423. - Bloggað um blogg. Enn heldur sýndarviðtalið áfram. Ég get ekki stoppað

Svei mér þá. Viðtalsformið er svo skemmtilegt að ég held að ég haldi bara áfram. 

BMB: Blaðamaður Moggabloggstíðinda.

SB: Ég sjálfur.

Nota Bene. Þetta er ímyndað viðtal (en kannski ekkert verra fyrir það)

BMB: Nú eru fleiri bloggveitur á landinu en moggabloggið. Hvað gerir það svona sérstakt?

SB: Það er svo margt. Fyrir það fyrsta elska allir að hata það. Aðrir bloggarar telja það lágmenningu hina verstu og vilja helst ekkert af því vita. Það er svo einfalt og auðvelt að blogga hér að það hálfa væri nóg eins og stundum er sagt.

BMB: Bloggarar eru oft sagðir ansi dómgjarnir. Hvað viltu segja um það.

SB: Ég held að moggabloggarar séu ekkert verri en aðrir hvað það snertir. Sumir bloggarar eru oft á tíðum tilbúnir að dæma um flóknustu mál og byggja vitneskju sína stundum á örstuttum fréttafrásögnum. Þessi dómgirni finnst mér oft galli á annars góðum bloggum. En blogg eru líka oft mjög fræðandi. Sem dæmi um hve heppinn ég er í þessum efnum get ég nefnt að ég er nýbúinn að uppgötva hve fræðandi margt er á Orkublogginu sem Ketill Sigurjónsson hefur haldið úti alllengi en nú tilkynnir hann að hann ætli að hætta. Að minnsta kosti í bili.

BMB: Mér skilst að moggabloggarar séu nokkuð margir.

SB: Já þeir eru eflaust margir og eftir því sem er að sjá á moggablogginu sjálfu er þeim alltaf að fjölga. Þeir geta þó ekki allir verið mjög virkir. Eftir tölum að dæma sem kommnar eru frá stjórnendum moggabloggsins virðist þurfa að fá 400 til 500 innlit á viku til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggarana á moggablogginu. Það er alveg heilmikið og ég held að þessi tala hafi lengi verið svipuð. Ég man eftir að áður en ég var dubbaður upp í að vera forsíðubloggari var ég ekkert öruggur um að vera á þessum lista.

BMB: En er ekki nokkuð einfalt að gera bara eins og stjórnendur moggabloggsins?

SB: Það hefur verið reynt en gengið illa. Eyjan.is reyndi að lokka til sín alla bestu bloggarana héðan og visir.is reynir að ég held að líkja eftir þessari bloggveitu. Samt virðist moggabloggið halda sínu striki. Sjálft orðið moggabloggari er að öðlast sérstaka merkingu i tungunni.

BMB: Nú er grunnþjónusta moggabloggsins alveg ókeypis. Heldurðu að það hafi áhrif?

SB: Örugglega. Vegna þess að Mogginn bauð uppá ókeypis blogg og góða þjónustu á því sviði á réttum tíma náði bloggið þeirra svona mikilli útbreiðslu öðrum og reyndari bloggurum á landinu til sárrar gremju. Mbl.is hafði lengi verið vinsælasti Netmiðillinn og með því að auglýsa upp moggabloggið og leggja áherslu á að sem flestir blogguðu þar voru vinsældir mbl.is tryggðar eitthvað til frambúðar og þar af leiðandi hægt að selja auglýsingar.

BMB: Mbl.is er oft gagnrýnt. Jafnvel af moggabloggurum sjálfum.

SB: Sem er engin furða. Fréttir þar eru stundum illa skrifaðar. Það er engu líkara en þetta sé notað sem einhvers konar æfingavöllur fyrir tilvonandi blaðamenn. Það þyrfti að laga.

BMB: Ég skal skila því til ritstjórans. Má ég bera þig fyrir því?

SB: Já, já. En nú held ég að þetta viðtal geti ekki orðið lengra. Þetta eru orðin heil þrjú blogg.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég rétt vona að bloggið flokkist undir lágmenningu.

hámenning er fyrir þá sem eru hátt uppi, í fílabeinsturni. lágmenningin er fyrir okkur hin, sem stöndum á jörðinni.

Brjánn Guðjónsson, 19.8.2008 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband