788 - Hávaðafundur á Austurvelli

Í nafni bloggara var boðað til hávaðafundar á Austurvelli síðastliðinn föstudag. Samkvæmt fréttum virðist hávaðinn þó einkum hafa beinst gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Það var eflaust ekki ætlun fundarboðenda en sumum bloggurum virðist hafa hugnast það ágætlega.

Tilraunin til að fylkja bloggurum undir merki Hannesar og félaga virðist því hafa mistekist. Ekki þarf samt að fara í grafgötur um óánægju almennings með Icesave ósköpin. Óánægjan með ríkisstjórnina fer líka vaxandi en þó er ekki víst að samasemmerki sé þarna á milli.

Hvað gerir Ólafur Ragnar? Hve margir koma til með að skrifa undir áskorunina á hann? Hvað gera Bretar og Hollendingar? Lifir ríkisstjórnin? Hvernig verða fjárlögin sem opinberast okkur bráðlega? Já, við lifum á spennandi tímum og allt getur gerst.

Ég þarf að ákveða hvort ég skrifa undir áskorunina á Ólaf Ragnar. Eins og aðrir er ég búinn að hringsnúast oft í þessu árans Icesave-máli. Held bara að ég haldi mig til hlés úr þessu. Auðvitað er þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta æskileg en ef fyrirvararnir halda ætti hún ekki að vera nauðsynleg. Stefna ætti þó að stjórnlagaþingi sem allra fyrst.

Um mig hefur ekki væst
afrek vann ég sjaldan fæst.
Nú er það mín hugsjón hæst
hvenær verður étið næst.

Fyrri partinn prjónaði ég sjálfur enda lélegur. Hinn helmingurinn er úr minninu og miklu betri.

Ég er öfundsverður bloggari. Ekki nóg með að þónokkrir lesi það sem ég skrifa heldur fæ ég oft athugasemdir og yfirleitt ekki óvinsamlegar. Ég reyni að skrifa daglega og á sem fjölbreytilegastan hátt. Það er ágætis æfing að skrifa svona en kannski ekkert sérlega skapandi og eflaust tekur þetta orku frá einhverju öðru sem kannski væri betra.  Er bara orðinn háður þessu enda búinn að blogga síðan í desember 2006 ef marka má samantektina hér til hliðar.

Mér finnst hörmulegt að enn skuli menn vera að henda peningum í þessa andskotans hít sem kölluð er tónlistarhús. Nú síðast voru fréttir um að litlar 200 milljónir færu í að sjá til þess að bílakjallarinn flyti ekki í burtu.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

200 milljónir í monthús fyrir fiðluleikara er slæmt, en smáaurar miðað við víxilinn sem Alþingi var að undirrita fyrir hönd skattgreiðenda nútíðar og framtíðar.

Theódór Norðkvist, 30.8.2009 kl. 01:07

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skorrdal, ég var bara að tala um einn lítinn verkþátt. Veit vel að heildarkostnaðurinn verður nær 200 milljörðum en milljónum og hef bloggað um það áður ef ég man rétt.

Sæmundur Bjarnason, 30.8.2009 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband