætta sig við þá. Aðrir verða væntanlega áfram í kuldanum. Annars er svo deprimerandi að hugsa um þetta allt saman að ég er að hugsa um flýta mér að taka upp léttara hjal.

Einn af forverum mínum á Vegamótum á Snæfellsnesi var mér sagt að hefði verið Breiðdal einhver. Oft snjóaði mikið á Nesinu. Stundum var skaflinn framan við staðinn  jafnstór húsunum eða stærri og þá kallaður Breiðdalsjökull. Of sást alls ekki úr veitingahúsinu eða versluninni hvort bílar voru á hlaðinu. Stundum komust þeir ekki einu sinni um hlaðið og sátu þar fastir.

Nú eru meira en tuttugu ár síðan ég flutti af Snæfellsnesinu á Reykjavíkursvæðið. Á þeim tíma man ég aðeins einu sinni eftir að komið hafi snjór hér sem talandi var um.

Veður á Snæfellsnesi voru stundum hörð og élin svört. Aftur á móti finnst mér að alltaf hafi verið sólskin og gott veður í Hveragerði þegar ég var að alast upp. Jafnvel á veturna þó kafsnjór væri yfir öllu. Skrítið.

Undarlegur samsetningur

Frá því var sagt í fréttum í dag að opnað hefði verið vefsetrið vefsafn.is og sér Þjóðarbókhlaðan um það. Ég þangað og fór náttúrlega strax að athuga bloggið mitt. Þar rakst ég fyrir einhverja tilviljum á þennan einkennilega samsetning sem ég var með öllu búinn að gleyma.

Bloggið er verkfæri andskotans
og ég tek þátt í því.

Bloggið er bölvuð árátta
og ég ræð ekki við mig.

Bloggið er fyrir sjúka fasista
og mig.

Bloggið tekur aldrei enda
frekar en önnur vitleysa.

Að blogga sökkar feitt
en ég geri það samt.

Bloggið bætir heiminn
halda sumir.

Bloggið er fjölmiðill
og miðlar fjölum.

Bloggið er að leggja undir sig heiminn
og Írak jafnvel líka.

Bloggið er upphaf og endir alls.
Trúlegur fjandi.

Bloggið er komið til að vera.
Hvert ætti það svosem að fara?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bitra er komið til að vera?  Nei.
hvert ætti þú svo sem að fara?

Ólafur Sveinsson 30.9.2009 kl. 10:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur, ég skil þig ekki almennilega. Geturðu nokkuð orðað þetta öðruvísi?

Sæmundur Bjarnason, 30.9.2009 kl. 10:57

3 identicon

Ég snéri síðasta erindinu þínu, aðeins.  Hvergerðingar gleðjast varla yfir að fá Bitru lyktina yfir sig?

Ólafur Sveinsson 30.9.2009 kl. 11:23

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég kannast ekki við að hafa mælt sérstaklega með Bitruvirkjun. Frekar þvert á móti. Get ekki lagt Blogg og Bitru að jöfnu.

Sæmundur Bjarnason, 30.9.2009 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband