817 - Enn um blogg

Sagt er að athugasemdir séu sál bloggsins. Þær eru að minnsta kosti lykillinn að flestum bloggsamskiptum. Sjálfur var ég nokkra stund að átta mig á þessu og hafði framanaf heldur horn í síðu kommenta. Sérstaklega ef þau voru mörg eða óhóflega löng. Ekki aðeins leyfi ég öllum sem vilja að gera athugasemdir við mitt blogg heldur geri ég mér far um að svara sem allra flestum eins og Jens Guð gerir. 

Þeir sem kæra sig lítið um athugasemdir setja á þær hindranir. Ef kommentið mitt birtist ekki strax athugasemdast ég helst ekki aftur á því bloggi. Meira þarf ekki til.

Að loka með öllu fyrir athugasemdir er „síðasta sort" eins og Einar smiður hefði sagt. Þeir sem slíkt stunda vilja greinilega ekki nein bloggsamskipti. Auðvitað geta óþverralegar athugasemdir komið og jafnvel í miklum mæli. Óþarfi hlýtur þó að vera að loka á komment þess vegna til frambúðar.

Hvernig hafa bloggarar samband sín á milli? Hér á Moggablogginu geta menn sent bloggvinum sínum orðsendingar. Villi í Köben sendi sínum bloggvinum (og þar á meðal auðvitað mér) meldingu um að Svanur Gísli væri að trúarbloggast. Talaði jafnt um páfa sem hina ýmsu guði. Ég þangað en treysti mér ekki til að kommenta neitt enda hef ég ekkert vit á trúmálum.

Fyrst þegar ég fór þangað var Jón Valur ekki einu sinni mættur. Nú er hann búinn að bæta úr því. Það minnir mig á að ég ætlaði alltaf að skoða stuðningsblogg þessa kristilega stjórnmálaflokks þar sem deilur eru sagðar hafa verið um það hvort Kapella Háskólans sé fyrir alla eða bara suma. Fann ekki Jón Val meðal bloggvina minna þrátt fyrir ítarlega leit. Síðan gleymdist þetta.

Fast er nú skorað á alla að hætta að Moggabloggast. Gallinn er bara sá að ég veit ekki hvert ég á að fara. Annars færi ég eflaust. Hverjir fara? Og hvert? Hverjir verða eftir? Hverjir styðja Davíð og auka með því tekjur Moggaræfilsins? Þetta eru aðalspurningarnar í dag.

Samkvæmt skilgreiningu Svans Gísla er ég búinn að vera í Sæmundarhætti allt þetta blogg svo nú er ég hættur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Já, mér finnast kostulegar svona blogg-einræður, þ.e. þegar skrifaðir eru pistlar og ekki ætlast til samskipta; lokað á athugasemdir.  Mér finnst eiginlega skemmtilegra að taka þátt í skoðanaskiptum í athugasemdum heldur en að blogga sjálf.

Er ekki allt í lagi að hafa Davíð þarna á Mbl.?  Getur hann nokkuð gert að ráði því fólki sem hefur sjálfstæðar skoðanir (annað með sjálfstæðisflokksskoðanir)

Eygló, 28.9.2009 kl. 03:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eygló, ég held að Davíð geti skrifað fjandann ráðalausan í Morgunblaðið án þess að hafa nokkur áhrif á Moggabloggara. Ég les næstum aldrei dagblöð. Nenni því bókstaflega ekki. Þessir sem óskapast mest núna og eru að hætta á Moggablogginu hefðu sennilega flestir hvort eð er hætt hérna fljótlega. Ég get vel hugsað mér samt að yfirgefa Moggabloggið en ekki án þess að vita hvað ég fæ í staðinn.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2009 kl. 03:52

3 Smámynd: Eygló

Sammála þér aftur. 1) Flyt mig ef nýtt svæði býðst    2) ... ef stór hópur fer héðan; eftirlætis bloggvinir og aðrir sem mér finnst gaman að lesta eftir.

Núna lulla ég bara og læt reka á reiðanum. Skrifa hérna og skoða áfram. Lest netfréttir þegar ég nenni, sem er afar sjaldan.

Æsingur borgar sig mjög sjaldan. Þótt gjörólíkt sé, þá man ég allt í einu þegar fólk var í röð eins og hjá úthlutun sameinuðu þjóðanna, við að flytja lánin sín frá ÍBLS yfir í ýmsa banka, með lægri vexti. Gleymdu að hugsa út í hvað "breytilegir vextir" þýddi og muninn á ríkis- og einka-.

Orðið of langt hjá mér og út fyrir efnið.

Eygló, 28.9.2009 kl. 04:06

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm,. Þessir, sem eru með lokuð blogg eru að skrifa greinar en ekki blogg. Það er raun alveg sér deild fyrir það hér á mbl, sem ekki fellur undir bloggið. Myndi benda þessum mönnum á það ef ég gæti það. Þetta kallast víst Dilemma upp á Grísku.

Umræðurnar hjá Svani snúast að einhverju leyti um það hvor guð hins, sé sami guð og annars, á meðan báðir telja guði sína aðeins vera einn, getandi með engu mannlegu móti  fært sönnur á það.

Umræðan snýst líka um hve margir sumir eru. Ekki ólík orðræða og þula kerlingarinnar fjórdrepnu.

Bloggið á sér greinilega engar takmarkanir í tíma og rúmi, né er því íþyngt af rökhyggju og óþarfa heimspekinormum. Þarna eru þeir einhverstaðar í Lalalandi með liggaliggalái að rökum og simsalabimmið að niðurstöðu.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 07:38

5 identicon

Það ömurlegasta af öllu ömurlegu á blogginu er þegar fólk ritskoðar athugasemdir eða bannar aðila sem er þeim ekki sammála.

Ég var bannaður síðast í gær af einhverri kerlingu sem var ekki sátt við að ég væri ekki glaður með að DO væri kominn í ritstjórastólinn... ég var ekkert ókurteis eða neitt slíkt, hún kallaði mig aumingja og ég veit ekki hvað og hvað..... ég spurði hana þá hvort biblian væri málið hjá henni, því hún var með risakross á síðunni.. ég sagði að biblían væri skrifuð af nafnleysingjum, eða aumingjum eins og hún kallar þá.. BANG  meiri kjaftur og bannaður.
Eru hillbillar ekki frábærir, krossD á hauk í horni hjá þeim :)

DoctorE 28.9.2009 kl. 07:51

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jón Steinar og DoctorE. Ég treysti mér ekki í trúmáladeilur en er sammála um það að eðli bloggs fer mjög eftir athugasemdum og öllu sem snertir þær. Orðræða þín DoctorE (og var t.d. hjá Helga Hóseassyni) er þannig að hún stuðar sumt fólk án þess að það þurfi að vera neitt verra fyrir það. Sum orð sem notuð eru í þessari orðræðu eru líka þannig að óinnvígðir skilja þau ekki nema með útskýringum.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2009 kl. 12:07

7 Smámynd: Finnur Bárðarson

Blogg án athugasemda er varla blogg, skelfilega líflaust. Ég hef verið að velta því fyrir mér að banna þeim gungubloggurum sem ekki leyfa athugasemdir á eigin síðu, aðgang að minni síðu með athugasemdir sínar.

Finnur Bárðarson, 28.9.2009 kl. 14:34

8 identicon

Menn verða að stuða :)

DoctorE 28.9.2009 kl. 15:33

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mér finnst ekkert að því að blogga um blogg. Ég hef gert það oft sjálfur og notaði þá einmitt þetta fína orð "Sæmundarhátt" til að lýsa blogginu. Bloggrýnirinn sálugi sem fann upp á að kalla þinn bloggstíl "Sæmundarhátt" hefur valið nafngiftina vel, því bloggin þín Sæmundur eru afar skemmtileg.  

Ég nota því orðið, eins og Sæmundur vel veit, honum til heiðurs.

En eins og við vitum eru bloggarar mismunandi og fyrir kemur að blogg um blogg geta verið leiðinleg. Í mínum huga á "Sæmundaháttur" á bloggi, ekki við um efnistökin, heldur viðfangsefnið sjálft, það er; að verið sé að blogga um blogg.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 28.9.2009 kl. 16:15

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svanur Gísli var nú fyrir skemmstu að blogga um blogg sem blogga um blogg.  Það  tekur þá listgrein í nýjar hæðir.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.9.2009 kl. 16:38

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Finnur og Svanur Gísli, enn er ég sammála. Fyrst var beinlínis fyrirkvíðanlegt að lesa athugasemdir. Nú er maður orðinn háður þeim og getur helst ekki án þeirra verið. Afar sjaldnan verða athugasemdirnar svo margar að allt fari úr böndunum.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2009 kl. 16:39

12 Smámynd: Finnur Bárðarson

Legg hér með til að orðið Sæmundarblogg verði notað yfir góð og skemmtileg blogg og Svanur á nú heiðurinn af þeirri nafngift.

Finnur Bárðarson, 28.9.2009 kl. 17:55

13 Smámynd: Kama Sutra

Hjákátlegustu "bloggararnir" eru þeir sem banna eða ritskoða athugasemdir á sínum eigin bloggum en eru svo sjálfir eins og gráir kettir inni í athugasemdakerfum annarra bloggara - líklega af því að þeirra eigin blogg eru svo leiðinleg.   Þeir eru nokkrir þannig.

Kama Sutra, 28.9.2009 kl. 18:49

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.
Miðað við hve margir kommenta hjá mér geri ég sennilega alltof lítið af því að kommenta sjálfur hjá öðrum.

Sæmundur Bjarnason, 28.9.2009 kl. 18:57

15 identicon

Skemmtileg umræða. Er sammála því að það er alltaf skemmtilegast að lesa kommentana hjá þeim sem leyfa kommenta og oft getur verið mikið fjör í kommentunum. Þó veit ég að stundum gætir fólk ekki að sér í orðavali og getur beinlínis verið ósmekklegt og jafnvel með níð á nafngreinda menn og það fynst mér slæmt. Ég fór oft inn á blogg hjá manni sem ég man ekki hvað heitir (fer svo oft inn á einhver blogg við fréttir) en ég man að hann gaftst upp á komentunum og lokaði vegna síendurtekin vandamál. það getur verið að þetta sé meira vandamál hjá þeim sem hafa ákveðnar skoðanir á málefnum og auðvitað er þeim svarað og kanski allt of oft ómálefnalega með dilgjum eða jafnvel nýð. Ég er sjálfur ekki með moggablogg (mundi vera svo latur að blogga að bloggin mundur bara rikfalla á harða disknum hjá mbl og á endanum skemma hann) en skrifa stundum komment. Reini alltaf að vera kurteis og ekki harðorður (ekki að stuða). Annars bara skemmtilegt.

kveðja kjarri 

Kjarri 29.9.2009 kl. 03:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband