602. - Ef þú ert tryggður þá færðu það bætt

Þetta er ein af þeim setningum sem dynja á okkur daginn út og inn. Mér finnst minn eigin útúrsnúningur á svona löguðu oftast betri en það sem auglýsandinn virðist ætlast til.

Ef ég á að gagnrýna sérstaklega þessa setningu þá er fyrst til að taka að hún er í karlkyni en lítill vandi hefði verið að hafa hana í hlutlausu kyni. Kvenfólki gremst trúlega svona.

Minn einka útúrsnúningur er sá að það sé óþarfi að bæta þeim það sérstaklega sem eru svo vitlausir að tryggja hjá tryggingarfélagi sem tímir ekki að vanda texta í auglýsingum.

Pósturinn allur pakkinn er setning sem ég sný líka gjarnan útúr með sjálfum mér og segi sem svo að það sé óþarfi að miklast af því að skila í heilu lagi pökkum sem póstinum er trúað fyrir.

Las og skoðaði nýlega tvær mjög áhugaverðar bækur.

Páls saga - Gefin út 2008 af bókaútgáfunni Veröld.
Þetta eru tvær bækur. Gangvirkið og Seiður og Hélog eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Þriðju bókina í trílógíunni hef ég ekki lesið. Hún heitir víst Drekar og smáfuglar.

Sagan fjallar um ævi blaðamannsins Páls Jónssonar og er einnig afburðagóð aldarfarslýsing. Ég hef ekki lesið margt eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson en þessi bók er frábærlega góð. Mér finnst þessi bók ásamt með Sjálfstæðu fólki Kiljans og bókinni Í verum eftir Theodór Friðriksson móta mjög hugmyndir mínar um Ísland á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Seinni hlutann hef ég að lifað sjálfur og hef miklu fleira við að styðjast en um fyrri hlutann.

Frásögnin í bókinni er afar grípandi þó einföld sé. Aldarfarslýsingin er þannig að það er eins og höfundur leggi enga áherslu á hana en samt er hún snilldarleg. Mér finnst lýsingarnar á ævi sögumannsins minna svolítið á Þórberg Þórðarson og Sult Hamsuns en þó eru engar krúsidúllur þarna. Einfaldleikinn ræður og það er erfitt að hætta að lesa.

Hin bókin sem mig langar að skrifa nokkur orð um heitir Minnisstæðar myndir. Íslandssaga áranna 1901 - 1980 í ljósmyndum. Inga Lára Baldvinsdóttir valdi myndirnar og Sigurður Hjartarson tók saman annál. Mál og menning 1990.

Þarna er saman komið ágætt úrval mynda frá fyrri hluta aldarinnar sem leið. Margar þeirra segja mikla sögu og víst er að mörg frásögnin verður mun eftirminnilegri með viðeigandi myndskreytingu. Myndirnar segja einkum frá minnistæðum tíðindum aldarinnar og eru ágætar sem slíkar. Myndirnar eru þarna í aðalhlutverki en annállinn einkum til að minna á hvað markvert gerðist á hverjum tíma. Ég las hann ekki svo gjörla en skoðaði allar myndirnar.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi auglýsing um að fá tjónið bætt þar sem er flautað fer svo í taugarnar á mér, sem sagt flautið, að það er bara ekki eðlilegt.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.2.2009 kl. 17:37

2 identicon

Og útúrsnúningur er líka í karlkyni. Hann útúrsnúningurinn.  En þið vissuð það.

EE elle 

EE 13.2.2009 kl. 18:56

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Maður er sérstaklega tryggður, ef maður er verðtryggður.

Marinó G. Njálsson, 13.2.2009 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband