481. - Um vaxtaprósentur og vídeókerfið í Borgarnesi

Okrari af gamla skólanum gerði sig sekan um þá ósvinnu að heimta 9 prósent vexti af viðskiptavinum sínum í stað þeirra sex sem vaninn var að fara fram á. Auk annars var hann svo forstokkaður að hann lét þessa nýju vaxtaprósentu sjást á pappírum hjá sér í stað þess að fela hana með málskrúði og brellum. Þegar hann var spurður hvernig í ósköpunum hann þyrði að gera þetta sem bæði væri með öllu ólöglegt og þar að auki ekki Guði þóknanlegt svaraði hann:

„Sko. Ég var eiginlega að vona að þegar Guð horfði á þetta ofan af himnum þá mundi honum kannski sýnast þetta vera 6 en ekki 9."

Á árunum 1978 til 1986 starfaði ég í Borgarnesi. Á þeim árum kynntist ég tölvum fyrst. Um mann vissi ég sem keypti sér Pet-tölvu en fékk engan hugbúnað með henni og gat lítið notað hana. Um þetta leyti fóru svokallaðar heimilistölvur að koma á markaðinn.

Nokkru eftir 1980 tók vídeóbyltingin svokallaða þjóðina heljartökum. Ég bjó þá í blokk sem stóð við Hrafnaklett. Þangað var keypt vídeótæki af AKAI gerð og notað til að sýna kvikmyndir samtímis í öllum íbúðum annars stigagangsins í blokkinni. Fljótlega æxlaðist svo til að ég tók við rekstri vídeókerfisins. Líklega mest vegna þess að ég var frekari en aðrir. Mér fannst satt að segja að ég væri best til þess fallinn að gera þetta og aðrir hreyfðu ekki andmælum.

Húsfélagið að Hrafnakletti 6 þar sem vídeótækið var varð fljótlega öfundað af öðrum íbúum Borgarness. Fljótlega þandist kerfið út og náði innan skamms í stigaganginn við hliðina og niður í Höfðaholt. Siðan kom að því að lagður var afleggjari niður í Sandvík og einnig Klettavík. Seinna meir áfram upp á Dílahæð, í Þórðargötu og áfram niður í Kveldúlfsgötu og Kjartansgötu.

Til að kynna fyrirfram dagskrána var fengin tölva af gerðinni Sinclair ZX 81 sem fékkst hjá Heimilistækjum í Sætúni en það fyrirtæki sá um lagningu videokerfisins fyrir okkur og tæknibúnað fyrir það. Þessi tölva var mikið þing og kostaði tólfhundruð og eitthvað krónur sem var auðvitað tombóluverð jafnvel þó krónan hafi verið verðmeiri þá en nú.

Skjár fylgdi þessari tölvu ekki og ekki alvöru lyklaborð. Þó var mesta furða hvað hægt var að láta hana gera. Hún skildi einhvers konar einfaldaða útgáfu af BASIC og hægt var að tengja hana við sjónvarpsskjá. Geyma mátti forrit fyrir hana á venjulegum segulbandskassettum og hlaða inn á hana af þeim.

Þetta var fyrir daga Stöðvar 2 og að minnsta kosti niðri í Sandvík hafði það löngum verið vandamál að ná sendingum frá ríkissjónvarpinu. Með kapalkerfinu fengu Sandvíkingar þannig góða mynd frá ríkisapparatinu auk annars.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband