754- "Þá hlógu allir nema Týr."

Í 34. kafla Gylfaginningar segir svo: „Enn átti Loki fleiri börn. Angurboða heitir gýgur í Jötunheimum. Við henni gat Loki þrjú börn. Eitt var Fenrisúlfur, annað Jörmungandur, það er Miðgarðsormur, þriðja er Hel."

Æsir reyndu að binda Fenrisúlf (sem mér varð einu sinni á í Miðskóla Hveragerðis að kalla Fernisúlf . Þá hló Gunnar Ben sem átti að heita að væri að kenna mér og öðrum íslensku - síðan man ég eftir Fenrisúlfskauða og hef nafnið rétt). Fyrst notuðu þeir snæri nokkurt sem þeir nefndu Læðing. Fenrisúlfur leysti sig auðveldlega úr læðingi. Næst prófuðu þeir mun sterkari fjötur sem þeir kölluðu Dróma. Með harðfylgi tókst Fenrisúlfi að drepa sig úr Dróma.

Nú voru góð ráð dýr svo Alfaðir sendi mann þann er Skírnir hét í Svartálfaheim til dverga þeirra sem þar bjuggu og gerðu þeir fjötur þann sem Gleipnir heitir úr dyn kattarins, skeggi konunnar, rótum bjargsins, sinum bjarnarins, anda fisksins og fugls hráka. Sá fjötur var sterkur mjög og hugðust æsir binda Fenrisúlf með honum. Hann vildi ekki leyfa þeim það nema einhver þeirra legði hönd sína í munn hans að veði að þetta væri falslaust gert. Þeir litu hver á annan og loks lét Týr hendi sína í munn úlfsins. Svo segir í Gylfaginningu: „En er úlfurinn spyrnir, þá harðnaði bandið, og því harðar er hann braust um því skarpara var bandið. Þá hlógu allir nema Týr. Hann lét hönd sína."

Margt fróðlegt og skemmtilegt er að finna í Gylfaginninu. Í einum kaflanum þar er til dæmis útskýrt hvers vegna jarðskálftar verða og þó sú skýring sé ekki strangvísindaleg er hún skemmtileg. Það er aftur á móti önnur saga og verður ekki sögð hér og nú.

Einu sinni orti ég:

Jörmungandur japlar mélin.
Járnin bryður ótt og títt.
Innst í brjósti urgar vélin.
Ólmast faxið mjúkt og sítt.

Gneistar fljúga úr spyrntu spori
splundrast grjót og rignir mold.
Endi heims á atómvori.
Eldar brenna og sekkur fold.

Um tilurð þessara vísna og merkingu þeirra ritaði ég svo nokkru seinna langa ritgerð sem nú er týnd. Þegar ég orti þetta hélt ég að Jörmungandur væri hestur en svo er víst ekki.

Í lokin eru svo fáeinar myndir.

IMG 3655Hluti af hverasvæðinu í Krýsuvík.

IMG 3668Frá Krýsuvík.

IMG 3670Frá Grænavatni.

IMG 3679Herdísarvík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Miðgarðsormur er ófrýnileg risaslanga og tortímingarafl í norrænni goðafræði og gengur stundum undir nafninu Jörmungandur. Hann er einn af erkifjendum ása og er eitt af þeim þrem afkvæmum Loka Laufeyjarsonar sem hann gat við tröllkerlingunni Angurboðu. Miðgarðsormur er svokallað heimsskrímsli en hann lykur um alla jörðina (Miðgarð) og vekur ótta meðal ábúenda."

Miðgarðsormur - Jörmungandur

Þorsteinn Briem, 26.7.2009 kl. 11:57

2 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Takk fyrir þennan fróðlega pistil.

Jón Baldur Lorange, 26.7.2009 kl. 16:51

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Einu sinni hélt ég að Fernisúlfur væri frá Úkraníu.

Sigurður Hreiðar, 26.7.2009 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband