Bloggvinur minn Sigurður Hreiðar segir á sínu bloggi:
Út af fyrir sig gaman að verða þess áskynja hvaða viðbrögð það vekur sem maður fjallar um í svona bloggi, þó ekki komi það allt fram í athugasemdum heldur allt eins þegar maður hittir mann/menn (og minnumst þess að konur er menn) og í tölvupósti. Þannig hefur sumum hitnað í hamsi yfir bloggi mínu hér á undan og talið mig talsmann þess að óbótamenn sleppi óbarðir. Hið rétta er að ég hef ekki á móti því að þeir séu sakfelldir sem sök eiga, en stórefast um að refsingar út af fyrir sig séu mannbætandi og ekki verður tap mitt af efnahagshruninu minna þó einhverjum verði um síðir stungið í fangelsi sem vegna hrunsins.
Það er alveg rétt sem hann segir í fyrri hluta þessarar klausu en hann minnist þó ekki á þann hópinn sem líklega er fjölmennastur og það eru þeir sem ekkert heyrist frá. Það er nauðsynlegt að skrifa líka með tilliti til þeirra. Einkum ef maður er forsíðubloggari eins og við Sigurður erum báðir.
Eins og álfur út úr hól sagði Davíð um Jóhönnu Sigurðar. Svanur Gísli Þorkelsson gerir þessi orð að umtalsefni á bloggi sínu og leiðir rök að því að þetta hafi verið háð og spé með skírskotun til kynhneigðar (álfur = fairy).
Kannski er þetta rétt hjá honum og kannski ekki. Áhorfendur hafa samt áreiðanlega ekki skilið það þannig. Ég vil heldur vera undir stjórn álfs útúr hól en trölls úr Svörtuloftum og skammast mín ekkert fyrir það. Margir hafa hrósað mikið ræðunni Davíðs. Ég get það ekki. Til þess var hún of rætin og illskeytt. Vel var hún samt flutt og áhrifamikil. Eiginlega er hún það sem uppúr stendur frá þessum vandræðalegu landsþingum sem haldin hafa verið að undanförnu.
Þetta er eitthvað sem ég vildi gjarnan koma að núna. Hér fyrir aftan er ekki annað en endursagðar þjóðsögur svo þeir sem ekki hafa áhuga á þeim geta hætt hér.
Margir kannast við þjóðsöguna um dansinn í Hruna. Það sem gerst hefur hér á Íslandi að undanförnu minnir um sumt á þá frásögn. Mig langar að rifja upp helstu atriði sögunnar í stuttu máli.
Prestur einn í Hruna í Árnessýslu var mjög gefinn fyrir skemmtanir. Á jólanótt var það siður hans að halda dansskemmtun í kirkjunni og messa síðan að henni lokinni. Móðir prestsins sem Una hét kunni þessu illa og vildi fá hann til að hætta þessu.
Eitt sinn varð dansskemmtunin í lengra lagi og fór Una þá út í kirkju og vildi fá son sinn til að hætta. Hann sagði að hann mundi gera það fljótlega en ekki alveg strax.
Þegar Una er á leið út úr kirkjunni heyrir hún kveðið:
Hátt lætur í Hruna;
hirðar þangað bruna;
svo skal dansinn duna,
að drengir megi muna.
Enn er hún Una,
og enn er hún Una.
Þegar Una kemur útúr kirkjunni mætir hún manni sem hún telur vera djöfulinn sjálfan. Ríður hún þá í næstu sókn og sækir prestinn þar sér til fulltingis. Hann fer með henni að Hruna ásamt öðrum mönnum. Þegar þangað kemur er kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyra ýlfur og gaul niðri í jörðinni.
Enn sjást merki um að kirkjan hafi einhverju sinni staðið uppá Hrunanum sem er hæð nokkur við bæinn.
Eftir þetta var kirkjan flutt niður fyrir Hrunann þangað sem hún er nú og sagt er að ekki hafi síðan verið dansað á jólanótt í Hrunakirkju.
Argasta kotið í Helgafellssveit heitir í Botni. Þar bjó Árni í Botni.
Eitt sinn hélt hann suður á land. Þar kom hann að prestsetri og gisti þar. Fyrsta morguninn gáði hann til veðurs og tautaði við sjálfan sig:
Skyldu bátar mínir róa í dag?"
Þrjá morgna í röð gerði hann svipað. Skyggndist til veðurs og tautaði við sjálfan sig eitthvað um báta sína.
Presturinn og dóttir hans gjafvaxta heyrðu þetta og héldu að hann væri stórhöfðingi af Vesturlandi. Árni nýtti tækifærið og bað um hönd prestsdóttur. Fékk hann hennar.
Fara nú Árni og brúður hans heimleiðis. Ævinlega þegar riðið var framhjá stórbýli þýfgaði prestsdóttir Árna um hvort þarna væri bærinn hans.
Og ekki enn," sagði Árni.
Loks komu þau í myrkri að koti einu og þar fór Árni af baki. Kallaði á kerlu mömmu sína og bað hana að kveikja á gull-lampanun. Ekki gat hún það. Silfur-lampanum þá, sagði Árni. Ekki gekk það.
Kveiktu þá á helvískri kolskörunni," sagði hann þá.
Það skal ég gera," sagði kerling og hljóp til og kveikti.
Um Árna í Botni var kveðið:
Árni í Botni allur rotni,
ekki er dyggðin fín;
þjófabæli, það er hans hæli,
þar sem aldrei sólin skín.
Athugasemdir
Sæmundur, þú veist hvar Árnabotn er, er það ekki? Hann var innst í Hraunsfirði og er þekkt örnefni þarna vestra.
ellismellur 31.3.2009 kl. 15:46
Jú, mig rámar í þennan Botn sem þú talar um. Í minningunni held ég samt að mér hafi lengst af fundist þetta vera í Botnsdal í Hvalfirði sem er auðvitað tóm vitleysa.
Sæmundur Bjarnason, 31.3.2009 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.