571. - Slæmt málfar er alltof algengt í íslenskum fjölmiðlum

"Fjöldi fólks er nú illa statt" sagði Sigmundur Ernir í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Öllum getur misskátlast sagði kerlingin forðum og allir eiga leiðréttingu orða sinna. Þarna tel ég að það sé fjöldinn sem ræður kyninu en ekki fólkið. Rétt væri setningin þá svona: "Fjöldi fólks er nú illa staddur".

Auðvelt er að breyta orðalagi ef fólk er í vafa. Gera verður afdráttarlausar og miklar kröfur til helstu fjölmiðla þjóðarinnar. Stöð 2 er ekkert mbl.is þar sem óvaningar fá að æfa sig og gera mikið af vitleysum.

Í færslu minni í gær var vitnað til samsláttar á máltækjum hjá sálfræðingi í Silfrinu á sunnudaginn var. Í framhaldi af því urðu nokkrar umræður í kommentakerfinu sem benda má þeim á sem kunna að meta fyndnar afbakanir.

Í færslunni í gær skrifaði ég líka svolítið um skák en vísaði um nánari umfjöllun á Hrannar Baldursson. Kommentaði líka hjá Hrannari eða ætlaði að gera það. Kommentið fór svo frá mér öðruvísi en ég ætlaði en mér fannst það svo gott að ég ákvað að segja ekki meira.

Hvað er það sem Bush Bandaríkjaforseti sér mest eftir úr forsetatíð sinni? Jú, því að hafa lýst of fljótt yfir sigri í stríðinu við Íraka. Mikið væri veröldin öðruvísi ef meirihluti fólks áliti þetta hans verstu mistök. Áberandi er hve góðar óskir fylgja nýjum Bandaríkjaforseta hvarvetna að úr heiminum.

Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að íslensk stjórnvöld hafa staðið sig mjög illa í snjómokstrinum eftir bankahrunið. Ingibjörg Sólrún hefur lýst því fjálglega hve mikið hún hefur lagt sig fram við moksturinn. Betra hefði verið að fá stórvirkari tæki strax og jafnvel væri réttast að leita núna út fyrir landsteinana þó seint sé.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er á því að athugasemd þín hjá Hrannari sé einhver sú albezta sem ég hef enn séð á aumu 'móblóinu', enda gerði ég ekki neina undantekníngu frá öngvri reglu & lýsti mig þegar í stað alveg sammála því.

Steingrímur Helgason, 14.1.2009 kl. 00:24

2 Smámynd: Eygló

Takk fyrir málfarsspjallið. Áhugamál mitt númer eitt. Ég óttast að það verði íslenska tungan (eða hrakfarir hennar) sem sníði af okkur þjóðernið (ekki síður en hugsanleg innganga í EB)

Eygló, 14.1.2009 kl. 00:36

3 identicon

Já, ég verð að segja að þetta var nú hálfgerð ritræpa hjá þér þarna í kommentinu hjá Hrannari!

En djúphugsað að vanda.

Malína 14.1.2009 kl. 04:55

4 identicon

Fjöldi fólks er illa statt.

Orðið fjöldi er eignarfallseinkunn og stendur með frumlaginu fólks.

Þetta er auðvelt að sjá með því að fara einfaldlega með setninguna svona:

Fólk er illa statt. (Hafa ber í huga að orðið fólk er hvorugkynsorð)

Guðni Björgólfsson 14.1.2009 kl. 11:46

5 Smámynd: Helgi Már Barðason

Í Silfri Egils sagði ágætur sérfræðingur að kreppan hefði komið eins og þjófur úr heiðskíru lofti. Og ég sem hélt að hún hefði skollið á eins og þruma á nóttu.

Helgi Már Barðason, 14.1.2009 kl. 11:58

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi sérfræðingur hefur reyndar starfað svo lengi erlendis að það er farið að heyrast á mæli hans svo honum er kannski vorkunn.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.1.2009 kl. 12:31

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka kommentin. 

Guðni: Ég hef alltaf verið illa að mér í setningafræði og kann ekki að lýsa því sem ég meina með málfræðiheitum eingöngu. Skil heldur ekki almennilega hvort þú ert að lýsa yfir stuðningi við að hafa setninguna eins og ég vil hafa hana eða Simmi.

Sigurður Þór: Mér finnst í þessu tilfelli lítil afsökun að hafa verið lengi erlendis.

Steingrímur: Móbló er sennilega Moggabloggið. Gallinn við afbakanir og styttingar er að aldrei er hægt að vita hverjir skilja þær. Það sama á nú reyndar við um öll skrif.

Sæmundur Bjarnason, 14.1.2009 kl. 14:06

8 identicon

"Fjöldi fólks er illa statt.

Orðið fjöldi er eignarfallseinkunn og stendur með frumlaginu fólks.

Þetta er auðvelt að sjá með því að fara einfaldlega með setninguna svona:

Fólk er illa statt. (Hafa ber í huga að orðið fólk er hvorugkynsorð)"

Þessi skilgreining Guðna er röng. Það er fjöldinn sem er illa staddur og því er setninginn rétt eins og Sæmundur bendir á. 

Eitt sinn gerði ég athugasemd við þann þýska sið sem er að ná fótfestu hér á landi sum sé þann að skrifa nafnorð með stórum staf og fékk ægilega bágt fyrir. Það vantar "málfarslöggu" eða eru menn orðnir svo ofurseldir útlendum rithætti og öðrum áhrifum útlenskum að þeir eru að týna niður íslensku málfari og málvenjum

          Fyrrverandi málfræðikennari.

101 15.1.2009 kl. 01:04

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir það. Varðandi stóra stafi þá hef ég oft staðið í stöggli með að hafa ekki stóra stafi í mánaðaheitum. Það er alsiða núorðið finnst mér. (Ensk áhrif)

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 02:13

10 identicon

Fyrrum málfræðikennari hefur rangt fyrir sér. Hann gefur sér forsendur sem ekki eru fyrir hendi.

Ekki þýðir að breyta merkingu setningar! -

"Fjöldi fólks er illa statt."

Orðið fjöldi er áhersluorð, nánar tiltekið einkunn (ekki eignarfallseinkunn eins og

misritaðist hjá mér í gær)

Orðið fólk er frumlag í setningunni. Orðið er einungis til í eintölu.

Fólk er illa statt! Þannig er þessi setning rétt.

Guðni Björgólfsson 15.1.2009 kl. 11:23

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er ekki sannfærður. Kannski blogga ég um þetta aftur. Þessar umræður eru komnar svo djúpt í kommentahafið. Mér finnst þetta skipta máli.

Sæmundur Bjarnason, 15.1.2009 kl. 14:01

12 identicon

Talandi um málfræði, er þá ekki lágmark að kunna notkun gæsalappa?

„Þetta er innan gæsalappa“.

"Þetta er innan einhvers annars en gæsalappa".

Nonni 16.1.2009 kl. 04:47

13 Smámynd: Eygló

Hreint frábært, þótt ekki séu allir sammála, að fjalla um, ræða og rökræða um mál og málnotkun.

Stundum er heldur ekki allt klippt og skorið varðandi ísl. málfræði og málfar. Það veldur mér minni áhyggjum en t.d. að eignarfall og viðtengingarháttur séu í dauðateygjunum.

Eygló, 17.1.2009 kl. 03:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband