412. - Guðni Ágústsson sýnir sinn innri mann

Leiðinlegt með Guðna Ágústsson. Hann opinberaði svo sannarlega sinn innri mann í þættinum hjá Sverri Stormsker. Sverrir var eiginlega í vandræðum með hann allan tímann en tókst nokkrum sinnum að lempa hann smávegis. Svona skapvonska og yfirgangur tíðkast ekki hjá pólitíkusum sem vilja láta taka sig alvarlega.

Bráðum verður lag til að losna við hann úr formannsstóli og frú Valgerður og Björn Ingi hugsa honum áreiðanlega þegjandi þörfina bæði fyrir framkomuna og eins fyrir stefnuna sem hann er að reyna að stýra flokknum inná. Fyrst hann þorði ekki að leggja til atlögu þegar Halldór fór frá á hann ekki skilið að stýra flokknum enda er allt í rúst hjá honum.

En nóg um þessa pólitík. Það er heldur óskemmtileg tík. Pólitískar vangaveltur eru næstum því eins leiðinlegar og umferðasögur. Þegar fólk kemur saman eru umferðasögur alveg á pari við veðrið. Allir hafa eitthvað til málanna að leggja og allir eru svo svakalega góðir og tillitssamir í umferðinni en hafa alltaf lent í kasti við einhverja fávita þar. Hvar ætli þeir séu eiginlega?

Allir virðast líka geta fimbulfambað endalaust um veðrið án þess að segja nokkuð en þurfa þó ekki að úthúða neinum. Ekki einu sinni ríkisstjórninni.

Verslunarmannahelgin er liðin og sumri tekið að halla. Ættarmót og allskyns uppákomur taka nú við. Um næstu helgi verð ég líklega á ættar- eða fjölskyldumótum beggja megin.

Don Hrannar líkir blogginu við stjórnarandstöðu. Ekki svo vitlaust. Sennilega eru stjórnmálamenn sumir farnir að óttast bloggara meira en samþingmenn sína enda mun hættulegri. Guðni óttast samt Stormskerið allra mest.

Og í lokin fáeinar myndir:

IMG 2008Þetta er reyndar ekki pappi en pappi á að fara þangað.

IMG 2142Þessi blómabreiða er við Gerðuberg í Breiðholtinu.

IMG 2185Já þetta er Esjan. Ógnarlegt fjall.

IMG 2199Þessi er dálítið „Arty Farty" eins og sagt er. Annars er þetta nú eiginlega sólseturs eða sólaruppkomumynd (man ekki hvort) þó ég hafi lofað að hafa þær ekki fleiri.IMG 2215

Gangstéttarnar í Kópavogi eru fyrir bíla eins og allir vita.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég fimbulfamba alveg endalaust um veðrið og það mesta er eftir! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.8.2008 kl. 00:56

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Svona skapvonska og yfirgangur tíðkast ekki hjá pólitíkusum sem vilja láta taka sig alvarlega".

ER þér virkilega alvara? Þessi þáttur var bæði Sverri og Útvarpi Sögu til háðungar vegna dónaskapar og bulli þáttastjórnandans. Og ég er EKKI framsóknarmaður!

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.8.2008 kl. 17:41

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, mér er alvara með það að framkoma Guðna var ekki sæmandi pólitíkusi. Ég var ekkert sérstaklega að mæla Sverri eða Útvarpi Sögu bót, en meiri kröfur þarf að gera til flokksformanna í pólitík en að þeir hagi sér svona.

Sæmundur Bjarnason, 7.8.2008 kl. 20:20

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég fer að draga fram myndavélina og kíkja út úr húsi einhvern daginn. Ísland lítur ansi vel út gegnum linsuna þína. Og takk fyrir að minnast á pælingar mínar. Mér þykir vænt um það. Bestu kveðjur.

Hrannar Baldursson, 7.8.2008 kl. 23:01

5 identicon

Mér fannst aðal mistökin hjá Guðna felast í því að mæta yfirhöfuð í þennan þátt.  Hann hefði mátt vita fyrirfram hvers konar lágkúru hann myndi mæta hjá þáttastjórnandanum.  Pólitíkus sem vill láta taka sig alvarlega mætir ekki í þátt sem er á svona lágkúrulegu plani eins og þessi þáttur hans Sverris er.

Tek það líka fram að ég er ekki framsóknarmanneskja.

Malína 7.8.2008 kl. 23:38

6 identicon

Guðni sýndi fádæma hroka og leiðindi í þættinum og ég mun aldrei kjósa hann og hans flokk aftur. Hann svaraði engum spurningum, hvorki um Írakstríðið, kvótakerfið eða landbúnaðarmálin eða bara neitt.  Allt bara einhverjir frasar sem ég er orðin mjög þreytt á og svo þessi yfirgangur og hroki. Mér finnst Sverrir vera með lang besta og skemmtilegasta þáttinn í útvarpinu í dag. Hann þorir að segja það sem fólk þorir ekki einu sinni að hugsa og gerir það á fyndin hátt. Fólk sem hefur ekki húmor á ekki að hlusta á Sverri heldur bara dánarfregnir og jarðarfarir eða eitthvað svoleiðis.

Vala 8.8.2008 kl. 16:28

7 identicon

Mætti ég frekar biðja um dánarfregnir og jarðarfarir heldur en Sverri Stormsker! .  Og mér er nokk sama þótt ég verði þar með kölluð húmorslaus...

Malína 8.8.2008 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband