433. - Beinar sjónvarpsútsendingar RUV á Netinu eru til skammar

Undanfarin misseri hef ég vinnu minnar vegna talsvert fylgst með fréttum og öðrum beinum útsendingum í sjónvarpi gegnum Netið. Kannski eru þeir ekkert margir sem það gera en þó býst ég við að til dæmis Íslendingar erlendis eigi ekki margra annarra kosta völ. Það er skiljanlegt að erfitt geti verið vegna réttindamála að senda út á Netinu alla dagskrána. Fréttir, auglýsingar og fréttatengt efni ætti þó að vera hægt að setja þangað skammlaust. 

Útsendingar RUV á Netinu eru þó greinilega og hafa alla tíð verið algjört aukaatriði hjá þeim sem einhverju ráða hjá þessari stofnun. Útsendingar eru rofnar fyrirvaralaust og engar skýringar gefnar. Helst er hægt að ímynda sér að klukkur ráði þarna meiru en fólk. Ef dagskrá tefst eða eitthvað kemur fyrir er greinilegt að það á að bitna á áhorfendum. Sumt efni virðist ekki mega fara á Netið. Að minnsta kosti er sífellt verið að kveikja og slökkva á þessum möguleika og erfitt að sjá hversvegna.

Augljóst er að þeir sem á þessar útsendingar horfa eiga bara að þakka fyrir að fá að sjá eitthvað og halda sér svo saman. Nenni ekki að tína til einstök dæmi um þetta. Mikinn fjölda væri þó auðvelt að finna. Óvenju slæmt hefur þetta verið að undanförnu og þar eiga Ólympíuleikarnir eflaust sinn þátt. En það er alveg óþarfi að sætta sig við þessa meðferð. Þeir sem horfa á útsendingar þessar eru fólk eins og aðrir.

Stefán Pálsson ofurbloggari með meiru gerir að umtalsefni á sínu bloggi hvar næstu stríðsátök verði líklega. Hann vill meina að þau verði ekki á Abkasíu-Ossetíu-Georgíu svæðinu heldur á milli Azerbadjan og Ngorno Karabak. Það kann vel að vera. Ég verð að játa að þessi nöfn flest eru hálfgerð latína fyrir mér. Man bara eftir því að Ngorno Karabak var oft í fréttum fyrir nokkrum árum eflaust vegna einhverra átaka og mér datt þá alltaf í hug ævintýrið um Stígvélaða Köttinn. Man nefnilega ekki betur en eigandi hans hafi verið greifinn af Karabak.

Ég verð að taka undir með séra Baldri. Ég óttast að greyið Obama tapi í haust. Frúin hefði hugsanlega unnið en strákurinn gerir allt á vitlausan hátt á meðan stríðshetjan er með strategíuna á hreinu. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á bandarískum stjórnmálum og satt að segja getur allt gerst þar. Sú ímynd sem bandarískt kosningakerfi hefur hjá mörgum eftir Floridaklúðrið um árið er alls ekki sanngjörn.

Mesta afrek smáþjóðar í heimssögu íþrótta sagði Ólafur Ragnar Grímsson. Þvílíkt endemis bull. Það liggur við að ég missi allt álit á Ólafi sem forseta við þetta. Þó hef ég hingað til stutt hann og kaus hann á sínum tíma. Honum er kannski vorkunn. Eflaust er ekki auðvelt að vera í hringiðu atburða og hrífast ekki með. Vissulega stóðu handboltamennirnir sig vel en það er óþarfi að missa sig.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Satt segirðu með handboltann,það er óþarfi að missa sig og var forsetinn ekki einn um það. En það er hans hluti í þessum fleðuskap sem að sumir halda að forseti eigi að flíka.Fólk með íslenskan smáþjóðarembing ætti að skoða blogg Bjarna Sæm. sem að þú bentir á fyrrum.

Yngvi Högnason, 28.8.2008 kl. 08:29

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Af því ég veit svo lítið um íþróttir -- viltu ekki vera svo vænn í næsta bloggi að upplýsa mig og aðra um hvers vegna þessi tilgreinda staðhæfing forsetans er bull?

Ég hef séð þetta staðhæft í erlendum fréttamiðlum líka. Er það einnig bull þar?

kv.

Sigurður Hreiðar, 28.8.2008 kl. 10:12

3 Smámynd: Bjarni Sæmundsson

Það sem stendur í fjölmiðlum er ekki alltaf rétt (jafnvel þó um erlenda fjölmiðla sé að ræða) og mér finnst líklegast að þeir taki þetta þá athugunurlaust upp eftir einhverjum (kannski einhverjum tengdum íslenska liðinu?).

Það er ekki auðvelt að reikna út hvert besta smáþjóða afrekið sé og fer allt eftir því hvaða forsendur menn gefa sér, en ég held að menn þurfi samt að vera ansi hlutdrægir til að fá út að þetta sé besta afrekið.  Nefni bara sem dæmi gullverðlaun Bahama í 4x100 metra boðhlaupa á ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 og afrek Hanni Wenzel frá Lichtenstein sem vann 2 gull og 1 silfur á vetrarólympúleikunum í Lake Placid 1980.

Það er stundum sagt að það sé gott að kunna að tapa, ég held að það sé ekki síður gott að kunna að vinna og þar finnst mér að íslendingar eigi margt ólært.

Bjarni Sæmundsson, 28.8.2008 kl. 12:14

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og hægt er að finna fleiri gull sem smáþjóðafólk hefur unnið á Ólympíuleikum. Svo er kannski ekki einu sinni eðlilegt að líta bara á Ólympíuleika. Bahamabúi varð heimsmeistari í hástökki s.l. vor.

Sæmundur Bjarnason, 28.8.2008 kl. 14:07

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ágæt byrjun hjá ykkur -- má ég segja feðgar? -- En betra væri að fá þetta í bloggi en athugasemd, og þá með mannfjölda Bahamra og Licthensteina.

Kv.

Sigurður Hreiðar, 28.8.2008 kl. 15:31

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú jú, við erum feðgar og ég skal reyna að svara þessu eitthvað í næsta bloggi.

Sæmundur Bjarnason, 28.8.2008 kl. 17:11

7 identicon

Í Liechtenstein búa þrjátíu og fimm þúsund manns. Þeir hafa unnið níu medalíur, tvö gull, tvö silfur og fimm brons. Um þrjú hundruð og þrjátíu þúsund búa á Bahama eyjum. Þeir hafa unnið tíu stykki, þrjú gull, þrjú silfur og fjögur brons. Ég fann líka tvær eða þrjár aðrar þjóðir undir hálfri milljón íbúa með gull medalíur, Lúxemborg, Súrinam og mig minnir eitthvað þriðja land.

Við erum þrjú hundruð og sextán þúsund og með fjórar medalíur, tvö silfur og tvö brons. Sem er alveg ágætt, en að bæta einu silfri við er kannski ekki alveg mesta afrek allra tíma fyrir smáþjóð. 

Gunnar Hrafn Jónsson 28.8.2008 kl. 17:32

8 identicon

Það er sko full ástæða til að missa sig! Alveg frábært afrek hjá strákunum. 300.000 og nítjánþúsundum betur gegn hverju 65 milljónum??? Nú mátti sko missa sig:)
EN hins vegar má RUV skammast sín því svo sannarlega misstu Frakkar sig ekki og sýndu ekki einu sinni leik sinn á móti Króatíu og alls ekki leik ÍSlands og Spánar. AMK gátu starfsmenn sportstöðva í miðborg Parísar ekki bjargað okkur íslendingum um þessa útsendingu og ekki var RUV í lagi. Bilun í kerfinu hjá þeim þegar Ísland Spánn stóð yfir og Holiday Inn ekki með á nótunum.

Ásta 28.8.2008 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband