730 - Flokkapólitík, kúlulán og Guðni Ágústsson

Í sem allra stystu máli lítur flokkapólitíkin svona út frá mínu sjónarmiði:

Framsóknarflokkur - Við höfum kastað öllum okkar syndum bak við okkur.
Sjálfstæðisflokkur - Jú, við erum sekir. En samfylkingin sleppur ansi billega.
Samfylking - Fjúkk. Þar sluppum við naumlega. Allt sjálfstæðismönnum að kenna.
Vinstri grænir - Völdin eru sæt og ýmsu fórnandi fyrir þau.
Borgarahreyfingin - Nú erum við búin að finna klósettin og getum farið að gera eitthvað annað.

Hvernig lendir fólk í Kúluflokknum? Nú hefur DV sett þau Kristján Arason og Þorgerði Katrínu í þann eðla flokk. Eru ekki allir útrásarvíkingarnir örugglega í Kúluflokknum? Hefur þetta ekki eitthvað með kúlulán að gera? Ég skil þetta ekki almennilega.

Ein af þeim bókum sem ég fékk á Bókasafni Kópavogs um daginn var bókin „Guðni - af lífi og sál." Þessi bók er eftir Sigmund Erni Rúnarsson og kom út árið 2007. Fjallar um Guðna Ágústsson að sjálfsögðu.

Á einni af allra fyrstu síðum bókarinnar kemur eftirfarandi setning eftir skáldlegan inngang höfundar sem eðlilega gerist heima hjá Guðna: „Hjónakornin eru að leggja yfir Ölfusána í enn eitt skiptið." Síðan er ferðalaginu og öllu sem því tengist lýst með afar skáldlegum hætti og ekki alveg einfalt að finna út hvert ferðinni er heitið. Nokkru seinna kemur samt í ljós að ferðin liggur um Kambana og er heitið til Reykjavíkur.

Þar með ofbauð mér svo staðkunnátta höfundar að ég hætti að lesa og er ekki viss um að ég taki til við bókina aftur.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Það gæti verið gaman að lesa þessa bók sem núverandi þingmaður Borgaraflokksins skrifaði um þáverandi formann Framsóknarflokksins -- eða var hann bara varaformaður þá?

Gaman væri ef þú vildir taka eins og eitt blogg í að útskýra kúlulán. Það hefur farið framhjá mér hvers lags lán það er. Ég veit um bókalán og jafnvel peningalán -- en hvaða lán er að því að fá léðar kúlur?

Sigurður Hreiðar, 1.7.2009 kl. 10:08

2 Smámynd: Elle_

Já, hvað þýðir að fá lánaðar kúlur?  Og eru það bara allavega kúlur? 

Elle_, 1.7.2009 kl. 10:17

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einhversstaðar hef ég heyrt þá skilgreiningu að átt sé við að öllum afborgunum og vaxtagreiðslum sé safnað saman í eina kúlu og það eigi síðan að greiða í lok lánstímans. Í munni sumra að minnsta kosti virðist þetta einnig þýða að lántakandi taki enga eða takmarkaða ábyrgð á láninu. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Jónas Kristjánsson skilst mér að hafi líka skrifað um kúlufólkið og einhverjir fjölmiðlar hafa einnig minnst á það. Margir hafa skrifað um kúlulán og af samhenginu verður nær alltaf ráðið að ekki er átt við að viðkomandi fái lánaðar kúlur.

Sæmundur Bjarnason, 1.7.2009 kl. 14:25

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gleymdi að svara einu.

Sigurður: Ég held að Simmi sé þingmaður Samfylkingarinnar. Mér fannst á því sem ég las að Simmi vissi ekki einu sinni að Guðni á heima fyrir utan á. Hvort Guðni var formaður eða varaformaður þegar bókin var skrifuð hlýtur að koma fram í henni.

Sæmundur Bjarnason, 1.7.2009 kl. 14:42

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er merkilegt hversu oft Guðni hefur keyrt yfir Ölfusá til að komast í borgina.

Axel Þór Kolbeinsson, 1.7.2009 kl. 15:44

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Takk fyrir svarið/svörin, Sæmundur. Sjálfsagt hefur þú rétt fyrir þér um Simma. Læt mig einu gilda fyrir hvern hann situr á þingi, þykir kannski ögn skárra að það sé fyrir Samfylkinguna. Bara af því hvaða álit ég hef á manninum.

Sigurður Hreiðar, 1.7.2009 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband