568. - Hvurslags er þetta? Einu sinni enn er bloggað um blogg.

Fólk sérhæfir sig. Líka í bloggi. Sumir skrifa aðallega um bankahrunið. Sumir um stjórnmál almennt (oftst nær þó um of bundnir á flokksklafa). Sumir um fréttir. Sumir skrifa oft. Aðrir sjaldan. Sumir krækja í fréttir á mbl.is (já, ég er aðallega að tala um Moggabloggara) og aðrir ekki. Sumir vilja fræða. Sumir skrifa einkum fyrir fjölskyldu og ættingja. Sumir um trúmál, aðrir um veður og svo blanda margir þessu saman með ýmsu móti. Sumir eru forsíðubloggarar og aðrir ekki. 

Fáir skrifa um blogg almennt. Það er galli. Fjölmiðlar og blogg eru afar áhugavert efni. Það eru svo margir miklu betur að sér en ég um fjármálakima hverskonar að ekki sé talað um stjórnmál og Evrópumál að mitt ljós skín ekki skært þar. Fríðrik Þór og fleiri skrifa oft af mikilli þekkingu um fjölmiðla. Salvör er með fróðustu mönnum um blogg.

Blogg og athugasemdir við það eru að breyta stjórnmálalandslaginu hér. Vald hinna hefðbundnu fjölmiðla yfir hugum fólks er að minnka. Hlutverk þeirra er að matreiða fréttir. Ekki fyrst og fremst að segja frá þeim. Bloggarar eru að því leyti líkir fjölmiðlum að þeir reyna oftast líka að matreiða fréttirnar. Eru bara svo margir og lesendur vinsa miskunnarlaust úr.

Héðan í frá mun ég blogga sjaldnar en verið hefur og reyna að stytta bloggin. Það er nokkurs virði að komast öðru hvoru í hóp þeirra átta sem sem birtast á forsíðu blog.is. Ætlaði að mæta á Austurvelli í dag en komst ekki. Styð þó Hörð Torfasom án þess að skammast mín nokkuð fyrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Dúndurgóð færsla hjá þér, og hárrétt. Spurning um að fólk bloggi um það sem það hefur virkilega áhuga á, eins og til dæmis blogginu sjálfu.

Af hverju ætlarðu að blogga sjaldnar?

Mér finnst þú þægileg nærvera í bloggheimum, þar sem að þú kemur víða við og virðist bestur í því að tengja hin ólíkustu blogg saman og skoða samhengið í þeim frá þínu sjónarhorni.

Hrannar Baldursson, 11.1.2009 kl. 11:11

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eg tek undir hvert einasta orð Hrannars. Áfram Sæmi! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.1.2009 kl. 11:27

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er víða bloggað vel en á Moggablogginu. Þar er ekkert besta bloggið nema síður sé. Þú getur séð þetta ef þú skráir þig á Blogg-gáttina ef þú ert ekki þegar búinn að því. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.1.2009 kl. 12:34

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka hrósið.

Sjaldnar? Veit ekki. Kannski finnst mér ég vera að eltast við vinsældir ef ég blogga mjög oft.

Sigurður: Já, ég veit að það eru fleiri. Líklega er ég ekki skráður á blogg-gáttina. Veit samt af henni.  Þegar ég ráfa stefnulítið um bloggheima er ég mest á Moggablogginu.

Sæmundur Bjarnason, 11.1.2009 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband