402. - Þjónar, stöðumælar og fleira fólk

Einu sinni hélt ég að sagan um þjóninn með þumalputtann á kafi í súpunni væri bara ómerkilegur brandari á borð við allar flugnasögurnar. Svo upplifði ég þetta í raunveruleikanum. Þjónn á matsölustað hér í Reykjavík kom með súpuna til mín og var með þumalputtann á kafi í súpunni. Og auminginn ég sagði ekki múkk. En ég hef ekki borðað þarna aftur.

Nú ættu skrif að vera farin að safnast svolítið upp hjá mér. Slapp vel frá blogginu um daginn (400. blogg). Hef samt heldur lítið skrifað. Að vísu á ég einhverjar fyrningar aftarlega í Word-skjalinu sem ég nota yfirleitt fyrir bloggið. Þær eru þó flestar svo eldgamlar að þær eru ekki boðlegar.

Ég hef verið spurður að því hvers vegna í ósköpunum ég setji ekki myndir með blogginu mínu nema stundum. Nei annars. Ég hef ekkert verið spurður að því en langar bara að segja ykkur það og það hefði alveg mátt spyrja mig.

Ég blogga heldur ekki alla daga. Stundum fellur bloggið niður hjá mér þó ég hafi svosem alltaf nóg að segja. Segi ég og skrifa. Stundum hef ég einfaldlega ekki nóg af frambærilegum myndum. Mér þykir samt gaman að taka myndir og tek töluvert af þeim á nýju myndavélina mína.

Ég birti myndirnar alltaf eins og þær koma af kúnni. Það er að segja myndavélinni. Þær eru alltaf nákvæmlega eins og þær koma í vélina mína. Ég minnka þær reyndar því ég er með svo stóran kubb í vélinni að ég þarf ekki að spara pláss þar. En ég spara pláss á Moggablogginu með því að minnka þær. Það getur vel verið að einhvern tíma verði ég svo flinkur og fær að ég fari að fikta í myndunum mínum. Býst samt við að ég láti þess getið.

Ég hef nokkrum sinnum fengið hrós fyrir myndirnar. Það finnst mér skrítið. Mér finnst lítill vandi að taka þær. Mun meiri vandi að skrifa þetta hér. Myndirnar eru ósköp venjulegar finnst mér. Bara af því sem mætir flestum alla daga. Mismunandi góðar samt. Ég hendi auðvitað þeim myndum sem mistakast alveg og tek yfirleitt mun fleiri myndir en birtast á blogginu.

Einu sinni fyrir langalöngu var ég á gangi á Laugaveginum. Eitthvað varð mér starsýnt á tvær fallegar stelpur sem voru þar einnig á gangi nánast á eftir mér. Veit ég þá ekki til fyrri til en ég geng á stöðumæli svo harkalega að hann rekst af afli á mig og ég gríp andann á lofti og heykist saman. Ef ég hefði verið að skrifa í ýkjustíl hefði ég sagt að stöðumælirinn hefði ráðist á mig. Stúlkugreyin sem ég var að horfa á reyndu af alefli að halda niðri í sér hlátrinum. Sem betur fer þekkti ég þær ekkert og flýtti mér í burtu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Blogg þitt er eitt af fáum sem ég les mjög reglulega -- meira að segja eins og núna þegr þér liggur akkúrat ekkert á hjarta. Þú hefur lag á að koma jafnvel því ágætlega læsilega frá þér.

En mér líkar ekki þessi blái grunnur sem þú notar núna. Mér finnst lesmál eiga að vera svart á hvítu. -- Er það ekki bara ellefta boðorðið?

Góð kveðja.

Sigurður Hreiðar, 28.7.2008 kl. 09:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir hrósið Sigurður. Ég kann vel að meta það. Þetta með bláa grunninn skil ég bara ekki. Við "öthugum" það kannski betur við tækifæri.

Sæmundur Bjarnason, 28.7.2008 kl. 13:09

3 identicon

Á salatbarnum á veitingastað KHB á Egilsstöðum eru smá áhöld, sem þýðir að óhjákvæmilega fer fólk með misjafnlega hreinar/skítugar hendurnar í salatið. Ég benti forsvarsmanni á þetta fyrir nokkrum árum, það lagaðist um tíma en er eins aftur.

Hulda Elma Guðmundsdóttir 28.7.2008 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband