673- Niels Bohr og skeifan. Einnig svolítið um Tryggva Þór Herbertsson

Fyrir ofan útidyrnar á sumarhúsi danska kjarnorkuvísindamannsins Niels Bohr hékk mikið notuð, skökk og skæld skeifa. Vinir vísindamannsins sem voru í heimsókn gerðu góðlátlegt grín að honum fyrir þetta. Varla væri hann, sjálfur vísindamaðurinn, trúaður á svona hindurvitni og hégiljur eins og að skeifur fyrir ofan útidyrahurð boðuðu gæfu.

„Mér er sagt að þetta virki alveg jafnt hvort sem maður trúir á það eða ekki," svaraði Níels.

Svipað er því víst farið með innhverfa íhugun. Mikið létti mér þegar ég las að það skipti engu máli hvort maður tryði á þetta eða ekki. Alltaf virkaði það og hefði gert lengi. Auðvitað væri vissara að fara eftir viðurkenndum aðferðum og ekki sakaði að fara á dýrt námskeið.

Tryggvi Þór Herbertsson eyjubloggari með meiru kveinkar sér undan Netinu. Segir að þar séu þeir sem ekki komast að í viðurkenndum fjölmiðlum. Þetta getur svosem verið rétt en þeir sem gefa sig að stjórnmálum og þess háttar verða að vera undir það búnir að vera milli tannanna á fólki.

Tryggvi lýsir því í sínu síðasta bloggi að hann hafi komist að þessu með því að gúgla nafnið sitt. Síðan segir hann:

Netið hefur fært okkur margt gott en skuggahliðar þess eru að það virðist ala á hatri og mannfyrirlitningu. Því ljótari sem talsmátinn er því hærra er skorað! Fólk sem fékk ekki inn í opinberri umræðu vegna orðavals og öfga hefur nú greiðan aðgang að netinu með talsmáta sinn.

Seinna í blogginu segir Tryggvi og er mikið niðri fyrir:

Venjulegt fólk vill ekki verða fyrir árásum af þessu tagi. Fólk sem hefur mikið til málanna að leggja forðast þess vegna að koma fram með hugmyndir og innlegg í umræðuna. Það óttast að lenda í eiturbyrlurum netsins sem oftar en ekki skrifa nafnlaust. Jafnvel blaðamenn forðast að fjalla um hugmyndir og upplýsingar sem eiturbyrlurunum eru ekki þóknanlegar.

Þetta er skoðanakúgun og er til þess eins fallið að gera umræðuna fátæklegri. Málefnalegri umræðu hefur því sem næst verið útrýmt.

Þetta er íslenska útgáfan af menningarbyltingunni.

Tryggvi opinberar talsverða vanþekkingu á Netinu og umræðunni þar með þessum orðum. Umræðan nú er alls ekki fátæklegri en áður. Hjá fjölmiðlunum er það orðinn hluti af því sem þeir þurfa að sinna að fylgjast með Netinu. Öfgafólkið þar málar sig fljótlega út í horn og fáir nenna að fylgjast með skrifum þess.

Þó ýmislegt sé hægt að gúgla er ekki þar með sagt að margir taki mark á öllu sem skrifað er á Netið. Það er fáránlegt að halda því fram að Netið geri umræðuna fátæklegri og að málefnalegri umræðu hafi verið útrýmt. Sannleikurinn er sá að Netið hefur valdið raunverulegri byltingu. Nú er fólk ekki lengur eingöngu uppá stjórnvöld og fjölmiðla komið heldur hefur Netið bæst við og þar getur fólk haft sína hentisemi með fréttaöflun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sé ekki betur en að Tryggvi Þór hafi hárrétt fyrir sér í umfjöllun sinni. Nafnlausa blogghyskið sem ríður húsum á netinu er sjálfu sér til skammar og kemur óorði á netfrelsið. Að sama skapi eru tilteknir atvinnubloggarar, sem hafa um sig náhirð nafnlausra neteiturbyrlara, auðvitað kóngar í drafinu.

Það er að mínu mati löngu tímabært að íslenskir netverjar setji sér siðareglur í skrifum á netinu; Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Íslenskar bloggveitur (mbl.is; visir.is; eyjan.is o.fl.) ættu að tryggja að menn sýndu sóma sinn í að skrifa undir fullu nafni. Það er kallað eftir siðbót í íslensku þjóðfélagi eftir spillingu og sukk síðustu ára. Ég kalla eftir samsvarandi siðbót í bloggheimum.

Hilmar Hafsteinsson 3.5.2009 kl. 09:37

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hilmar, ég er bara algerlega ósammála þér. Það sem áður var í skúmaskotum er nú aðgengilegt öllum. Það er öll breytingin. Bloggveitur hafa siðareglur og fylgja þeim. Nafnleysi er í sumum tilfellum nauðsynlegt en er kannski ofnotað. Hver á að skilgreina hverjir ganga of langt? Þeir sem rufu siðferðið í fjármálaheiminum hafa valdið fjölda fólks miklu tjóni. Bloggarar og netverjar yfirleitt eru mun saklausari. Sumir þeirra ganga kannski nokkuð langt en það er alltaf hægt að sniðganga þá.

Sæmundur Bjarnason, 3.5.2009 kl. 10:30

3 identicon

"Íslenskar bloggveitur (mbl.is; visir.is; eyjan.is o.fl.) ættu að tryggja að menn sýndu sóma sinn í að skrifa undir fullu nafni".

Í athugasemda dálka fjölmargra erlendra fjölmiðla, skrifar fjöldinn allur af fólki.  Og EKKI undir FULLU NAFNI.  Það finnst mér ófært að fólk VERÐI að skrifa undir FULLU NAFNI ef það kýs af e-m ástæðum að gera það ekki.  

Guðmundur 3.5.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Hvort er mikilvægara; Hvað er sagt eða hver segir það? Íslendingar spyrja oftast hver, en ekki hvað.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.5.2009 kl. 10:58

5 identicon

Já, það sem er skrifað skiptir öllu máli.  Ekki nafn manns.   Það er of mikið af fólki í landinu sem heldur að það ætti að skylda fólk til að opinbera endilega fullt nafn og kallar hina oft nafnleysingja.  Sem er dónaskapur og fyrir neðan allar hellur.  Næst vill  það sama fólk líkl. vita hverjir foreldrar okkar og makar eru og hvað þeir lærðu og unnu við.  Og hvað við erum gömul.  Og kt. okkar?!  Og, og, og.

EE elle

. 3.5.2009 kl. 13:57

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

algerlega sammála þér frændi, bloggið og netið í heild sinni hefur breikkað umræðuna og skítkastið dæmir sig sjálft. það var einnig til fyrir tíma netsins og ekkert þægilegra að vera milli tanna á fólki sem hvíslar en þeirra sem tala upphátt nafnlaust - en það sem mestu skiptir núna er að hin opinbera umræða er almennari. ég ætla samt aldrei að mæla því bót að nafnlausir bloggarar stundi skítkast ekki frekar en hinir sem koma fram undir nafni en ég get tekið undir með ee-elle og Svani að nafnleysingjar eiga alveg rétt á sér. hvað eru staksteinar moggans annað en nafnleysingi!

Bjarni Harðarson, 3.5.2009 kl. 20:28

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Guðmundur, Svanur, elle og Bjarni, ég sé að þið eruð sammála mér að nafnleysi á oft rétt á sér þó hægt sé að misnota það eins og margt annað. Þó bloggveitur leyfi nafnleysi er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að nálgast nöfnin ef þörf krefur en það á alls ekki að vera sjálfsagt mál að allir viti allt um alla.

Sæmundur Bjarnason, 3.5.2009 kl. 21:16

8 identicon

Það er nóg að horfa á augu Tryggva Þórs Herbertssonar,auðvelt að sjá hvern mann hann hefir að geyma.Þessi fyrrum aðstoðarmaður Geirs Haarde í peningamálum þjóðarinnar er ekki allur þar sem hann er séður.Ég Þori ekki að skrifa undir nafni,Tryggvi er í Elítuni.

Númi 3.5.2009 kl. 21:43

9 identicon

 Númi, ég skil þig vel að þora ekki að skrifa undir nafni.  Það er akkúrat oft þess vegna sem fólk skrifar ekki undir nafni: Það þorir það ekki þó það þurfi að koma vissum skoðunum á framfæri. 

EE elle

. 3.5.2009 kl. 21:55

10 Smámynd: Steinn Hafliðason

Ég er ekkert viss um að umræðan sem slík hafi breyst mikið. Miklu frekar að hún er nú sýnileg öllum. Umræðan á netinu er líklega svipuð þeirri sem fer fram á kaffistofunni.

Steinn Hafliðason, 3.5.2009 kl. 22:22

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, einmitt. Kaffistofuskvaldrið hefur breiðst útum allt. Nafnleysingjunum svokölluðu til varnar viðurkenni ég alveg að það er ómögulegt að vita hvenær einhver ummæli geta komið í bakið á manni.

Sæmundur Bjarnason, 3.5.2009 kl. 22:50

12 identicon

Ég skýtst hér inn nafnlaus bara til að segja að mér finnst Tryggvi þessi ekki sviphreinn. "Leiðinlegt fyrir hann" að frétta þetta, því hann getur sennilega ekki breytt sér.

nafnleysingi 3.5.2009 kl. 22:59

13 Smámynd: Eygló

Að Tryggvi eða einhver annar sé þannig til augnanna að "auðvelt (sé) að sjá hvern mann hann hefir að geyma" sýnist mér vera hreinræktaðir FORdómar.  Ég þekki manninn ekki og finnst hann heldur óheppinn með andlitið á sér. Fæ ekki séð að það geri hann sjálfkrafa að einhverjum glæpon.

Nafnlaus blogg, - ég skrifaði í heilt ár undir "dulnefni" en fann enga þörf fyrir að vera ókurteis eða rætin. Kannski einhvern tíma klaufsk í framsetningu en er það þá líka ennþá.

Mig langaði stundum að skrifa um ættingja og/eða vini en fannst ég ekki hafa leyfi til að tala um þá (undir mínu nafni) því þá væri ÉG búin að opinbera fólk sem ég hafði ekki fengið neitt leyfi til að "opinbera". Mig langaði líka að segja nokkur vel valin orð um fyrri vinnustað (vann í Kþ í 10 ár)

Dónalegir drulluhalar eru og verða það, sama undir hvað nafni eða nafnleysi þeir ganga. Og eins og þið sögðuð, hrekjast þeir út í skammarkrók og enginn nennir að lesa ófögnuðinn; þeir dæma sig sjálfir.

Eygló, 4.5.2009 kl. 04:25

14 identicon

Númi, ég skildi það að þú kæmir ekki fram undir nafni, og studdi það að ofan. Hinsvegar hafði ég ekki áttað mig á hvað þú varst að segja um Tryggva Þór að ofan.  Það finnst mér alveg ófært að ætla að dæma fólk svona ranglega.  Og með þessu eyðileggur þú málstað þeirra sem skrifa ekki undir nafni.  Sæmundur fær enga skammir þó hann eyði ljóta ´commentinu´þínu.  Og fyrir utan það kann ég ekki illa við Tryggva Þór Herbertsson.

EE elle

. 4.5.2009 kl. 17:29

15 identicon

Og enn verra að dæma mann svona illa og ranglega í opinberum miðli.

EE elle

. 4.5.2009 kl. 17:33

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst ég ekki þurfa að eyða neinu. Hafi einhver gengið of langt hérna þá er það ekki mitt að bæta úr því. Ég gagnrýndi Tryggva fyrir ummæli sín um Internetið en meinti það alls ekki persónulega.

Sæmundur Bjarnason, 4.5.2009 kl. 20:02

17 identicon

Nei, Sæmundur, ég kenni þér ekki um.  Og ert ekkert skyldugur að gera neitt.

EE elle

. 4.5.2009 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband