394. - Meira nöldur

Sumir töldu nöldurfærsluna hjá mér í gær vera tómt nöldur. Rétt er það en auðvitað er hægt að nöldra um margt annað. Hér eru smá sýnishorn.

Mikið hefur verið óskapast að undanförnu yfir tapinu hjá FJ-Group. Já, ég segi FJ-Group því þannig er það skrifað þó sumir segi reyndar FL-Group. Eiginlega er bara um íslensku útrásina í hnotskurn að ræða þarna. Reynt var að láta líta svo út sem um væri að ræða keppni milli manna um hver væri snjallastur, djarfastur og útsjónarsamastur. Fjölmiðlamenn létu blekkjast unnvörpum og skrifuðu lofgreinar um þessi ósköp hægri vinstri. Í rauninni var þetta auðvitað keppni um það hver væri vitlausastur. Í lokin var það svo Hannes Smárason sem varð Svarti Pétur en hinir eru að hamast við að safna spilunum saman og langar mest að spila aftur. Hvort við leyfum þeim það eða ekki á eftir að koma í ljós.

Sumir tölvuvírusar skammast sín ekkert fyrir að vera til. Segja til nafns síns hvað þá annað og þykjast vera eitthvað. Einn slíkan fékk ég um daginn. Hann heitir Seekmo og það virðist vera erfitt að losna við hann. Hann setti upp einhverja andskotans valstiku án þess að vera beðinn um það. Sumir ganga svo langt að kalla Yahoo einn risavaxinn vírus og þessvegna jafnvel Microsoft líka. Það finnst mér of langt gengið. Það er alveg hugsanlegt að einhverjir álíti þetta Seekmo bara vera lítið, saklaust og jafnvel dálítið sniðugt forrit en mér er alveg sama. Þau forrit sem ryðjast inn á mann og gefa lítil eða engin tækifæri, til að taka ekki á móti sér, eru vírusar í mínum augum.

"Já, en það er eitt sem ég skil ekki. Af hverju giftistu henni?" Þessi ljóðlína, ef ljóðlínu skyldi kalla, úr Botníukvæðinu ódauðlega er eitt það snjallasta sem Ómar Ragnarsson hefur samið. Úps,  þetta er eiginlega ekki neitt nöldur. Ég verð að vanda mig meira.

Bloggin hjá Sigurði Þór eru alltaf að styttast. Og svo nöldrar hann yfir því að vísdómsorð sín falli í grýttan jarðveg. Þau eru bara svo fá, Siggi minn.

Ég segi það satt ég nenni ekki að vera að nöldra yfir pólitíkinni. Alþingismenn  hafa sérgáfu í því að þenja lítilfjörleg nöldursefni yfir margar blaðsíður. Óhugsandi er að einhverjir nenni að lesa langhunda þeirra. Af hverju í ósköpunum eru þeir þá að þessu? Sennilega er nöldrið orðið að einhvers konar kæk hjá þeim. Vonandi verður ekki svo hjá mér. Líklega bara best að hætta núna þó mig vanti eiginlega eins og eitt stutt nöldur til viðbótar.

Og ekki má vanta myndirnar. Nokkrar hér. Samtíningur og sitthvað.

IMG 1908Þessi bekkur er merktur. Hverjum veit ég ekki.

IMG 1912Þetta er trébrú yfir Elliðaárnar og sjá má að Áslaug er að hvíla sig eftir erfiðar myndatökur.

IMG 1916Þessi foss er í Elliðaánum. Kannski heitir hann Kermóafoss. Í baksýn má sjá bílaumferð á Höfðabakkanum ef vel er að gáð.

IMG 1934Og svona líta Elliðaárnar út séð af brúnni góðu. Sennilega er þetta turninn á Borgarspítalanum sem gnæfir þarna við endann á ánni.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

gott fjas

fjas er til framdráttar

Brjánn Guðjónsson, 20.7.2008 kl. 04:50

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En vísdómurinn í þessum fáu orðum er ekkert smárræði!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.7.2008 kl. 08:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband