414. - Að vinda bráðan bug að bloggi á bloggið mitt

Nú vind ég að því bráðan bug
að láta mér eitthvað detta í hug.

Þetta gæti næstum því verið upphaf á vísu. Það var Ólafur Skorrdal sem ráðlagði mér að nota shift/enter (minnir mig) þegar ég vil setja vísur almennilega upp. Sjáum til hvernig það dugar. Ég held að þetta snúist allt um line-feed og carriage return svo maður sletti svolítið ensku fyrst maður kann hana.

Hvað á að gera við alla þessa bloggvini? Sumir safna þeim og vilja hafa þá sem flesta. Sumir eru á móti þeim og vilja ekki sjá þá nema þeir séu almennilegir. Sumir kunna ekki að sækjast eftir þeim (segja þeir). Þetta með að senda póst í gegnum bloggið til bloggvina sinna (eins í einu eða allra í senn) er ágætur fídus þó mér sé til efs að hann verði mikið notaður. (til hvers er tölvupóstur?)

Já, þetta með bloggvinina er alvarlegt mál. Ég er alltaf dálítið hræddur við að fikta mikið í stjórnborðinu. Held að þá geti öll mín blogg fokið út í veður og vind. Þó veit ég að svo er ekki og að moggabloggsguðirnir mundu hjálpa mér ef ég gerði einhverja fáránlega vitleysu. Einu sinni fannst mér að ég þyrfti helst alltaf að lesa það sem bloggvinir mínir skrifuðu. Mér finnst það ekki lengur. Þeir eru orðnir svo margir og skrifa svo mikið. Sumir eru að vísu nánast hættir að blogga en gætu hvenær sem er byrjað aftur. Svo eru til önnur blogg og jafnvel er bloggað utan moggabloggsins. Svei mér þá.

Sumir líta á bloggvinina sem eins konar arfa eða illgresi sem sprettur upp af bloggmoldinni og að þá þurfi að grisja öðru hvoru. Ég hef tvisvar lent í því að vera hent út af bloggvinalista og varð hálffúll við í bæði skiptin. Aðeins einu sinni hefur beiðni frá mér um bloggvináttu ekki verið ansað. Hef sjálfur aldrei hent neinum út og alltaf sagt já við beiðnum annarra.

Nú eru Ólympíuleikarnir byrjaðir með látum. Mér finnst skrýtin fullyrðingin um að þetta séu afskaplega pólitískir Ólympíuleikar. Hvernig er hægt að sjá það svona fyrirfram? Eru Ólympíuleikar ekki alltaf pólítískir hjá þeim sem vilja hafa þá það? Og mega þeir ekki jafnvel vera pólitískir? Þeir sem hafa viljað nota þetta tækifæri til að vekja athygli á mannréttindabrotum kínverskra stjórnvalda hafa svo sannarlega gert það. Snýst þetta ekki allt um auglýsingamennsku og að komast að í fjölmiðlum?

08.08.08 er merkileg dagsetning. Benni og Jóhanna fóru til Parísar í morgun og verða þar fram á þriðjudag.

Og fáeinar myndir úr því ég á þær til:

Picture 029Mold og sandur rétt hjá Minni-Borg í Grímsnesi.

Picture 060Þetta er frá Sólheimum.

Picture 151Snúrustaurar á Stokkseyri.

Picture 185Fiðrildi á glugga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Má ég spyrja hvernig myndavél þú ert með. Ég er mjög hrifinn af fiðrildamyndinni.

Hrannar Baldursson, 10.8.2008 kl. 00:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Canon powershot sx100. 8m pixlar 10x optical zoom.

Þjóðarsál: Takk fyrir góðar vísur.

Sæmundur Bjarnason, 11.8.2008 kl. 00:36

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í sambandi við bloggvini þá má velta því fyrir sér hvort hægt sé að koma upp einhliða bloggvináttu svona til hliðar við gagnkvæma bloggvináttu. T.d. ef margir vilja lesa þitt blogg án þess að þú þurfir alltaf að fylgjast með færslum hinna.

Af einhverjum ástæðum hef ég lesið flestar þínar færslur þótt við séum ekki tengdir.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.8.2008 kl. 13:04

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Emil ég hef einmitt oft velt þessu fyrir mér. Ég vil endilega geta fylgst með sumum bloggvinum mínum og jafnvel ýmsum öðrum án þess að þeir viti nokkuð af því. Þetta má kalla einhliða bloggvini eða eitthvað annað. Venjulegt favorits kemur ekki að gagn því þetta þyrfti að vera á moggablogginu og auk þess hægt að sjá í fljótu bragði hvort eitthvað er nýtt. Það er enginn vafi að þetta er hægt. Prófaðu að skrifa um þetta t.d. á kerfi.blog.is Google reader er líklega hægt að nota en fljótlegra er að hafa þetta einfaldlega á moggabloggsstjórnborðinu.

Sæmundur Bjarnason, 11.8.2008 kl. 13:28

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég skal senda þeim línu, fæ kannski að vitna í svarið þitt.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.8.2008 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband