487. - Á að stefna á eina níðvísu á nef hvert eins og forðum?

Svo segir í Heimskringlu:
"Það var í lögum haft á Íslandi að yrkja skyldi um Danakonung níðvísu fyrir nef hvert er á var landinu en sú var sök til að skip það er íslenskir menn áttu braut í Danmörk en Danir tóku upp fé allt og kölluðu vogrek og réð fyrir bryti konungs er Birgir hét. Var níð ort um þá báða."

Þetta var upphaf hins íslenska skjaldarmerkis. Haraldur Gormsson danakonungur bað fjölkunnugan mann að fara til Íslands og hefna níðvísnanna. Fór hann í hvalslíki en þá komu landvættirnir við sögu og vörnuðu honum landtöku.

Já, já. Menn eru reiðir. Og reiðin beinist ekki síst að Gordon Brown og jafnvel líka að bresku þjóðinni allri. Í dag hafa gengið ýmis skjöl manna milli. Meðal annars tvær vísur sem sýna þetta. Af því þetta er vísnaþáttur ætla ég að láta þær fljóta með:

Hlakka ég til að bregða Brown
svo brók hann væti
og finna hann í fjöru í Down-
ing-fokking-stræti.
Þingið gránar - þokuskán
þræðir ána, up and down.
Læðist clown um Londontown,
líkist smánin Gordon Brown.

Auðvitað er það ansi mikill biti fyrir eina þjóð þegar allir stærstu bankarnir fara á hausinn samtímis. Eða eru látnir fara á hausinn. Ég hef samt mestan áhuga á að vita hvað gera megi ráð fyrir að þetta allt saman setji okkur mörg ár til baka í lífskjörum. Ég er svo bjartsýnn að ég geri ekki ráð fyrir mjög mörgum. Ég hef núorðið líka svo takmarkað sjálfstraust að ég geri tæpast ráð fyrir að mín ráð í þessu efni muni skipta sköpum. Þessvegna ætla ég sem minnst að reyna að ráða framúr kreppunni á mínu bloggi. Þeir sem ákveðnir eru í að yfirgefa landið gera það. Líklega mun ég samt ekki fara.

Í blogginu mun ég reyna að halda mig við annað en kreppuna. Af mörgu er að taka. Ég gæti reynt við lausavísur. Af þeim kann ég mikið og svo er hægt að finna hér og þar einhver ósköp. Málið er að velja bara þær bestu og vona að öðrum líki það val bærilega.

Sumum kann að koma það á óvart en stórskáld eins og Einar Benediktsson lagði sig niður við að yrkja ferskeytlur. Hér eru nokkur dæmi um það:

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta til skaða mín njóta
um hæðir ég þýt um hálsa ég renn,
til höfða ég stíg, en er bundinn til fóta.

Þarna er Einar að yrkja um orðið bjór. Þetta er nú eiginlega bara venjuleg gátuvísa en ágætlega gerð. Margir kannast eflaust við vísuna en hún er ekkert verri fyrir það.

Hringalind er hjá' onum.
Hann af girnd er brenndur.
Meyjaryndið á'onum
eins og tindur stendur.

Þetta er nú hálfgerð klámvísa og varla samboðin stórskáldi eins og Einari. Þetta er þó hringhenda enda yrkir Einar helst ekki ódýrari ferskeytlur.

Gengi er valt, þá fé er falt
fagna skalt í hljóði.
Hitt kom alltaf hundraðfalt
sem hjartað galt úr sjóði.

Þessi er aftur mun betri og á eiginlega ágætlega við núna á þessum síðustu og verstu tímum. Þetta sýnist mér vera oddhenda og ekki er sú næsta ódýrari.

Láttu smátt en hyggðu hátt
heilsa kátt ef áttu bágt,
leik ei grátt við minni mátt
mæltu fátt og hlæðu lágt.

Þessi finnst mér alveg stórfín og nú held ég að ég muni ekki fleiri vísur eftir Einar Benediktsson í bili.

Ég man vel eftir Kristjáni frá Djúpalæk þegar hann átti heima í Hveragerði. Þar vann hann allskyns verkamannavinnu en sérhæfði sig þó í mála hús að utan og var hraðvirkur og vandvirkur við það.

Þegar Kristján flutti til Akureyrar var einn bílstjóri sem ók flutningabíl frá Stefni sífellt að ámálga það við hann að yrkja vísu um bílastöðina. Kristjáni leiddist þófið og reyndi lengi að koma sér hjá þessu. Á endanum lét hann þó tilleiðast og kom með þessa vísu:

Vörubílastöðin Stefnir
stendur polli hjá.
Ökufantar illa gefnir
aka henni frá.

Sagt er að hann hafi ekki verið beðinn um að yrkja fleiri vísur um þetta fyrirtæki.

Hér koma tvær gátuvísur. Í þeirri fyrri er verið að yrkja um Seljalandsfoss en í þeirri síðari um svipu.

Að kom ég þar elfan hörð
á var hlaupum fljótum.
Undir vatni en ofan á jörð,
arka ég þurrum fótum.

Ég er ei nema skaft og skott,
skrautlega búin stundum.
Engri skepnu geri gott
en geng í lið með hundum.

Og ein lítil braghenda sem ég veit engin deili á.

Dúsu sýgur, drullar og mígur undir.
Þykir snótum þráskælinn.
Þú ert ljótur nafni minn.

Og úr því að farið er að tala um braghendur þá koma mér skyndilega í hug tvær fremur blautlegar. Sagt er að Bólu-Hjálmar hafi gert þá fyrri:

Hér er fjós og hér er ljósið inni.
Mjaltadrósir munu þar
með lókadósir gulrauðar

Þá á Vatnsenda-Rósa að hafa svarað:

Orðsnillingur og hans glingur líka.
Á sinn fingur fallegan
færir hringinn gulrauðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er aldeilis bráðskemmtileg færsla! Bestu þakkir. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.10.2008 kl. 00:31

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Dúsu sýgur... Finnst eins og hún sé að norðan og ég eigi að vita meira. Læt þig vita ef ég gref eitthvað upp. Kveðja

Eyþór Árnason, 23.10.2008 kl. 23:11

3 Smámynd: Eyþór Árnason

Dúsu sýgur... Staðfesti hér með að vísan er ættuð úr minni sveit! Höfundurinn hét Jón.

Eyþór Árnason, 25.10.2008 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband