691- Ágúst Borgþór, Stefán Pálsson, Evrópusambandið og fleira

Alltaf er gaman þegar menn taka stórt upp í sig. Jóhannes Ragnarsson heitir Moggabloggari einn og Ólsari sem stundum tekur hressilega til orða. Innlegg hans les ég sjaldan en þó kemur það fyrir. Sé núna að hann er kominn ofarlega á vinsældalistann á Moggablogginu með því meðal annars að blogga mjög oft og linka í fréttir.

Ágúst Borgþór Sverrisson þekki ég að góðu einu. Hann er rithöfundur og vann eitt sinn með mér hjá Stöð 2. Bloggari er hann líka af bestu gerð og í eina tíð var ég reglulegur lesandi að blogginu hans sem þó var að mínu áliti full sjálfmiðað. Það er að segja að hann skrifaði full mikið um persónuleg mál sem ég þekkti afar lítið til. En skrifa kann hann og það mjög svo læsilegan texta.

Nýjasta bloggið hans rakst ég á nýlega á blogg-gáttinni og það ber hinn athyglisverða titil „Heimskulegasta bloggfærsla allra tíma?" Spurningarmerkið dregur aðeins úr krafti fyrirsagnarinnar en hún er samt nógu athyglisverð til þess að ég kíkti strax á færsluna. Þar finnur hann bloggi frá Jóhannesi Ólsara allt til foráttu. Endilega kíkið á þessi ósköp.

Skoðaði komment áðan hjá Ágústi Borgþóri við þessa færslu og verð að segja það að ég vorkenni svolítið þeim fordómafyllstu þar. Slæmt að láta fordómana stjórna því hvað maður les og skoðar. Kannski gerir maður þetta samt sjálfur í einhverjum mæli.

Okkur Moggabloggurum er oft legið á hálsi fyrir að vera í húsmennsku hjá svona vanþróuðu og sjálfhverju bloggkerfi. Einn er sá bloggari sem ég fylgist fremur með en öðrum. Það er Stefán Pálsson ofurbloggari og að eigin áliti sá allra fremsti á landinu. Stefán gegnherílandi hefði hann sennilega verið kallaður hér áður og fyrr.

Moggabloggsdýrðin er þó betri en Wordpressan ef miðað er við uppitíma. Ef ég miða bara við þann tíma sem Stefán segir að Kaninku-Wordpressan sé biluð þá er Moggabloggið miklu betra að þessu leyti. En það eru auðvitað mörg fleiri atriði en uppitími sem skipta máli varðandi bloggveitur.

Flest bendir til að Evrópusambandsmálið verði jafn umdeilt meðal þjóðarinnar og herstöðvarmálið var á sínum tíma. Menn tala gjarnan um að ekki skuli láta mál sem þetta vera á forræði flokksstjórna. Þingmenn eigi að klára það án afskipta foringja sinna. Það er fallega hugsað en ef til vill óraunhæft.

Málið er þannig vaxið að grundvöllur flokkaskipunar getur hæglega byggst á því. Það getur einnig skipt þjóðinni í tvo nær jafnstóra hópa. Fráleitt er að láta spursmál um tíma ráða ferðinni í svona máli eins og nú stefnir í.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir heldur því fram að allt byggist á því að sækja sem allra fyrst um aðild að Evrópusambandinu er minni Evrópusál nóg boðið. Það er engin goðgá að bíða. Ef tvöföld atkvæðagreiðsla getur sætt menn við orðinn hlut er ástæðulaust að berjast gegn henni. Ef sú aðferð getur betur tryggt eindrægni og samvinnu ber að fara hana jafnvel þó einhverjum finnist nær að fara öðruvísi að.

Mér finnst skaði að stórmál eins og Evrópusambandsaðild séu látin bíða von úr viti af þeirri ástæðu einni að erfitt sé að hugsa um tvo hluti í einu. Stjórnmálamenn verða að venja sig af að fresta sífellt stóru málunum og telja ótímabært að ræða þau.

Nei annars. Ég er víst hættur að skrifa um stjórnmál.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

http://www.youtube.com/watch?v=rH6_i8zuffs&feature=PlayList&p=FBD7EFAE8BE4F748&index=0

Þetta er sannleikurinn um AGS í Argentínu og sama á við í ESB þeir efnameiri og kröfuhafar fá sitt sama hvað það kostar þjóðina eða hinn almenna borgara.Besta sem við gerðum fyrir okkar þjóð ef hún á að ná sér upp aftur er að rétta ESB fingurinn og skila AGS láninu,ef ekki þá verður kreppa hér næstu áratugina....

Marteinn Unnar Heiðarsson, 21.5.2009 kl. 10:55

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

„Heimskulegasta bloggfærsla allra tíma?" ertu með linkinn? leiti ég efttir þessu á blog.is fæ ég bara upp þetta blogg þitt.

Brjánn Guðjónsson, 21.5.2009 kl. 21:05

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já einmitt. Ósköp er þetta að verða flókið. Linkurinn hjá Gústa er einhvern vegin svona: http://agust.eyjan.is/2009/05/heimskulegasta-bloggfrsla-allra-tima.html hann linkar svo í Jóhannes ef ég man rétt. Ég fór á bloggið hans Gústa í gegnum blogg.gattin.is. Færslan var um frú Merkel í Þýskalandi. Myndskreytingin hjá Jóhannesi minnir mig að hafi verið eitthvað steinaldarleg.

Sæmundur Bjarnason, 21.5.2009 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband