718- Eitt og annað pólitískt og fleiri myndir

Valtýr Sigurðsson kvartar yfir að ekki hafi komið fram lagaleg rök fyrir að hann víki. Sá skortur er ímyndaður. Hann er að tala um sína eigin túlkun á lögunum. Sennilega meinar hann að enginn lögfræðingur hafi beðið sig að hætta. (Nema Eva Joly) Vel er hægt að fá lögfræðinga til að skrifa uppá hvað sem er eins og allir vita. Svo er líka óþarfi að láta lagarök ráða öllum sínum gerðum. Siðferðisrökin duga alveg. Næst gæti hann farið að tala um fordæmi og þessháttar. 

Ragna dómsmála er svolítið að missa tökin á sínum málaflokki enda er ekki auðvelt að standa í þessu. Hún er samt með frumvarp í smíðum segir hún og Valtýr hlýtur að taka mark á því.

Bloggvinur minn og næstum sveitungi í eina tíð Svanur Gísli Þorkelsson segir á sínu bloggi:

Mér virtist nefnilega úr fjarlægðinni sem stefna lögregluyfirvalda væri fyrst og fremst að forða því að að mótmælendur yllu eignaspjöllum og meiðingum, en að öðru leiti ættu þeir að halda sig til hlés og leyfa friðsamleg mótmæli. En nú spyr ég mig hvort  það geti verið að það sem virtust vera mild og yfirveguð vinnubrögð lögreglunnar fram að þessu, hafi aðeins verið taktískar aðgerðir sem beitt var vegna þess að þeir áttu við ofurefli að etja.

Þarna er hann að tala um handtökur lögreglunnar í gær (mánudag). Þetta er alveg rétt hjá honum. Við þurfum ef til vill að gæta okkar svolítið á lögreglunni en þó verðum við að treysta henni í öllum aðalatriðum. Ég sá upptöku af þessari uppákomu og gat ekki séð að mótmælendurnir væru fyrir neinum nema í mesta lagi lögreglunni.

Fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna talar um að það sé Bretum og Hollendinum að kenna að Icesave samningurinn sé ekki opinber. Slíkt hafi hingað til ekki tíðkast. Heyr á endemi. Þetta er svo stórt mál að fordæmi eiga á engan hátt við. Um er að ræða aumlegt yfirklór hjá ráðherra í vandræðum. Það eru einfaldlega miklar líkur á að frumvarpið um ríkisábyrgðina verði fellt. Og hvað gera Danir þá? Ögmundur segir að stjórninni verði ekki meint af því en fara ekki Bretar og Hollendingar í algjöra fýlu? Verður ekki reynt að semja uppá nýtt?

Ómar Ragnarsson er margfróður og bloggar oft um skemmtilega hluti. Eiginlega var ég að vona að hann byði aftur fram í síðustu kosningum og að Lára Hanna yrði ofarlega á lista frá sömu samtökum. Svo fór þó ekki og ég varð að láta Borgarahreyfinguna duga.

Lýsing Evu Joly í fréttum Stöðvar 2 á lagskiptingu þjóðfélaga á Vesturlöndum er athyglisverð. Gallar þeirrar lagskiptingar koma einkum í ljós við alvarlega atburði eins og bankahrunið hér vissulega er. Efsti hluti tertunnar sem þykist yfir lög hafinn hræðist að sjálfsögðu fólk eins og Evu Joly. Oft telur fólk sér trú um að það sé ofar í þjóðfélagsstiganum en það raunverulega er.

Kommur eru leiðinlegar. Sigurður Hreiðar ráðlagði mér fyrir nokkru að setja frekar punkt ef í vafa. Það geri ég nú orðið. Svikalaust.

Ef menn vilja verða sem vinsælastir hér á Moggablogginu þarf margs að gæta. Ekki er nóg að vera forsíðubloggari. (Í áttuklúbbnum eins og sumir segja eða vínarbrauðshópnum) Margt fleira getur gefist vel. til dæmis að linka sem mest í fréttir. Skrifa sem oftast. (Helst oft á dag). Gæta vel að fyrirsögnunum og hafa gjarnan mannsnöfn í þeim. Skrá sig á Blogg-gáttina og kannski víðar. Velja umræðuefni sem líklegt er að fái langa svarhala. JVJ, Jón Frímann og DoctorE reyndust mér vel í því - vona að þeir komi aftur sem fyrst. Eða ekki. Og svo mætti lengi telja.

Hér eru svo fáeinar myndir:

IMG 2973Hús í Kópavogi. (Nei, líklega er ekki búið í því.)

IMG 2976Fjörusteinn á Álftanesi.

IMG 2977Bátur og Bessastaðir.

IMG 2996Já, þessi er svolítið flottur.

IMG 2999Úrvalsbíll af gamla skólanum.

IMG 3002Gamli bærinn.

IMG 3009Fjara á Álftanesi. Álverið í Straumsvík í bakgrunni.IMG 3013

Hundar í sjóbaði.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gætir prófað að hafa nafna minn, hann Mala Svala Nimbusson, í fyrirsögn.  Ég þori að veðja að hann myndi trekkja vel og hala inn lesendum.

Malína 17.6.2009 kl. 02:46

2 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Skemmtilegar myndir.

Kveðja

Ari Guðmar Hallgrímsson, 17.6.2009 kl. 20:02

3 identicon

Afsakaðu, en svarhalinn er lokaður.  Það var Jón Frímann.

Tumi 17.6.2009 kl. 20:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Malína: Já það er gaman að blogginu hans Mala.

Ari Guðmar: Takk.

Tumi: Já, svarhalinn lokast víst sjálfkrafa. Ég var næstum búinn að gleyma þessu.

Sæmundur Bjarnason, 17.6.2009 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband