Fimmta blogg

Já, það var eins og mig grunaði. Þetta blogg er ekki lesið nema fyrir einhverjar tilviljanir. Sem er mjög gott, eins og þar stendur. Kannski er það smástund fremst í svokölluðum "nýjum bloggum" hér á Moggavefnum og þess vegna slysast einhverjir til að lesa það. Ætli Salvör hafi ekki rekist á það þannig. Mér fannst alveg merkilegt hvað hún var fljót að finna það. Ég hef ekki sagt neinum frá þessu uppátæki mínu og er ekki að hugsa um að gera það, a.m.k. ekki í bráð.

Ástæðan fyrir því að slóðin á þetta blogg er saemi7.blog.is er sú að fyrst var ég búinn að tryggja mér saemi.blog.is en klúðraði því svo og þurfti að byrja aftur. Kannski hefði ég getað skrifað bloggstjóranum og fengið hann til að losa um saemi.blog.is en saemi7 er svosem ágætt.

Ég nenni ekki að vera að skrifa um fréttir og pólitík eins og flestir virðast hafa mest gaman af að gera. Mér dettur í hug að eitt geti ég skrifað um sem ekki margir gera. Það er að segja frá því hvernig þau blogg sem ég les oftast koma mér fyrir sjónir.

Eitt er það blogg sem ég læt sjaldan framhjá mér fara en það er bloggið hennar Hörpu Hreinsdóttur. (Nenni ómögulega að setja inn slóðir - á líka eftir að læra það) Bæði er það nú að hún er gift frænda mínum og svo setur hún aldrei neitt útá það þó ég sé stöku sinnum að sníkjublogga þar. Hún er líka prýðilega pennafær og hefur skemmtilegan stíl. Auðvitað er sumt sem hún skrifar óttalegt blaður og raus en bloggskrif hennar hafa að mínum dómi tvo meginkosti. Hún skrifar alveg ótrúlega reglulega og bloggin eru yfirleitt hæfilega löng. Það er að segja frekar löng. Auðvitað eru löng blogg leiðinleg ef þau eru ekki skemmtilega skrifuð. En fátt getur bjargað stuttum bloggum, þau minna bara á símskeyti.

Svo er það náttúrlega aðalgúrúinn, Salvör Gissurardóttir. Hún er nú reyndar svolítið slæm með að það verður stundum ansi langt bloggfall hjá henni og svo á hún það til að týnast. Ég var t.d. lengi að leita að henni á Metamorphosis og fann hana svo fyrir einskæra tilviljun á Moggablogginu. Hún fær hluti svolítið á heilann og bloggar kannski í nokkrar vikur næstum eingöngu um feminisma og síðan um eitthvað annað en það er alltaf gaman að lesa bloggin hennar þó stundum verði þau helst til tæknileg fyrir minn smekk.

Svo les ég náttúrlega palestínubloggið hans Egils og eitthvað var hann nú með á Netinu áður en sú ferð var farin en það var dálítið stopult og tilviljanakennt hjá honum. Mánabloggið les ég líka alltaf öðru hvoru og það er oft gaman að fylgjast með hvernig samskiptum þeirrar fjölskyldu er háttað í Netheimum. Ekkert blogg hef ég þó fundið ennþá eftir Vífil. Það fréttist lítið af honum í bloggheimum nema það sem mamma hans lætur flakka. Atli er t.d. alltaf með sitt gáfumannablogg eða greinaskrif og alveg umdeilanlegt hvort hægt er að kalla það blogg.

Það eru svosem mörg fleiri blogg sem ég les reglulega en ég ætla að láta það bíða betri tíma að fjölyrða um þau. Læt nægja að segja að blogglistinn í "favorities" hjá mér er óheyrilega langur og  stundum er ég í því að flytja blogg þar ofar en  samt kemst ég aldrei yfir hann allan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband